Skip to main content

Að sverjast í fóstbræðralag. Fyrirlestur á opnu húsi næstkomandi laugardag (16.09.23).

Eftir september 11, 2023Fréttir
Næstkomandi laugardag mun þjóðfræðingurinn Kári Pálsson halda glæsilegan fyrirlestur í samkomusalnum okkar í hofi Ásatrúarfélagsins.
Viðburðurinn “opið hús” verður á sínum stað frá kl 14-16 og mun fyrirlesturinn hefjast fljótlega eftir að húsið opnar. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. Það er takmarkað sætaval og því best að mæta tímanlega.
Um fyrirlesturinn:
Að sverjast í fóstbræðralag
Ítarlegustu og lengstu lýsingu á því þegar menn sverjast í fóstbræðralag má finna í Gísla sögu Súrssonar. Sagan lýsir atburði sem átti að gerast á 10. öld, en er líklega skráð á 13 öld.
Leiða má að því líkum að lýsing fóstbræðralagsins í Gísla sögu sé að minnsta kosti heimild um hvernig Íslendingar á 13. öld hafi skilið athöfnina, sem vekur spurningar um hvort helgisiðirnir sem lýst er í sögunni séu tilbúningur sagnaritara og/eða hvort sagan varðveiti fornt minni um myndun fóstbræðralags.
Í þessum fyrirlestri verður athöfnin athuguð út frá textafræðilegum samanburði við aðrar forníslenskar og skandinavískar heimildir. Einnig verða lagatextar og þjóðfræðilegar hefðir skoðaðar, sem geta varpað ljósi á áreiðanleika sögunnar, bakgrunn og tilgang fóstbræðralaga.
Kári Pálsson lauk Ba gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 2018 þar sem hann rannsakaði íslenska hlautbolla og blótsteina frá þjoðfræðilegri nálgun.
Í febrúar á þessu ári útskrifaðist hann með meistaragráðu í Norrænni trú frá sama háskóla þar sem hann rannsakaði heiðin minni í Gísla sögu Súrssonar undir handleiðslu Terry Gunnell, prófessors í þjóðfræði.