Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Æsir

Baldur

Sonur Óðins og Friggjar er sagður bestur og allir lofa hann. Svo fagur er hann álitum og bjartur að lýsir af, vitrastur er hann ásanna og fegurst talaður og líknsamastur. Bústaður hans heitir Breiðablik sem er á himnum. Kona Baldurs heitir Nanna og eiga þau son er heitir Forseti. Baldur er eigandi skipsins Hringhorna. Eftir ragnarök mun Baldur koma ásamt bróður sínum Heði frá Helju og byggja upp nýjan heim.
 

Bragi

Skáldskaparguðinn. Hann er ágætur að speki og mestur að málsnilld og orðfimi. Hann kann mest af skáldskap og af honum er bragur kallaður skáldskapur. Kona hans er Iðunn.
 

Forseti

Goð sátta og réttlátra dóma. Forseti er sonur Baldurs og Nönnu. Bústaður hans heitir Glitnir.
 

Freyr

Sonur Njarðar og talin mestur goða af ætt vana og mikilvægasta frjósemisgoð hinnar norrænu goðafræði. Hann ræður fyrir regni og skini sólar og þar með gróðri jarðar. Á hann er gott að heita til árs, friðar og fésælu. Hann leggur ofurást á Gerði sem er jötunmey og fær hana að lokum. Skírnismál fjalla um þann atburð. Freyr á skipið Skíðblaðni og gölturinn Gullinbursti dregur vagn hans. Bústaður hans er Álfheimur sem honum var gefinn í tannfé.
 

Heimdallur

Telst vera ásaættar og faðir alls mannkyns. Hann er kallaður hinn hvíti ás. Hann er mikill og helgur. Mæður hans eru meyjar níu og allar systur af jötnaættum. Hann er vörður goðanna og himinbrúarinnar Bifrastar og blæs í lúður sinn Gjallarhorn í upphafi ragnaraka til að aðvara goðin. Heimdallur þarf minni svefn en fugl. Hann sér jafn nótt sem dag, heyrir gras vaxa á jörðu, ull á sauðum og allt það sem hærra lætur. Hestur hans heitir Gulltoppur en bústaður hans Himinbjörg er við Bifröst.
 

Hænir

Óðinn, Hænir og Lóður eru goðaþrenning í sköpunarsögu mannsins og Hænir er sá er gefur manninum óð (sál), Lóður lá og litu góða og Óðinn önd (lífsandann). Hænir var látinn sem gísl til vana og gerðu þeir hann að höfðingja sínum.
 

Höður

Hinn blindi ás Höður er sonur Óðins og þar með bróðir Baldurs, sem hann verður að bana með því að kasta að honum mistilteini að undirlagi Loka.
 

Loki Laufeyjarson

Að hálfu ás en að hálfu jötunn. Faðir hans er jötuninn Fárbauti en móðir hans heitir Laufey. Bræður hans eru Býleistur og Helblindi. Með konu sinni Sigyn gat hann Narfa. Með gýginni Angurboðu átti Loki þrjú afkvæmi, Fenrisúlf, Miðgarðsorm og Hel og í merarlíki ól hann Sleipni, son graðhestsins Svaðilfara.Loki er talin vera margbrotnasta og jafnframt neikvæðasta goðið í ásatrú. Loki er sagður fríður og fagur sýnum, illur í skaplyndi og mjög fjölbreytinn í háttum. Hann hefur þá eiginleika umfram aðra menn er slægð heitir og vélar til allra hluta.
 

Lóður

Óðinn, Hænir og Lóður eru goðaþrenning í sköpunarsögu mannsins og Hænir er sá er gefur manninum óð (sál), Lóður lá og litu góða og Óðinn önd (lífsandann). Svo segir í Völuspá.
 

Njörður

Er af vanaætt, faðir Freys og Freyju. Njörður býr út við sjó í Nóatúnum og er kvæntur jötunmeynni Skaða. Njörður ræður fyrir göngu vinds og stillir sjá og eld. Á hann skal heita til sæfara og til veiða. Hann er svo auðugur og fésæll að hann má gefa þeim auð landa eða lausafjár er á hann heita til þess. Hann kom til ása sem gísl í skiptum fyrir Hæni eftir vanastríðið.

 

Óðinn

Svo heitir æðsta og elsta goð norrænnar goðafræði eins og hún birtist í Eddunum og er Óðinn margræðari en nokkurt hinna goðanna. Hann er faðir annarra goða og er því kallaður
Alföður. Hann er skáldskapargoð, dauðragoð og hernaðargoð, og auk þess er hann goð töfra, galdra, rúnastafa og algleymis. Hin fjölmörgu nöfn hans i goðafræðinni sýna einnig hversu margræður hann er. Óðinn og bræður hans, Vilji og Véi, eru hin fyrstu goð. Þeir eru synir Bors og tröllkonunnar Bestlu. Óðinn er kvæntur Frigg og synir hans eru Baldur (með Frigg), Þór (með Jörð) og Váli (með Rindi). Þessi ættartengsl koma fram þegar í dróttkvæðum, en Snorri Sturluson segir auk þess Heimdall, Tý, Braga, Víðar og Höð vera syni Óðins. Bústaður Óðins heitir Ásgarður og hásæti hans Hliðskjálf og úr því sá hann um alla heima og hvers manns athæfi. Einkennisgripir hans eru hringurinn Draupnir, atgeirinn Gungnir, hrafnarnir tveir Huginn og Muninn og hinn áttfætti hestur Sleipnir. Þekkingu sína fékk Óðinn með því að drekka úr Mímisbrunni, en til þess þurfti hann að leggja annað auga sitt að veði.
 

Týr

Ekki eru til margar heimildir um Tý í goðafræðinni, en samkvæmt þeim er hann himin-, stríðs- og þinggoð. Hann fórnar hægri hendi sinni í gin Fernrisúlfs, til að fjötra megi hann og gera þannig Miðgarð að öruggari stað fyrir mannkynið.
 

Ullur

Er sagður sonur Sifjar og stjúpsonur Þórs. Hann er bogamaður svo góður og skíðafær að enginn má við hann keppast. Hann er fagur álitum og hefur hermannlegt atgervi. Á hann er gott að heita í einvígi.
 

Váli

Sá er hefndi Baldurs. Sonur Óðins og Rindar.
 

Víðar

Svo heitir hinn þögli ás. Hann er næstur Þór að afli. Af honum hafa goðin mikið traust í allar þrautir. Afrekaði það að bana Fenrisúlfinum til hefnda fyrir Óðinn.
 

Vili og Véi

Einnig ritað Vilji og Vé, en þeir ásamt bróður sínum Óðni gáfu mannkyni líf samkvæmt Snorra Sturlusyni í Gylfaginningu. Samkvæmt Völuspá voru það Óðinn, Hænir og Lóður.
 

Þór

Þrumugoðið, sterkastur allra ása, verndari þeirra og manna. Hann er talinn stór vexti, sterklegur, rauðskeggjaður með stingandi augnaráð. Þór er sonur Óðins og Jarðar, kona hans er Sif og börn þeirra eru Móði, Magni og Þrúður. Bústaður Þórs er Þrúðvangur (eða Þrúðheimur) og höll hans heitir Bilskirnir. Vagn á Þór einn mikinn sem dreginn er af tveimur höfrum sem heita Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Einkennisgripir Þórs eru megingjarðir hans, járnglófar og stafurinn Gríðarvölur sem hann fékk hjá gýginni Gríði. Merkasti einkennisgripur Þórs er hamarinn Mjölnir sem er máttugasta vopn hans í baráttunni við jötna. Mjölnir eða Þórshamarinn er nú eitt helsta tákn heiðinna manna.