Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Af hofum

(Birtist í Vorum Sið 2. og 4. tbl. 2006).

Öðru hvoru leita ég í smiðju fjölfræðingsins Árna Óla og hefur bók hans um Dulheima Íslands verið mér innblástur frá unglingsárum. Á einum stað í þeirri bók segir svo: „Þegar til Íslands kom, reistu ýmsir höfðingjar þegar hof á nýja bústaðnum, og er í Landnámu sagt frá 11 hofbyggingum víðs vegar um landið.“

Ég hef á síðkvöldum dundað mér við að finna þessar tilvísanir í Landnámu og eflaust farið fram úr sjálfum mér því mér sýnast þær orðnar aðeins fleiri en 11 . Hér á eftir fer fyrri hluti valdinna tilvitnana í Landnámabók, síðari hlutinn kemur í næsta fréttabréfi.

 

Landnáma 11. kafli:

Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi.

 

Landnáma 21. kafli:

Úlfur, son Gríms hins háleyska og Svanlaugar, dóttur Þormóðar af Akranesi, systur Bersa, hann nam land milli Hvítár og suðurjökla og bjó í Geitlandi. Hans synir voru þeir Hrólfur hinn auðgi, faðir Halldóru, er átti Gissur hvíti, þeirra dóttir Vilborg, er átti Hjalti Skeggjason. Annar son hans var Hróaldur, faðir Hrólfs hins yngra, er átti Þuríði Valþjófsdóttur, Örlygssonar hins gamla; þeirra börn voru þau Kjallakur að Lundi í Syðradal, faðir Kolls, föður Bergþórs. Annar var Sölvi í Geitlandi, faðir Þórðar í Reykjaholti, föður Sölva, föður Þórðar, föður Magnúss, föður Þórðar, föður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þriðji son Hrólfs var Illugi hinn rauði, er fyrst bjó í Hraunsási; hann átti þá Sigríði, dóttur Þórarins hins illa, systur Músa-Bölverks. Þann bústað gaf Illugi Bölverki, en Illugi fór þá að búa á Hofstöðum í Reykjadal, því að Geitlendingar áttu að halda upp hofi því að helmingi við Tungu-Odd. Síðarst bjó Illugi að Hólmi innra á Akranesi, því að hann keypti við Hólm-Starra bæði löndum og konum og fé öllu. Þá fékk Illugi Jórunnar, dóttur Þormóðar Þjóstarssonar af Álftanesi, en Sigríður hengdi sig í hofinu, því að hún vildi eigi mannakaupið.


Landnáma 33. kafli:

Þórólfur son Örnólfs fiskreka bjó í Mostur; því var hann kallaður Mostrarskegg; hann var blótmaður mikill og trúði á Þór. Hann fór fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra til Íslands og sigldi fyrir sunnan land. En er hann kom vestur fyrir Breiðafjörð, þá skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum; þar var skorinn á Þór. Hann mælti svo fyrir, að Þór skyldi þar á land koma, sem hann vildi, að Þórólfur byggði; hét hann því að helga Þór allt landnám sitt og kenna við hann.
Þórólfur sigldi inn á fjörðinn og gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð. Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum firðinum; þar fann hann Þór rekinn í nesi einu; það heitir nú Þórsnes. Þeir lendu þar inn frá í voginn, er Þórólfur kallaði Hofsvog; þar reisti hann bæ sinn og gerði þar hof mikið og helgaði Þór; þar heita nú Hofstaðir. Fjörðurinn var þá byggður lítt eða ekki.

 

Landnáma 56. kafli:

Heiður völva spáði Ingimundi gamla að hann myndi byggja á því landi, er þá var ófundið vestur í haf. Völvan „sagði það til jartegna, að þá mundi horfinn hlutur úr pússi hans og mundi þá finnast, er hann græfi fyrir öndvegissúlum sínum á landinu.
Ingimundur nam Vatnsdal allan upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan. Hann bjó að Hofi og fann hlut sinn,þá er hann gróf fyrir öndvegissúlum sínum.
 

Landnáma 60. kafli:

Eilífur örn hét maður, son Atla Skíðasonar hins gamla, Bárðarsonar í Ál. Son Eilífs arnar var Koðrán að Giljá og Þjóðólfur goði að Hofi á Skagaströnd og Eysteinn, faðir Þorvalds tinteins og Þorsteins heiðmennings og Arnar í Fljótum. Eilífur nam land inn frá Mánaþúfu til Gönguskarðsár og Laxárdal og bjó þar.
 

Landnáma 61. kafli:

Eiríkur hét maður ágætur; hann fór af Noregi til Íslands; hann var son Hróalds Geirmundarsonar, Eiríkssonar örðigskeggja. Eiríkur nam land frá Gilá um Goðdali alla og ofan til Norðurár; hann bjó að Hofi í Goðdölum.


Landnáma 62. kafli:

Kollsveinn hinn rammi hét maður, er nam land á milli Þverár og Gljúfrár og bjó á Kollsveinsstöðum upp frá Þverá; hann hafði blót á Hofstöðum.


Landnáma 64. kafli:

Hjalti son Þórðar skálps kom til Íslands og nam Hjaltadal að ráði Kolbeins og bjó að Hofi; hans synir voru þeir Þorvaldur og Þórður, ágætir menn.


Landnáma 70. kafli:

Helgi hinn magri „gaf Hrólfi syni sínum öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhvoli upp, og hann bjó í Gnúpufelli og reisti þar hof mikið.

 

Landnáma 75. kafli:

Steinbjörn körtur hét son Refs hins rauða; hann fór til Íslands og kom í Vopnafjörð. Eyvindur föðurbróðir hans gaf honum land allt milli Vopnafjarðarár og Vestradalsár; hann bjó að Hofi.
 

Landnáma 76. kafli:

Þorsteinn torfi nam Hlíð alla utan frá Ósfjöllum og upp til Hvannár og bjó á Fossvelli. Hans son var Þorvaldur, faðir Þorgeirs, föður Hallgeirs, föður Hrapps á Fossvelli. Hákon hét maður, er nam Jökulsdal allan fyrir vestan Jökulsá og fyrir ofan Teigará og bjó á Hákonarstöðum. Hans dóttir var Þorbjörg, er áttu synir Brynjólfs hins gamla, Gunnbjörn og Hallgrímur.

Teigur lá ónuminn millum Þorsteins torfa og Hákonar; þann lögðu þeir til hofs, og heitir sá nú Hofsteigur.


Landnáma 80. kafli:

Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét öngu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi, og eru frá honum Stöðfirðingar komnir.


Landnáma 81. kafli:

„Böðvar hinn hvíti var son Þorleifs miðlungs, Böðvarssonar snæþrimu, Þorleifssonar hvalaskúfs, Ánssonar, Arnarsonar hyrnu konungs, Þórissonar konungs, Svína- Böðvarssonar, Kaunssonar konungs, Sölgasonar konungs, Hrólfssonar úr Bergi, og Brand Önundur frændi hans fóru af Vörs til Íslands og komu í Álftafjörð hinn syðra. Böðvar nam land inn frá Leiruvogi, dali þá alla, er þar liggja, og út öðrum megin til Múla og bjó að Hofi; hann reisti þar hof mikið.“


Landnáma 84. kafli:

„Auðun hinn rauði keypti land að Hrollaugi utan frá Hömrum og út öðrum megin til Viðborðs; hann bjó í Hofsfelli og reisti þar hof mikið; frá honum eru Hofsfellingar komnir.“


Landnáma 90. kafli:

Ketill hængur „nam öll lönd á milli Þjórsár og Markarfljóts; þar námu síðan margir göfgir menn með ráði Hængs. Ketill eignaði sér einkum land milli Rangár og Hróarslækjar, allt fyrir neðan Reyðarvatn, og bjó að Hofi.

Þá er Ketill hafði fært flest föng sín til Hofs, varð Ingunn léttari og fæddi þar Hrafn, er fyrst sagði lög upp á Íslandi; því heitir þar að Hrafntóftum.“

„Jörundur goði, son Hrafns hins heimska, byggði fyrir vestan Fljót, þar er nú heitir á Svertingsstöðum; hann reisti þar hof mikið. Bjór lá ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár og Jöldusteins; það land fór Jörundur eldi og lagði til hofs.“


Landnáma 99. kafli:

„Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar; hann átti Helgu, dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá; hann hafði skip það, er Elliði hét; hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði. Hann var hinn fyrsta vetur með Þórði skeggja, mági sínum.

Um vorið fór hann upp um heiði að leita sér landskosta. Þeir höfðu náttból og gerðu sér skála; þar heitir nú Skálabrekka. En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar (í) öxi sinni. Þeir áttu dvöl undir fjallsmúla þeim, er þeir nefndu Reyðarmúla; þar lágu þeim eftir áreyðar þær, er þeir tóku í ánni.

Ketilbjörn nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Byskupstungu upp til Stakksár og bjó að Mosfelli. Börn þeirra voru þau Teitur og Þormóður, Þorleifur, Ketill, Þorkatla, Oddleif, Þorgerður, Þuríður. Skæringur hét einn son Ketilbjarnar, laungetinn.

Ketilbjörn var svo auðigur að lausafé, að hann bauð sonum sínum að slá þvertré af silfri í hofið, það er þeir létu gera; þeir vildu það eigi. Þá ók hann silfrið upp á fjallið á tveimur yxnum og Haki þræll hans og Bót ambátt hans; þau fálu féið, svo að eigi finnst. Síðan drap hann Haka í Hakaskarði, en Bót í Bótarskarði.“
 

Lokaorð Landnámabókar í 102. kafla eru síðan þessi:

„Svo segja vitrir menn, að nokkurir landnámsmenn hafi skírðir verið, þeir er byggt hafa Ísland, flestir þeir, er komu vestan um haf. Er til þess nefndur Helgi magri og Örlygur hinn gamli, Helgi bjóla, Jörundur kristni, Auður djúpauðga, Ketill hinn fíflski og enn fleiri menn, er komu vestan um haf, og heldu þeir sumir vel kristni til dauðadags. En það gekk óvíða í ættir, því að synir þeirra sumra reistu hof og blótuðu, en land var alheiðið nær hundraði vetra.“

Vor siður 2. tbl og 4. tbl 2006

Hilmar Örn Hilmarsson