Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjargoðar

Sveinbjörn Beinteinsson

var einn af stofnendum Ásatrúarfélagsins og fyrsti allsherjargoði félagsins frá stofnun þess 1972 til dánardags 1993.

Hann fæddist í Grafardal norðan við Botnsheiði þann 4. júlí 1924, en var jafnan kenndur við Dragháls í sömu sveit, þar sem hann bjó lengst af.

Sveinbjörn var skáld gott, kvæða- og fræðimaður, og eftir hann liggja nokkrar ljóðabækur og kver, auk bókarinnar Bragfræði og háttatal, sem er undirstöðurit kvæðamanna. Hann var skógræktaráhugamaður og mikið náttúrubarn. Sveinbjörn var stoð og stytta Ásatrúarfélagsins á mótunarárum þess og allt til dánardags og varð heimsþekktur fyrir. Sveinbjörn lést þann 23.desember 1993.

 

Jörmundur Ingi Hansen

var allsherjargoði 1994–2002. Hann er fæddur 14. ágúst 1940 í Reykjavík. Hönnuður, myndlistarmaður og tungumálamaður.

Jörmundur Ingi er einn þeirra sem ruddu brautina við stofnun Ásatrúarfélagsins 1972. Hann hefur beitt sér af ósérhlífni fyrir ýmsum málum fyrir Ásatrúarfélagið og heiðinn sið.

Jörmundur á meðal annars stóran þátt í mótun blót- og helgisiða, vann að því að félagið fengi sinn eigin grafreit í Gufuneskirkjugarði og stuðlaði fast að því að félagið eignaðist samastað. Hann hefur verið talsmaður Ásatrúarmanna í Evrópu og víðar.

 

Jónína Kristín Berg

er Þórsnessgoði. Hún var settur allsherjargoði 2002–2003. Fædd 3. september 1962 á Akranesi.

Myndmenntakennari, lithimnufræðingur, aromaþerapisti og græðari. Fylgdist með Ásatrúarfélaginu frá stofnun þess sem Borgfirðingur og nágranni Sveinbjörns Beinteinssonar allsherjargoða. Kom inn í félagsstarf Ásatrúarfélagsins 1985 og hefur staðið fyrir blótshaldi árlega víðs vegar um Snæfellsnes og Borgarfjörð síðan 1994. 

Landshlutagoði fyrir Vesturland síðan 1996.
 

Hilmar Örn Hilmarsson

hefur gegnt embætti allsherjargoða síðan 2003. Fæddur í Reykjavík 23. apríl árið 1958. Tónlistarmaður og tónskáld.

Sextán ára gamall gekk hann í Ásatrúarfélagið og hefur verið ötull talsmaður hins forna siðar allar götur síðan. Hilmar hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um árabil og hefur á ferli sínum sem kvikmyndatónskáld hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín.

 
 

Eiðstafur goða


Nefni ég í það vætti, er ég vinn eið að þessum baugi,
að ég er til þess búin(n) að taka við goðorði
með öllum þeim skyldum og kvöðum er því fylgja.
Mun ég styrkja vorn sið, sætta mann og annan,
vanda mál mitt og styrkja menningu vora,
svo og náttúru landsins.
Halda lög og hefðir og siðu góða.
Virða landnámssáttmála áa vorra við móður jörð.
Halda frið við huldar verur allar,
landvættir, álfa, dísir, dverga og tröll.

Meðan eldur upp brennur,
jörð grær,
mælt barn móður kallar
og móðir mög fæðir,
aldir elda kynda,
skip skríður,
skildir blika,
sól skín,
snæ leggur,
Finnur skríður,
fura vex,
valur flýgur
vorlangan dag,
stendur honum byr beinn
undir báða vængi,
himinn hverfist,
heimur er byggður,
vindur þýtur,
vötn til sævar falla,
karlar korni sá.
Byggt á heimildum úr Staðarhólsbók, Jónsbók, og Grettis sögu.