Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2013

Allsherjarþing 2. nóvember 2013
Haldið í Síðumúla 15, klukkan 14.00. Mættir 38 félagsmenn.

Hilmar Örn setti þingið og stakk upp á Steinunni Þóru Árnadóttur sem fundarstjóra en Andreu Ævarsdóttur, Fljótamannagoða, sem ritara. Samþykkt.

Hilmar minntist látinna félaga. Hann fjallaði um athöfn sem haldin var í Síðumúla til að minnast Jóhannesar Ágústssonar. Einnig minntist hann Ingólfs Júlíussonar og Steingríms H. Guðjónssonar sem létust á árinu.

Hilmar greindir frá því að hefði tekið ákvörðun um að hætta sem allsherjargoði en fallist á að draga það til baka og gæfi því kost á sér eitt fimm ára kjörtímabil enn.

1. Skýrsla lögréttu
Hallur Guðmundsson, lögsögumaður, flutti skýrslu lögréttu.  Sjá skýrsluna hér neðanmáls.

Hanna Hlöðversdóttir, Óttar Ottósson, Jóhanna Harðardóttir þökkuðu lögréttu fyrir gott starf. Eyvindur P. Eiríksson minntist á að Laufey hefur haldið blót þó hún hafi ákveðið að verða ekki goði. Einnig hefur félagið áður haft starfsmenn þó þeir hafi ekki verið á launum og minnist á Egil í þeim orðum. Jóhannes Leví spyr hvaða aðilar hafi gert athugasemdir við byggingu hofsins og Hilmar svarar því til að það hafi verið HR út af vegi og bílastæðum. Þetta er í vinnslu með stýrðum aðgangi að bílastæðum sem Reykjavíkurborg kostar.

Skýrsla Lögréttu samþykkt samhljóða.

2. Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar
Hulda Sif, gjaldkeri, dreifði ársreikningum félagsins og Hörgs og reifaði þá.

Halldór Bragason spyr um ferðakostnað goða og Hulda svarar því til að þetta sé kostnaður vegna aksturs goða til félagsmanna sem búa á svæðum þar sem enginn goði er í nágrenninu. Hilmar Örn tekur fram að allar athafnir séu félagsmönnum að kostnaðarlausu. Jökul Tandri Ámundason talar um að mikilvægt sé að fólk skrái sig í mat á blót og styður lögréttu í að hafa tekið þá ákvörðun að skylda fólk til að skrá sig. Alda Vala Ásdísardóttir talar um að hækkun á bensínverði hafi áhrif á kostnað við akstur goða. Sesselja Guðmundsdóttir tekur undir það. Óttar Ottósson spyr hversu mikið ríkið skerði sóknargjöld. Jóhanna Harðardóttir svarar því til að sóknargjöldin hafi lækkað frá 2011 en við fáum minna frá ríkinu en kirkjan sem fær kirkusjóðsgjald og annað gjald ofan á sóknargjöldin. Halldór Bragason vill fá betra yfirlit yfir kostnað, t.d. með að halda skrá yfir athafnir. Jóhanna Harðardóttir tekur fram að erlendir aðilar greiði allan kostnað við sínar athafnir.

Sigurboði Grétarsson spyr í sambandi við kostnað við leigu á bíl á blót og Hallur Guðmundsson og Andrea Ævarsdóttir svara því til að ekki hafi fengist fólk í að aðstoða við blót og því hafi verið leigðir bílar síðustu 2 ár en bæði Andrea og Hallur hafi lagt mikla vinnu í blótið.

Bjarki Karlsson bendir á að skerðing fyrri ára á sóknargjöldum hafi verið dregin til baka í fjármálafrumvarpi 2014 og auk þess bætt upp að nokkru leyti.

Ársreikningar samþykktir samhljóða.

3. Lagabreytingar og aðrar tillögur
Engar bárust.

4. Kosið í Lögréttu
Kosið í tvö sæti aðalmanna. Halldór Bragason, Hallur Guðmundsson, Kári Pálsson og Sesselja Guðmundsdóttir gefa kost á sér.

Gengið var til kosninga. Jónas Ingólfsson, Jökull Tandri Ámundason og Þorvaldur Þorvaldsson töldu atkvæðin og fór kosning svo:

37 seðlar bárust, einn var auður.  Á þremur seðlum var aðeins eitt nafn ritað en það er leyfilegt.
 • Halldór Bragason 11 atkvæði
 • Hallur Guðmundsson 21 atkvæði
 • Kári Pálsson 20 atkvæði
 • Sesselja Guðmundsdóttir 17 atkvæði
Hallur og Kári eru réttkörnir í lögréttur til tveggja ára. 

Kjósið í tvö sæti varamanna.

Sesselja Guðmundsdóttir og Halldór Bragason gefa einnig kost á sér sem varamenn. Silke Schurak, Teresa Dröfn Njarðvík og Guðjón Magnússon gefa kost á sér. Gengið til kosninga. Sömu menn og áður voru í talningarnefnd.

35 seðlar bárust, enginn auður.  Tveir seðlar voru með einu nafni.
 • Guðjón Magnússon 13 atkvæði
 • Halldór Bragason 10 atkvæði
 • Sesselja Guðmundsdóttir 13 atkvæði
 • Silke Schurack 18 atkvæði
 • Teresa Dröfn Njarðvík 14 atkvæði
Silke og Teresa eru kosnar varamenn í lögréttu til eins árs. Silke er fyrsti varamaður, Teresa annar.

5. Kosning skoðunarmanna reikninga, nefnda og í aðrar trúnaðarstöður
Rún Knútsdóttir og Halla Lútersdóttir buðu sig fram sem skoðunarmenn reikninga og voru kosnar samhljóða. Lögrétta bar undir þingið tillögu um að Sigurður Mar Halldórsson og Alda Vala Ásdísardóttir yrðu staðfest sem goðar. Þau hafa lagt fram þingmannalista sína og voru samþykkt samhljóða.

6. Önnur mál
Hanna Hlöðversdóttir spyr hvort hægt sé að fjölga goðum með vígsluréttindi og hvort hægt sé að vera styrktaraðili hofssjóðsins. Hilmar Örn svarar því til að eftir að Siðmennt komst inn sem lífsskoðunarfélag hafa þeir fengið alls kyns réttindi til að framkvæma vígslur og því ætti að liðkast til hjá okkur líka. Hilmar svarar því einnig til að lítið mál sé að láta millifæra af korti til að styðja sjóðinn.

Óttar Ottósson nefnir að slæmt sé að gott fólk nái ekki kjöri en það sé þó jákvætt fyrir félagið að framboð sé meira en eftirspurn. Hann segir líka frá heiðingjamótum í Evrópu og það sé eitt í Svíþjóð í ágúst 2014.

Baldur Pálsson hélt tölu um að félagið sé að vaxa og styrkjast fyrir austan og vill með liðsstyrk Sigurðar Mars efla starfið ennþá meira.

Halldór Bragason hélt smá tölu um hofssjóðinn og stefnu félagsins vegna kynþáttamála. Hann biður Lögréttu að skipa stefnu í kynþáttamálum og sú tillaga er samþykkt.

Jökull Tandri Ámundason spyr um hvaða nefndir sé kosið í og býður sig fram í Blótnefnd. Andrea Ævarsdóttir biður hann að hafa samband við sig og verður hann settur inn í hana.

Hallur Guðmundsson talar um að félagið virði alla og sé opið öllum.

Garðar Ás spyr hvað sé að frétta af hofmálum og hvort hægt sé að sjá teikningar. Hilmar svarar því til að teikningar af hluta byggingarinnar séu til en breytingar hafi orðið í ferlinu svo ekki séu til teikningar af allri byggingunni. Hilmar talar um samvinnu við Viðeyjarfélagið og leyfi sem ásatrúarfélagið hefur lagt inn til Reykjavíkurborgar um að byggja hörg á Þórsnesi í Viðey.  Hilmar sýnir myndir af þeim teikningum sem til eru af hofinu. Hilmar og Baldur ræddu um bygginguna og framvindu þessara mála.

Kári Pálsson bendir á talningu á heiðingjum á heimsvísu sem Karl Sigfried stendur að.

Þingi slitið kl. 17.04
 
 

Skýrsla lögréttu 2012 til 2013


Ásatrúarfélagið hefur dafnað vel undanfarið ár. Frá því við héldum síðasta allsherjarþing hefur margt gerst og teljum við það vera félaginu til mikilla hagsbóta. Þann 1. janúar 2013 voru skráðir 2.148 í félagið og okkur fjölgar sífellt meira. Þann 13. október var fjöldinn orðinn 2.315 skv. tölum frá Hagstofunni. Nánar má sjá þróunina í fjölda félaga á vefnum okkar. Á síðasta allsherjarþingi var greint frá því að við værum í 7. sæti yfir fjölda skráðra meðlima á landsvísu. Þann 1. janúar síðastliðinn höfðum við fært okkur upp í 6. sætið. 

Ásatrúarfélagið er um leið stærsta ókristna trúfélagið á Íslandi eins og undanfarin ár. Með fjölgun í okkar röðum eykst fjölbreytnin og er það frábært.Fastir liðir í starfseminni á borð við leshópinn, fyrirlestra, opin hús og blót hafa verið sem áður og hefur góður rómur verið gerður að.

Fyrirlestrarnir á opnu húsunum hafa laðað fólk til okkar og hefur það kvekt áhuga utanaðkomandi aðila á félaginu. 

Mikið er að gera hjá goðum með vígsluréttindi og má nefna sérstaklega að útförum hefur 
fjölgað á undanförnum misserum þar sem einstaklingar úr okkar ranni falla frá líkt og annars staðar. Mikil aukning hefur enn fremur verið í siðfestuathöfnum. Síðasta vetur tóku 12 einstaklingar á öllum aldri siðfestu. Hópurinn sem hefur skráð sig til siðfræðslu þennan veturinn er eitthvað minni en búast má við að hann verði af svipaðri stærð þegar upp verður staðið.

Á allsherjarþingi fyrir ári var kosið í þrjú sæti lögréttumanna samkvæmt lögum. Kosningu 
í sæti aðalmanna hlutu Sigurlaug Lilja Jónasdóttir, Hulda Sif Ólafsdóttir og Hrafnhildur 
Borgþórsdóttir. Varamenn voru svo kjörnir Lenka KováÅ™ová og Böðvar Þórir Gunnarsson. 
Á fyrsta lögréttufundi eftir allsherjarþing var embættisskipan ákveðin og hefur hún verið 
eftirfarandi:
 • Hallur Guðmundsson – lögsögumaður 
 • Sigurlaug Lilja Jónasdóttir – staðgengill lögsögumanns
 • Bjarki Karlsson – ritari
 • Hulda Sif Ólafsdóttir – gjaldkeri
 • Hrafnhildur Borgþórsdóttir – meðstjórnandi
 • Lenka KováÅ™ová – varamaður
 • Böðvar Þórir Gunnarsson – varamaður
 • Hilmar Örn Hilmarsson – allsherjargoði
 • Jóhanna G Harðardóttir – staðgengill Allsherjargoða
Á þessu þingi verður kosið í tvö sæti samkvæmt lögum félagsins. Sæti Halls Guðmundssonar og Bjarka Karlssonar. Bjarki hefur ákveðið að stíga til hliðar og sinna verkefnum á öðrum vettvangi. En Bjarki mun eftir sem áður sjá um vef félagsins og prófarkarlestur Vors siðar. Lögrétta vill þakka Bjarka samfylgdina á liðnum árum og vel unnin störf. Hallur gefur hins vegar kost á sér til áframhaldandi setu í lögréttu. Lenka KováÅ™ová flutti af landi brott og féll út af skrá og verður hún því ekki í kjöri en hún hefur ákveðið að snúa aftur til Íslands og vinna hér á landi og starfa innan félagsins. Böðvar Þórir Gunnarsson gefur heldur ekki kost á sér til áframhaldandi setu.

Fundir lögréttu hafa frá því í apríl verið með óhefðbundnu sniði. Hrafnhildur Borgþórsdóttir 
fluttist búferlum til Seyðisfjarðar og Lenka KováÅ™ová flutti til upprunalands síns, Tékklands. 
Þær hafa sótt lögréttufundi í gegnum Skype samskiptahugbúnaðinn. Allt hefur gengið að 
óskum á því sviði. 

Hofsbyggingarmálin eru enn í sömu stöðu og fyrir ári síðan og er félagsheimilið að Síðumúla 15 því enn við lýði og er það vel nýtt. Salurinn og skrifstofan hafa verið tekin í gegn og fengið andlitslyftingu sem staðið hefur til í all nokkur ár. Ný húsgögn hafa verið keypt sem munu fylgja okkur í hofið. Settir voru upp listar sem hengja má myndir og aðra hluti í svo hægt sé að bjóða upp á sýningar. Er húsnæðið allt mun bjartara og meira aðlaðandi en áður. Í kjölfar breytinganna var gjaldskrá salarins breytt á þá vegu að nú kostar það 20.000 krónur fyrir félagsmenn að taka salinn á leigu hvert skipti en utanaðkomandi aðilar greiða 30.000 krónur.

Í byrjun september hóf störf hjá félaginu Íris Ellenberger og gegnir starfi skrifstofumanns. Hún var valin úr hópi tæplega 60 umsækjenda. Ráðningarferlið stóð lengur en áætlað var og bar Jóhanna Harðardóttir hitann og þungann af því. Því fylgir vissulega kostnaður að ráða starfsmann. En fjölgun félaga á þessu ári nær að standa að miklu leiti undir þeim kostnaði. 

Með því að ráða starfsmann getum við haft opið hjá okkur alla daga vikunnar og er opið frá 13.30 til 16.30. Ýmis verk hafa fallið í hendur Írisar síðan hún hóf störf og hefur hún leyst þau með sóma. Íris er í félaginu og starfaði í ungliðahreyfingu félagsins fyrir all mörgum árum.

Nýverið tilkynnti Haukur Bragason að hann hyggðist hætta ritstjórn á Vorum sið. Leitað var til Írisar Ellenberger að taka það að sér og varð hún við því. Lögrétta þakkar Hauki vel unnin störf.

Í kringum síðasta allsherjarþing fór að bera á því að óprúttnir aðilar utan af hinu stóra interneti kæmust innundir vefinn okkar og fóru að senda út alls kyns óþverra í okkar nafni – úr póstföngum sem aldrei hafa verið til. Um var að ræða öryggisvillu í vefkerfinu og varð það úr að Bjarki Karlsson tók vefinn í gegn og lokaði á allar öryggisvillur og hefur vefurinn verið til friðs síðan.

Að venju hafa verið haldin höfuðblót þann 1. desember, jólablót, þorrablót, sumarblót, þingblót og haustblót. Þokkaleg mæting hefur verið á blótin en stundum hefur mæting verið dræmari en vonast var til. Þess vegna var brugðið á það ráð á síðasta haustblóti, 26. október síðastliðinn, að halda það í félagsaðstöðu okkar í Síðumúla. Fámennt var en góðmennt. Önnur nýbreytni er svo sú að halda allsherjarþingið á okkar heimavelli. Með þessu spörum við peninga og nýtum húsnæðið okkar betur. Leshópurinn hefur svo verið virkur öll miðvikudagskvöld. Allsherjargoði hefur boðið félagsmönnum á þrjúbíó í Síðumúlabíói þar sem hann tengir viðfangsefni myndanna við norræna goðafræði og spjallar við gesti. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp varðandi nýtingu á salnum og er 
öllum frjálst að koma með tillögur þar að lútandi á borð lögréttu.

Félagsstarfið utan höfuðborgarsvæðisins hefur gengið vel. Baldur Pálsson, Freysgoði, sinnir austfirðingum af natni og hefur Sigurður Mar Halldórsson verið hans hægri hönd í Hornafirði og nærsveitum. Ragnar Ólafsson, Þveræingagoði stendur vaktina fyrir norðlendinga og sinnir góðu starfi þar. Á síðasta allsherjarþingi sóttist Laufey Eyþórsdóttir eftir goðaútnefningu en dró það til baka nokkrum mánuðum síðar. Hún hefur þó ásamt fleirum sinnt upplýsingagjöf og félagsstarfi á Vestfjörðum.

Undanfarin ár hefur Óttar Ottósson verið fulltrúi Ásatrúarfélagsins í samráðsvettvangi trúfélaga. Undanfarna mánuði hefur hann verið í forsvari þar og sinnt því hlutverki af stakri prýði. Enn fremur hefur Óttar, líkt og undanfarin ár, séð um samskipti við félaga okkar á norðurlöndunum.

Hofið, sem við höfum verið að reyna að hefja framkvæmdir við, hefur tafist í borgarkerfinu ítrekað. Skipulagsyfirvöld og stjórnmálamenn hafa dregið okkur á svörum og eftir grenndarkynningu höfðu nágrannar okkar í landi Öskjuhlíðar einhverjar athugasemdir við framkvæmdina. Málið liggur nú á borði skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar og erum við tilbúin að hefja ferlið fyrir alvöru þegar lokasvör hafa borist þaðan.

Lögrétta hefur haft nóg að gera undanfarið ár og er nóg framundan. Líklegt er að loksins verði hægt að fara óheft í hofgerðina á næstu vikum eða mánuðum og bíði því nýrrar lögréttu ærið verkefni að fjármagna framkvæmdirnar og finna réttu aðilana til að vinna þau verk sem til falla við framkvæmdirnar. Sú lögrétta sem setið hefur undanfarið ár hefur starfað vel saman og er samhentur hópur. 

Reykjavík, 2. nóvember 2013.

Með virðingu og friði,
Hallur Guðmundsson

lögsögumaður