Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2005

Fundargerð allsherjarþingsins 2005 hefur því miður ekki varðveist en skýrsla stjórnar, sem lögð var fram á allsherjarþinginu, er hér birt:


Skýrsla stjórnar 2004–2005

Umtalsverð þáttaskil hafa orðið í starfsemi Ásatrúarfélagsins undangengið ár.

Það telst auðvitað til stórtíðinda, þegar félag af þessarri stærð selur húsnæði sitt, enda er ekki laust við, að allnokkur öldugangur hafi fylgt í kjölfarið. Leggjum þó það mál til hliðar um stundarsakir, meðan við hugum að öðru starfi félagsins, sem vissulega hefur verið allnokkuð.

Ný stjórn var kjörin fyrir réttu ári síðan. Þá brá svo við, að einungis einn stjórnarmaður hélt áfram stjórnarsetu frá fyrra ári; Vilhjálmur Benediktsson, meðstjórnandi. Vilhjálmur hefur reyndar verið allmikið fjarverandi á starfsárinu, vegna vinnu úti um land og erlendis. Egill Baldursson, staðgengill lögsögumanns, færðist úr varastjórn í aðalstjórn og má segja að hann hafi í krafti varastjórnarreynslu sinnar verið helzta brú okkar til fyrri stjórnar. Þá eru ótalin Óttar Ottósson, lögsögumaður, Rósa Eyvindardóttir, ritari, og Sveinn Aðalsteinsson, gjaldkeri. Þau eru öll nýliðar í stjórn. Varastjórn skipuðu þau Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi gjaldkeri, og Þórunn Brandsdóttir, en þau sátu bæði í aðalstjórn og varastjórn fyrra árs.

Samstarf innan stjórnarinnar hefur gengið vel, þótt ekki skuli dregin dul á, að kastazt hafi í kekki á stundum, þegar húsnæðismálin hafa verið í brennidepli. Allar slíkar gárur heyra nú fortíðinni til, þannig að óhætt er að fullyrða að samstarf innan aðalstjórnar hefur verið með allrabezta móti síðustu vikurnar.

Rósa ritari auðgaði starf lögréttu allrar með þeirri snilldarhugmynd sinni, að stjórnin og allir goðarnir hittust heila helgi úti á landi. Það varð úr, að fundað var á heimaslóðum Hegranesgoðans, Sigurjóns Þórðarsonar, Sauðárkróki. Fundarmönnum öllum þótti mætavel til hafa tekizt, enda var samþykkt á Króknum ályktun um að taka á siðfestumálum okkar með skipulegum hætti. Þessu siðfestuátaki Ásatrúarfélagsins voru gerð allsæmileg skil í fjölmiðlum og þess verður ekki langt að bíða, að frekari fréttir berist af málinu.

Húsnæðismálunum voru einnig gerð allnokkur skil í fjölmiðlum, þótt félagið hefði hæglega geta verið án ýmissa furðufregna þar að lútandi. Þótt félagið hafi haft fremur hægt um sig á vettvangi fjölmiðlanna, rötuði allmargar smáfréttir á síður dagblaðanna og a.m.k. í þremur tilfellum voru félagar kvaddir í útvarpsviðtöl, svo þegar á heildina er litið, hefur umfjöllun fjölmiðla um okkar kæra félag verið vel viðunandi.

Fréttabréfi okkar, Vorum Sið, var tekið tak á árinu, svo sómi er að. Ritstjóri er Egill Baldursson, staðgengill lögsögumanns. Reyndar hefur þetta vandaða blað okkar vakið athygli út á við og orðið tilefni blaðaskrifa um einstök mál. Lögð hefur verið áherzla á, ásamt vönduðu yfirbragði, að segja tíðindi úr félagsstarfinu, bæði stjórnarmálum og samkomum, og ljósmyndum í blaðinu hefur farið verulega fjölgandi.

Heimasíðan okkar hefur verið hálfgert olnbogabarn nokkur undanfarin ár. Við svo búið varð ekki lengur unað, svo fyrri vefstjóri, sem langalengi hafði beðizt lausnar, var leyst af hólmi af Garðari nokkrum Guðnasyni, sem nú stýrir síðunni styrkri hendi. Endurskoðun hennar er að vísu ekki nærri lokið, en talsvert hefur þó þegar áunnizt, svo heimasíðan er þegar orðin nothæf sem sá miðill, sem hún ætti réttilega að vera.

Erlendir sjónvarpsmenn hafa heimsótt okkur í þrígang í æðimisjöfnum erindagjörðum. Fyrsta er að telja Rússana sem birtust í félagsheimilinu hjá okkur einn góðan veðurdag og tóku myndir. Ekki er reyndar að fullu ljóst, hvað þeir ætluðu sér með þær. Skýrari var tilgangur Þjóðverjanna frá Sat1, sem tóku myndir á nýafstöðu haustblóti – og stutt viðtal við allsherjargoðann. Metnaðarfyllst var þó tvímælalaust margra daga heimsókn tökuliðs frá danska Ríkissjónvarpinu, en afraksturinn, tugir klukkustunda efnis um siðinn, tónlist, álfa og annað forvitnilegt efni, verður notaður í hálfsannars til tveggja klukkustunda þátt, sem vonandi ratar inn í Ríkissjónvarpið íslenzka í fyllingu tímans.

Erlend samskipti hafa að öðru leyti verið með minna móti. Ágætt samband er við hið danska systurfélag okkar, Fornan Sið, en í sumar sem leið rak á fjörur okkar fjóra Dani frá Fornum Sið, svo og Íslending, sem ekki einasta er einn stofnenda Ásatrúarfélagsins, heldur einnig fyrrum formaður Sveriges Asatrosamfund. Um þessar mundir eru þessi þrjú félög að bera saman bækur sínar varðandi útfararsiði.

Það hefur sýnt sig, að seigt er í okkur heiðingjunum, en engu að síður hafa a.m.k. tveir félagar fallið frá undangengið ár. Í fyrra tilvikinu var útförin að vorum sið – mjög hátíðleg athöfn og siðnum og félaginu til sóma.

Þann 1. desember sl. var félagafjöldi í Ásatrúarfélaginu 872. Nú, í októberlok, teljast félagar 945, en þessi 73 manna hækkun nemur um 8,4 % hækkun á tæpum 11 mánuðum. Nái félagatalið 980 manns 1. desember nk. er um að ræða tíföldun félagsmanna á aðeins hálfum öðrum áratug. Búast má við, að Ásatrúarfélagið haldi stöðu sinni sem 6. stærsta trúfélag Íslands utan þjóðkirkjunnar. Sé aftur miðað við 1. desember 1990, sýna tölur frá seinasta ári, að hlutur kvenna í félaginu hefur tvöfaldazt á 14 árum, eða úr 12% í 24% félagsmanna. Vonandi halda konur áfram að rétta hlut sinn á okkar vettvangi.

Lögð hefur verið áherzla á, að hafa alltaf opið hús í félagsheimili okkar á laugardögum kl. 14:00-16:00. Misbrestir á opnun hafa sézt endrum og eins, en þegar á heildina er litið hefur húsið staðið opið nánast undantekningalaust undanfarið starfsár. Ennfremur hefur sími félagsins verið mannaður alla týsdaga og þórsdaga kl. 14:00-16:00. Þar hefur Egill Baldursson staðið vaktina og vel það, því undirritaður getur staðfest, að símaþjónusta Egils er engan veginn einskorðuð við þessar 4 klst. á viku.

Blót hafa verið haldin á hefðbundinn hátt, eins og gerð hefur verið grein fyrir í fréttabréfi okkar. Ennfremur hafa Kjalnesingagoði, Vestfirðingagoði og Þórsnesgoði haldið blót í héraði. Bryddað hefur verið upp á nokkrum nýjungum hvað varðar umgerð blótanna. Stjórnin nýja tók strax þá ákvörðun að hætta sjálfboðavinnu við matseldina og bjóða frekar upp á aðkeyptan mat. Slíku fyrirkomulagi fylgir sérhæfð þjónusta og mikil ánægja hefur ríkt með samstarf okkar við þá veizluþjónustu, sem fyrir valinu varð, þannig að ekki hefur þótt minnsta ástæða til að snúa sér annað.

Þá var einnig strax í upphafi látið reyna á, hvort hægt væri að fá félaga okkar til að panta og greiða fyrirfram, svo einhver leið væri til að upplýsa veizlu-þjónustuna okkar um fjölda gesta í tæka tíð. Þetta hefur gefizt vel og raunar framar vonum. Ennfremur var tekin upp sú regla, að vísu ekki fyrr en á þorrablóti, að fella niður blóttoll barna innan tólf ára, sem skoðast skal sem einn þáttur í viðleitni stjórnar til að gera félagið okkar sem allra fjölskyldu- og barnavænast, enda teljum við það hæfa Siðnum.

Ekki var þó látið þar við sitja, því í upphafi þessa árs, var hleypt af stokkunum barnastarfi félagsins. Nei, ekki skal stjórnin stæra sig af því, enda því miður ekki hennar hugmynd ... Frumkvæðið var tveggja ungra, vaskra kvenna, Andreu Ævars og Rúnar Knútsdóttur, en skömmu seinna kom til liðs við þær ung karlvera, Árni Einarsson. Þetta þróttmikla unga fólk, hefur reyndar átt á brattann að sækja – brattinn sá er dræm þátttaka - en ekki leggur það árar í bát.

Um svipað leyti og barnastarfið hófst, endurvakti Vestfirðingagoðinn, Eyvindur Eiríksson, hinn vinsæla Edduleshóp, nýjum sem eldri Edduáhuga-önnum til óblandinnar ánægju. Þá skal nefna, því ákveðnar og auglýstar hafa verið, þótt ekki hafi þær enn hafizt, „Samræður um voran sið“. Þar mun allsherjargoðinn – frá og með næstu viku – standa fyrir óformlegum fræðsluerindum um eðli og inntak hins forna átrúnaðar. Fyrirhugaðir eru ennfremur ýmsir fyrirlestrar utanaðkomandi um ýmislegt forvitnilegt efni, en ótímabært er að skýra nánar frá fyrirlesurum og efnivið þeirra á þessu stigi málsins.

Snúum okkur þá aftur að því máli, sem allt annað ágætt starf félagsins fellur í skuggann af: Sala Grandans. Máli þessu hafa verið gerð allgóð skil í miðlum félagsins og fundum - og reyndar, þegar litið er um öxl, má í fréttabréfi Ásatrúarfélagsins rekja í stórum dráttum alla atburðarásina, allt frá sannfæringu um, að húsnæðið yrði ekki selt, til tilkynningar um, að einmitt hefði orðið af sölu.

Húsnæðið okkar, félagsheimilið, sem við nú höldum allsherjarþing okkar í hinzta sinni, er nú ekki lengur okkar, þótt við, samkvæmt samningi við kaupanda, megum nota þann þriðjung þess, sem við notum nú, án endurgjalds til 15. janúar 2006. Eins og greint var frá í Vorum Sið, 2. tbl. 2005: Þótt “húsnæðið okkar hafi verið mikill happafengur á sínum tíma, hefur það orðið okkur æ meiri fjötur um fót. Vissulega er það þakkarvert, að framsýnir forvígismenn félagsins hafi árið 1998 fest okkur þetta stóra og vel staðsetta félagsheimili, sem lætur nærri að hafi þrefaldazt í verði á þessum fáu árum, en á því eru því miður verulegir meinbugir. Húsnæðið er að miklu leyti ónýtt, í tvöföldum skilningi þess orðs, og skuldabyrðin það þung, að hún stendur öðru starfi félagsins fyrir þrifum. Þar að auki hefur komið á daginn, að samkomulag við aðra eigendur í húsinu getur staðið í veginum fyrir öllum
úrbótum. Síðan þetta var skrifað, hefur tilboð í húsnæðið hækkað um 10.000.000, þannig að verðið hefur gert gott betur en þrefaldazt, því kaupverðið var 30.000.000, en söluverðið 95.000.000. Þarna er um 217% hækkun að ræða á aðeins 7 árum. 65.000.000 kr. hagnaður! Verður það ekki að teljast nokkurn veginn viðunandi? 217%!

Jú, við erum þar með húsnæðislaus. Á hinn bóginn erum við laus af skuldaklafanum, sem hefur staðið starfsemi félagsins okkar fyrir þrifum allar götur síðan kaupin voru gerð. Húsnæðið var, eins og áður sagði, keypt á 30.000.000 kr. fyrir 7 árum. Ég endurtek: Það var frábært! En hvað skyldum við hafa skuldað við söluna? 30.000.000 kr. – og gott betur! Er hægt að halda því fram, að þetta hafi verið gæfulegt?

Um 300.000 kr. fóru í afborganir af þessu illkynjaða láni okkar hvern einasta mánuð. Þegar bezt lét, undir lokin, nam þessi upphæð engu að síður um 2/3 hlutum tekna félagsins. Þessi útgjöld spörum við okkur framvegis og það sem mun meira er um vert: Héðan í frá er hægt að leggja drög að byggingu hins langþráða hofs okkar. Því hefur hingað til farið víðsfjarri, að bollaleggingar um byggingu hofs gætu verið annað en ábyrgðarlaust fleipur. Nú er öldin önnur, svo um munar. Nú eigum við digra sjóði, sem munu kasta af sér allt að 50.000 kr. á mánuði, sem bætast við þau 300.000, sem við spörum okkur vegna afborgana af bankaláni, sem góðu heilli er ekki lengur til. Þótt gert sé ráð fyrir leiguútgjöldum í framtíðinni, má ætla, að afkoma félagsins batni um a.m.k. 200.000 kr. – hvern einasta mánuð!

Því hefur verið haldið fram, að húsnæðið okkar – fyrrverandi - sé sífellt að hækka í verði. Það má vera. Það má vera ekki. Þetta eru vangaveltur – spákaupmennska, sem trúfélag á ekki að fjötra starfsemi sína við. Undirritaður er þess algerlega fullviss, að okkur sé margfalt betur borgið við að láta loftkastalana á Grandanum sigla sinn sjó og taka frekar markvissa stefnu á langþráð hof – með sambyggðu félagsheimili. Ásatrúarfélagið er trúfélag – látum aðra um brask. Trúfélagi ber að eiga sér helgidóm. Skyldi ekki vera kominn tími til, að 6. stærsta frjálsa trúfélag Íslands, félagið sem stendur vörð um þau menningarverðmæti, sem eru undirstaða þess þjóðfélags, sem við byggjum, komi sér upp hofi – eftir 33 ára tilvist?

Látum nú fjölmarga fortíðardrauga Ásatrúarfélagsins verða eftir á Grandanum. Megi þeir veslast þar endanlega upp! Félagið er á fertugsaldri og fyrir langalöngu orðið tímabært að það festi ráð sitt. Ég er þess fullviss, að við séum sammála um, að Ásatrúarfélagið sé góður félagsskapur og ómissandi þáttur í íslenzku þjóðlífi. Ásatrú er eini raunhæfi valkosturinn – verum nú samstíga um, að búa henni og félaginu okkar frambærilega framtíðaraðstöðu. Snúum nú bökum saman!

Óttar Ottósson, lögsögumaður, 29. október 2005.