Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2006

Fundarstjóri: Þorvaldur Þorvaldsson
Ritari: Rún Knútsdóttir

Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði setur þingið og fundarstjóri og ritari kosnir.

Dagskrá:
 1. Skýrsla stjórnar og nefnda
 2. Farið yfir ársreikninga Ásatrúarfélagsins
 3. Kjör stjórnar, varamanna og skoðunarmanna
 4. Önnur mál
Dagskrárliðurinn lagabreytingar er lokaður þar sem ekki hafa komið fram neinar l agabreytingatillögur.
 

1. Skýrsla stjórnar og nefnda

Óttar Ottósson lögsögumaður kynnir skýrslu stjórnar. Hana má lesa hér fyrir neðan fundargerðina. Skrifleg staðfesting er komin á lóð undir hof frá borgaryfirvöldum.


2. Farið yfir ársreikninga Ásatrúarfélagsins

Sveinn Aðalsteinsson gjaldkeri kynnir reikninga félagsins. Mótmæli komu fram við það að reikningum var ekki dreift til fundarmanna. Skýringar voru gefnar að svo lengi hafi verið beðið við að fá undirritun annars skoðunarmanns að ekki náðist að gera þá tilbúna til dreifingar.
Reikningar eru þrískiptir:

a) Reikningar Ásatrúarfélagsins
Meirihluti stjórnar skrifa undir en vantar eina þar sem einn meðlimur er erlendis. Fjórar undirskriftir, eða meirihluti, nægir til samþykktar reikninga.
Langtímaskuldir eru engar. Spurning kom fram um skattaskuld. Komið verður að því á eftir.

b) Reikningar Hörgs ehf. sem er alfarið í eigu Ásatrúarfélagsins.

c)Samstæðureikningar beggja félaga

Fundarstjóri bendir á að ekki sé nauðsynlegt að lesa upp endurtekna texta í reikningum og beinir því til næsta allsherjarþings.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Til máls tóku:
 • Sigurður Þórðarson
 • Sveinn Aðalsteinsson
 • Ólafur Sigurðsson
 • Gunnar Gunnarsson
 • Sigurður Þórðarson
 • Torfi Geirmundsson
 • Hanna Hlöðversdóttir
 • Hilmar Örn Hilmarsson
 • Halldór Björnsson
 • Jóhanna Harðardóttir
 • Óttar Ottósson
 • Sigurður Þórðarson
 • Þórunn Brandsdóttir
 • Gunnar
 • Sigurbjörn Ólafsson
 • Ólafur Sigurðsson
 • Sveinn Aðalsteinsson

Reikningar bornir upp til samþykktar og synjunar og voru samþykktir. Eitt mótatkvæði.


3. Kosning stjórnar og skoðunarmanna

Tillögur og framboð:
 • Óttar Ottósson
 • Egill Baldursson
 • Garðar Guðnason
 • Hanna Hlöðversdóttir
 • Torfi Geirmundsson
 • Sigurbjörg Guðmundsdóttir
 • Rún Knútsdóttir
 • Daníel Engilbertsson
Kosið um hvort eigi að kjósa í einu lagi stjórn og varastjórn. Samþykkt með þorra atkvæða gegn fjórum.

Sigurður Halldórsson, Þórunn Brandsdóttir og Steingrímur Guðjónsson úrskurðaðir talningarmenn.

Gjaldkeri bar upp tillögu um að ársreikningar yrði settir á netið sem mæltist vel fyrir og á stjórn að taka ákvörðun um það.

Lögsögumaður kom með fyrirspurn um hvort seðill hefði verið tekin til baka og breytt. Fundarstjóri féllst á það og rökstuddi úrskurðinn því að um einn seðil hefði verið að ræða og hafði verið víst að um réttan seðil að ræða og nauðsynlegt hefði verið til að ótvíræður vilji kjósanda hefði komið fram.

Úrslit í stjórnarkjöri:
 • Egill 48 atkvæði
 • Rún 47 atkvæði
 • Garðar 46 atkvæði
 • Hanna 39
 • Óttar 35
 • Daníel 26 atkvæði
 • Sigurbjörg 16 atkvæði
 • Torfi 13 atkvæði

Nýja stjórn skipa því:

 • Sveinn Aðalsteinsson
 • Hildur Guðlaugsdóttir
 • Egill Baldursson
 • Rún Knútsdóttir
 • Garðar Guðnason
 • Hanna Hlöðversdóttir 1. varamaður
 • Óttar Ottóson 2. varamaður


4. Opnuð mælendaskrá fyrir önnur mál:

Til máls tóku Halldór Björnsson og Hanna Hlöðversdóttir. Einnig Jóhanna Harðardóttir sem lagði fram skiflega tillögu sem hljómar svona:
Tillaga fyrir Allsherjarþing 2006
Ásatrúarfélagið gerir þær kröfur til menntamálaráðherra og skólayfirvalda að farið sé að lögum í skólum landsins og mannréttindi virt.
Skólar á Íslandi eru menntastofnanir sem bera fyrst og fremst ábyrgð sem slíkar og hafa ekki umboð til trúboðs eða trúarlegs uppeldis barna.
Nú þegar verði því bundinn endir á innrás kirkjunnar í skólana, m.a. undir vinnuheitinu „vinaleiðin“.
Það er sjálfsögð krafa alls samfélagsins að grunnskólanemum sé tryggður endlegur og félagslegur stuðningur af fagmönnum með viðhlýtandi menntun og án trúarlegrar íhlutunar af nokkru tagi.
Undir þetta ritar Jóhanna Harðardóttir.

Tilnefningar og framboð til skoðunarmanna:
 • Ólafur Sigurðsson
 • Daníel Engilbertsson
 • Sigurður Þórðarson
 • Þórunn Brandsdóttir

Atkvæði féllu svo:
 • Ólafur 26 atkvæði
 • Daníel 25 atkvæði
 • Þórunn 22 atkvæði
 • Sigurður 9 atkvæði
Ólafur og Daníel eru því nýir skoðunarmenn.

Mælendaskrá um önnur mál hélt áfram:
 • Hilmar Örn Hilmarsson
 • Daníel Engilbertsson
 • Sigurður
 • Þorri
 • Óttar
Lára Jóna lagði fram skriflega tillögu sem hljómar svo:
Ég legg til að samþykkt Jóhönnu verði borin upp sem ályktun frá fundinum með fyrirvara um að Lögrétta fari yfir orðalag á næsta Lögréttufundi (á morgun).
Undir þetta ritar Lára Jóna.
Var þetta samþykkt.
 • Steingrímur
 • Jóhanna
 • Halla
 • Óttar
 • Sigurbjörg

Ályktun Allsherjarþings lesin upp og borin til samþykktar. Tveir voru á móti.

Fundi slitið kl. 18:10


Skýrsla stjórnar 2005–2006


Óneitanlega hefur starfsemi Ásatrúarfélagsins undangengið ár haft á sér nokkuð annan blæ, en árin þar á undan. Veldur þar mestu um, að félagið hefur haft aðsetur sitt í leiguhúsnæði í Síðumúla í Reykjavík, allt frá síðastliðnum ára-mótum. Eins og öllum mun kunnugt, var húsnæði félagsins á Grandagarði selt síðla árs 2005. Síðustu daga ársins var síðan nauðsynlegum húsbúnaði okkar komið fyrir í Síðumúlanum, svo hægt væri að taka hið nýja húsnæði í notkun strax eftir áramótin. Bókasafni félagsins og öðrum eigulegum munum var komið fyrir í geymslu í Hafnarfirði, en meginþorri innanstokkmuna var hreinlega skilinn eftir á Grandagarði, samkvæmt samkomulagi við nýjan eiganda húsnæðisins. Árangur erfiðisins er lítið, en mjög svo frambærilegt félagsheimili á hinum nýja stað.

Engin breyting varð á embætti lögsögumanns, staðgengils hans, svo og ritara á síðasta allsherjarþingi, því þessir þrír stjórnarmenn voru þá á miðju kjörtímabili. Gjaldkerinn var hins vegar endurkjörinn og meðstjórnandinn nýkjörinn. Sömuleiðis var annar varamanna í stjórn endurkjörinn, en hinn kjörinn fyrsta sinni. Meðstjórnandi fyrra árs, Vilhjálmur Benediktsson, baðst undan endurkjöri og sama er að segja um annan varamanninn, Ólaf Sigurðsson.

Undangengið ár hafa því skipað stjórnina þau Óttar Ottósson, lögsögumaður, Egill Baldursson, staðgengill lögsögumanns, Rósa Eyvindardóttir, ritari, Sveinn Aðalsteinsson, gjaldkeri, og Hildur Guðlaugsdóttir, meðstjórnandi. Varamenn voru Garðar Guðnason og Þórunn Brandsdóttir. Í byrjun þessa árs fór Rósa síðan utan til náms. Búferlaflutningur hennar hafði það í för með sér, að Hildur tók við ritaraembættinu, Garðar tók sæti í aðalstjórn og Rósa í varastjórn. Þannig er stjórnin skipuð, þegar komið er að allsherjarþingi 2006.

Engar breytingar urðu á fjölda goða eða goðorðum þeirra. Þó var, á síðasta allsherjarþingi, Freysgoðinn Baldur Pálsson, einróma samþykktur sem slíkur. Baldur hafði raunar tekið til starfa ári áður. Þá voru þeir Baldur og Haukur Halldórsson, Reykjanesgoði, vígðir til embættis á Þingvöllum síðastliðið sumar.

Goðarnir eru því eftir sem áður 8 að tölu, en sú veigamikla breyting varð á hlutverki þeirra, að Dómsmálaráðuneytið veitti þremur þeirra vígsluréttindi í byrjun þessa mánaðar. Þessi breyting brýtur blað í sögu félagsins, því hingað til hefur einungis allsherjargoðinn og seinna einnig staðgengill hans haft slík réttindi. Nýfengin vígsluréttindi Baldurs, áðurnefnda, Jóhönnu Harðardóttur, Kjalnesingagoða, og Tómasar V. Albertssonar, seiðgoða, gerir félaginu kleift að mæta síaukinni hjónavígslueftirspurn, sem tímabært verður að teljast í ört vaxandi félagi.

Ásatrúarfélagið hleypti af stokkunum svokölluðu siðfestuátaki síðastliðið haust. Það miðaði að því, að gefa ungmennum landsins kost á að taka heiðna siðfestu í stað kristinnar fermingar. Möguleikinn hefur reyndar verið fyrir hendi árum saman, en að þessu sinni var reynt að vekja athygli á honum á kerfisbundinn hátt við þau börn, sem Þjóðkirkjunni þykir fermingartæk. Af ýmsum ástæðum er orð ekki gerandi á viðbrögðunum, en þó ekki væri annað, fékkst af tiltækinu dýrmæt reynsla, sem nýta má til að koma siðfestunni á framfæri sem raunhæfum valkosti í annarri atrennu. Málið er mjög ofarlega á forgangslista næsta starfsárs.

Fréttabréf félagsins, Vor siður, kom út í 5 tölublöðum undanfarið ár. Ritstjórinn, Egill Baldursson, sá til þess, að þetta málgagn félagsins er okkur bæði til gagns og mikils sóma. Efni og innihald er með svipuðu sniði og verið hefur, en innan þess ramma hefur Vorum sið engu að síður vaxið fiskur um hrygg og mun vafalaust halda því áfram.

Heimasíðan okkar hefur um alllanga hríð setið nokkuð á hakanum vegna annarra verkefna, en skömmu fyrir síðasta allsherjarþing tók stjórnarmaðurinn Garðar Guðnason við umsjón hennar. Fyrst um sinn sáust þess ekki önnur merki, en að uppfærsla síðunnar var fljót og góð, svo hún byrjaði að standa undir því hlutverki sínu að vera virkur miðill. Nú hefur Garðar hannað nýja síðu og eftir allmarga eljusama mánuði hans, var hin nýja síða tekin í notkun fyrir fáeinum vikum síðan.

Sem fyrr hafa fjölmiðlar, bæði innlendir og erlendir, sýnt Ásatrúarfélaginu þónokkurn áhuga. Sjónvarp, hljóðvarp, tímarit og dagblöð hafa margsinnis fjallað um félagið og starf þess, og líklega í ríkari mæli en sézt hefur síðan árið 2000. Gildir þar einu, hvort fjölmiðlarnir taka eigið frumkvæði, eða gera skil fréttatilkynningum okkar, sem hafa verið nokkrar undanfarna mánuði. Umfjöllun þeirra hefur undantekningalaust verið heiðarleg og sanngjörn, ef undan eru skildar 2 stuttar dagblaðagreinar uppfullar af rangfærslum, ósannindum og ærumeiðingum. Þar voru reyndar félagsmenn að verki.

Samskipti við systurfélög Ásatrúarfélagsins í öðrum löndum hefur verið með svipuðu móti og undanfarin ár: Fremur lítil. Samt höfum við átt vinsamleg og ánægjuleg, en óformleg, samskipti við danskt, sænskt, þýzkt, hollenzkt og bandarískt félag og er ekki að sjá að áherzlubreytinga sé þörf á því sviði. Undirritaður sat reyndar sem gestur aðalfund, Alþingi, danska félagsins Forn Siðr sl. vor.

Ekkert lát virðist ætla að verða á vexti félagafjölda okkar. 1. desember 2005 hafði Ásatrúarfélagið 953 félaga, en í dag munu þeir vera 1031. Hið langþráða þúsund manna mark náðist í byrjun maí síðastliðins og svo virðist sem u.þ.b. 100 manna árleg aukning sé nærri lagi. Félagið heldur stöðu sinni sem 6. stærsta trúfélag Íslands utan Þjóðkirkjunnar.
Lögð hefur verið áherzla á, að undantekningalaust sé opið hús í félagsheimili okkar á laugardögum kl. 14:00-16:00. Líklega hefur það þó brugðizt einu sinni – á heilu ári. Mæting er æði misjöfn, því stundum höfum við á annan tug gesta, en oft færri og jafnvel niður í engan, sem reyndar er afar sjaldgæft. Sumir félagar geta nánast kallazt fastagestir, en forvitnir utanfélagsmenn eru glettilega tíðir gestir. Oft rekur á fjörur okkar erlenda gesti, en þá er oftast nær um heiðingja að ræða. Kennir þar ýmissa þjóðerna, en í fljótu bragði má nefna Finna, Þjóðverja og Bandaríkjamenn.

Félagið hefur staðið fyrir hefðbundnum blótum sem endranær. Jólagleðin var haldin á Grandagarði og jólahelgistund við vetrarsólhvörf í Öskjuhlíð, en þorrablótið var haldið í húsi Ferðafélags Íslands í Mörkinni. Þá var sumardeginum fyrsta fagnað með sigurblóti, fyrst í Öskjuhlíð og síðar sama dag í Síðumúlanum, að undangenginni barnaskemmtun með Tóta trúð. Þingblótið var að venju á Þingvöllum, en haustblótið aftur í Mörkinni. Vegna snautlegrar meðferðar veitingamanns á Þingvöllum á okkur í fyrra, brá stjórnin á það ráð, að leigja og setja þar upp myndarlegt hústjald að þessu sinni. Mæltist það vel fyrir og taldir voru a.m.k. 100 gestir. Blótmatur var í öllum tilfellum keyptur af hinni ágætu veizluþjónustu Veislunni.

Sumir goðanna hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja heima í héraði. Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði, blótaði Frey í hofstæðinu að Hlésey um miðjan nóvember. Síðan hélt hún sitt 5. gróður- og grillblót í Aronsbústað við Mógilsá í maí-mánuði. Freysgoðinn, Baldur Pálsson, blótaði með heimamönnum og gestum að sunnan um miðjan maí. Við sama tækifæri var haldinn umræðu- og kynningarfundur um hof, en Baldur hafði í nóvember einnig haldið almennan umræðufund um málefni heiðinna þar eystra. Sömuleiðis boðaði Þórsnesgoði, Jónína K. Berg, sitt fólk til spjalls og umræðna um voran sið í febrúar. Um haustjafndægur stóð hún fyrir blóti í Einkunnum í Borgarfirði. Sumarblóts efndi svo Vestfirðingagoðinn, Eyvindur Eiríksson, til við sjó við Arnardal í Skutulsfirði í júlí.

Dansk-íslenzka víkingatríóið Kráka, sem sótti okkur heim skömmu fyrir síðasta allsherjarþing, kom og skemmti okkur aftur með hljóðfæraleik sínum og söng á þingblótinu.

Barnastarf félagsins hefur ekki látið fremur dræma þátttöku á sig fá, heldur halda þau Árni Einarsson og Rún Knútsdóttir starfinu ótrauð áfram fyrsta laugardag hvers mánaðar. Þau fáu börn, sem notfæra sér þetta tilboð, koma aftur og aftur!

Allsherjargoðinn efndi til „samræðna um vorn sið“ í nóvember sl. Um var að ræða „óformleg fræðsluerindi um eðli og inntak hins forna átrúnaðar þar sem hann rakti kenningar og hugmyndir manna frá ýmsum tímum, allt frá ritum rómverjans Tacitusar fram á okkar daga“. Ekki var aðsóknin svo sem til vandræða, en þeir sem mættu bættu verulega við sig þekkingu.

Ýmsir forsvarmenn félagsins hafa haldið fyrirlestra víðs vegar, án þess að af þeim fari miklar sögur. Er þar aðallega um skóla að ræða, en ástæða er til að nefna sérstaklega kynningu allsherjargoðans í Bókasafni Kópavogs í marz sl. Fyrirlesturinn var einn margra um hin ýmsu trúarbrögð. Mæting var góð og áhugi áheyrenda mikill.

Þá er ástæða til að nefna tvo spennandi framtíðarviðburði, sem auglýstir hafa verið í Vorum sið. Annars vegar fyrirhugað námskeið þeirra félaganna Hilmars Arnar og Steindórs Andersen um „rætur rímnanna og fornkvæðin“ í næsta mánuði. Hins vegar erindi Ingunnar Ásdísardóttur um Frigg og Freyju 11. nóvember nk.

Leiguhúsnæðið okkar í Síðumúla 15 hefur reynzt hið ágætasta húsnæði, en sá galli er á gjöf Njarðar, að það rúmar ekki nema 40-50 manns. Þ.a.l. þarf að flytja allar stærri samkomur annað, eins og fram hefur komið. Þetta verður þó að duga okkur um sinn, eða þangað til hof okkar eða félagsheimili verður tekið í notkun. Á því verður eðlilega nokkur bið, því framkvæmdir eru ekki hafnar. Reyndar verður að segjast hreint út, að Reykjavíkurborg hefur verulega reynt á langlundargeð okkar mánuðum saman, þannig að enn höfum við ekki fengið í hendur óyggjandi, undirskrifað plagg þess efnis, að við eigum lóð undir fyrirhugaðar byggingar. Nú hefur okkur enn verið lofað endanlegri staðfestingu lóðar í Öskju-hlíð í næstu viku og er það hald manna, að nú sé loks ástæða til að trúa á efndir.

Það hlýtur að vera deginum ljósara, að ekki förum við að teikna, hanna og skipuleggja framkvæmdir á lóð, sem við eigum ekki með fullri vissu. Tíminn hefur verið notaður til ýmiss konar undirbúningsvinnu. Í Reykjavík var haldinn umræðu- og kynningarfundur um byggingaráformin í marz og á Egilsstöðum í maí. Fjölmenni var ekki fyrir að fara, en góðar umræður urðu og mikil andagift sveif yfir vötnunum. Í því sambandi er rétt að geta þess, að Vor siður hefur undanfarna mánuði birt nokkra pistla um þetta efni, eftir ritstjórann og allsherjargoðann.

Ekki er því að neita, að seinagangur borgaryfirvalda er frekar niðurdrepandi, en á meðan getum við glaðzt yfir vaxandi hofssjóði. Hann mun nú nálgast 80 milljónir og vex jafnt og þétt, þannig að fjármagn er ekki vandamálið. Nú, ekki er það heldur verra, að geta notið ýmiss konar tilboða félagsins á meðan á biðinni stendur. Þegar á heildina er litið og Kafka-kerfi höfuðborgarinnar látið hafa sinn gang, verður að segjast, að ástand mála er með bezta móti í Ásatrúarfélaginu. Það hefur áreiðanlega aldrei verið betra.

Reykjavík, 28. október 2006,
til árs og friðar,

Óttar Ottósson, lögsögumaður.