Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins 2023 verður haldið í hofinu í Öskjuhlíð laugardaginn 4. nóvember kl 14:00. Allir félagar Ásatrúarfélagsins eiga rétt til setu á allsherjarþingi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Atkvæðisréttur og kjörgengi miðast við 18 ára aldur.
Dagskrá:
1. Skýrsla lögréttu borin upp til umræðu og staðfestingar.
2. Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar.
3. Lagabreytingar og aðrar tillögur.
4. Kosning í lögréttu.
5. Kosning skoðunarmanna reikninga, í nefndir og í aðrar trúnaðarstöður.
6. Önnur mál.
Eftirfarandi lagabreytingatillaga (sjá texta fyrir neðan) verður lögð fram á allsherjarþingi félagsins. Flytjandi tillögunnar er Guðmundur Rúnar sem er ritari Ásatrúarfélagsins. Hún er lögð fram í samráði við lögréttu og með samþykki hennar. Nánari greinargerð, rökstuðningur og skýringar fylgja í greinargerð (sjá hlekk á PDF skjal neðst í þessum pósti), og þar einnig samfelldur texti á lagagreinum eftir breytingu.
Nánari upplýsingar verður að finna á heimasíðu félagsins, www.asatru.is, og eru félagar hvattir til að kynna sér þær.

Um lagabreytingartillögu:
Við fyrstu málsgrein 5. greinar laga félagsins, á milli “… og tillögurétt.” og “Atvæðisréttur og kjörgengi …” bætist við ný svohljóðandi setning: Seturéttur skal miðast við félagatal eins og það er fimm dögum fyrir allsherjarþing.
Aftan við síðari málsgrein 25. greinar starfsreglna bætist við ný setning: Óska skal eftir framboðum stjórnarmanna og varastjórnarmanna til Lögréttu í auglýsingunni.
Brott fellur úr 28. grein starfsreglna: Kosning í lögréttu eftir tilnefningu fundarmanna skal vera skrifleg ef einhverjir fundarmanna óska þess.
Þess í stað hefst 28. greinin á: Framboðum til lögréttu skal skila skriflega til kjörnefndar í síðasta lagi viku fyrir allsherjarþing. Formaður kjörnefndar greinir allsherjarþingi frá þeim framboðum sem borist hafa. Sé ekki sjálfkjörið í stjórn skal kosning vera skrifleg.
Ný málsgrein bætist aftast í 28. grein starfsreglnai:
Þriggja manna kjörnefnd starfar í aðdraganda allsherjarþings og skal hún sjá um undirbúning og framkvæmd kosninga á allsherjarþingi. Viðkomandi einstaklingar mega ekki sjálfir vera í framboði til setu í lögréttu. Skulu tveir kjörnefndarmenn vera kosnir á allsherjarþingi en einn valinn af lögréttu. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.