Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2009

Fundargerð Allsherjarþings 2009 hefur ekki verið skráð í tölvu en skýrsla lögréttu, sem flutt var á fundinum, fylgir hér á eftir.


Skýrsla lögréttu fyrir starfsárið 2008 til 2009

Þegar skattframtali 2007 var skilað til skattstjóra var ítrekuð ósk félagsins um að það væri undanþegið skattskyldu sem trúfélag. Við álagningu féllst skattstjóri ekki á þessi rök félagsins og lagði á það tekjuskatt að fjárhæð rúmar 13 millj. kr. Skipt var um endurskoðanda í byrjun starfsársins og KPMG beðið um að taka félagið að sér. Þeir byrjuðu vel, því með bréfi, dags. 20. janúar 2009 var ítrekuð sú skoðun félagsins að það væri undanþegið skattskyldu sem trúfélag og var sú skoðun staðfest af hálfu skattstjóra með bréfi 27. janúar sl. og þar með var 13. milljóna kr. skuldin felld niður.

Þessu ber að fagna! Eins og kunnugt er var mál Ásatrúarfélagins gegn ríkinu vegna mismununar á greiðslu sóknargjalda fyrst kynnt fyrir dómstólnum með ítarlegu bréfi dagsettu hinn 23. apríl 2008 og var það gert í því skyni að rjúfa sex mánaða frest sem aðili dómsmáls hefur til að leggja mál fyrir mannréttindadómstólinn. Því bréfi var svarað með bréfi dómsins dags. 9. júní 2008 og veittur sex mánaða frestur til að skila endanlegu erindi og gögnum. Hið eiginlega erindi með viðeigandi gögnum er dagsett hinn 8. desember 2008.

Erindinu var svarað með bréfi dagsettu 3. febrúar 2009. Nú eru tveir kostir í stöðunni: Annar er sá að málinu verði vísað frá eftir nánari athugun. Hinn er þannig, að verði það ekki gert, verður íslenska ríkinu gefinn kostur á að skila greinargerð um málið, bæði form þess og efni. Ragnar Aðalsteinsson getur ekki gert sér neina grein fyrir hvenær næsta skef verður stigið hjá dómnum. Það getur verið alveg á næstu dögum eða á næstu mánuðum. Hann lætur félagið fylgjast með jafnóðum.

Flest ykkar bíða væntanlega eftir upplýsingum um hofbyggingarmálið. Í sannleika sagt er ekkert nýtt að frétta af því, sem ekki hefur verið sagt í Vorum sið. Allur vindur fór úr byggingarnefndinni eftir bankahrunið, þar sem umtalsverðir peningar töpuðust og ekki síður meintir bakhjarlar. Fundir hafa verið mikið færri en áður og aðeins tekin sú ákvörðun að bjóða arkitektunum að útfæra teikningar sínar, endurgjaldslaust, betur eftir nákvæmari forskrift frá nefndinni og bjóða öðrum, sem það vilja, að vera með.

Síðsumars stóð til að vígja bautastein í minningu Sveinbjarnar Beinteinssonar, fyrsta allsherjargoða félagsins, á lóðinni okkar í Öskjuhlíð, eins og flestum ætti að vera kunnugt um. Steinninn er tilbúinn og efnið í púðann, undir steininn, er komið á staðinn. Það á aðeins á eftir að merkja lóðina af borginni. Lögsögumaður er búinn að vera í mjög góðum samskiptum við skrifstofustjóra borgarinnar síðan í sumar, en ekki náðist að afgreiða málið fyrir sumarfrí. Í ágústlok var haldið áfram að nýju og lóðarmálið afgreitt frá borgarskrifstofu til borgarráðs eins og góðar vinnureglur segja til um. En viti menn, forseti borgarstjórnar sá ástæðu til að stöðva afgreiðslu málsins, og um leið formlega úthlutun lóðarinnar og vísaði henni til framkvæmda- og eignaráðs, þar sem hann er sjálfur formaður. Ástæðan er sögð vera sú, að hann er ekki sáttur við götuheitið. Lögsögumaður og allsherjargoði nú að reyna að finna skýringu á þessu.

Lögrétta fjallaði um neyð fjölskyldna í kreppuástandinu og hvernig Ásatrúarfélagið gæti komið til móts við félaga sína. Lögsögumaður fékk lista hjá reyndum félagsráðgjafa um stofnanir, sem aðstoða fólk í neyð. Neyðaraðstoð hefur verið innt af hendi í örlitlum mæli í gegnum goðana.

Lögrétta ákvað að goðar skyldu skiptast á um að mæta reglulega á opið hús. Það hefur auðgað félagsstarfið. Höfuðblótin fjögur voru haldin eins og lög félagsins gera ráð fyrir, ásamt þorrablóti, með glæsilegum skemmtiatriðum. Félagið hefur greitt matinn á höfuðblótunum niður um 500–1000 kr. á síðasta starfsári til að auðvelda félögum að sækja þau.

Flestir goðar hafa verið verið með blót, hver í sínu héraði; þau Árni á Akureyri, Baldur á Austurlandi, Eyvindur á Vestfjörðum, Jóhanna í Kjósinni og Jónína á Vesturlandi. Ásatrúarfélagið hélt samtímis, landvættablót í öllum landsfjórðungum 1. desember 2008, Íslandi og öllum Íslendingum til heilla.

Félagsstarfið hefur verið með ágætum á starfsárinu. Ketill Larsen veitti krökkum tilsögn í leiklist og töfrabrögðum í Síðumúlanum í vor. Félagskonur hafa stundað refilsaum á opnu húsi og Jóhanna Harðardóttir kenndi fatasaum að hætti víkinga. Skógræktarferð var farin í Heiðmörk í byrjun júní, og eins hélt víkingahljómsveitin Krauka tónleika í Síðumúlanum í sama mánuði. Í septemberlok ákvað lögrétta að setja auglýsingar í Ríkisútvarpið á samtengdum rásum 1 og 2, um að allir gætu sótt opið hús í Síðumúlanum á laugardögum. Aðsókn hefur verið með ágætum svo ákveðið var að hætta að auglýsa í mánuð og sjá til hvort auglýsingarnar væru að skila sér eður ei.

Nú vill ung félagskona, Ebba Unnsteinsdóttir, endurvekja bæði ungliða- og barnastarfið. Ég hvet alla sem áhuga hafa að taka þátt í því að setja sig í samband við Ebbu.

Ásatrúarfélagið gerðist félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi og þiggur í staðinn tvö hefti af tímaritinu Skírni á ári. Ásatrúarfélagið er í góðu samstarfi við Samráðsvettvang trúfélaga.

Útgáfumál hafa legið niðri. Póstkortagerðin, sem var tilbúin fyrir rúmu ári síðan, var stöðvuð á elleftu stundu. Kynningarbæklingar, um félagið og athafnir, döguðu uppi hjá prófarkalesara. Lögréttu var boðið að kaupa svokallaða Vínlandspeninga til endursölu, mynt, sem Ásatrúarfélagið lét útbúa í kringum árið 2000. Meirihluti lögréttu sýndi myntinni ekki áhuga.

Lögsögumaður stakk upp á því að gefa ekki út fréttabréf fyrir þorrablótin vegna mikils kostnaðar og vegna þess hve stutt er á milli jóla- og þorrablóts, en því var hafnað af lögréttu. Það urðu ritstjóra fréttabréfsins nokkur vonbrigði því honum hefur reynst erfitt að fá félagsmenn til að skrifa í það.

Fræðsla um ásatrú rataði inn í námskrá í trúarbragðafræði, þ.e. kristinfræði hjá 9. bekk grunnskóla á skólaárinu. Því ber einnig að fagna, en betur má ef duga skal!

Opnuð hefur verið síða á facebook undir „Ungir heiðingjar“ og einnig nú nýlega „Ásatrú“.

Forn Siðr í Danmörku hefur nýlega opnað glæsilegan grafreit í Óðinsvéum. Félagið hefur óskað þeim til hamingju með það.

Félögum Ásatrúarfélagsins fjölgaði um rúmlega 100 á starfsárinu, þrátt fyrir að töluverður fólksflutningur okkar fólks hafi verið til útlanda vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Á síðasta allsherjarþingi vorum við 1.252 en núna erum við 1.364, sem bendir til þess að eftir 5–6 ár verðum við komin á þriðja þúsundið.

Lögsögumaður hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í embættið áfram, síðara árið sitt í lögréttu, heldur starfa sem meðstjórnandi. Honum finnst heiðarlegra að láta af því embætti áður en kjörtímabilinu hans lýkur, svo hann geti sett nýjan lögsögumann inn í starfið, frekar en að hverfa á braut fyrirvaralaust.

Hann, þ.e. ég, vil nota tækifærið og þakka félagsmönnum fyrir ánægjulegt og fræðandi samstarf á liðnum árum og óska ykkur, og Ásatrúarfélaginu velgengni um ókomin ár.

Takk fyrir, Egill Baldursson