Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2008

Fundargerð Allsherjarþings 2009 hefur ekki verið skráð í tölvu en skýrsla lögréttu, sem flutt var á fundinum, fylgir hér á eftir.


Skýrsla lögréttu fyrir starfsárið 2007 til 2008

Góðir fundarmenn, velkomnir!

Enn vex félagatala Ásatrúarfélagsins. Við erum orðin 1.252. Okkur hefur fjölgað um 118 frá síðasta allsherjarþingi, og þá hafði okkur fjölgað um rúmlega 100 manns. Kjörnir voru tveir nýir stjórnarmenn, þau Alda Vala Ásdísardóttir sem er staðgengill lögsögumanns og Óttar Ottósson, ritari. Á þessu þingi rennur út kjörtímabil Egils Baldurssonar lögsögumanns, þess er hér talar; Garðars Guðnasonar meðstjórnanda og Rúnar Knútsdóttur gjaldkera. Við Garðar gefum kost á okkur áfram til stjórnarsetu, en Rún gefur aðeins kost á sér í varastjórn. Ég þakka henni enn og aftur fyrir mjög ánægjulegt samstarf.

Það eru tvö mál sem rísa hæst á þessu starfsári, dómsmálið og hofbyggingin. Félagið leitaði eftir því við Ragnar Aðalsteinsson hrl., að hann skoðaði það, að fara með mál okkar gegn ríkinu vegna verulegs aðstöðumunar trúfélaga hér á landi. Ragnar vildi taka sér tíma til að fara yfir málið og sagðist jafnframt áskilja sér rétt til að hafna þessu ef honum litist ekki vel á horfur í málinu. Hann sendi greinargerð og beiðni um fyrirtöku til Strassburg, og á óvenju stuttum tíma var komið málsnúmer, og virðist nú sem að við fáum snögga meðferð á sama tíma og allur málarekstur fyrir dómstólnum er að lengjast. Ragnar og Katrín Oddsdóttir hafa verið að safna gögnum af miklu kappi og við vonumst eftir því að dagsetning á dómsfyrirtöku liggi fyrir innan skamms.

Byggingarlóðina okkar fengum við endanlega staðfesta í desember og kom hún úr grenndarkynningu um miðjan janúar sl., athugasemdalaust. Í kjölfarið kom saman byggingarnefnd skipuð Hilmari Erni, Agli Baldurssyni, Birni Brynjúlfi Björnssyni og Árna Hjartarsyni jarðfræðingi, sem er einmitt sérfróður um jarðlög Öskjuhlíðar. Á útmánuðum var lóðinni loksins þinglýst svo við gátum stigið næsta skref, sem var að finna hugmynd að útliti hofsins. Á lögréttufundi var byggingarnefndinni veitt ákveðin upphæð til að leita til nokkura arkitektastofa. Sumar stofurnar, sem við leituðum til, gáfu verkefnið frá sér vegna tímaskorts, þannig að á endanum fengu sjö stofur senda grófa þarfagreiningu til að vinna úr. Vegna yfirvofandi sumarleyfa var ákveðið að skiladagur yrði 1. september. Þá höfðu tvær stofur helst úr lestinni og aðeins fimm tillögum var skil að inn. Þegar þetta er skrifað hefur bygginarnefndin haldið marga fundi og notið frábærrar aðstoðar Hauks Viktorssonar, arkitekts. Vegnir hafa verið kostir og gallar hverrar byggingar fyrir sig beðið um kostnaðaráætlun úr tölvugreini Afls hf. sem er fyrrverandi Línuhönnun. Núna stendur til að semja spurningar handa arkitektunum um nánari útfærslur á teikningun um.

Hofsjóðurinn stóð í rúmum 94 milljónum þegar viðskipti stöðvuðust og bankinn fór í þrot. Þegar þetta er skrifað er óljóst hvort upphæðin hafi rýrnað, en hún var geymd í peninga bréfum Landsbankans. Fráfarandi gjaldkeri félagsins, Rún Knútsdóttir, mun gera nánari grein fyrir þeim á eftir. Vanda þarf sérstaklega til allra þátta í þessu óvissuástandi sem nú ríkir og ekki má láta kapp ráða forsjá. Ef við eigum ekki fyrir byggingunni, legg ég til að við bíðum átekta.

Flestir goðar blótuðu í héraði og er mér kunnugt um að starf Austurlandsgoða hafi verið með líflegasta móti í ár. Að sjálfsögðu voru höfuðblótin fjögur á sínum stað, ásamt þorrablótinu, og þar að auki blótaði allsherjargoði ásamt Kjalnesingagoða í laugardalnum fyrir viku síðan, eftir að hafa fengið margar beiðnir þar um. Goðar halda fundi mánaðarlega og skipuleggja þar fræðslustarf, blót og aðrar athafnir. Einnig verða goðar til viðtals á opnu húsi í framtíðinni, það verður nánar auglýst á heima síðunni. Haldnir voru ellefu lögréttufundir og þrír stjórnarfundir. Lögsögumaður er tengiliður félagsins við landsmenn, situr á skrifstofu félagsins allan daginn, og svarar símhringingum jafnt frá fréttamönnum, sem og öðrum, tekur á móti fólki af götunni sem er að forvitnast um félagið eða jafnvel að ganga í það. Félagið nýtur góðs af tölvubúnaði lögsögumanns og faxtækis. Það væri miður að hafa ekki mann á staðnum og félagið væri eins og draugafélag út á við.

Af nefndum félagsins er það að segja að mestur kraftur hefur verið í laganefndinni síðustu vikur og hefur hún auglýst breytingartillögur á lögunum í heild sinni, sem bornar verða undir allsherjarþingið á eftir. Rún Knútsdóttir, formaður nefndarinnar, mun gera nánari grein fyrir helstu breytingum. Félagsmenn nýttu sér ekki barnastarfið, svo ákveðið var á lögréttufundi í vor, að leggja það niður um sinn. Ef eindregnar óskir foreldra koma um að halda því áfram, verður því að sjálfsögðu sinnt.

Vor siður, fréttabréf félagsins, kom út fimm sinnum á starfsárinu og mér er ljúft og skylt að þakka Óttari Ottóssyni fyrir vandaðan prófarkalestur síðustu ár. Annað hefur ekki verið gefið út á vegum félagsins á þessu starfsári. Í vinnslu er þó nýr kynningarbæklingur fyrir Ásatrúarfélagið og vígsluvottorð fyrir athafnir goða. Einnig er í undirbúningi kennsluefni um ásatrú fyrir grunnskóla.

Upplýsingabæklingur á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur, um útfarasiði helstu trúfélaga á Íslandi, sem ég gat um á síðasta allsherjarþingi, kemur út í nóvember.

Heimasíðan hefur verið heimsótt rúmlega 20.000 sinnum á starfsárinu og rétt er að geta þess að búið er að opna spjallsvæði á netinu undir slóðinni www.asatru.is/spjall, þar getur heiðið fólk skipst á skoðunum og upplýst aðra.

Takk fyrir. Egill Baldursson.