Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2007

27. október 2007 kl. 14:00.
Allsherjargoði helgar þingið.
Lögsögumaður setur þing og gerir það að tillögu sinni að Þorvaldur Þorvaldsson verði kosinn fundarstjóri. Hildur Guðlaugsdóttir fundarritari.


1. Skýrsla stjórnar og nefnda.

Egill Baldursson las skýrslu stjórnar og fór yfir það helsta sem gerst hefur á starfsárinu. Vísað til hennar. [Sjá neðar á þessari síðu.]

Rún Knútsdóttir, formaður laganefndar, las skýrslu nefndarinnar og fór þess á leit við þingið að nefndin fengi að starfa áfram. Markmið nefndarinnar er að skila tillögum að lagabreytingum fyrir næsta þing. Vísað er í skýrslu.  

Jónína K. Berg las skýrslu Samráðsvettvangs trúfélaga í fjarveru Óttars Ottóssonar. Það félag var formlega stofnað 22. nóv 2006, en Ásatrúarfélagið kom að undirbúningi þess. Vísað í skýrslu.


2. Ársreikningar Ásatrúarfélagsins

Sveinn Aðalsteinsson lagði fram ársreikninga félagsins. Reikningar félagsins lágu frami við upphaf fundar. Reikningar voru þrískiptir, ársreikningur Ásatrúarfélagsins, ársreikningur Hörgs sem er í eigu Ásatrúarfélagsins og samstæðu reikningar félaganna. Efnahagsreikningur Ásatrúarfélagsins stendur í 78 milljónum. Eftir að Sveinn svaraði fyrirspurn frá Valgerði um hvernig peningar félagsins væru ávaxtaðir, voru reikningar bornir upp til samþykktar eða synjunar. Voru þeir samþykktir með 34 atk. 2 greiddu á móti. Vísað er í ársreikning.


3. Kosning í stjórn og varastjórn – Kosning skoðunnarmanna reikninga

Framboð í stjórn: Alda Vala Ásdísardóttir, Ólafur Sigurðsson, Óttar Ottósson, Sveinn Aðalsteinsson. Alda Vala og Óttar voru kjörin til starfa í nýrri stjórn. Framboð í varastjórn: Halla Arnardóttir, Lára Jóna Þorsteinsdóttir, Ólafur Sigurðsson, Sigurbjörg Guðmundsdóttir. Lára Jóna er fyrsti varamaður í nýrri stjórn og Ólafur Sigurðson annar varamaður. Þórunn Brandsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson voru valin til atkvæðatalninga. Skoðunarmenn reikninga eru: Daníel Engilbertsson og Valgerður. Jónina K. Berg þakkar fráfarandi stjórn og óskar nýrri velfarnaðar í starfi. Hanna og Hildur þökkuðu samstarfið.


4. Önnur mál

Hilmar Örn fór yfir lóðarmál með Magnúsi Jenssyni sem varpaði upp frumdrögum af hofi á núverandi / tilvonandi lóð. Tómas gerði athugasemd við staðsetningu dómhrings og árétti að huga bæri vel að öllum staðsetningum helgiathafna. Magnús lagði áherslu á að aðeins væri um frumdrög og afstöðumynd að ræða.

Árni Einarsson fór fram á að allsherjarþing samþykkti það að hann yrði goði. Árni var samþykktur af lögréttu í vor. Árni mun taka sér nafnið hofgoði og vísar með því til uppruna síns.

Egill leggur til að allsherjargoði fari á launaskrá Ásatrúarfélagsins. Hann biður allsherjarþing um umboð til þess að taka þetta upp í lögréttu. Allsherjarþing samþykkti það. Árni bar upp tillögu þess efnis að hluti innkomu tekna færi í að reka einstakar nefndir. Var því vísað til lögréttu.

Þingi slitið 17:20.
 

Ársskýrsla stjórnar Ásatrúarfélagsins 2007

Góðir fundarmenn.

Ásatrúarfélagið varð 35 ára í vor og er í stöðugum vexti. Félagsmenn eru nú 1134 og hefur þeim fjölgað um 103 á starfsárinu.

Ný stjórn tók við störfum á síðasta hausti og bar þar helst að fyrrverandi lögsögumaður Óttar Ottósson náði ekki kjöri í aðalstjórn en vann hins vegar ötullega að félagsstarfinu sem annar varamaður. Í hans stað kom hins vegar staðgengill hans úr fyrri stjórn, sá sem hér talar. Áfram sátu Hildur Guðlaugsdóttir ritari, sem kveður stjórnina nú eftir mjög ánægjulegt samstarf sl. tvö ár svo og Sveinn Aðalsteinsson gjaldkeri. Hann er einnig að ljúka sínu síðara ári á kjörtímabili, en hann gefur áfram kost á sér til stjórnarsetu. Nýir stjórnarmenn voru Rún Knútsdóttir, staðgengill lögsögumanns, og Garðar Guðnason, meðstjórnandi, einnig kappsfullur vefsíðustjórnandi. Fyrsti varamaður var svo Hanna Hlöðversdóttir. Starfstímabili þeirra Hönnu og Óttars líkur núna en Óttar gefur kost á sér áfram til stjórnarsetu. Allt þetta fólk hefur starfað að dugnaði og þakka ég því hér með innilega fyrir samstarfið.

Sjö lögréttufundir voru haldnir á árinu og sjö stjórnarfundir. Endurvaktar voru nefndir og aðrar stofnaðar. Ber þar helst að nefna:
  1. Laganefndina, sem kynnir róttækar breytingartillögur að nýjum lögum félagsins á eftir. Það á ekki að kjósa um ný lög, heldur mun fara fram kynning á helstu breytingatillögunum. Að tillögu lögsögumans, var Rún Knútsdóttir, staðgengill hans og laganemi á fjórða ári, sett í formannssæti laganefndarinnar.
  2. Ungliðastarfið, sem einnig er undir stjórn Rúnar. Ungliðarnir hafa verið með mjög öflugt starf síðastliðna mánuði.
  3. Barnastarfið, undir stjórn Árna Einarssonar og Rúnar Knútsdóttur.
  4. Rímnafélagið Braga. Árni varð við beiðni undirritaðs um að stjórna og æfa rímnafélagið Braga, sem starfar innan Ásatrúarfélagsins og hefur skemmt á blótum félagsins. Þess skal getið að títt nefndur Árni Einarsson óskar eftir stuðningi ykkur á eftir til að verða goði, en hann var einróma samþykktur sem slíkur á lögréttufundi þann 23. maí. sl.
  5. Blótnefnd. Hún starfar án formanns en léttir á stjórnarmönnum, aðallega sumum, sem þessi mál hvíldu ávallt á. Þeir sem telja sig eiga erindi í nefndina mega setja sig í samband við lögsögumann.
  6. Byggingarnefnd. Þessi nefnd hefur enn ekki tekið formlega til starfa og kemur það til af því að dráttur varð á endanlegri staðsetningu lóðarinnar eftir að flugmálastjórn hafnaði þeim stað sem okkur var fyrst ætlaður. Var þá komið langt fram á vor og stutt í sumarfrí.
Í ágúst áttu lögsögumaður og allsherjargoði, ásamt Magnúsi Jenssyni arkitekt, sem unnið hefur allar mælingar og vinnuteikningar sem þurfa að liggja fyrir, ágætan fund með Vilhjálmi þv. borgarstjóra sem ýtti málinu úr vör á nýjan leik. Sama dag birtist frétt við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að Borgin stæði við sýnar yfirlýsingar við Ásatrúarfélagið. Í septemberlok hittu lögsögumaður og allsherjargoði, borgarstjóra á nýjan leik og handsöluðu þeir nýja lóð sunnan í Öskjuhlíð skammt frá Nauthól.

Allsherjargoði mun gera nánari grein fyrir stöðu lóðarmála hér á eftir.

Sú nýbreytni, að birta útdrátt af stjórnar- og lögréttufundum á heimasíðunni, félagsmönnum til upplýsingar, var samþykkt á fyrsta lögréttufundi starfsársins.

Félagið fékk almennt jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum og bar dómsmálið þar hæst. Eftir úrskurð héraðsdóms þ. 28. nóvember 2006 var málinu áfrýjað til Hæstaréttar þ. 26. febrúar 2007. Það var vitað frá upphafi að það var á brattan að sækja, en dómsniðurstaða Sigríðar Ingvarsdóttur um þá mismunun sem felst í jöfnunarsjóði sókna, vakti nokkrar vonir um að Hæstiréttur tæki af skarið eins og gerst hefur í nokkrum málum frá árinu 1999, þannig að ekki þyrfti að reka málið alla leið til mannréttindadómstóls Evrópu. Því miður var dómsniðurstaða Hæstaréttar 25. október á þá leið að Þjóðkirkjan hefði lögformleg forréttindi umfram önnur trúfélög, og að auka greiðslur til hennar feli því ekki í sér brot á jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrárinnar. Lögfræðingar félagsins höfðu tjáð okkur að þetta væri væntanleg niðurstaða, en að í henni fælist einnig ákveðin skilaboð til löggjafans, eins og glögglega kemur fram í séráliti Hjördísar Hákonardóttur. Ég vil benda öllum á að kynna sér dómsniðurstöðuna á vef Hæstaréttar. Nú tekur við samvinna við önnur trúfélög sem hafa beðið átekta, en nokkur þeirra hafa óformlega lofað því að ganga í bandalag með okkur, verði málinu áfrýjað til Strassborgar.

Ekki var setið auðum höndum á starfsárinu. Ráðist var í að gefa út Hávamál í tveimur glæsilegum útgáfum sem orðnar eru að veruleika og félaginu vonandi til mikils sóma. Prentaðar voru 1500 bækur af ódýrari útgáfunni og allar bundnar inn, en af handbundnu útgáfunni voru prentuð 99 tölusett eintök sem bundin eru í úrvals geitaskinn. Undirritaður vill þakka Eyvindi P. Eiríkssyni Vestfirðingagoða, sérstaklega fyrir að bregðast skjótt við, þegar hann fór þess á leit við hann að taka saman skýringar og rita formála að útgáfunni.

Einnig var ákveðið að gefa út tækifæriskort og dagatal. Á lögréttufundi 24. júlí sl. var ákveðið að fresta útgáfu dagatalsins enda engin vinna komin í gang með það. Hins vegar voru póstkortin langt komin, búið að velja og litgreina myndir og aðeins eftir að finna viðeignadi texta með. Óttar Ottósson og Jóhannes Levy voru fengnir til að ljúka því máli.

Lögsögumaður og allsherjargoði létu í vetur lagfæra villu á legsteini Sveinbjarnar Beinteinssonar, fyrsta allsherjargoða félagsins. Einnig er verið að undirbúa að reisa minningarmark (bautastein), við Dragháls, í minningu hans. Erfitt hefur reynst að fá skriflegt bréf um landskika sem Ásatrúarfélagið óskaði eftir frá landeiganda, en framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en slíkum pappír hefur verið þinglýst. Þessi vinna hefur mest mætt á Þórsnessgoða, Jónínu K. Berg.

Ásatrúarfélagið hefur tekið þátt í samstarfi Samráðsvettvangs trúfélaga og hefur Óttar Ottósson aðallega sótt þá fundi fyrir félagið. Jónína K. Berg mun lesa skýrslu hans hér á eftir.

Félagið fékk reit undir skógrækt í vor sem leið, ofan við fyrsta þingstað Íslendinga, Þórsnes í Heiðmörk. Megi Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa bestu þakkir fyrir það. Farin var ein gróðursetningarferð í sumar og reiturinn skipulagður. Alls voru gróðursettar um 280 plöntur, birki, lerki, fura og greni.

Í septemberlok var haldið höfuðborgarmót Norðurlandanna á Íslandi og 85 ára afmæli Norrænafélagsins og var goðafræðin þema mótsins. Allsherjargoðinn setti athöfnina með helgun í Öskjuhlíð. Flutt voru ávörp og notaði Ásatrúarfélagið tækifærið og gaf frú Vigdísi Finnbogadóttur eintak nr. 1 af handbundnu útgáfunni af Hávamálunum. Daginn eftir var svo hátíð á Óðinstorgi og voru Hávamál m.a. seld þar.

Að sjálfsögðu voru höfuðblótin fjögur haldin á hefðbundnum tímum og aðföng keypt á mjög sanngjörnu verði af veisluþjónustunni Veislunni á Austurströnd. Þorrablótið var á sínum stað og var vel mætt á blótin öll. Ýmsir frábærir lista- og íþróttamenn komu við sögu, en það fer ekki á milli mála að Hjörleifur Valsson fiðlusnillingur og félagar hans, vöktu mesta athygli.
Landsfjórðungagoðar héldu einnig margir blót í héraði. Má þar telja Jóhönnu Harðardóttur Kjalnesingagoða, Eyvind P. Eiríksson Vestfirðingagoða, Baldur Pálsson Austfirðingagoða og Jónínu K. Berg Þórsnessgoða.

Til stóð að Haukur Halldórsson héldi blót þegar Þórsstyttan við Straum yrði afhjúpuð en ekki hefur enn verið steyptur pallur undir hana svo það frestast um sinn.

Vefsíða félagsins er uppfræð reglulega og þakkar undirritaður sérstaklega gott samstarf við Garðar Guðnason. Félagið fær allmargar fyrirspurnir í gegnum síðuna og svarar Óttar Ottósson þeim erlendu en undirritaður þeim innlendu eða fær til þess sér fróðari menn eftir atvikum. Heimsóknir á heimasíðuna á stjórnarárinu voru rúmlega 20.000 talsins.

Fréttabréfið Vor siður kemur út fimm sinnum á ári og er undirrituðum kunnugt um að vitnað hefur verið í það utan félags í tvígang á starfsárinu; annars vegar birtist grein eftir ritstjóra í stéttarfélagsblaði og hins vegar kom í vor úrdráttur úr pistli lögsögumanns í Fréttablaðinu.

Auglýstur símatími félagsins er á týs- og þórsdögum milli 14 og 16, en reynslan sýnir að fæstir kynna sér það heldur hringja þegar þeim hentar best sjálfum. Þá kemur sér vel að lögsögumaður situr við vinnu sína á skrifstofunni allan daginn og tekur símann alltaf þegar hann hringir. Einnig sinnir hann þeim sem líta við á förnum vegi.

Undirrituðum er ekki kunnugt um að auglýst laugardagsopnun í Síðumúlanum hafi fallið niður á starfsárinu, en einu sinni var lokað kl. 15 í stað 16 vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Hins vegar hefur opnunin lagst á færri hendur en efni stóðu til.

Siðareglnabók á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur á að koma út í ár. Þar verða tíundaðir helstu siðir hvers trúfélags á Íslandi fyrir sig.

Vegagerðin hefur samþykkt Hofsmerki (vegvísi) sem Guðrún Kristín Magnúsdóttir hannaði.

Húsnæðið í Síðumúlanum hefur verið leigt út fimm sinnum og skapað svolitlar tekjur en hofsjóðurinn vex ósnertur meðan ekkert er byggt.

Takk fyrir,
Egill Baldursson.