Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2012

Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins, 27. október 2012
Þing sett kl 14:00.
llsherjargoði helgaði og setti þingið. Allsherjargoði stakk upp á Þorvaldi Þorvaldssyni sem fundarstjóra, sem gekkst við því. Allsherjargoði stakk upp á Sigurlaugu Lilju Jónasdóttur sem ritara, sem gekkst við því.


Skýrsla lögréttu borin upp til umræðu og staðfestingar.

Hallur Guðmundsson, lögsögumaður, las skýrslu lögréttu. Vísað er til hennar. Þorvaldur lagði til að umræða og samþykkt á skýrslu lögréttu og reikningum færi fram á sama tíma. Engin mótmæli voru við því. Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar. Hulda Sif Ólafsdóttir, gjaldkeri, fór yfir reikninga félagsins. Vísað er til þeirra. Óttar Ottósson spyr um annan rekstrarkostnað og bendir á að burðargjöld fyrir fréttabréfið séu það há, að þessi tala ætti að vera um 40-50 sinnum hærri. Hilmar Örn Hilmarsson útskýrir að það eigi heima undir öðrum lið. Óttar spyr hvar fréttabréfið sé í reikningunum. Hulda segir að þetta eigi að vera inni í rekstrarkostnaði. Fundargestir fundu svo umræddan lið og bent var á hann. Bjarki Karlsson tók til máls og vakti upp umræðu um ímynd félagsins og þrjár blaðagreinar sem Jóhanna Harðardóttir hefur skrifað. Fyrsta greinin fjallaði um útfarir og það offors sem er komið í útfararbransann , önnur greinin um siðfestufræðslu sem félagið býður upp á, og sú þriðja um „löglegt en siðlaust misrétti“. Bjarki segir marga sem hafa lesið þessar greinar finna til samkenndar með félaginu eftir lestur þessara greina og séu sammála. Bjarki kvað síðan um og fyrir Jóhönnu og færði henni penna að gjöf frá fráfarandi Lögréttu. Sigurbjörg Guðmundsdóttir tók til máls og vakti athygli á sölu á hæðinni á Granda sem var í eign Ásatrúarfélagsins. Hún vill fá málið uppgert og segir að þarna hafi verið framinn mikill glæpur. Hún vill meina að allir hafi verið varaðir við þegar verðið á Granda hafi verið að fara að hækka, en hæðin hafi verið seld á „skít og kanil.“ Þorvaldur bendir Sigurbjörgu á að nú eigi að vera til umræðu ársskýrsla um reikninga félagsins undanfarin ár og það sé ekki hægt að fara svona langt aftur í tímann. Það sé ekki hægt að sölsa enn eitt allsherjarþingið undir þessa umræðu. Ekki voru fleiri athugasemdir. Ársskýrslan og reikningar voru samþykktir samhljóða með handauppréttingu. Skýrsla lögréttu var samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Lagabreytingar og aðrar tillögur

Jóhanna Harðardóttir gerði grein fyrir tillögum til lagabreytinga. Þær voru eftirfarandi:
Lög, 4. grein var:
Aðrir trúarlegir embættismenn félagsins nefnast goðar. Skulu þeir tilnefndir af allsherjargoða og lögréttu og hafa stuðning tólf félagsmanna. Allsherjarþing stað festir skipun goða og gildir hún til fimm ára.
Lög, 4. grein verði:
Aðrir trúarlegir embættismenn félagsins nefnast goðar. Skulu þeir tilnefndir af allsherjargoða og lögréttu og gangast undir leiðsögn allsherjargoða eða staðgengils hans í tvö ár til reynslu. Allsherjarþing staðfestir skipun goða er reynslutíma er lokið og gildir hún til fimm ára. Skal hver goði hafa stuðning 30 félagsmanna.

Starfsreglur, 11. gr. var:
Lögrétta skal skipa einn goða til að gegna embætti allsherjargoða í forföllum hans.
Starfsreglur, 11. gr. verði:
Lögrétta skal skipa einn goða til að gegna embætti allsherjargoða í forföllum hans í samráði við allsherjargoða.
 
 

Starfsreglur, 13. gr. var:
Sérhver félagsmaður eldri en 25 ára og yngri en 75 ára getur boðið sig fram til allsherjargoða að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1. Hafa óflekkað mannorð, vera bús síns ráðandi og lögráða.
2. Hafa skýra hugmynd um það í hverju embætti allsherjargoða er fólgið.
3. Hafa haldgóða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
4. Hafa haldgóða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um trúfélög.
5. Hafa skriflegan stuðning 36 félagsmanna.
 
Starfsregur, 13.gr. verði:
 Starfandi goðar sem setið hafa í a.m.k. fimm ár geta boðið sig fram til allsherjargoða að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1. Hafa óflekkað mannorð, vera bús síns ráðandi og lögráða.
2. Hafa skýra hugmynd um það í hverju embætti allsherjargoða er fólgið.
3. Hafa haldgóða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
4. Hafa haldgóða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um trúfélög.
5. Hafa skriflegan stuðning 50 félagsmanna.

Starfseglur, 18. gr. var:
Við val á goða í embætti skal taka mið af eftirfarandi:
1. Að hann hafi óflekkað mannorð, sé bús síns ráðandi og lögráða.
2. Að hann hafi skýra hugmynd um það í hverju embætti goða sé fólgið.
3. Að hann hafi góða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
4. Að hann hafi góða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um skráð trúfélög.

Starfsreglur, 18. gr. verði:
Við val á goða í embætti skal taka mið af eftirfarandi:
1. Að hann sé eldri en 30 ára
2. Að hann hafi óflekkað mannorð, sé bús síns ráðandi og lögráða.
3. Að hann hafi skýra hugmynd um það í hverju embætti goða sé fólgið.
4. Að hann hafi góða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
5. Að hann hafi góða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um skráð trúfélög.

Starfsreglur, 19. gr. var:
Goði skal hafa skriflegan stuðning 12 félagsmanna, 18 ára eða eldri, og skulu þeir nefnast þingmenn hans. Skal goði leggja fram endurnýjaðan þingmannalista á allsherjarþingi að loknum fimm ára skipunartíma hans sækist hann eftir því að verða endurskipaður. Lögrétta úrskurðar um hæfi goðaefnis samkvæmt 18. gr. og gildi þingmannalista hans.

Starfsreglur, 19. gr. verði:
Goðaefni sem hlotið hefur tilnefningu allsherjargoða eða lögréttu og notið hefur tilsagnar allsherjargoða eða staðgengils hans skal sækja skriflegan stuðning 30 félagsmanna, 18 ára eða eldri, og skulu þeir nefnast þingmenn hans. Lögrétta úrskurðar um hæfi goðaefnis samkvæmt 18. gr. og gildi þingmannalista hans. Sækist goði eftir því að verða endurskipaður að loknum fimm ára skipunartíma getur hann sótt um endurskipun til lögréttu félagsins. Lögrétta úrskurðar hvort starfandi goði hafi uppfyllt skyldur sínar í starfi sækist hann eftir að verða endurskipaður. Allsherjarþing staðfestir endurskipan goða og telst allsherjarþing upphaf tímabilsins.

Starfsreglur, 22. gr. var:
Staða goða er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við deilumál og þrætur, sem ekki eru samboðnar virðingu hans, jafnt innan félags sem utan.
 
Starfsreglur, 22. gr. verði:
Staða goða er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við deilumál og þrætur, sem ekki eru samboðnar virðingu hans, jafnt innan félags sem utan. Goði sem sinnt hefur embætti a.m.k. 10 ár en er hættur störfum vegna aldurs eða veikinda, heldur virðingarheitinu goði án þess að sinna skyldum við embættisverk eða blóthald.

Hulda Sif spyr í sambandi við 22. grein, hvort það sé bara ef goði hættir störfum vegna aldurs eða veikinda að hann geti haldið goðaheitinu. Jóhanna segir að þau miði við að þetta sé bara eins og ef fólk fer á eftirlaun að það sé ennþá hluti af þessu samfélagi goðanna.

Óttar Ottóson nefnir 4 atriði: Hann furðar sig á fjölgun þingmanna, annars vegar þegar um goða er að ræða þá er stórt hlutfall fjölgunar þingmanna. Hilmar bendir á að félagsmönnum hefur fjölgað og þetta haldist í hendur við þá fjölgun. Óttar bendir einnig á 22. grein og biður um útskýringu hver sé hugmyndin með nýju ákvæði í 22. grein. Jóhanna svarar að goðastarfið sé þannig að það taki talsvert á. Hún skilji það vel að fólk vilji ekki standa í þessu fram í gráa elli, en fólk sem hafi sinnt starfi sínu lengi að þeir einstaklingar eigi að fá að halda áfram virðingarheiti sínu, goði, og þetta sé í raun virðingarvottur fyrir þá sem hafa unnið þessi störf fyrir félagið. Í þriðja lagi nefnir Óttar breytingar sem lagðar eru til við 4. grein og leggur til að þær séu felldar niður. Hann nefnir að fyrstu 9 greinarnar ættu að vera sem stuttorðastar. Allt sem sé lagt til að bætt sé við 4. grein sé þegar í 19. grein eða annarstaðar í tillögunum. Þetta náist allt saman með öðrum breytingum sem hér er lagt til og þá haldist fyrstu 9 greinarnar samt stuttar og lagorðar. Jóhanna bendir á að það „að gangast undir leiðsögn allsherjargoða eða staðgengils hans til reynslu“ komi hvergi annars staðar fram. Tómas V. Albertsson bendir á að þetta ætti að vera í reglum um goða en ekki í fyrstu megin grunnreglum félagsins, heldur varðandi starfsreglur goða í seinni dálki. Það sé rökréttara svo uppbygging laganna sé í jafnvægi.

Óttar kemur með þá dagskrártillögu að tekið væri 10-15 mín hlé svo hægt sé að ræða þetta og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Haukur Bragason kemur með mótrök að þetta sé lagabreyting og grunntexti í lögum um goða eða hvernig goðaefni verði goðar. Því fyrirkomulagi sé hugmyndin að breyta því þurfi að breyta textanum hvort sem er. Haukur sér ekki fyrir sér að þetta sé starfsregla heldur lög. Tillagan um að taka örstutt hlé var samþykkt með 19 atkvæðum á móti 5.

Eftir hlé gefur Þorvaldur orðið laust og hafi menn beinar breytingartillögur þá skuli menn koma með þær skriflega og sem fyrst. Lára Jóna Þorsteinsdóttir segir að það sé grundvallaratriði að hér séum við með lagabreytingu en ekki starfsreglubreytingu og hún styður að 4. grein standi eins og Jóhanna hafi sett hana fram. Hún segir grundvallaratriði að þetta séu lög en ekki starfsregla. Hanna Björk Hlöðversdóttir segir 4. greinina vera í miklu ósamræmi við aðrar sem koma á eftir og það þurfi að breyta henni. Óttar segir að þær breytingar sem lagðar séu til við 4. grein séu tvær, annars vegar að þingmönnum sé fjölgað, hinsvegar „goðaefni skuli gangast undir leiðsögn allsherjargoða eða staðgengils hans.“ Hann leggur til að þetta sé fellt niður, þetta komi fram annars staðar, í breytingartillögunum við 19. grein. Það sé auðvelt að skjóta því sem ekki kemur fram þar inn í 19. grein. 4. grein geti því staðið óbreytt en breytingarnar komi engu að síður fram í lögum. Halldór Bragason vill lýsa stuðningi við þessa grein eins og hún er, það sé ágætt að hafa í lögunum að það séu fastar reglur um þetta. Hulda Sif lýsir yfir stuðningi við greinina eins og lagt er til að henni sé breytt. Hallur Guðmundsson lýsir yfir stuðningi við þessar breytingar. Baldur Pálsson undirstrikar að tryggja lagalegan sess á bakvið goðana. Lögsóknir og annað gæti komið frá samfélaginu þar sem starfið er véfengt. Lögin þurfi því að vera skýr og einföld og hann leggur til að breytingarnar séu samþykktar. Óttar undirstrikar að hann hafi ekkert við þessar tillögur að athuga efnislega, en ef tillögurnar verði óbreyttar eins og stungið er upp á, þá muni hann greiða atkvæði á móti þeim. Jóhanna minnir aftur á að þessar breytingartillögur eru vinna goðahópsins sem hefur unnið þetta af alúð og hefur gert í mörg ár, og miða að því að gera umhverfi okkar öruggara, ekki einungis goðanna heldur allra meðlima félagsins. Ef þessar tillögur verði ekki samþykktar gæti verið bið á því að sambærilegar tillögur komi aftur.
 • Tillaga um breytingu á 4. grein laga var samþykkt með atkvæðum þorra fundarmanna gegn einu mótatkvæði.
 • Tillaga um breytingu á 11. grein laga var samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
 • Tillaga um breytingu á 13. grein laga var samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
 • Tillaga um breytingu á 18. grein laga var samþykkt með atkvæðum þorra fundarmanna gegn einu mótatkvæði.
 • Tillaga um breytingu á 19. grein laga var samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
 • Tillaga um breytingu á 22. grein laga var samþykkt með atkvæðum þorra fundarmanna gegn einu mótatkvæði.

Kosningar

Þrír aðalmenn skulu kosnir nú. Hulda Sif Ólafsdóttir og Böðvar Þórir Gunnarsson eru að ljúka 2 ára kjörtímabili sínu, en Halldór Bragason hafði gengið úr stjórninni áður. Áfram sitja Hallur Guðmundsson og Bjarki Karlsson. Sigurlaug Lilja Jónasdóttir og Lenka KováÅ•ová luku kjörtímabili sínu sem varamenn.

Halldór Bragason, Hrafnhildur Borgþórsdóttir, Hulda Sif Ólafsdóttir, Óttar Ottósson og Sigurlaug Lilja Jónasdóttir buðu sig fram til aðalstjórnar lögréttu. 32 tóku þátt í kosningunni. Atkvæði féllu svo:
 • Halldór 11 atkvæði
 • Hrafnhildur 19 atkvæði
 • Hulda 28 atkvæði
 • Óttar 11 atkvæði
 • Sigurlaug 27 atkvæði
Í aðalstjórn lögréttu voru því kosnar Sigurlaug, Hulda og Hrafnhildur.

Böðvar Þórir Gunnarsson, Halldór Bragason og Lenka KováÅ•ová gáfu kost á sér sem varamenn. 32 tóku þátt í kosningunni. Atkvæði féllu svo:
 • Böðvar 22 atkvæði
 • Halldór 17 atkvæði
 • Lenka 25 atkvæði
Í varastjórn lögréttu voru því kosin Lenka KováÅ•ová og Böðvar Þórir Gunnarsson.  Lenka er fyrsti varamaður með fleiri atkvæði, og Böðvar því annar varamaður.

Kosning skoðunarmanna reikninga, nefnda og í aðrar trúnaðarstöður.
Hilmar Örn Hilmarsson mælir með Jóhannesi Ágústssyni og Höllu Lúthersdóttur sem skoðunarmönnum reikninga. Þau gefa bæði kost á sér. Enginn annar gaf kost á sér og voru þau því sjálfkorin.
 

Önnur mál

Jóhanna Harðardóttir tekur til máls og ræðir mál félagsins fyrir mannréttindadómstólum og þjóðaratkvæðagreiðsluna um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni sem er nýyfirstaðin. Jóhanna vill kanna hug þingmanna, því þarna er búið að lögfesta misrétti. Hún sendi þingmönnum bréf og 17 svöruðu. 15 af þessum 17 sem svöruðu telja það að lagalegt umhverfi stuðli ekki að jafnrétti. Það sé athyglisvert. Jóhanna segir að það sé nokkuð ljóst að við munum ekki sækjaréttlæti með lögum en hún neitar að sætta sig við að vera annars flokks þegn. Hún vill stofna hóp sem vinnur að réttlæti í landinu. Hún lætur síðan blað ganga og hvetur fólk til að skrifa nafn sitt á blaðið ef þeir vilja vinna með henni í slíkum hóp. Að lokum minnir Jóhanna á haustblótið sem haldið er í kvöld.

Tómas V. Albertsson kemur með tillögu til þeirra sem eru í stjórninni, að næsta blót að ári verði ekki á sama kvöldi og Halloween er haldið. Það séu mjög margir sem eru að fara í Halloween partý og því séu færri sem mæti á haustblótið.

Hilmar Örn tekur til máls og kynnir Laufeyju Eyþórsdóttur sem hefur starfað á Ísafirði fyrir félagið og hefur verið stoð og stytta Eyvindar þar. Laufey Eyþórsdóttir tekur til máls og kynnir sig og það starf sem hún hefur sinnt fyrir vestan.

Bjarki Karlsson nefnir hugleiðingar sínar um stöðu félagssins í stjórnarskrá og lögum. Hann segir þetta með kosningarnar þurfi ekki að vera alslæmt og nefnir í því samhengi norska þjóðkirkjuákvæðið. Þar er þjóðkirkjan nefnd í stjórnarskrá og ríkinu skylt að vernda hana, en auk þess önnur trúar og lífsskoðunarfélög. Það dragi úr mikilvægi þjóðkirkjunnar út af fyrir sig þegar ákvæðið kveður á um önnur félög líka. Ef það tekst að fá önnur trúar- og lífsskoðunarfélög nefnd inn í stjórnarskránni líka, þá sé ástandið mun betra heldur en lítur út fyrir.

Eyvindur tekur til máls og ræðir um þjóðkirkjur, að þýðingin á orðinu eigi ekki að vera ríkiskirkja heldur alþýðukirkja – kirkja fyrir almenning. Þjóðkirkjuorðið sé því í raun og veru misskilningur.

Hallur Guðmundsson þakkar fyrir þingið og hlakkar til að vinna með nýrri lögréttu, auk þess að bjóða nýja lögréttumeðlimi velkomna.

Hilmar Örn Hilmarsson tekur til máls og segir að vegna tæknilegra mistaka hafi gleymst í fyrra að samþykkja að Jónína haldi goðastarfi sínu áfram og þingið endurnýi hennar umboð. Það er einnig komið að því að endurnýja umboð Baldurs. Þessi umboð voru bæði samþykkt samhljóða.

Hann talar einnig um hofbygginguna og að við höfum fengið leyfi til að byggja hana í áföngum. Helgidómurinn verður byggður fyrst, og seinna verður hægt að fara í að byggja tengibyggingu þar sem safnaðarheimili ofl. verður byggt. Magnús Jensson arkitekt sýnir nokkrar myndir af hofbyggingunni og fræðir fundargesti um helstu hugmyndir á teikniborðinu.

Þorvaldur segir síðan fundi slitið kl. 17:30.
Ritari: Sigurlaug Lilja Jónasdóttir