Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Allsherjarþing 2010

Þing sett kl. 14:00
Allsherjargoði helgaði og setti þingið. Stakk hann svo upp á Bjarka Karlssyni sem fundarstjóra, sem gekkst við því. Stungið var upp á Hauki Bragasyni, fráfarandi ritara lögréttu, sem fundarritara. Gekkst hann einnig við því.


Skýrsla lögréttu borin upp til umræðu og staðfestingar

Óttar Ottósson, lögsögumaður, las skýrslu lögréttu. Vísað er til hennar [sjá neðar á þessari síðu]. Ekki komu fram athugasemdir við skýrsluna og var hún staðfest með handauppréttingu. Seinna kom fram fyrirspurn frá Árna Einarssyni, hofgoða, um hvort nefndir á vegum félagsins þyrftu að bera öll nefndarstörf og hugmyndir undir lögréttu. Óttar svaraði því svo að nefndir sem á annað borð væru skipaðar af lögréttu hefðu traust hennar og því mikið frelsi innan ákveðins ramma. Hilmar Örn benti á samkvæmt lögum félagsins bæri lögréttu þó skylda til að taka ákvörðun um öll stærri mál.
 

Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar

Halldór Bragason, gjaldkeri, fór yfir reikninga félagsins. Vísað er til þeirra. Haukur Þorgeirsson bað um skýringar á hækkun kostnaðarliða og nefndi kostnað við blót og útgáfu fréttabréfsins Vors siðar. Halldór skýrði málið hvað varðaði aukinn blótskostnað með því að nefna bætta þjónustu goða, niðurgreiðslu blóta og fagmannleg og vönduð skemmtiatriði á blótum sem oft eru dýr en þótti Halldóri það í lagi. Halldór skýrði útgáfukostnaðinn með fjölgun félagsmanna, hendingu í afsláttarupphæðum á pósthúsi og með verðhækkun á ýmsum liðum í útgáfuferlinu. Egill Baldursson, meðstjórnandi, bætti við þessa umræðu að nýlega hefði lögrétta tekið þá ákvörðun að hætta útgáfu fréttabréfsins fyrir þorrablót og fækka því tölublöðum úr fimm í fjögur á ári. Þetta muni hafa í för með sér talsverðan sparnað í þeim lið. Tillaga kom úr sal þess efnis að fólki ætti að vera gert kleift að afþakka pappírseintök af Vorum sið, það gæti einnig sparað. Bentu aðrir úr sal á að netföng breytist títt og félagsmenn gætu þannig „týnst“ og ekki fengið eintak, hvorki rafrænt né inn um lúguna. Haukur Bragason, ritstjóri Vors siðar, svaraði því til að þetta hefðu hann og lögsögumaður rætt nýlega og stæði til að kynna þennan valkost fyrir félagsmönnum í næsta tölublaði. Lögsögumaður sagði svo að með forriti, sem er í smíðum fyrir félagið, verði þessi vinnsla auðveld.

Halldór lýsti yfir áhyggjum af væntanlegri hofframkvæmd og sagði þurfa 5000 félagsmenn til að standa undir hofi í líkingu við það sem fyrirhugað er. Hann varaði við því að félagið steypti sér í skuldir.

Hilmar Örn gerði grein fyrir stöðu hofbyggingar. Ræddi hann mikinn fjölmiðlaáhuga erlendis og það táknræna skref sem tekið var með afhjúpun minnisvarðans um Sveinbjörn Beinteinsson. Leyfi hefur fengist fyrir borunum og athugunum á klöppinni, en hugmyndir eru um að nýta klöppina sem náttúrulegt umhverfi í hofinu. Stefnan er nú á að byggja helgidóminn fyrst og láta félagsheimili bíða. Í þessari byggingu yrði lítil skrifstofa, aðstaða fyrir goða og geymslurými. Eitthvað af þessu mætti svo flytja til og annað nýta sem gang milli hofs og félagsheimilis þegar það svo rís. Hilmar telur yfirgnæfandi líkur á því að yfirvöld Reykjavíkurborgar muni opna fyrir þessa leið.

Andrea Ævarsdóttir spurði hvort allir gætu lagt inn á hofsjóð og í framhaldi af því spunnust umræður um hvort gera mætti sýnilegra að svo væri.

Halldór Bragason setti fram skriflega tillögu sem var samþykkt með 25 atkvæðum gegn einu. Var hún svohljóðandi:
Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins gerir það að tillögu sinni að lögrétta finni leið til að gera áhugafólki hérlendis sem erlendis kleift að styrkja félagið með fjárframlögum í hofsjóð.


Lagabreytingar

Engar tillögur um lagabreytingar höfðu borist fyrir tilskilinn tíma svo sá liður fundar féll niður.
 

Kosið í lögréttu

Þrjá aðalmenn þurfti að kjósa í stað tveggja vegna afsagnar Öldu Völu Ásdísardóttur. Egill Baldursson og Haukur Bragason gáfu ekki kost á sér til endurkjörs, en það gerði Halldór Bragason. Gáfu einnig kost á sér þau Böðvar Þórir Gunnarsson og Hulda Sif Ólafsdóttir. Fleiri framboð voru ekki og þessi þrjú því sjálfkjörin. Fundargestir hreyfðu engum mótmælum.

Tvo varamenn þurfti að kjósa. Haukur tók við fundarstjórn þar sem Bjarki Karlsson gaf kost á sér sem varamaður. Lenka KováÅ•ová gaf einnig kost á sér en ekki fleiri. Voru þau því einnig sjálfkjörin. Fundargestir hreyfðu engum mótmælum. Lagði Bjarki til að Lenka yrði 1. varamaður og hann 2. varamaður, sem var samþykkt.
 

Kosning skoðunarmanna reikninga, nefnda og í aðrar trúnaðarstöður 

Bjarki tók aftur við fundarstjórn. Gunnar Hallsson og Rún Knútsdóttir höfðu gefið kost á sér sem skoðunarmenn reikninga og var það samþykkt. Kosið var um hvort byggingarnefnd héldi, og var það samþykkt. Haukur Bragason hafði verið tilnefndur til goðaembættis af allsherjargoða, lagt fram fullgildan þingmannalista og verið tilnefndur af lögréttu. Allsherjargoði tók til máls og lagði málið fyrir fund, og var það samþykkt.
 

Önnur mál 

Halldór Bragason tók til máls og hvatti til virkari þátttöku félagsmanna, samábyrgðar og samstöðu innan okkar raða.

Jóhanna G. Harðardóttir, Kjalnesingagoði, sagði frá blótanefnd skipaðri ungum heiðingjum og benti á endurnýjun þar og annars staðar. Hún hvatti einnig til umhugsunar um blót og kostnaðar við þau, og nefndi í því samhengi þingblót sumarsins sem var það fjölmennasta í manna minnum og kostnaður blótsgesta lítill.

Þorri Jóhannsson hvatti til þess að félagsmenn væru virkjaðir í hópum og valdi og ábyrgð dreift. Sagði hann óþarfa að einblína þar á ungt fólk, heldur alla sem hefðu kraft og vilja. Hvatti hann einnig til bættari útgáfumála.

Böðvar Þórir Gunnarsson setti fram áskorun þess efnis að athuga hvort gera mætti þingblótið á Þingvöllum lengra en það er. Fá t.a.m. að nýta tjaldsvæði og gera atburðinn að meiri fjölskylduskemmtun. Vildi hann að þingblótið stæði frá fimmtudegi til sunnudags. Enginn mótmælti áskoruninni.

Óttar minnti á spjallborð Ásatrúarmanna og hvatti til umræðna þar. Sagði hann jafnframt frá því að ástæða væri til að skoða möguleikana á útgáfu veglegs rits sem kæmi út á afmælisárinu 2012. Minnti hann að lokum á opinn lögréttufund 31. október.

Hulda Sif Ólafsdóttir hefur átt í vandræðum með reikningsár félagsins (sem er frá sumardeginum fyrsta til seinasta vetrardags) í bókhaldsforritum og hefur efasemdir um lögmæti þess samkvæmt bókhaldslögum. Vill hún að félagið leiti lögfræðiálits.

Viktor Aron Haraldsson skoraði á Unga heiðingja að auka starfsemi samtakanna, t.d. með því að skipta nefndir til undirbúnings atburða og hafa vikulega eða mánaðarlega dagskrá. Teresa Dröfn Njarðvík tók í sama streng. Böðvar Þórir Gunnarsson svaraði fyrir hönd Ungra heiðingja og sagði samtökin vera sjálfstæð en ekki hluta af Ásatrúarfélaginu. Þetta mál mætti hins vegar vinna í sameiningu. Haukur tók að sér að láta þá sem eru í forsvari Ungra heiðingja vita af þessari áskorun.

Haukur Þorgeirsson talaði vel um Vorn sið og þakkaði þeim sem að fréttabréfinu standa. Hann hvatti til þess að varlega væri farið í að fá fólk til að afþakka pappírseintak. Haukur nýtti tækifærið og hvatti fólk til að senda inn greinar í blaðið.

Hulda Sif Ólafsdóttir skoraði á félagið að hafa einhver kvöldstörf. Minntist hún á fyrirlestraraðir og annað starf sem áður var. Hlaut þetta mikinn stuðning úr sal. Hallgrímur Pétursson stakk upp á spilakvöldum. Hilmar minntist á vættablótin 1. desember og tilkynnti að þau yrðu gerð árleg.

Eftir það sleit Hilmar þingi, kl. 17:00.

Haukur Bragason, fundarritari. Bjarki Karlsson, fundarstjóri.Skýrsla lögréttu

Ætla mætti af fréttum fjölmiðla undanfarnar vikur og mánuði, að trúfélög landsins og trúarlíf allt eigi verulega undir högg að sækja árið 2010. Þetta er vissulega rétt, sé átt við langstærsta trúfélag landsins, Þjóðkirkjuna. Holskeflur áfalla hafa riðið yfir Stóra bróður með þeim afleiðingum, að stórlega hefur gengið á félagafjöldann. Þveröfugu máli gegnir með Ásatrúarfélagið. Ekki einasta hefur félagið verið laust við afbrota- og hneykslismál, heldur hljóta umdeildar tillögur menntamálanefndar Reykjavíkur að koma okkur vel og fjarri því að úr okkar röðum berist fjarstæðukennd andmæli.

Ekki skal fullyrt, að vandræðagangur Þjóðkirkjunnar sé bein ástæða umtalsverðrar aukningar í félagafjölda okkar. Undanfarin ár hefur félögum fjölgað um kringum 100 á ári, en frá síðasta Allsherjarþingi hefur okkur fjölgað um 280! Í gær var fjöldinn 1.644, svo með sama áframhaldi verðum við 2.000 í lok næsta árs. Eigum við það bara ekki skilið?

Talsverðar breytingar urðu á samsetningu lögréttu á miðju starfsári, þegar Alda Vala Ásdísardóttir sagði sig úr henni. Verkaskipting í Löréttu var því endurskoðuð 16. marz. Eftirtaldir hafa átt sæti í Lögréttu undangengið ár:

Óttar Ottósson – lögsögumaður (áður staðgengill lögsögumanns)
Lára Jóna Þorsteinsdóttir – staðgengill lögsögumanns (áður ritari)
Haukur Bragason – ritari (áður varamaður)
Halldór Bragason – gjaldkeri
Egill Baldursson – meðstjórnandi
Böðvar Þórir Gunnarsson – varamaður
Alda Vala Ásdísardóttir – áður lögsögumaður
Hilmar Örn Hilmarsson – allsherjargoði
Jóhanna G Harðardóttir – staðgengill allsherjargoða
Jónína K Berg – áður staðgengill allsherjargoða

Flestallt þetta fólk gefur áfram kost á sér til starfa fyrir félagið. Egill Baldursson er ekki þeirra á meðal eftir 7 ára setu í Lögréttu, þar af 3 ár sem lögsögumaður. Enn mun hann þó sinna umbroti og prentun fréttabréfs félagsins, sitja í byggingarnefnd o.fl. Mikill sjónarsviptir verður af Agli eftir langt og mikið og farsælt starf. Beztu þakkir fyrir samvinnuna, Egill!

Einnig hefur Egill ákveðið að láta gott heita sem ritstjóri Vors Siðar, sem í meðförum hans er orðið vandað og forvitnilegt rit. Í árslok tók Haukur við sem ritstjóri og er þegar kominn á fulla siglingu. Hann lætur ekki þar við sitja, því eftir að hafa verið bæði varamaður og ritari í Lögréttu, söðlar hann aftur um, því nú vill hann verða goði! Lögrétta hefur móttekið þingmannnalista hans og lýst hann gildan. Haukur er því tilnefndur sem goði, sem borið verður undir þetta þing.

Ennfremur er Jónína K Berg horfin úr lögréttu, þegar Jóhanna G Harðardóttir tók við af henni sem staðgengill allsherjargoða á miðju starfsárinu. Hafðu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf, Jónína, og velkomin „að borðinu“, Jóhanna!

Félagið hefur enn sem fyrr aðsetur í leiguhúsnæði við Síðumúla í Reykjavík. Allar stærri samkomur félagsins, sem ekki rúmast í litlum sal í Síðumúla, hafa verið haldnar í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni og allsherjarþing á Hótel Sögu sem áður. Nú eru horfur á, að salurinn okkar verði leigður út til fundahalda á næstunni, sem gefur þokkalegar tekjur.

Tekjuhliðin, eða öllu heldur eignahliðin kemur einnig við sögu varðandi fyrirhugaða hofbyggingu. Hrunið mikla hafði af okkur umtalsverðan hluta hofsjóðsins. Búið er að vinna upp tapið, en nú er verðlag annað og hærra, svo einhver bið verður á að framkvæmdir geti hafizt, enda líka enn óleystir fáeinir stjórnsýsluhnútar. Á hinn bóginn gefur öflugur vöxtur félagatalsins ástæðu til bjartsýni.

Fjárhagurinn hefur annars verið viðunandi. Ríkisvaldið hefur að vísu skert kirkjuskattinn til okkar, en við lifum spart og með örum vexti gengur rekstur félagsins ágætlega upp.

Skrifstofa okkar hefur að mestu verið mönnuð á símatíma á týsdögum og þórsdögum síðdegis. Að öðrum kosti er símtölum beint til lögsögumanns. Tilkoma skrifstofunnar hefur gjörbreytt vinnuaðstæðum þeirra, sem þar þurfa að vinna og munar þar mikið um ágætan tölvubúnað frá því í upphafi starfsársins.

Heimasíðan okkar gegnir æ betur hlutverki sínu sem tilkynningamiðill í höndum Garðars Áss Guðnasonar. Fésbókarsíðan félagsins hefur líklega ekki áunnið sér stóran sess ennþá, en þá er notendanna að bæta úr því. En bezt næst auðvitað til fólks á vikulegu opnu húsi, sem haldið hefur verið úti í allmörg ár á laugardögum. Þar er oft líf í tuskunum og hæfilega fjölmennt. Þá hafa verið haldnir nokkrir merkir fyrirlestrar í félagsheimilinu, m.a. fjórir auglýstir í Vorum sið í upphafi árs.

Erlend samskipti hafa verið í svipuðu fari og undanfarin tvö ár. Þau eru lítil, en góð. Þó má vænta nánari samvinnu í nánustu framtíð. Samráðsvettvangur trúfélaga, þar sem undirritaður er fulltrúi Ásatrúarfélagsins, lætur fremur lítið yfir sér, en stuðlar ótvírætt að vingjarnlegum og verðugum samskiptum trúfélaga hér á landi, enda hefur hann vakið athygli út fyrir landsteinana.

Höfuðblótin hafa verið haldin að vanda, misjafnlega vel sótt, en aldrei illa. Aðsókn að þorrablótinu er þó alltaf góð, svo og að þeim athöfnum sem haldnar hafa verið í Öskjuhlíð í vaxandi mæli. Þá hafa verið haldin héraðsblót víðs vegar um landið og landvættablót í öllum fjórðungum á fullveldisdaginn sl. Þá blótaði Jónína K Berg, Þórsnesgoði, í Hafnarskógi undir Hafnarfjalli, en í Norðurfjórðungi hélt Árni Einarsson, hofgoði, blót í Kjarnaskógi. Í Austurfjórðungi blótaði Baldur Pálsson, Freysgoði, við Lagarfljót. Í Suðurfjórðungi hélt Jóhanna G. Harðardóttir, Kjalnesingagoði, blót við Garðskagavita og loks blótaði Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, á Þingvöllum.

Þá heldur hinn gróskumikli hópur Ungir heiðingjar sitt eigið Sveinbjarnarblót í byrjun júlí, nærri afmælisdegi allsherjargoðans gamla. Til að ýta enn frekar undir áhrif unga fólksins í Ásatrúarfélaginu, ákvað Lögrétta nýlega að fela undirbúning jóla- og þorrablótsins fimm manna blótnefnd ungra félagsmanna. Spennandi er og verður, að fylgjast með hvað út úr því kemur.

Eins og nánast alla sögu félagsins hefur samband þess við fjölmiðla verið hið bezta. Ásatrúarfélaginu hefur tekizt að koma sér vel fyrir í þjóðfélaginu og er að mestu laus við að eiga í útistöðum við einn eða neinn. Þó getur heiðingjahjartað tekið óþægilegan kipp, þegar fréttamyndir berast af misjöfnum sauðum, sem misnota alþjóðlegt tákn ásatrúarmanna og félagsins okkar, sólkrossinn. Málið var strax útskýrt af Jóhönnu Kjalnesingagoða í grein í Vorum Sið, sem Fréttablaðið síðar endursagði og þar með var málinu lokið áður en það byrjaði. Fólk veit betur.

Nú líður senn að 40 ára afmæli Ásatrúarfélagsins vorið 2012. Aðeins bjartsýnustu menn sjá fyrir sér fullbyggt hof þegar þar að kemur, en það hefur sinn gang. Þangað til getum glaðst yfir einhverjum alánægjulegasta viðburði síðastliðis árs, afhjúpun minnisvarðans um Sveinbjörn Beinteinsson. Með uppsetningu þessa steins eru framkvæmdir hafnar. Mjór er mikils vísir.

Reykjavík, 30. október 2010,
til árs og friðar,
Óttar Ottósson, lögsögumaður.