Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Askur og Embla

Askur og Embla verða til. Færeyskt frímerki frá 2003. Anker Eli Petersen teiknaði.
​Bæði í Völuspá og í lausamálstexta Snorra-Eddu er frásögn af fyrsta mannfólkinu, Aski og Emblu. Snorri Sturluson segir í Gylfaginningu að það hafi verið þeir Vilji og Vé, ásamt bróður sínum Óðni, er gáfu mannkyni líf, en samkvæmt Völuspá voru það Óðinn, Hænir og Lóður.

Svo segir í Völuspá:
Uns þrír kómu
úr því liði
öflgir og ástkir
æsir að húsi,
fundu á landi
lítt megandi
Ask og Emblu
örlöglausa.

Önd þau né áttu,
óð þau né höfðu,
lá né læti
né litu góða;
önd gaf Óðinn,
óð gaf Hænir,
lá gaf Lóður
og litu góða.

 
Nöfn og hlutverk Asks og Emblu minna óneitanlega á Adam og Evu í trúarritum gyðinga, sem fleiri trúarbrögð hafa síðan gert að sínum. Slíkt frum-par er erkitýpa í mörgum sköpunarsögum.  En þessi samlíking nær ekki lengra. Goðin settu fyrstu mönnunum enga afarkosti. Enginn höggormur kemur við sögu, engin erfðasynd og guðirnir beittu mennina engum grimmilegum refsingum. Aðeins segir af vináttu goða og manna.

Nærtækara er að lítá Líf og Lífþrasi, fólkið sem lifir af ragnarök, sem nánustu samsvarandi Asks og Emblu.