Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Ásynjur

Eir

Eir, teikning ef Nicole Cadet, birt skv. almennu leyfi á vefsíðu listamannsins, nicolecadet.com.
Sú er eirir, hlífir. Eir er sögð læknir bestur, er lækningargyðja heiðinna manna. Nafnið Eir kemur líka fram í Fjölsvinnsmálum en svo heitir þjónustustúlka Menglaðar.

Í þulum Snorra Eddu er Eir sögð vera valkyrja. Beyging nafnsins vefst oft fyrir nútímamönnum en hún er á þessa leið: Eir um Eiri frá Eiri til Eirar.


Freyja

Freyja og göltur hennar, Hildisvíni. Myndskreyting með Hyndluljóðum í Edduútgáfu Karls Gjellerup frá 1895.
Hin fagra og tigna gyðja ástar og frjósemi er af vanaætt, dóttir Njarðar og systir hans, og systir Freys. Maður hennar heitir Óður og dætur þeirra eru Hnoss og Gersemi.

Bústaður hennar er Fólkvangur þar sem hinn mikli og fagri salur Sessrúmnir er. Einkennisgripir hennar eru brísingarmenið, valshamurinn og gölturinn Hildisvíni.

Reið á Freyja sem kettir tveir  draga er hún ferðast um. Hún er talin vera verndargyðja heimila og á hana er gott að heita til ásta og unaðar.
 


Frigg

Frigg spinnur skýjavef. Blýantsteikning eftir enska listamanninn John Charles Dollman (1851–1934)
Höfuðgyðja af ásaætt og eiginkona Óðins, móðir Baldurs. Hún er Fjörgynsdóttir, en faðir hennar er annars óþekktur. Bústaður hennar í Ásgarði heitir Fensalir þar sem meyjarnar Fulla og Gná þjóna henni. Einkennisgripur hennar er valshamur. Frigg veit öll örlög.


 


Fulla

Fulla krýpur fyrir Frigg. Teikning frá 1865 eftir þýska listamanninn Ludwig Pietsch.
Í Gylfaginningu segir Hárr frá Ásynjum og segir svo frá Fullu: „Hún er enn mær og fer laushár og gullband um höfuð. Hún ber eski Friggjar og gætir skóklæða hennar og veit launráð með henni.“ Eski getur bæði þýtt ‘askja’ og ‘spjót’, hvort tveggja úr eskiviði.  Nafnið er stundum ritað Fylla.

Þó að Fulla sé helst þekkt hjá Snorra og úr dróttkvæðakenningum er líklegt að hún hafi verið þekkt sunnar í álfunni. Í Törfagaldrinum frá Merseburg (Merseburger Zaubersprüche), sem ritaður er á fornháþýsku og er talinn vera frá 10. öld, koma fyrir nöfnin Friia (sennilega Frigg) og systir hennar Volla (sennilega Fulla).


Gefjun

Gefjunarbrunnurinn í Kaupmannahöfn. Listaverk eftir Anders Bundgaard. Myndina tók Lenka KováÅ•ová.
Ein  goðsögn hefur varðveist þar sem Gefjun er í aðalhlutverki en í Snorra-Eddu greinir frá því að Gylfi konungur í Svíþjóð hafi gefið Gefjunni plógsland. Hún fór þá í Jötunheima og sótti þangað fjögur naut, sem voru synir hennar og jötuns nokkurs. Hún beitti þeim fyrir plóginn, og plógurinn gekk svo djúpt, að hann leysti upp landið, og drógu nautin það vestur á hafið og staðnæmdust í sundi nokkru. Þar festi Gefjun landið og kallaði Selund eða Sjáland. En vatn leitaði þangað er landið hafði áður verið og er þetta vatn nú kallað Lögurinn (Mälaren). En svo eru víkur í Leginum sem nes á Sjálandi. Um þessa atburði orti Bragi hinn gamli:
 
Gefjun dró frá Gylfa,
glöð djúpröðuls, óðla,
svát af rennirauknum
rauk, Danmarkar auka.
Báru öxn ok átta
ennitungl, þars gengu
fyrir vineyar víðri
vallrauf, fjögur höfuð. 

 
Gefjun hefur löngum haft sterk tengsl við Dani. Í Ynglinga sögu greinir frá því að hún hafi verið gift Skildi, syni Óðins og að þau hafi búið í Hleiðru (Lejre). Frá þeim er danska konungaættin Skjöldungar komin. 

Auk Ynglingasögu er Gefjun nefnd í Gylfaginningu, Lokasennu, og Völsa þætti þar bóndadóttir sver við Gefjuni að hún vilji ekki snerta Völsa, þurrkaðan hestreður sem Andnesmenn tignuðu í frjósemisdýrkun. Gefjun kynni samkvæmt því að hafa verð gyðja meydóms. 


Gerður

Skírnir ber boðin til Gerðar. Listaverk eftir enska rithöfundinn og lismálarann William Gershom Collingwood (1854–1932).
Þó að Gerður sé upprunalega jötunsmær telur Snorri hana upp meðal ásynja. Hún er dóttir jötunsins Gymis og Aurboðu. Í Skírnismálum er greint frá ást Freys til hennar og þar er Freyr látinn lýsa Gerði svo:
Í Gymis görðum
ek ganga sá
mér tíða mey;
armar lýstu,
en af þaðan
allt loft ok lögr.

Skírnir, skósveinn Freys, er sendur til að biðja hennar fyrir Frey. Hún er treg til en samþykkir að lokum að hitta hann:
Barri heitir,
er vit báðir vitum,
lundr lognfara;
en eft nætr níu
þar mun Njarðar syni
Gerðr unna gamans.
Sonur hennar og Freys var Fjölnir og frá honum Ynglingar eru komnir. Það orðið að hefð hjá Ásatrúarfélaginu að Jóhanna Kjalnesingagoði segi söguna af Frey og Gerði við jólablót á vetrarsólstöðum.


Gná

Skartnæla eftir ókunnan höfund. Gæti verið Gná á Hófvarpni.
Í Gylfaginningu er Gná svo lýst: „Hana sendir Frigg í ýmsa heima að erindum sínum. Gná á hestinn Hófvarpni er rennur bæði loft og lög.“ Síðan segir frá því að einhverju sinni hafi Vanir nokkrir séð reið hennar í loftinu og spurt:
Hvað er þar flýgur?
Hvað þar fer
eða að lofti líður?

Gná svaraði:
Né eg flýg,
þó eg fer
og að lofti líðk
á Hófvarpni
þeim er Hamskerpir
gat við Garðrofu.

Loks segir að Gnár nafni sé það dregið það er kallað að gnæfa þegar eitthvað stendur hátt.  Þýski fræðimaðurinn Jakob Grimm (annar Grimms-bræðra) taldi Gná svipa mjög til rómversku gyðjunnar Fömu.
 

Hlín

Snorri Sturluson kveður hana setta til gæslu yfir þeim mönnum er Frigg vill forða frá háska. Í Völuspá virðist Hlín vera annað nafn Friggjar en þar segir:
Þá kjömr Hlínar
harmr annarr fram
er Óðinn ferr
við úlf vega
en bani Belja
bjartr að Surti,
þá mun Friggjar
falla angantýr.
 

Iðunn

„Iðunn og eplin“ málverk eftir James Doyle Penrose (1890)
Sú sem endurnýjar. Kona Braga. Hún varðveitir hin níu gullnu epli sem goðin bíta í er þau eldast og verða þau þá aftur ung allt til ragnaraka. Í Skáldskaparmálum segir frá því að eitt sinn rændi jötuninn Þjassi bæði Iðunni og eplunum og tóku þá æsir fljótt að eldast. En fyrir klókindi Loka (sem raunar bar sjálfur ábyrgð á því upphaflega að Þjassi náði eplunum) náðu þeir að drepa Þjassa og endurheimtu bæði Iðunni og eplin og tryggðu sér þannig eilífa æsku.


Lofn

Er svo mild og góð til áheita að hún fær leyfi af Alföður eða Frigg til manna samgangs, þótt áður sé bannað eða þvertekið.


Nanna

Nanna, stytta frá 1857 eftir danska myndhöggvarann Herman Wilhelm Bissen.
Nanna er sögð vera Nepsdóttir. Hún er helst nefnd á nafn í tengslum við það að vera eiginkona Baldurs en sonur þeirra er Forseti. Í Gylfaginningu er líst hvernig hún deyr af harmi þegar Baldur er drepinn og er því lögð með í skipið við bálför hans. Hún er þó nefnd án Baldurs í upphafi Skáldskaparmála. Þá er Nönnu oft getið í dróttkvæðakenningum skálda.

Einnig er áhugavert að í skrifum Saxa málspaka er gjörólík frásögn af Baldri en Nanna aftur á móti sögð vera kona hins mennska Haðar en þó í ástarsambandi við hálfguðinn Baldur. Þeir berjast um hylli hennar en hún hefur aðeins áhuga á Heði en Baldur veslast upp af martröðum um Nönnu.

Á greiðu, sem fannst í Setre í Þelamörk í Noregi og talin er vera frá 7. öld, er áletrun sem gæti vísað til Nönnu.  Hún endar á: „Alu nanA“ sem sumir telja merkja öl Nönnu. Þó hafa aðrir haldið því fram að það merki „öllu nenna“.


Rindur

Váli er sonur hennar og Óðins.


Saga

Ásynja er býr á Sökkvabekk. Fátt annað er vitað um hana nema að hún og Óðinn drekka alla daga glöð úr gullnum kerum.


Sif

Eiginkona Þórs og móðir Ullar.


Sigyn

Eiginkona Loka. Hún heldur mundlaug undir eiturdropa þá er drupu úr eiturorminum ofaná Loka hlekkjaðan.


Sjöfn

Í Gylfaginningu segir: „Hún gætir mjög til að snúa hugum manna til ásta, kvenna og karla. Af hennar nafni er elskhuginn kallaður sjafni.“  Samkvæmt þessum orðum Snorra hefur Sjöfn verið gyðja ástar. Nafn hennar birtist líka í kenningum í þremum dróttkvæðum en þá sem almenn vísun til kvenna, svo sem Sjöfn seims = Sjöfn gulls = kona.  Skemmtilega síðari tíma kenningu, þar sem vísað er til Sjafnar er að finna í þýðingu bresku bókarinnar Joy of sex sem dr. Alex Comfort ritstýrði og kom út í Bretlandi 1972. Bókin var þýdd á íslensku og gefin út árið 1978 sem Sjafnaryndi. Unaður ástalífsins í máli og myndum.


Skaði

Dóttir jötunsins Þjassa og eiginkona Njarðar. Skaði er gyðja veiða og skíðaferða. Hún býr í Þrymheimi.


Snotra

Gyðja sem er vitur og látprúð. Heimildir um hana er aðeins að finna hjá Snorra og í þulum. Nafnið merkir hin greinda, hin gáfaða. Í Gylfaginningu segir að af hennar heiti sé það dregið þegar „hóflátir“ karlar og konur kallast snotur. Vel þekkt er að í Hávamálum er oft rætt um hvernig „snotur maður“ myndi bregðast við ýmsum vanda. Snotra hlýtur því að hafa verið gyðja skynsemi og hygginda. Sumir fræðimenn, t.d. Andy Orchard and Rudolf Simek hafa bent á þann möguleika að Snorri hafi skáldað Snotru upp sjálfur þar sem engar aðrar heimildir um hana hafa fundist aðrar en þær sem hann skráði sjálfur.  Orchard telur einnig mögulegt að Snorri hafi haft aðgang að heimildum þar sem Snotra er nefnd en ekkert vitað um hana og búið því til lýsingu sem passaði við nafn hennar.


Syn

Gyðja þinga og gætir dyra í höll, líklega í Valhöll. Talin vera verndargyðja. Af nafni hennar kemur orðið synjun.


Vár

Um hana segir í Gylfaginningu: „Hlýðir á eiða og einkamál er veita sín á milli konur og karlar. Því heita þau mál Várar. Hún hefnir og þeim er brigða.“ Hún kemur fyrir í dróttkvæðakenningum og jafnframt rúnaáletrun sem fannst á trjábút nærri Bergen í Noregi og er talinn vera frá 1300. Úr þeim rúnum hefur verið lesið:
Vár kennir mér víra
vitr úglaðan sitja;
Þetta merkir: Vitur Vár víra (= vitur kona með skartgripi) lætur mig sitja óglaðan.

Auk þess er Vár nefnd í Þrymiskviðu:
Berið inn hamar
brúði at vígja,
leggið Mjöllni
í meyjar kné,
vígið okkr saman
Várar hendi.
 

Þetta er vitnisburður um forna eiða og því lýsa goðar Ásatrúarfélagsins brúðhjón vígð saman Várar hendi í heiðnum brúðkaupum.

Nafnið þýðir samningur, vernd eða sáttmáli, tryggð hollusta og á sér samsvörun í fornensku og fornháþýsku.  Ef nafnið hefði þróast eins og önnur orð, sem byrjuðu á vá-, héti hún einfaldlega Vor nú á dögum.   


Vör

Vör, eins og bandaríski fjöllistamaðurinn Egil Hubbard sér hana. Birt með leyfi höfundar.
Litlar heimildir eru til um gyðjuna Vör. Hún er aðeins nefnd í Gylfaginningu Snorra auk tveggja kvenkenninga í dróttkvæðum. Um hana segir Snorri: „Hún er vitur og spurul svo að engan hlut má hana leyna.“  Nafnið er talið merkja: sú sem sýnir aðgát, er vör um sig. 


Athugasemd um Sögu, Hlín, Sjöfn, Snotru, Vár og Vör

Ýmsir fræðimenn hafa dregið í efa að Saga, Hlín, Sjöfn, Snotra, Vár og Vör hafi verið þekkar sem eiginlegar gyðjur á heiðnum tíma.  Sumir telja að þær hafi verið önnur nöfn Friggjar, rétt eins og Óðinn, bóndi hennar, gekk undir fjölda nafna.  Á móti hefur austurríski fræðimaðurinn Rudolf Simek bent á allar séu þær verndargyðjur kvenna og hver þeirra beri ábyrgð á sínu sviði einkalífsins.  Skilin á milli á verksviða þeirra sé skýr og þær minni um margt á matrónur.


_