Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Athafnir

Allsherjargoði, eða staðgengill hans og þeir goðar sem hafa hjónavígsluréttndi, sinna þeim athöfnum sem Ásatrúarfélaginu ber að inna af hendi, skv. lögum um trúfélög; svo sem hjónavígslum og útförum og eru þessar athafnir fullkomlega lögmætar samkvæmt landslögum. Þar að auki geta allir goðar sinnt nafngjafar- og siðfestuathöfnum.

Tilgangur Ásatrúarfélagsins er að starfa að eflingu ásatrúar og annast þá trúarlegu þjónustu sem því er samfara. Þessu markmiði hyggst félagið ná með fræðslu- og félagsstarfi en ekki trúboði, enda segir í reglum félagsins að trúboð sé óþurftaverk.

Goðar félagsins halda uppi starfsemi hver í sínu héraði með fræðslu og blóthaldi og sjá einnig um athafnir á vegum félagsins.

Goðar og fleiri félagsmenn sinna ýmsum fræðslustörfum og hafa oft haldið kynningar um heiðinn sið og ásatrú þar sem þess er óskað.

Fjölmargir athyglisverðir og fræðandi fyrirlestrar og spjallfundir fræðimanna og goða hafa verið haldnir á vegum félagsins sem ávallt hafa verið mjög vel sóttir. Innan vébanda þess er margt fjölhæft listafólk sem leggur oft sitt af mörkum á blótum, skemmtunum og á fræðaslufundum.

Á laugardögum kl 14:00 – 16:00 er opið hús í félagsheimili Ásatrúarfélagsins að Síðumúla 15, Reykjavík. Fundir þessir eru opnir öllum þeim er vilja fræðast um heiðinn sig og félagið. Allir eru velkomnir.

Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins er haldið síðasta laugardag í október ár hvert, þá er kosið í stjórn og nefndir auk venjulegra aðalfundastarfa.

Samkvæmt reglum félagsins skulu fjögur höfuðblót haldin árlega og fylgja þau hinu forna missera- og vikutali.

Einnig gefur Ásatrúarfélagið út fréttabréf sem sent er félagsmönnum. Fréttabréfið, sem heitir "Vor siður", er gefið út fyrst og fremst til að koma skilaboðum til félagsmanna og birta ýmsan fróðleik.