Skip to main content
All Posts By

a8

Léttum áhyggjum af ættingjum og tryggjum að farið sé að vilja okkar

Eftir Fréttir

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði

Margir heiðnir menn mega ekki til þess hugsa að útför þeirra fari fram í kirkju eða sé framkvæmd af presti. Þrátt fyrir þetta hafa fjölmörg dæmi sannað að ættingjar látinna heiðingja hafa látið alla umsjá útfarar þeirra í hendur kirkjunni.

Í nánast öllum tilvikum hafa goðum Ásatrúarfélagsins verið kunnugar óskir hins látna um að athöfnin færi fram að heiðnum sið en ættingjarnir annað hvort ekki vitað af því eða ákveðið þegar á hólminn er komið að hafa „hefðbundna“ útför þvert á vilja hins látna.

Ég vil ekki áfellast viðkomandi einstaklinga, þeir standa frammi fyrir erfiðri ákvörðun þegar lítill tími er til umhugsunar og ímyndaður eða raunverulegur þrýstingur á viðkomandi að „gera rétt“. Meðan engin staðfesting á óskum hins látna er til staðar er framkvæmdin alfarið í höndum eftirlifanda sem velur eflaust það sem hann telur best og stundum eftir harða baráttu við sjálfa sig og jafnvel aðra.

Það er heldur ekki auðvelt að vera ættingi í þessari stöðu og standa frammi fyrir hefðum samfélagsins. Það myndi létta ættingjum mikið að hafa í höndum undirritað plagg þar sem skýrt kemur fram hverjar óskirnar voru og geta fengið aðstoð við að uppfylla þær.

Nú hefur slíkt plagg litið dagsins ljós; svokölluð Lífslokaskrá sem einfalt er að útfylla, en þar koma fram óskir um hvernig eigi að bregðast við þegar sá sem hana undirritar yfirgefur Miðgarð. Sigurður Helgi Guðjónsson, lögmaður, var mér innan handar við að fullgera plaggið á lögformlegan hátt . Lífslokaskráin er nú í uppsetningu Grétu Hauksdóttur og verður tilbúin mjög fljótlega.

Sá sem undirritar skrána getur látið votta að hann vilji hafa heiðna athöfn við lífslok og hægt er að taka fram hvar athöfnin skuli fara fram, hvort hún verði í kyrrþey og hvernig eigi að haga ýmsu varðandi hana.

Skráin verður auglýst á vefsíðunni og Facebook-síðunni um leið og hún er tilbúin. Kíkið endilega, fyllið út og bendið öllum á hana. Það er of seint að gera eitthvað í málinu þegar prestur er búinn að krossa yfir okkur.

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði

Ásatrúarfélagið stækkaði um 10% á árinu 2012

Eftir Fréttir

Hagstofa Íslands gaf í dag út árlega skýrslu sína um mannfjölda eftir trúfélögum miðað við 1. janúar ár hvert.

Tölurnar staðfesta áframhaldandi vöxt Ásatrúarfélagsins en félögum fjölgaði á liðnu ári úr 1951 í 2148, eða um 197 manns. Þetta er heldur minni fjölgun en tvö síðustu ár en þó sú þriðja mesta í sögu félagsins, eins og sjá má á síðunni félagafjöldi. Þá ber svo við um þessar mundir að félagið er orðið sjötta stærsta trúfélag landsins af þeim 39 sem skráð eru.

Með lagabreytingu, sem samþykkt var í janúar 2013, öðluðust lífsskoðunarfélög rétt til skráningar til jafns við trúfélög. Þegar hefur eitt slíkt boðað umsókn. Með breytingunni fá lífsskoðunarfélög sömu réttindi og skyldur og skráð trúfélög og munu því bætast í hóp trúfélaganna framvegis þegar Hagstofan birtir upplýsingar um mannfjölda eftir trúfélögum.

Félagslegt og lagalegt ójafnræði á Íslandi

Eftir Fréttir

Auglýsing um ójafnræði í meðferð ríkisins gagnvart trúfélögum og lífsskoðunarfélögum birt í Fréttablaðinu 17. janúar 2013 og lögð í pósthólf allra þingmanna. Auglýsendur eru Ásatrúarfélagið, Búddistasamtökin SGI á Íslandi, Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar
og Siðmennt, félag siðrænna húmanista.

Smellið á myndina til að skjá PDF-skjal í fullri stærð.

Smellið á myndina til að sjá PDF-skjal í fullri stærð

Um fyrirhugaða fjársöfnun Þjóðkirkjunnar

Eftir Fréttir

Á fundi lögréttu, fram­kvæmda­stjórnar Ásatrúar­félagsins, 8. janúar 2013 var eftirfarandi samþykkt í tilefni af umræðum um fyrirhugaða fjársöfnun Þjóðkirkjunnar til tækjakaupa fyrir Landspítalann:

Ásatrúarfélagið fagnar fyrirhugaðri landssöfnun Þjóðkirkjunnar og hvetur hana til góðra verka.

Þessi samþykkt er að sjálfsögðu óháð því að Ásatrúarfélagið hefur, ásamt fleiri trúfélögum, lengi barist gegn því misrétti að ríkisvaldið mismuni trúfélögum með ríflegum aukaframlögum til Þjóðkirkjunnar úr sameiginlegum sjóðum okkar allra.

Þannig skipa yfirvöld þeim fjórðungi landsmanna, sem kýs að standa utan Þjóðkirkjunnar, skör lægra en öðru fólki og sjálf ver kirkjan mismunun í sína þágu.

Jól, ásatrú og heimsendaspár

Eftir Fréttir

Hinn 22. desember ræddi Lísa Pálsdóttir við Hauk Bragason, Suðurlandsgoða, í þættinum Flakk á Rás 1. Meðal þess sem tekið var fyrir voru jól, ásatrú og heimsendaspár. 

Jól fyrr og nú

Eftir Fréttir

Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.

Í Lesbók Morgunblaðsins 24. des. 1925 er fjallað um forna jólasiði:

Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla um miðsvetrarskeið, og kallað jól. En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil Söxum hjetu mánuðirnir desember og janúar jól. Og í fornnorrænu hjet einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) Ýlir, og er það nafn dregið af jól.

Flestir telja að sólhvarfahátíð, jólin, sem vér nú höldum helg 25. desember, eru komin í stað jóla heiðingjanna. Fyrst í stað hjelt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn hjeldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum út af því, að sólin hækkaði aftur göngu. Og þessi breyting var rjettlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar, Krists, „rjettlætisins sólar“. Jólunum má og eigna siði þá, sem bundnir eru við Eldbjargarmessu (7. jan.). Þá drukku menn Eldbjargarminni sem fagnaðaröl út af því að þá kemur sólin aftur með eld sinn.“

Í Lesbók MBL 1949 er fjallað um heiðin jól og kristin jól:

Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir; á 6tu öld, að íbúar Thule í norðrinu seu í myrkri, um vetur, 40 daga, þegar 35 þeirra eru liðnir, senda þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjar veislufögnuður hjá öllum. Nú var fæðingardagur Krists ókunnur, og var ekki haldinn hátíðlegur fyr en seint á 4ðu öld e.Kr. „Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið“, endurhljómar í kristnum ritum. velja menn honum því fæðingardag, þegar sólin, lífgjafinn, færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.

Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: „Jól er eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla líkt og orðið blót. Kom það í stað veturnátta blóts heiðingja.“ Elsta vísbending um jólahald er í kvæði um Harald hárfagra sem talið er frá 9. öld. Þar er hann sagður vilja „drekka jól úti“ og „heyja Freys leik“. Í Heimskringlu segir að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafi um miðja 10. öld fært jólahald Norðmanna frá einhverri „hökunótt“, sem enginn veit hvenær var, til sama tíma og kristnir menn héldu fæðingarhátíð frelsarans. Líklegast er að tímasetning hinna fornu jóla hafi ekki verið á neinum vissum degi eftir okkar almanaki, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu.

Textinn, sem er lítillega styttur, er fengin að láni af vefsíðunni: http://www.ferlir.is/?id=6944

Egill Baldursson

Við viljum gefa

Eftir Fréttir

Æ fleiri Íslendingar eiga líf sitt því að þakka að hafa þegið líffæri að gjöf. Eftirspurnin eykst þökk sé framförum í læknavísindum og æ fleiri bíða gjafalíffæris. Dýrmætari gjöf er ekki hægt að gefa.

Skilyrði þess að mega nema líffæri úr látnum manni er að hann hafi lýst yfir vilja til þess í lifanda lífi eða að aðstandendur samþykki. Fram hefur komið að í 40% tilvika segja aðstandendur nei.

Þess vegna er full ástæða til að minnast þess að þótt fé deyi og frændur, þá deyr orðstír aldrei. Sá sem þarf að kveðja lífið, en gefur það um leið öðrum að skilnaði, öðlast góðan orðstír sem tengist þakklæti og virðingu – og lifir. Það er ástvinum huggun harmi gegn.

Líf liggur við
Ásatrúarfélagið styður átak SÍBS, „Ég vil gefa", þar sem hvatt er til samræðna um líffæragjafir. Innbyrðis hafa heiðnir menn ólíkar hugmyndir um það hvort látinna bíði annað líf umfram það sem þeir eiga í minningaheimi eftirlifenda en þó erum við almennt viss um að velferð okkar í eilífðinni sé ekki undir því komið að við tökum með okkur öll líffærin í gröfina.

Á næstu dögum sendir Ásatrúarfélagið öllum félagsmönnum sínum, um 2.100 talsins, óútfyllt líffæragjafaskírteini sem þeir verða hvattir til að fylla út og ganga með á sér. Um leið hvetjum við vini okkar í öðrum trúfélögum og utan þeirra til að taka jákvæða afstöðu til líffæragjafa. Líf liggur við.

Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði
Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði og staðgengill allsherjargoða.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2012

Fyrirlestrar á vormisseri

Eftir Fréttir

Eftir áramót fer af stað röð spennandi fyrirlestra þar sem fræðimenn og listamenn bregða nýju og óvæntu ljósi á varðveislu og viðgang hins forna arfs og gilda.
Þar má nefna þá félaga Friðrik Erlingsson og Gunnar Karlsson sem fjalla um teiknimyndina „Þór, hetjur Valhallar“ og varpa ljósi á þá vinnu sem fór fram að
tjaldabaki: Aðlögun goðsagna að nútímanum, hvernig sögur þróast og öðlast sjálfstætt líf og þá þraut að myndgera goð, gyðjur, hetjur og jötna á kíminn hátt án þess
að móðga meðlimi félagsins.

Skáldkonan og þjóðfræðingurinn, Vilborg Davíðsdóttir, fjallar um þrekvirkin Auði og Vígroða og þær frumrannsóknir sem liggja að baki. Enn fremur fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um heiðið leynifélag Bessastaðaskólapilta, þversagnakennda afstöðu þeirra gagnvart Eddulist og ýmislegt annað sem hann tæpti á í snilldarritgerðinni „Óðinn sé með yður“ í undirstöðuritinu „Guðamjöður og arnarleir“.

Aðalheiður Guðmundsdóttir verður með erindið „Handverksmaðurinn og hetjan“ og Steindór Andersen bregður ljósi á kenningar og heiti Skáldskaparmála Snorra frá
öndverðu fram á okkar dag.

Fleiri eiga eftir bætast í hópinn og dagskráin verður kynnt á heimasíðu félagsins.

Undirritaður ríður á vaðið á nýju ári þann 5. janúar með erindi sem nefnist „Óðinsgervingar á hvíta tjaldinu“ og þar verða einnig kynntar þrjúbíó samkomur á
sunnudögum þar sem verður farið í gegnum frábærar, góðar, slæmar og sérdeilis vondar kvikmyndir sem tengjast heiðnum minnum.

Hilmar Örn Hilmarsson
Allsherjargoði