All Posts By

a8

Hve hár var hinn hávi?

Eftir Fréttir

Næsta laugardag, 4. febrúar kl. 14:30, mun Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands flytja fyrirlesturinn Hve hár var hinn hávi? Staða Óðins í íslensku samfélagi fyrir kristnitöku. Fyrirlesturinn byggir á hugmyndum Gabriels Turville-Petre og annara, og styrkir þær kenningar, að þrátt fyrir það hlutverk sem Snorri fær Óðni í verkum á borð við Snorra-Eddu og Ynglingasögu, þá hafi guðinn Óðinn verið tiltölulega óþekktur á Íslandi fyrir kristnitöku (utan skáldastéttar). Þessar hugmyndir byggja á þeirri staðreynd að guðinn er harla nefndur, hvorki í Landnámubók né Íslendingasögunum, sem leggja þó áherslu á guði eins og Þór og Freyr. Fjarvera hans endurspeglast líka í örnefnum og eiginnöfnum og svo virðist sem það sama sé uppi á teningnum í Noregi. Höfundur leggur til að þessi fjarvera krefjist endurskoðunar fjölmargra atriði með tilliti til fornnorrænna trúarbragðafræða. Til að byrja með, hugmyndin um sameiginlega goðafræði, trúariðkun og stöðu goðanna sem sameiginlega á Norðurlöndum á járnöld og miðöldum. Í öðru lagi, hugmyndin um að flestir hafi séð Óðinn sem hinn ráðandi guð. Enn fremur bendir höfundur á, líkt og aðrir hafa gert, að þessi atriði bendi til þess að fara þurfi varlega í að treysta Snorra-Eddu þar sem allt bendir til þess að Snorri hafi annað hvort litið hjá pg breytt þeim upplýsingum sem fyrir lágu um Óðinn, eða þá málað mynd af honum sem hentaði ákveðnum lesskilning. Að lokum stingur höfundum upp á að þessar vísbendingar gagnist okkur við að skilja varðveislu Eddukvæða og uppruna þeirra, þar sem mörg hver birta mynd sem ekki samræmist þeim myndum sem birtast í sögunum. Það gæti bent til uppruna þeirra utan Íslands og að skáldin hérlendis hafi varðveitt þau sem hluta af sinni menningarlegu þjálfun. (Kynning þýdd úr ensku með fyrirvara um villur – fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku).

Bara húsmóðir? Rýnt í bækur kvenna frá fyrri tíð.

Eftir Fréttir

Fyrsti fyrirlestur á nýju ári verður laugardaginn 28. janúar kl. 14:30
í Síðumúla 15, þegar Guðrún Ingólfs flytur erindið "Bara húsmóðir? Rýnt í bækur kvenna frá fyrri tíð".

Íslenskar konur áttu ekki kost á skólagöngu fyrr en seint á 19. öld og opinber embætti stóðu þeim ekki til boða. Þær urðu annaðhvort húsmæður eða vinnukonur. Til að varpa ljósi á eitt meginhlutverk kvenna á fyrri tíð verður kafað ofan í bók úr eigu eyfirskrar húsmóður á 18. öld. Hvað segir bókin um menntun hennar, menningarlegan bakgrunn og hlutverk í veröldinni?
Getur hent að viðhorf okkar nútímakvenna hafi villt okkur sýn á formæður okkar og um leið okkur sjálfar?
Guðrún Ingólfsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Allir eru velkomnir.

Þorrablót Ásatrúarfélagsins föstudaginn 20. janúar

Eftir Fréttir

Þorrablót Ásatrúarfélagsins verður haldið á bóndadaginn 20. janúar í sal Flugvirkjafélagsins Borgartúni 22. Veitingar verða í boði frá Soho og happdrætti að venju. Sigurboði og Kári skemmta gestum og Teresa les smásögu. Svo er aldrei að vita nema slegið verði upp í hringdans!
Húsið opnar kl 19:30 og blót helgað kl. 20:00. Blóttollur er kr. 6.500. Hægt er að koma á skrifstofuna sem er opin milli 13:30 og 16:00 og kaupa miða, hringja í síma 561-8633 eða senda póst á asatru@asatru.is í síðasta lagi fyrir miðvikudaginn 18. janúar.
ATHUGIÐ: Ekki er hægt að kaupa miða við innganginn og ekki verður bókað inn á blótið eftir 18. janúar.

Jólablót Óðinsdag 21. desember

Eftir Fréttir

Jólablót Ásatrúarfélagsins verður haldið á vetrarsólstöðum á Óðinsdag, 21. desember. Blótið verður helgað í Öskjuhlíð, neðan vegslóðans við lóðina okkar stundvíslega kl. 18:00. Þar verður hin eina og sanna jólahelgi undir berum himni og eru allir hvattir til að mæta. Jólablótsveislan verður haldin í sal Flugvirkjafélagsins í Borgartúni 22, húsið verður opnað kl. 19:30 og í boði er glæsilegt jólahlaðborð og kaffi á eftir. Allsherjargoði helgar blótið og börnin tendra jólaljósin og fá glaðning. Gunnar sjónhverfingamaður skemmtir börnum og fullorðnum. Jólahappdrættið verður á sínum stað. Blóttollur er kr. 4900 kr fyrir fullorðna en 500 kr fyrir börn undir 12 ára aldri. Hægt er að kaupa miða í blótveisluna á skrifstofunni á opnunartíma, en einnig má greiða miðana í netbanka inná reikning 0101-26-011444 kt. 680374-0159. Miðar verða að vera greiddir ekki seinna en mánudaginn 19. des. Greidda miða má sækja við innganginn, en gæta verður þess að láta senda kvittun á asatru@asatru.is þar sem tilgreint er nafn greiðanda og nöfn gesta á hans vegum, bæði fyrir fullorðna og börn. ATH. miðar verða EKKI seldir við innganginn!

Fornleifarannsóknir á Hofstöðum

Eftir Fréttir

Fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit eru einhverjar þær viðamestu sem farið hafa fram á Íslandi. Á árunum 1995-2002 var grafinn veisluskáli frá landnámsöld og árið 2015 lauk uppgreftri á kirkjugarði þar sem grafnar voru upp þrjár kirkjur og 170 grafir frá elstu tíð kristni á Íslandi. Í erindinu verður farið yfir sögu rannsókna á Hofstöðum, og þá sérstaklega í ljósi þess að tímasetningar á þessum mannvirkjum sýna að kirkjugarðurinn og skálinn eru að einhverju leiti samtíða, og því er áhugavert að horfa á niðurstöður úr rannsókninni í samhengi við viðteknar hugmyndir um kristnitöku á Íslandi.

Landvættablót 1. desember 2016

Eftir Fréttir

Landvættablót verða haldin á fimm stöðum á landinu fimmtudaginn 1. desember og hefjast þau öll klukkan 18:00. Eftir blót býður félagið upp á kaffi eða kakó og spjall.
Blót bergrisans verður við Garðskagavita, nánar tiltekið við Röstina. Eftir blótið verður safnast saman á Röstinni.
Blót griðungsins verður við Glæsisskála í Grundarfirði. Eftir blótið verður farið á Kaffi Emil.
Blót arnarsins verður á Hamarskotstúni  á móti sundlaug Akureyrar.
Blót drekans verður við Fjörusteina á Fljótdalshéraði sunnan við norðurenda Lagarfljótsbrúar. Á eftir verður safnast saman á Bókakaffi.
Sameiningarblót verður við Lögberg á Þingvöllum.
Allir velkomnir.

Hvað er á himni?

Eftir Fréttir

Margt í orðaforðanum á sér rætur í annarri menningu en nú ríkir og þar með í öðrum hugarheimi en við lifum í. Algengt dæmi um þetta er orðið eldhús um það rými í híbýlum og vinnustöðum sem nýtist til matreiðslu. Ekkert skilyrði er að eldur komi þar við sögu eins og var þó sjálfsagt mál í fornum hlóðaeldhúsum. Orðið hefur haldið sér en kemur stöðugt upp um rætur sínar í forneskjunni.

Námskeið í landnámsklæðagerð fyrir karla og konur

Eftir Fréttir

Elín Reynisdóttir úr Rimmugýgi verður með námskeið í landnámsklæðagerð kl. 20:00 þriðjudaginn 15. nóvember  í Síðumúla 15.
Elín kemur með falleg efni á góðu verði og hægt er að byrja strax að sníða. Einstakt tækifæri til að koma sér upp flottum búningi sem endalaust má svo bæta við.
Frítt fyrir félagsmenn, en kr. 2.500 fyrir aðra. Skráning á skrifstofunni í síma 561-8633 og hér á facebook.

Girndarráð – fyrirlestur

Eftir Fréttir

Sella Pálsdóttir rithöfundur mun halda fyrirlestur í Síðumúla 15, næsta laugardag 12. nóvember kl. 14:30 um nýútkomna skáldsögu sína, Girndarráð. Sagan er byggð á Skáldhelgarímum.

Árið 1000 heillast Þorkatla og Helgi hvort af öðru og þrá ekkert fremur en að ganga í hjónaband. Faðir Kötlu er valdamikill og skapstór höfðingi sem meinar þeim að eiga í samskiptum. Þrályndi elskendanna, mótlætið í þjóðfélaginu og bráðlyndi Helga reyna á ástarsamband þeirra svo árum skiptir.

Skáldsagan Girndarráð litast af hugarfari Íslendinga á 11. öld, þar sem Ásatrú, galdrar, kristni og ástarmál stönguðust gjarnan á. Inn í skáldsöguna fléttast merkismenn sem voru samtíðarmenn Helga samkvæmt Íslendingasögum. Girndarráð er byggð á Skáldhelgarímum sem voru ortar eftir týndri sögu af Skáld-Helga. Rímurnar finnast í fornritum og voru samdar á 14. eða 15. öld.

Bláklædda konan

Eftir Fréttir

Marianne tóvinnukona mun endurtaka fyrirlestur um bláklæddu konuna laugardaginn 5. október í Síðumúla 15, kl 14:30.
Fyrirlesturinn byggir á nýjum rannsóknum vísindamanna á beinum og gripum landnámskonu sem fannst árið 1938 í kumli á Austurlandi. Rannsóknirnar geta gefið okkur svör um aldur konunnar, hvaðan hún kom og gefið vísbendingar um útlit hennar, textíl og klæðaburð.