Blót
Helgiathafnir ásatrúarmanna kallast blót. Haldin eru fjögur höfuðblót á ári hverju sem miðast við hið forna misseris- og vikutal. Auk þess eru landvættablót haldin samtímis í öllum ársfjórðungum á fullveldisdag, þorrablót er ávallt á bóndadag og goðar halda blót í héraði að lágmarki einu sinni á ári.
Sigurblót
Sigurblót er haldið sumardaginn fyrsta sem var eins konar þjóðhátíðardagur langt aftur í aldir. Hann er einnig stofndagur Ásatrúarfélagsins 1972. Vorblótið er sérstaklega helgað Frey og Freyju, vönum og goðum lífs og frjósemi jarðar.
Þingblót
Þingblót er haldið á sumarsólstöðum á Þingvöllum við Öxará, hinum helga þingstað Íslendinga. Alþingi kom þar venjulega saman til forna um það leyti allt til ársins 1798. Blót þetta er helgað lögunum, siðmenningunni, þinginu og þjóðfélaginu. Þá fögnum við líka gróðurmagni og lengstum sólargangi.
Veturnáttablót
Veturnáttablót er haldið fyrsta vetrardag sem alltaf ber upp á laugardag í seinni hluta október. Blót þetta er helgað uppskeru haustsins og öllum þeim lifandi verum sem hverfa til hinnar eilífu hringrásar.
Jólablót
Jólablót við vetrarsólhvörf er hin forna hátíð ljóssins þegar sólin fer hækkandi á lofti og dag tekur að lengja. Þetta eru tímamót nýs upphafs, nýs árs, nýs lífs og er því einnig hátíð barnanna sem oft leggja sitt af mörkum við sérstaka ljósaathöfn. Er þá blótað til árgæsku, til heilla Freys, til árs og friðar.
Landvættablót
Landvættablót eru haldin í öllum landsfjórðungum á Þingvöllum þann 1. desember ár hvert. Blótin eru helguð staðarvættum, þeim sem frá landnámi hafa staðið vörð um Ísland, og er stýrt samtímis af goðum í hverjum landshluta fyrir sig. Blót bergrisans er á Suðurlandi, blót griðungsins á Vesturlandi, blót arnarins á Norðurlandi, blót drekans á Austurlandi og sameiningarblót við Lögberg, eins konar menningarlegri miðju þjóðarinnar.
Þorrablót
Þorrablót Ásatrúarfélagsins er haldið á bóndadegi ár hvert. Þar er þorramatur á borðum, skemmtileg dagskrá og kærkomin samvera á árstíma sem oft er fólki erfiður