Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Hofbygging Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð

Eftir Fréttir

Á heimasíðu Magnúsar Jenssonar arkitekts má sjá nokkrar bygginganefndarteikningar af hofinu. Ásatrúarhofið verður byggt í tveimur áföngum, fyrst helgidómur, sem notaður verður sem fjölnotarými og lágmarks stoðrými. Félagsheimili verður byggt í öðrum áfanga.
Hér er hægt að fara inná síðu Magnúsar og skoða teikningarnar.

Mógilsárblótið laugardaginn 30. maí

Eftir Fréttir

Við minnum á hið árlega Mógilsárblót (gróður- og grillblót) sem hefst kl 14:00 í skógræktinni í Kollafirði. Strætó 57 stoppar við Esjurætur. 
Alltaf skjól í skóginum og húsið opið en betra að klæða sig eftir veðri svo börn sem fullorðnir notið útiverunnar og skógarilmsins.

Baðstofustemming, menning, handverk og sköpun.

Eftir Fréttir

Baðstofustemming, menning, handverk og sköpun.
Handverkskvöld verður haldið hér í Síðumúlanum á þriðjudagskvöldið, 2. júní milli kl 20 og 22. Þar getur  fólk unað sér í góðum félagsskap með lágværa tónlist í bakgrunni, sinnt sinni iðju hvort sem það er leðurvinna, tálgun, útskurður, saumur eða hvaðeina. Heitt verður á könnunni og meðlæti í boði.

Fjölfræðingurinn Sigurboði Grétarsson leiðbeinir fólki eftir þörfum. Allir velkomnir!

Barnagaman Ásatrúarfélagsins!

Eftir Fréttir

Barnagaman Ásatrúarfélagsins er að hefja göngu sína á ný í Síðumúla 15.
Opnunarhátíð verður sunnudaginn 24. maí, hvítasunnudag og hefst kl. 12:30.
Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnin sín, en þema fyrsta dagsins verður LEIR. Pylsupottur verður  á glóðum ef einhver er svangur og auk þess kaffi og kex handa þeim fullorðnu.
Verið öll velkomin á þennan fyrsta barnasunnudag Ásatrúarfélagsins, en umsjónarmenn barnagamans eru Svandís Leósdóttir og Fjóla Elvan.

Fjöldi fólks mætti á sigurblót Ásatrúarfélagsins

Eftir Fréttir

Sigurblót Ásatrúarfélagsins var haldið á sumardaginn fyrsta en að þessu sinni var það haldið á Klambratúni í Reykjavík þar sem framkvæmdir eru hafnar á lóð félagsins í Öskjuhlíð.
Að venju var byrjað á helgistund en síðan gengið til grillveislu og trúður og blöðrublásari skemmtu börnunum við feikigóðar undirtektir. Veðrið var gott, sól og blíða en svolítið kalt.
Mikið var því um dýrðir á Klambratúni þennan dag, sumrinu fagnað og er óhætt að segja að aldrei nokkurn tíma hafi aðsókn að blóti verið eins mikil og þennan fyrsta sumardag í ár 2015 og skiptu gestir okkar hundruðum þegar best lét!

Sigurblót á sumardaginn fyrsta!

Eftir Fréttir

Sumardagurinn fyrsti er á næsta leiti og þá mun Ásatrúarfélagið halda Sigurblót á Klambratúni. Fimmtudaginn 23. apríl munum við fagna sumri í Skálinni á Klambratúni en hún er austan við listasafnið þegar gengið er inn frá bílastæðum við Flókagötu. Sigurblótið verður helgað kl. 14:00 en síðan verður grillað og blöðrublásari skemmtir börnunum. Allir hjartanlega velkomnir!

Klár í útivistina!

Eftir Fréttir

Valdimar Melrakki Árnason landkönnuður verður með stutt útivistarnámskeið, laugardaginn 25. apríl, hér í Síðumúlanum. Námskeiðið hefst klukkan 12:00 og er ætlað félagsmönnum sem vilja vera sjálfbjarga úti í náttúrunni. Áhugasamir eru beðnir að bóka sig á skrifstofu félagsins og tryggja sér sæti tímanlega.

Þetta verður meðal umfjöllunarefna:
Vetrar og sumarferðir. Nesti og næring. Útbúnaður,  klæðnaður og hvernig eigi að hlaða í bakpokann.
Eldur kveiktur á „ gamla“ mátann. Áttir fundnar út frá  sólinni.Hvernig má búa til kæligeymslu og bakaraofn í náttúrunni.Hvernig skal hita upp tjald eða íverustað. Fjarskipti og alls kyns góðar græjur í ferðirnar.
Ýmislegt fleira sem þarf að vita á ferðalögum til að breyta stórkostlegu vandamáli í smávægilegt bras.
 
Svo er um að gera að spyrja bara nógu mikið og mæta með áttavita eða aðrar græjur sem maður vill læra að nota.
 
ATH.  Seinni hluti námskeiðsins er á sama tíma og opið hús, en sá hluti verður helgaður fyrirspurnum og verklegum þáttum.

Breytingar í lögréttu

Eftir Fréttir

Á lögréttufundi þann 9. febrúar 2015 óskaði þáverandi lögsögumaður, Hallur Guðmundsson, eftir því að losna undan skyldum lögsögumanns. Þetta gerir hann vegna gríðarlegra anna á öðrum vígstöðvum.
Kári Pálsson, sem gegnt hefur starfi staðgengils lögsögumanns, tekur við embættinu en Hallur verður staðgengill eftir það.
Kári hefur um skeið verið tengiliður Lögréttu vegna hofbyggingarinnar  og heldur því áfram.

Ný lögrétta

Eftir Fréttir

Á allsherjarþingi, laugardaginn 1. nóvember , var kjörið í nýja lögréttu Ásatrúarfélagsins. Fjölmargir buðu sig fram og ber það þess merki að sífellt fleiri hafa áhuga á að koma að starfi félagsins. Kosið var um sæti Sigurlaugar Lilju Jónasdóttur, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs, Huldu Sifjar Ólafsdóttur og Hrafnhildar Borgþórsdóttur. Kosningar fóru svo að Hulda Sif Ólafsdóttir var endurkjörin, Urður Snædal og Lenka KováÅ™ová  koma nýjar inn í lögréttu. Fráfarandi varamenn voru Silke Schurack og Teresa Dröfn Njarðvík. Nýkjörnir varamenn eru Silke Schurack og Sigurboði Grétarsson

Á fyrsta fundi lögréttu, sunnudaginn 2. nóvember – sem jafnframt var opinn, var skipað svo í embætti:

Lögsögumaður: Hallur Guðmundsson
Staðgengill lögsögumanns: Kári Pálsson
Gjaldkeri: Hulda Sif Ólafsdóttir
Ritari: Urður Snædal
Meðstjórnandi: Lenka KováÅ™ová
1. varamaður: Silke Schurack
2. varamaður: Sigurboði Grétarsson

Fyrir hönd goða sitja í lögréttu
Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði
Jóhanna G. Harðardóttir, staðgengill allsherjargoða

Siðfræðsla í Síðumúla

Eftir Fréttir

Sú hefð hefur skapast að á hádegi síðasta laugardags hvers mánaðar eru siðfræðslutímar í Síðumúla. Fræðslan er einkum ætluð þeim sem hyggjast taka siðmálum en þetta er fjórða árið í röð sem skipulögð siðfræðsla fer fram í húsnæði félagsins. Það er því komin nokkuð skýr mynd á starfið þótt vissulega sé fræðslan í sífelldri mótun.

Stærstur hluti þeirra sem sækja tímana eru unglingar, sem velja siðmál í stað hefðbundinnar fermingar, en foreldrar og forráðamenn sitja gjarna tímana með þeim. Á hverju ári taka einnig nokkrir fullorðnir siðmálum og því sækir fólk á misjöfnum aldri siðfræðsluna. Þessi litríka blanda af ólíku fólki af öllum stigum samfélagsins hefur reynst sérstaklega frjór grundvöllur fyrir skemmtilegar og uppbyggilegar umræður og oft hafa tímarnir orðið lengri en til stóð vegna þess að erfitt hefur verið að hætta.

Í siðfræðslunni er kastljósinu beint að því hvað felst í því að vera heiðin manneskja, þ.m.t. ábyrgð, virðing og heiðarleiki. Starfsemi félagsins er kynnt og fjallað um blót og aðra siði sem hafðir eru í heiðri. Við ræðum um guði okkar og gyðjur, helg tákn og samband okkar við náttúru og umhverfi. Hávamál eru lesin og heilræði þeirra rædd. Fræðslutímarnir eru fyrst og fremst í fundarformi og oft skapast frjálslegar og heimspekilegar vangaveltur um mannlífið og tilveruna þar sem allir taka þátt á sínum forsendum.

Siðmálaathafnir Ásatrúarfélagsins verða sífellt vinsælli með hverju árinu sem líður og stafar það eingöngu af því að athafnirnar spyrjast út meðal fólks. Félagið hefur aldrei auglýst fræðsluna opinberlega og hyggst ekki gera það.

Hver athöfn og undirbúningur hennar mótast af því viðhorfi að hver maður er einstakur og dýrmætur og ævi hans og ákvarðanir mikilvægar. Siðmálaathöfnin er því helguð einum siðmálamanni í stað þess að vera fjöldaathöfn þar sem einstaklingurinn hverfur í fjöldanum. Það er von okkar og trú að sá stóri hópur ungmenna og foreldra þeirra sem hafa kynnst vorum sið í gengum siðfræðsluna eigi eftir að verða stolt og glatt ásatrúarfólk sem heldur kyndlinum á lofti um ókomna tíð.

Þeim sem vilja kynna sér siðfræðslu og siðmálaathafnir er bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins eða láta skrá sig hjá asatru@asatru.is eða johanna[að]asatru.is.

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði