NÍU NÆTUR
Fögnum hækkandi sól. Hátíðablót Ásatrúarfélagsins við Garða á Akranesi verður haldið á gamlársdag 31. desember kl. 16:00.
Níu nóttum frá sólstöðum helgum við sólinni, Frey og Gerði Gymisdóttur hátíðastund við eld í hringnum bakvið safnahúsið á Görðum. Eftir athöfnina verður boðið upp á heitan drykk í stúkuhúsinu. Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði helgar blótið og listakonan Elaine ní Cuana sér um tónlistina. Allir eru velkomnir!
Jólablót Ásatrúarfélagsins verður haldið á vetrarsólstöðum þriðjudaginn 22. desember.
Blótið verður helgað í Öskjuhlíð, neðan vegarslóðans við lóðina okkar stundvíslega kl. 18:00. Þar verður hin eina og sanna jólahelgi undir berum himni og allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta.
Jólablótsveislan verður haldin í sal Flugvirkjafélagsins í Borgartúni 22, húsið verður opnað kl. 19:00 og í boði er glæsilegt jólahlaðborð og kaffi á eftir.
Allsherjargoði helgar blótið og börnin tendra jólaljósin og fá glaðning.
Duo Stemma skemmtir börnum og fullorðnum og tekur lagið.
Dregið verður úr númeruðum miðum í jólahappdrættinu.
Steindór Andersen kveður rímur.
Blóttollur er kr. 5000 fyrir fullorðna en börn undir 12 ára aldri fá frítt inn.
Hægt er að kaupa miða í blótveisluna á skrifstofunni á opnunartíma, en einnig má greiða miðana í netbanka inná reikning 0101-26-011444 kt. 680374-0159. Greidda miða má sækja við innganginn, en gæta verður þess að láta senda kvittun á asatru@asatru.is þar sem tilgreint er nafn greiðanda og fjöldi miða fyrir fullorðna og börn.
ATH. miðar verða EKKI seldir við innganginn.
Listakonanan Sigrún Lára Shanko mun opna sýningu í sal Ásatrúarfélagsins, laugardaginn 12. desember kl. 13:00. Sigrún sérhæfir sig í textílmálun á silki og hefur einbeitt sér við að finna sinn eigin stíl í þeim efnum en viðfangsefni hennar eru hinar fornu Eddur. Hún hefur líka undanfarin ár hannað gólf- og veggteppi úr íslenskri ull sem vakið hafa verðskuldaða athygli um allan heim. Á sýningunni sýnir Sigrún silkiverk úr Völuspá, Ragnars sögu loðbrókar og Sigurdrífumálum. Listamaðurinn mun segja aðeins frá sér og sínu og hvar hún leitar að innblæstri. Léttar veitingar verða í boði og allir eru hjartanlega velkomnir.
Sameiningarblótið sem átti að vera á Þingvöllum í dag, 1. desember kl. 18:00, verður fært í Öskjuhlíðina hjá minnisvarða Sveinbjörns Beinteinssonar. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði mun helga blótið.
Landvættablótið sem halda átti í Víkingaheimum í Keflavík fellur niður.
Landvættablótið sem átti að vera í Einkunnum í Borgarnesi verður fært í Hafnarskóg, við sumarbústað Jónínu K. Berg Vesturlandsgoða. Nánari upplýsingar um staðsetningu er í síma 865-2581.
Spáð er illviðri um allt land á morgun þriðjudaginn 1.desember og Veðurstofan varar við ferðalögum.
Við vitnum í Loddfáfnismál en þar segir meðal annars;
Á fjalli eða firði
ef þig fara tíðir,
fástu að veðri vel
Blótin verða ekki haldin nema veður og færð leyfi örugg ferðalög. Fylgist með á vefsíðunum og hjá þeim goðum sem standa að blótunum en þau eru: Hilmar á ÞIngvöllum, Jóhanna í Reykjanesbæ, Jónína í Borgarfirði, Ragnar á Akureyri og Baldur á Egilsstöðum.
Blót verða haldin víða um land á þriðjudaginn n.k.
Bergrisinn verður blótaður við Víkingaheima, Innri Njarðvík, Reykjanesbæ.
Griðungurinn verður blótaður í Einkunnum við Borgarnes.
Drekinn verður blótaður við Ferjusteina, við norðurenda Lagarfljótsbrúar, bílastæði við Bókakaffi.
Örninn verður blótaður á Hamarkotstúni á Akureyri.
Síðast en ekki síst verður haldið sameiningarblót á Þingvöllum í Almannagjá.
Blótin hefjast öll kl. 18:00 nema við Ferjusteina en það hefst kl. 20:00.
Allir velkomnir, félagsmenn sem aðrir.
Bergsveinn Birgisson er einhver margslungnasti, ef ekki fjölkunnugasti, höfundur sinnar kynslóðar. Á íslensku hefur hann ritað tvær ljóðabækur, tvær „hefðbundnar“ skáldsögur, skáldfræðisöguna „Handbók um hugarfar kúa“ og nýverið kom út síðasta verk hans, hið illflokkanlega „íslenzka fornrit: Geirmundar Saga Heljarskinns“.
Bergsveinn mun koma og lesa upp úr bók sinni, Geirmundar saga Heljarskinns hér í Síðumúlanum á opna húsinu, laugardaginn 21. nóvember kl. 14, og svara fyrirspurnum á eftir.
Einnig gefst fólki kostur á því að kaupa árituð eintök á tilboðsverði. Allir velkomnir.
.jpg)
Allsherjarþing verður haldið laugardaginn 31. október í sal félagsins að Síðumúla 15 og hefst það kl. 14:00.
Dagskrá fundarins er sem hér segir:
1. Skýrsla lögréttu
2. Reikningar
3. Kosning fulltrúa í lögréttu
4. Kosning skoðunarmanna reikninga
5. Ávarp allsherjargoða
6. Staða hofbyggingar
7. Önnur mál
Félagsmenn eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Hausblótið verður haldið fyrsta vetrardag eða laugardaginn 24. október í sal félagsins að Síðumúla 15. Húsið verður opnað kl. 19:30 og blótið hefst kl. 20:00, blóttollur er 3.500 krónur og má greiða hann hér á skrifstofunni á milli kl. 13:30 og 16:00 alla virka daga. Einnig má millifæra inná reikning félagsins (0101-26-011444, kt. 680374-0159).
Í boði verður:
– Haustveisla að hætti veitingastaðarins Soho
– Hugleikur Dagsson skemmtir við borðhald
– Kári og Sigurboði flytja okkur Baldursdrauma
Allir eru velkomnir!
Elaine kynntist fyrst fornleifafræði 11 ára gömul. Hugur hennar heillaðist af listaverkum fyrri kynslóða sem þá voru þó aðeins vísindaverkefni í hennar augum og sneydd lífi, litum og tengingu við fólkið sem skóp þau.
Hún lagði upphaflega stund á landslagsmyndir en áhugi hennar á fornri list norrænna manna jókst stöðugt og ekki hvað síst áttu listaverkin í Gaukstaða- og Asebergskipunum þátt í því að hún söðlaði um í listsköpun sinni. Elaine hóf að lesa í söguna og táknin í þessum fornu myndverkum, glæða þau lífi og lit á ný og greiða þeim leiðina til nútímamannsins.
Verk Elaine eru skemmtileg endurlífgun fornrar norrænnar myndlistar og allir eru velkomnir að koma og njóta í salnum okkar.