Frá sonum Hrauðungs konungs
Hrauðungur konungur átti tvo sonu: hét annar Agnar, en annar Geirröður. Agnar var tíu vetra, en Geirröður átta vetra. Þeir reru tveir á báti með dorgar sínar að smáfiski. Vindur rak þá á haf út. Í náttmyrkri brutu þeir við land og gengu upp, fundu kotbónda einn. Þar voru þeir um veturinn. Kerling fóstraði Agnar, en karl Geirröð.Að vori fékk karl þeim skip. En er þau kerling leiddu þá til strandar, þá mælti karl einmæli við Geirröð. Þeir fengu byr og komu til stöðva föður síns. Geirröður var fram í skipi; hann hljóp í land, en hratt út skipinu og mælti: Farðu þar er hafi þig! Skipið rak út, en Geirröður gekk upp til bæjar. Honum var vel fagnað; þá var faðir hans andaður. Var þá Geirröður til konungs tekinn og varð maður ágætur. Óðinn og Frigg sátu í Hliðskjálfu og sáu um heima alla. Óðinn mælti: Sér þú Agnar fóstra þinn, hvar hann elur börn við gýgi í hellinum? En Geirröður fóstri minn er konungur og situr nú að landi. Frigg segir: Hann er matníðingur sá, að hann kvelur gesti sína, ef honum þykja of margir koma. Óðinn segir að það er hin mesta lygi. Þau veðja um þetta mál. Frigg sendi eskismey sína, Fullu, til Geirröðar. Hún bað konung varast að eigi fyrirgerði honum fjölkunnugur maður, sá er þar var kominn í land, og sagði það mark á, að engi hundur var svo ólmur að á hann myndi hlaupa. En það var hinn mesti hégómi að Geirröður væri eigi matgóður. Og þó lætur hann handtaka þann mann er eigi vildu hundar á ráða. Sá var í feldi blám og nefndist Grímnir, og sagði ekki fleira frá sér, þótt hann væri að spurður. Konungur lét hann pína til sagna og setja milli elda tveggja, og sat hann þar átta nætur. Geirröður konungur átti son, tíu vetra gamlan, og hét Agnar eftir bróður hans. Agnar gekk að Grímni og gaf honum horn fullt að drekka, sagði að konungur gerði illa, er hann lét pína hann saklausan. Grímnir drakk af. Þá var eldurinn svo kominn að feldurinn brann af Grímni. Hann kvað:
Heitur ertu, hripuður,
og heldur til mikill;
göngumk firr, funi!
Loði sviðnar,
þótt eg á loft berag,
brennumk feldur fyrir.
Átta nætur sat eg
milli elda hér,
svo at mér manngi mat né bauð,
nema einn Agnar,
er einn skal ráða,
Geirröðar sonur,
gotna landi.
Heill skaltu, Agnar,
alls þig heilan biður
Veratýr vera;
eins drykkjar
þú skalt aldregi
betri gjöld geta.
Land er heilagt,
er eg liggja sé
ásum og álfum nær
en í Þrúðheimi
skal Þór vera,
uns um rjúfast regin.
Ýdalir heita
þar er Ullur hefir
sér um görva sali
Álfheim Frey
gáfu í árdaga
tívar að tannfé.
Bær er sá inn þriðji
er blíð regin
silfri þöktu sali;
Valaskjálf heitir,
er vélti sér
ás í árdaga.
Sökkvabekkur heitir inn fjórði,
en þar svalar knegu
unnir yfir glymja;
þar þau Óðinn og Sága
drekka um alla daga
glöð úr gullnum kerum.
Glaðsheimur heitir inn fimmti,
þar er in gullbjarta
Valhöll víð of þrumir;
en þar Hroftur
kýs hverjan dag
vopndauða vera.
Mjög er auðkennt,
þeim er til Óðins koma
salkynni að sjá:
sköftum er rann reft,
skjöldum er salur þakinn,
brynjum um bekki stráð.
Mjög er auðkennt,
þeim er til Óðins koma
salkynni að sjá:
vargur hangir
fyr vestan dyr
og drúpir örn yfir.
Þrymheimur heitir inn sjötti,
er Þjazi bjó,
sá inn ámáttki jötunn;
en nú Skaði byggir,
skír brúður goða,
fornar tóftir föður.
Breiðablik eru in sjöundu,
en þar Baldur hefir
sér um gerva sali,
á því landi,
er eg liggja veit
fæsta feiknstafi.
Himinbjörg eru in áttu,
en þar Heimdall
kveða valda véum;
þar vörður goða
drekkur í væru ranni
glaður inn góða mjöð.
Fólkvangur er inn níundi,
en þar Freyja ræður
sessa kostum í sal;
hálfan val
hún kýs hverjan dag,
en hálfan Óðinn á.
Glitnir er inn tíundi,
hann er gulli studdur
og silfri þaktur ið sama;
en þar Forseti
byggir flestan dag
og svæfir allar sakir.
Nóatún eru in elleftu,
en þar Njörður hefir,
sér um görva sali;
manna þengill
inn meins vani
hátimbruðum hörgi ræður.
Hrísi vex
og háu grasi
Víðars land Viði;
en þar mögur of læzt
af mars baki
frækn að hefna föður.
Andhrímnir
lætur í Eldhrímni
Sæhrímni soðinn,
fleska best;
en það fáir vitu,
við hvað einherjar alast.
Gera og Freka
seður gunntaminn
hróðugur Herjaföður;
en við vín eitt
vopngöfugur
Óðinn æ lifir.
Huginn og Muninn
fljúga hverjan dag
Jörmungrund yfir;
óumk eg um Hugin
að hann aftur né komi,
þó sjáumk meir um Munin.
Þýtur Þund,
unir Þjóðvitnis
fiskur flóði í;
árstraumur
þykir ofmikill
valglaumi að vaða.
Valgrind heitir,
er stendur velli á
heilög fyr helgum dyrum;
forn er sú grind,
en það fáir vitu,
hve hún er í lás lokin.
Fimm hundruð dyra
og um fjórum tugum,
svo hygg eg að Valhöllu vera;
átta hundruð einherja
ganga senn úr einum dyrum,
þá er þeir fara að vitni að vega.
Fimm hundruð gólfa
og um fjórum tugum,
svo hygg eg Bilskirni með bugum;
ranna þeirra
er eg reft vita,
míns veit eg mest magar.
Heiðrún heitir geit,
er stendur höllu á Herjaföðurs
og bítur af Læráðs limum;
skapker fylla
hún skal ins skíra mjaðar;
kná-at sú veig vanast.
Eikþyrnir heitir hjörtur,
er stendur á höllu Herjaföðurs
og bítur af Læráðs limum;
en af hans hornum
drýpur í Hvergelmi,
þaðan eiga vötn öll vega:
Síð og Víð,
Sækin og Eikin,
Svöl og Gunnþró,
Fjörm og Fimbulþul,
Rín og Rennandi,
Gipul og Göpul,
Gömul og Geirvimul,
þær hverfa um hodd goða,
Þyn og Vin,
Þöll og Höll,
Gráð og Gunnþorin.
Vína heitir ein,
önnur Vegsvinn,
þriðja Þjóðnuma,
Nyt og Nöt,
Nönn og Hrönn,
Slíð og Hríð,
Sylgur og Ylgur,
Víð og Ván,
Vönd og Strönd,
Gjöll og Leiftur,
þær falla gumnum nær,
er falla til Heljar héðan.
Körmt og Örmt
og Kerlaugar tvær,
þær skal Þór vaða
hverjan dag,
er hann dæma fer
að aski Yggdrasils,
því að Ásbrú
brenn öll loga,
heilög vötn hlóa.
Glaður og Gyllir,
Glær og Skeiðbrimir,
Silfrintoppur og Sinir,
Gísl og Falhófnir,
Gulltoppur og Léttfeti,
þeim ríða æsir jóm
dag hvern,
er þeir dæma fara
að aski Yggdrasils.
Þrjár rætur
standa á þrjá vega
undan aski Yggdrasils;
Hel býr undir einni,
annarri hrímþursar,
þriðju mennskir menn.
Ratatoskur heitir íkorni,
er renna skal
að aski Yggdrasils;
arnar orð
hann skal ofan bera
og segja Niðhöggvi niður.
Hirtir eru og fjórir,
þeir er af hæfingar á
gaghálsir gnaga:
Dáinn og Dvalinn,
Duneyrr og Duraþrór.
Ormar fleiri
liggja undir aski Yggdrasils,
en það of hyggi hver ósvinnra apa:
Góinn og Móinn,
þeir eru Grafvitnis synir,
Grábakur og Grafvölluður,
Ófnir og Sváfnir,
hygg eg, að æ skyli
meiðs kvistu má.
Askur Yggdrasils
drýgir erfiði
meira en menn viti:
hjörtur bítur ofan,
en á hliðu fúnar,
skerðir Niðhöggur neðan.
Hrist og Mist
vil eg að mér horn beri,
Skeggjöld og Skögul,
Hildur og Þrúður,
Hlökk og Herfjötur,
Göll og Geirölul,
Randgríð og Ráðgríð
og Reginleif;
þær bera einherjum öl.
Árvakur og Alsviður,
þeir skulu upp héðan
svangir sól draga;
en und þeirra bógum
fálu blíð regin,
æsir, ísarnkol.
Svalinn heitir,
hann stendur sólu fyrir,
skjöldur, skínanda goði;
björg og brim
eg veit að brenna skulu,
ef hann fellur í frá.
Skoll heitir úlfur,
er fylgir inu skírleita goði
til varna viðar,
en annar Hati,
hann er Hróðvitnis sonur,
sá skal fyr heiða brúði himins.
Úr Ymis holdi
var jörð um sköpuð,
en úr sveita sær,
björg úr beinum,
baðmur úr hári,
en úr hausi himinn.
En úr hans brám
gerðu blíð regin
Miðgarð manna sonum;
en úr hans heila
voru þau in harðmóðgu
ský öll um sköpuð.
Ullar hylli hefur
og allra goða
hver er tekur fyrstur á funa,
því að opnir heimar
verða um ása sonum,
þá er hefja af hvera.
Ívalda synir
gengu í árdaga
Skíðblaðni að skapa,
skipa best,
skírum Frey,
nýtum Njarðar bur.
Askur Yggdrasils,
hann er æðstur viða,
en Skíðblaðnir skipa,
Óðinn ása,
en jóa Sleipnir,
Bilröst brúa,
en Bragi skálda,
Hábrók hauka,
en hunda Garmur.
Svipum hefi eg nú yppt
fyr sigtíva sonum,
við það skal vilbjörg vaka;
öllum ásum
það skal inn koma
Ægis bekki á,
Ægis drekku að.
Hétumk Grímnir,
hétumk Gangleri,
Herjann og Hjálmberi,
Þekkur og Þriði,
Þuður og Uður,
Herblindi og Hár;
Saður og Svipall
og Sanngetall,
Herteitur og Hnikar,
Bileygur, Báleygur,
Bölverkur, Fjölnir,
Grímur og Grímnir,
Glapsviður og Fjölsviður;
Síðhöttur, Síðskeggur,
Sigföður, Hnikuður,
Alföður, Valföður,
Atríður og Farmatýr.
Einu nafni
hétumk aldregi,
síst eg með fólkum fór.
Grímni mig hétu
að Geirröðar,
en Jálk að Ásmundar,
en þá Kjalar,
er eg kjálka dró;
Þrór þingum að,
Viður að vígum,
Óski og Ómi,
Jafnhár og Biflindi,
Göndlir og Hárbarður með goðum.
Sviður og Sviðrir
er eg hét að Sökkmímis,
og dulda eg þann inn aldna jötun,
þá er eg Miðvitnis var
ins mæra burar
orðinn einbani.
Ölur ertu, Geirröður!
hefur þú ofdrukkið;
miklu ertu hnugginn,
er þú ert mínu gengi,
öllum einherjum
og Óðins hylli.
Fjöld eg þér sagða,
en þú fátt um mant,
of þig véla vinir;
mæki liggja
eg sé míns vinar
allan í dreyra drifinn.
Eggmóðan val
nú mun Yggur hafa,
þitt veit eg líf um liðið;
úfar eru dísir,
nú knáttu Óðin sjá,
nálgastu mig ef þú megir!
Óðinn eg nú heiti,
Yggur eg áðan hét,
hétumk Þundur fyrir það,
Vakur og Skilfingur,
Váfuður og Hroftatýr,
Gautur og Jálkur með goðum,
Ófnir og Sváfnir,
er eg hygg að orðnir sé
allir af einum mér.
Geirröður konungur sat og hafði sverð um kné sér, og brugðið til miðs. En er hann heyrði að Óðinn var þar kominn, stóð hann upp og vildi taka Óðin frá eldinum. Sverðið slapp úr hendi honum og vissu hjöltin niður. Konungur drap fæti og steyptist áfram, en sverðið stóð í gegnum hann, og fékk hann bana. Óðinn hvarf þá. En Agnar var þar konungur lengi síðan.