Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Hjól ársins

Samkvæmt fornu tímatali Kelta voru þeirra áramót þann 31. október að nútíma tímatali. Sá dagur tilheyrði hvorki því ári sem var að líða né árinu sem var að byrja heldur var og er þessi dagur mjög sérstök vídd milli tímabila; milli árstíðanna sumars og vetrar og lyfti hjóli ársins áfram á næsta hring.

Kringum þennan sérstaka dag ber mikið á opnun milli veraldlegs og andlegs heims. Hulan hverfur sem aðskilur hina ýmsu heima. Andar eiga auðveldara með að heimsækja efnisheiminn og mannfólk á auðveldara með að heimsækja andaheiminn, álfa, undirheima, heima liðinna formæðra of forferða og jafnvel þá hægt að sækja sér vísdóm og leiðbeiningar.

Þetta er tími dauða sem er um leið endurfæðing, tími spádóma; hulunni svipt af fortíð og framtíð. Fórnir voru færðar á grafir forfeðranna og ef hinum framliðna mislíkaði fórnin kom hann og gerði grikk. Til að halda uppá þennan sérstaka dag voru kveiktir eldar á gröfum eða haugum en fólk sem tók kannski ekki þátt í þessu óttaðist samt óvelkomna anda og hræddi þá í burtu með grófum andlitum úr graskerjum með kertaljósi inni í.

Nú til dags þekkjum við þessa hátíð sem Halloween sem haldið er upp á víða með miklum ærslum, búningum og skrauti og er meira að segja að byrja að skjóta rótum hér á Fróni. Þá bregður fyrir beinagrindabúningum og hauskúpum en bein eru einmitt tákn bæði dauðleika og óforgengileika því þó að líkaminn deyi eru beinin allt að því óforgengileg. Appelsínuguli liturinn er áberandi við þessa hátíð því hann er táknrænn fyrir deyjandi eld sumarsins og fallandi lauf haustsins.

Einn af okkar fornu hátíðisdögum, fyrsta vetrardag, ber upp á þennan tíma en margt er mjög líkt með þessum fornu áramótum Kelta og okkar jóla- og áramótasiðum og þjóðtrú. Sem dæmi er mikil umferð álfa á jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt, dýr tala mannamál og ekki má gleyma Völvu Vikunnar. Það að sitja á krossgötum er uppskrift að því að tengjast inn á aðra heima í allar áttir og undirheima og æðri heima. Þannig orkuflæði eða orkusamskipti milli heima eru mikilvæg til að jafnvægi haldist milli náttúrunnar hinna mörgu og ólíku heima og mannfólks.

Jónína K. Berg
birt í Vorum Sið, desember 2001