Skip to main content

Hjónavígsla

Hjónavígsluathafnir á vegum Ásatrúarfélagsins eru fallegar, frjálslegar og fjölbreyttar enda eru þær að talsverðu leyti sniðnar að óskum hjónaefnanna. Stuðst er þó við sama ramma í þeim öllum: Goði helgar stað og stund og tilvonandi hjón sverja eið hvort til annars. Til þess er notaður eiðbaugur og að endingu er drykkjarhorn notað og gefst þá gestum tækifæri til að taka þátt í athöfninni.

Hjónaefnin semja í flestum tilfellum sína eigin eiða og geta þannig ofið lífssýn sína og persónuleika inn í athöfnina án þess að hefðir eða kennisetningar trúar komi þar við sögu. Fyrir þau sem hrýs hugur við tilhugsunina um að flytja eið fyrir framan gesti bjóða goðar að sjálfsögðu upp á aðra valkosti.

Mörg dæmi eru um tónlistarflutning, ljóðalestur eða önnur atriði og einnig er alvanalegt að hjónaefni skiptist á hringum eða öðrum táknrænum gjöfum. Þessi atriði eru höfð eins og hjónaefnin vilja hafa þau eins og reyndar á við flest þegar hjónavígsla hjá Ásatrúarfélaginu er annars vegar.

Hjónavígsla fer í langflestum tilfellum fram utandyra og á stað sem hjónaefnunum er kær eða hefur sérstakt tilfinningalegt gildi í hugum þeirra. Gestir standa yfirleitt í hring eða hálfhring og sjá vel og heyra allt það sem á sér stað í athöfninni. Veðrið spilar að sjálfsögðu stórt hlutverk en goðarnir eru sammála um að ekki sé hægt að kenna slæmu veðrið um að hafa eyðilagt athöfn og þykjast margir þeirra hafa sérstakt lag á því að semja við veðurguðina svo hjónaefni fái milt veður.

Umgjörð athafnanna er eins ólík og athafnirnar eru margar. Í sumum þeirra eru einungis þrjú viðstödd, hjónaefnin og goðinn, en í öðrum þeirra 300 gestir. Fámennar athafnir eiga það til að vera einstaklega hátíðlegar og tilfinningaríkar og þær stærri eru einnig hátíðlegar og fullar af gleði.

Verð fyrir hjónavígslu er 30.000 kr. fyrir félagsmenn, en 60.000 kr fyrir vígslur utan félags. Fyrir aukaverk goða á borð við aðstoð við pappírsvinnu og þýðingar á kvæðum eru innheimtar 20.000 kr. en á það aðallega við í tilfellum erlendra ferðamanna. Við verðið leggst síðan ferðakostnaður.

Þau sem hyggja á heiðna hjónavígslu er bent á að velja og hafa samband við goða og semja við hann um dagsetningu, staðarval og tilheyrandi. Goðar leiðbeina hjónaefnum við lagalegan undirbúning athafnarinnar, útskýra grunnþætti hennar og hvernig megi laga hana að óskum þeirra.