Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Hof

Nú þegar hafist er handa við hönnun hofs og safnaðarheimilis er gott að velta fyrir sér öllum þeim heimildum sem til eru um hof, hörga og blótsiði. Á síðustu tveimur öldum hafa orðið mikil umskipti í hugmyndum leikra og lærða um þetta efni og enn ber mikið á milli margra helstu fræðamanna á þessu sviði. Eflaust mætti þvarga um þetta ágæta mál í þúsund ár án þess að komast að niðurstöðu og því er mikilvægt að ná fljótt niður á eina góða lausn sem er einföld, hagkvæm og félagi okkar og vorum sið til

sóma. Í febrúarmánuði verður boðað til fundar þar sem félagar geta komið fram með hugmyndir og lagt út frá rituðum heimildum eða eigin brjósti. Með vorinu verður síðan málþing þar sem til verða kvaddir fræðimenn sem hafa gefið sig að þessu sviði og munu þeir segja frá tilgátum og rannsóknum sem geta orðið enn frekari innblástur. Ég læt hér fylgja með tvær stuttar tilvitnanir í sagnaarfinn og vona að þær kveiki nokkra rannsóknarþrá hjá lesendum.

Í Eyrbyggju segir af Þórólfi Mostrarskegg og hofi hans:
Hann setti bæ mikinn við Hofsvog er hann kallaði á Hofsstöðum. Þar lét hann reisa hof og var það mikið hús. Voru dyr á hliðvegginum og nær öðrum endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er sæfð voru þau kvikindi er goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu.

Í Hákonar sögu Aðalsteinsfóstra segir af einum Hlaðajarla sem kippti í kyn sitt:
Sigurður Hlaðajarl var hinn mesti blótmaður og svo var Hákon faðir hans. Hélt Sigurður jarl upp blótveislum öllum af hendi konungs þar í Þrændalögum. Það var forn siður þá er blót skyldi vera að allir bændur skyldu þar koma sem hof var og flytja þannug föng sín, þau er þeir skyldu hafa meðan veislan stóð. Að veislu þeirri skyldu allir menn öl eiga. Þar var og drepinn alls konar smali og svo hross en blóð það allt er þar kom af, þá var kallað hlaut og hlautbollar það er blóð það stóð í, og hlautteinar, það var svo gert sem stökklar, með því skyldi rjóða stallana öllu saman og svo veggi hofsins utan og innan og svo stökkva á mennina en slátur skyldi sjóða til mannfagnaðar. Eldar skyldu vera á miðju gólfi í hofinu og þar katlar yfir.

Skyldi full um eld bera en sá er gerði veisluna og höfðingi var, þá skyldi hann signa fullið og allan blótmatinn. Skyldi fyrst Óðins full, skyldi það drekka til sigurs og ríkis konungi sínum, en síðan Njarðar full og Freys full til árs og friðar. Þá var mörgum mönnum títt að drekka þar næst bragafull. Menn drukku og full frænda sinna, þeirra er heygðir höfðu verið, og voru það minni kölluð. Sigurður jarl var manna örvastur. Hann gerði það verk er frægt var mjög að hann gerði mikla blótveislu á Hlöðum og hélt einn upp öllum kostnaði.

Til árs og friðar

Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði

(Birtist í Vorum Sið 1. tbl. 2006).