Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Hvað er Ásatrú?

Ásatrú eða heiðinn siður er upprunaleg trú Íslendinga á forn goð norrænna manna og Germana sem dýrkuð voru hér á landmámsöld. Ásatrú er ekki bundin við æsi eina heldur hvaða goð eða vættir sem er innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvættir, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður. Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð, trúa á mátt sinn og megin og jafnframt á lífið sjálft.

Lítið er vitað um iðkun ásatrúar fyrr á öldum. Við tökum hins vegar mið af eldri Eddu með Hávamálum og Völuspá en hin yngri Edda Snorra Sturlusonar gegnir einnig mikilvægu hlutverki. Þessar bækur eru bestu heimildirnar um hinn forna átrúnað og reyndar svo einstakar að ef þær væru ekki til væri næsta lítið vitað um íslenska og germanska heiðni.

Heiðinn siður byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir náttúrunni og öllu lífi. Ásatrúin leggur áherslu á að lifa í sátt við náttúruna. Allt sem við gerum móður Jörð gerum við sjálfum okkur og börnum okkar. Eitt megin inntak siðarins er að hver maður er ábyrgur fyrir sjálfum sér og sínum gjörðum. Þar sem mörg okkar búa í borgarasamfélagi mótar það hugsanir og athafnir. Iðka því ásatrúarmenn trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar, svo framalega sem iðkunin brýtur ekki í bága við landslög.

Örlagatrú og forlagatrú eru sterkar í heiðnum sið, við ráðum hinsvegar hvernig við mætum örlögum okkar en vert er að taka þeim af æðruleysi og hugprýði enda er hver og einn ábyrgur eigin gerða.

Heimsmynd ásatrúarmanna er að finna í Völuspá, þar sem hin vitra völva fræðir Óðinn um það sem fyrir augu hennar ber og svo langt aftur sem hún man. Völuspá lýsir sköpun heimsins, þróun hans, endalokum og nýju upphafi. Í ragnarökum falla menn, goð og jötnar og jörðin sekkur í brennandi sæ en rís á ný iðjagræn og allt líf endurnýjast. Manninum ber að vera í liði með öflum lífs og sköpunar en mæta eins og fyrr var sagt, örlögum sínum af æðruleysi.

Heimsmynd ásatrúarmanna byggir á hinni eilífu hringrás náttúrunnar, sem felur í sér allt líf, upphaf og endi, sköpun og eyðingu. Miðpunktur heimsmyndar ásatrúarinnar er heimstréð Yggdrasill, hinn sígræni askur sem teygir rætur sínar víða en greinanar um heim allan og ofar himni. Samkvæmt Snorra-Eddu liggur ein róta asksins í Ásgarði bústað goðanna. Undir henni er hinn helgi Urðarbrunnur, við hann dvelja skapanornirnar Urður, Verðandi og Skuld og skapa mönnum líf og örlög.
Önnur rótin er í Jötunheimi með hrímþursum þar sem forðum var Ginnungagap. En undir þeirri rót er Mímisbrunnur, er spekt og manvit er í fólgið, uppspretta hins forna vísdóms.
Þriðja rótin stendur yfir hinum ískalda Niflheimi og undir þeirri rót er brunnurinn Hvergelmir, en drekinn Níðhöggur gnagar neðan rótina.

Í Hávamálum er einkum að finna siðfræði ásatrúarinnar. Að vera heiðinn er ekki það að vera siðlaus. Eftirfarandi erindi úr Hávamálum lýsir vel að betra er að vera sólarmegin í lífinu og lifa eftir góðum siðum:
Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn.
Heilindi sitt
ef maður hafa náir
án við löst að lifa.

Orðin heiðinn og heiðni eru oft notuð um ásatrúarmenn og ásatrú. Í gegnum tíðina hafa þau of oft verið notuð sem lastyrði, orðin heiðni og heiðinn eru komin af heiði en við tengjum þau gjarnan heiðum himni og víðáttu heiðríkjunnar. Goð eiga að vera flekklaus og heiðsæ svo sem himininn á heiðum uppi. Þannig á líf sérhvers heiðins manns að vera – þetta er það að vera heiðinn.