Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Kristnitökusagan árið 1000

Einar Arnórsson

Atburðir þeir, sem hér verða raktir, hafa gerst fyrir nær hálfri tíundu öld. Þeir hafa ekki verið skjalfestir samtímis svo vitað sé. Engar fornminjar eru við þá tengdar, örnefni né kvæði,1 sem fræðslu veiti, beint eða óbeint, um þá. Einu heimildirnar um þá verða því annarskonar frásagnir manna. Þessar frásagnir þykir hlýða að athuga nokkuð almennt, áður an reynt er að rekja atburðarsöguna. Sameigið öllum þeim frásögum er það, að þær eru skráðar löngu eftir atburði. Skrásetjendur hafa hvorki verið sjónarvottar né heyrnar, og sagnir sínar hafa þeir ekki heldur eftir nokkrum slíkum heimildarmanni, heldur um milliliði tvo eða fleiri. Má því búast við margskonar skekkjum í frásögn, misskilningi á atvikum, hlutdrægni bæði viljandi og óviljandi og beinum uppspuna. Allir, sem fengist hafa við prófun munnmæla og arfsagna, munu hafa rekið sig á allt þetta.

I. Elsta heimildaritið er Íslendingabók Ara fróða. 2 Hún er ekki skráð fyrr en á árabilinu 1122 – 1133, er þeir Þorlákur Runólfsson og Ketill Þorsteinsson voru samtímis biskupar (sbr. formála Ara fróða), þótt Ari kunni að hafa þokað einhverju síðar og aukið. Áður getur Ari þó hafa skráð sér minnisgreinar um það, sem honum var sagt af kristnitökunni. Fæddur er Ari árið 1067 eða 1068, því hann var 12 vetra þegar Ísleifur biskup dó, en það var 1080 (Íslb. 9. kap.). getur Ari því varla hafa gert sér minnisgreinar um sagnir, fyrr en eftir 1080. Ari dvaldist 14 vetur (árin 1074  eða 1075 – 1088  eða 1089) í Haukadal með Halli Þórarinssyni og Teiti Ísleifssyni biskups og kallar þá báða fóstra sína. Teitur var lærður maður og kenndi mörgum klerkleg fræði (Bisk. I. 153, 219), og hefir Ari verið einn þeirra. Hallur hefur verið fæddur 996, og mundi hann, er Þangbrandur skírði hann þrevetran (Íslb. 9. kap.). Teitur er aðalheimildarmaður Ara um frásagnir af kristnitökunni. Þótt skírskotun hans til heimildar Teits sé allóglögg (Íslb. 7), þá verður þetta varla efað. Hallur Þórarinsson hefur bæði sjálfur munað langt fram og haft sagnir af mönnum á yngri árum, sem sjálfir mundu atburðina árið 1000, og hefir Hallur því vafalítið líka verið heimildarmaður Ara.

Að því leyti sem Ari hefir haft sagnir af atburðum árið 1000 af Halli Þórarinssyni, verða sögumennirnir þrír: Heimildarmaður Halls, Hallur sjálfur og Ari. En það, sem Ari hefir eftir Teiti, hefir farið um þrjá liði eða fjóra. Teitur er sennilega fæddur um 1040, og gæti því hafa haft sagnir af gömlum mönnum, sem sjálfir mundu fram til ársins 1000, enda virðist Teitur, eftir orðum Ara (Íslb. 7. kap.), hafa haft tal af einum slíkum manni um landtöku þeirra Gizurar í Vestmannaeyjum. En flest þessara tíðinda virðist Teitur munu hafa haft af Halli fóstra sínum og Ísleifi biskupi föður sínum, en frumheimildin er þá líklega Gizur hvíti, sem sagt hefur Ísleifi syni sínum frá atburðum. Hjalti Skeggjason var að fjórða og fimmta að frændsemi við Hall (landn. 1925, bls. 25) og gæti vitanlega hafa sagt Halli ýmislegt um kristnitökuna. Og auðvitað hafa frumheimildarmenn getað ýmsir verið, þó að þeir Gizur og Hjalti séu líklegastir til frumheimildar um það, sem Ari segir af kristnitökunni.

Það sem Ari skráir um atburðina árið 1000 er því komið um þrjá og fjóra liðu til þeirra, sem rit Ara nota. Sannhermi sögumanns fer eftir réttskynjun hans, minni og síðan sannri og glöggri frásögn. Ef brestur er á einhverjum þessara skilyrða eða fleirum, þá raskar það sönnunargildi skýrslu hans. Þegar sögn gengur milli margra, verður hver um sig að fullnægja sömu skilyrðum sem frumsögumaður, og þá auðvitað skrásetjandi sagnar ekki síður. Keðja er jafnsterk veikasta hlekknum.

Sögn sem milli manna gengur er líkt farið. Aflögun hennar í meðförum eins þeirra rýrir áreiðanleik hennar, eins og feyra í hlekk rýrir styrkleika keðjunnar. Enginn má vænta þess, að sögn, sem gengið hefur um þrjá liðu eða fjóra, veiti nærhæfis rétta mynd af þeim atburðum, sem hún greinir. Hún heldur höfuðviðburði eða höfuðviðburðum fáum nokkurn veginn, en við er aukið og niður er fellt viljandi og óviljandi, sum misskilið og rangfært o.s.frv. Um frásögn Ara af kristnitökunni verður þess fyrst gætandi, að hætt er við hlutdrægni af hálfu frumheimildarmanna. Þeir munu hafa verið hlynntari kristnum mönnum en heiðnum. Milliheimildarmenn eru ekki síður háðir sama grun. Í huga þeirra verða kristniboðsmennirnir mestu velgerðarmenn landsmanna, og því hafa þeir hneigð til að bera þeim sem best söguna, en halla á hina heiðnu menn.

Sögnin um hina miklu málsnilli þeirra Gissurar og Hjalta að lögbergi á vafalítið rót sína til þess að rekja. Ræður eða málsnilli heiðinna manna getur ekki, og verður þó varla efað, að þeir hafi haldið uppi svörum fyrir sinn málstað og verið líka málsnjallir. Ef vér hefðum samtíða skýrslur tveggja góðra manna, síns úr hvorum flokki, um kristnitökuna á alþingi 1000, þá mundi þeim sjálfsagt um margt bera saman, en margt mundi vera sagt með gerólíkum hætti, og mynd af atburðum mundi að mörgu leyti hafa orðið sín í hvorri skýrslu.

Frásögn Ara er að vísu einhliða, sem von er. En Ari hefur eflaust verið mjög ráðvandur höfundur og skilríkur, svo langt sem vitneskja hans og skilningur náði. Hann segir stuttort frá og hallar á engan viljandi. Lofsorð hans um Hall Þórarinsson, Teit og Gissur biskup fela ekki í sér deilu á aðra menn. Fróðleiksfýsn hans og viðleitni til rétthermis verður ekki efuð. Hins vegar brestur hann einatt skýrleik í framsetningu máls síns, svo að vafasamt er, við hvað hann á, eða jafnvel frágangssök að skýra það. Það er kunnugt, að formálsorð hans fyrir Íslb. hafa verið skilin mjög á ýmsa vegu (sbr. útg. F.J 1930 bls. 2 – 3).

„Hverr maðr“, segir Ari (Íslb. 2. kap.), „fekk Grími pening“, að því er virðist, til að kanna landið. Hvað merkir „Hverr maðr“ hér ?[3] Oft er óljóst, hvað hann hefir eftir tilteknum heimildarmanni, t. d. 5. og 7. kap. og stundum greinir hann engar heimildir um atburði fyrir sitt minni. Lítilsverð aukaatriði greinir hann einatt, en minnist alls ekki atriða sem ætla mætti hann hafi þekkt. Vér fáum ekkert að vita um skipun lögréttu eða dóma á alþingi eða vorþingum í öndverðu, en um illvirki Þorvalds kroppinskeggja, draum Þorsteins surts og fall Þórólfs refs, bróður Álfs úr dölum, fáum vér vitneskju, atburði, sem landssöguna varða engu. Ari virðist hafa verið gagnfróður um menn og ættir, en ekki haft hug á eða kunnað glögg skil á stjórnsögu eða lögum landsins, nema helst atburðum, sem skiptu kirkjusögu4 á hans dögum. Sögn hans af setningu laganna um 965 (5. kap. Íslb.), af kristnitökunni, sem síðar verður betur vikið að, og lagasetningunni 1117 og 1118 (10. kap. Íslb.) ber ekki miklum áhuga eða skarpleik á því sviði vitni. Vitanlega verður að meta rit Ara eftir samtíð hans og aðstæðum. En þegar meta skal heimildargildi rita hans, verður að gæta allra annmarka þeirra. Í einu atriði sýnir Ari mjög mikla nákvæmni, eftir því sem efni standa til: Hann hefur furðuvel skorðað tímatal tíundu og elleftu aldar. Og þrátt fyrir annmarka sína hefur Ari skráð margan fróðleik, sem ekki væri nú tiltækur annars, og hefir því verðskuldað þá ritfrægð sem hann hefur hlotið. En gagnrýnislaust lof, eins og flestum fræðimönnum vorum hefir verið tíðast, hæfir hvorki honum né öðrum. Rit Ara, Íslendingabók, er auðvitað besta heimildin, sem til er, um kristnitökuna. Það er elst, Ari vill segja satt, hann hefir haft bestu heimildir, sem völ var á, og hann er laus við helgisagnir og klerkamælgi.

II. Aðrar frásagnir um kristnitökuna eru skráðar löngu síðar en frásögn Ara. Að því leyti sem þær endurtaka ekki sögn hans, hljóta þær að verða settar skör lægra. Þar sem á milli ber, verður að öðru jöfnu að taka sögn Ara trúanlegri.

En annars verður það undir mati komið hverju sinni, hvað trúanlegt má taka og hvað telja verður missögn eða einberan tilbúning höfunda eða sögumanna þeirra. Aðalheimildarrit þessa kyns skulu nú stuttlega nefnd.

1. Historia Norvagiæ eftir Þjóðrek munk. Rit þetta er skráð á latínu um 1180 (útg. G. Storms bls. VIII). Hann segist í upphafi rits síns hafa skrifað það eftir munnlegum sögnum Íslendinga, en nefnir engin nöfn. Um kristnitökuna er ekkert í riti hans, sem máli skiptir og ekki er annarstaðar, nema það, að Þangbrandur hafi skírt einhvern "Thorgils de Ölfusi", sem sumir telja eiga við Þórodd goða Eyvindarson, föður Skafta lögsögumanns. Ekki nefnir Ari Þórodd meðal höfðingja, sem Þangbrandur hafi skírt, og hefði það þó ekki legið fjarri. Er engar reiður á sögn þessari að henda. Munkurinn þakkar það annars þeirri náð heilags anda, sem fylgt hafi messu Þormóðar prests, sem var með þeim Gizuri á alþingi, að kristni var lögtekin á Íslandi (12. kap. rits hans).

2. Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason á Þingeyrum. Er hún upphaflega skráð á latínu, líklega nálægt 1190, en alls ekki fyrr en 1170 (útg. F.J. 1932 bls II-III). Sagan hefir verið þýdd á íslensku, og er til í tveimur gerðum. Í annarri gerðinni er einungis vísað til Íslb. Ara um kristnitökuna, en í hinni gerðinni (AM310,4to) er að vísu mestu farið eftir Ara, en þó nokkru við aukið.5 Viðauka Odds verður vitanlega að taka með mestu varúð. Hann gagnrýnilítill klerkurr og helgisagnamaður og skráir sögu sína að minnsta kosti 170 árum eftir atburðina.

Gunnlaugur Leifsson munkur á Þingeyrum skráði og á latínu sögu Ólafs Tryggvasonar nálægt 1200. Saga þessi hefir og verið þýdd á íslensku og gefin út í Flateyjarbók I.b. og Fornmannasögum I. og II.bindi.6 Gunnlaugur er sagður hafa notað rit Ara (Flat. I.511), og kristnitökusögu sína hefir hann að mestu leyti frá Ara, en hefir ýmsar viðbætur, sem að miklu leyti eru sama efnis sem viðbætur

Kristnisögu, eins og síðar mun sjást. Gunnlaugur hefir verið afar gagnrýnislaus og hjátrúarfullur, nema hann hafi viljandi búið til tröllasögur sínar og helgisögur. Hann skrifar 200 árum eftir viðburðina, og er því hætt við, að lítið mark sé takandi á sögnum hans.

Kristnisaga (gefin út í biskupasögum Bókmenntafél. I.bindi). Hún er, eins og hún er til vor komin, skráð af óþekktum höfundi. Í henni segir, að Ólafur Tryggvason kæmi úr Garðaríki til Noregs (Bisk. I.9), og vitnar um þetta til "sögu" hans. Sömu sögn hefir Oddur (AM310 bls. 33-34), en aðrar heimildir láta hann koma beint vestan af Englandi. Höfundur kristnisögu7 virðist því hafa notað sögu Odds, en Oddur virðist þó ekki vera höfundur Krs., því að mismunandi er frásögn þeirra um sum atriði, sem kristnitökusöguna varða. Og Krs., hefir ýmsar sagnir, sem Oddur hefir ekki. Sést betur síðar, hvað á milli ber. Krs. er ekki blælík Ólafssögu Odds. Höfundur Krs. sýnist rita miklu betur en Oddur og vera á hærra þroskastigi og rita sína sögu síðar, ef til vill um 1250 (sbr Bisk. I.7, um kirkju í Ási). Hann virðist mjög hafa notað Ólafssögu Gunnl. Helsta heimild hans, eins og þeirra Odds og Gunnl., eru þó rit Ara. Það, sem Krs. og Gunnl. hafa, en Ari hefir ekki, um kristnitökuna, er flest eins að efni til, en þó ber stundum nokkuð á milli. Um það, sem þær hafa fram yfir sagnir Ara, eru þær því nokkurn vegin jafn góðar heimildir, auðvitað að því undanskildu, sem Gunnlaugur segir ljóslega skakkt frá, og klerkamælgi hans verður auðvitað að meta að verðleikum.

í Eyrbyggju 49. kap. og Heimskringlu, sögu Ólafs Tryggvasonar 103. kap., er kristnitökunnar getið, en þar er ekkert nýtt. Sama er um Laxdælu að segja, sjá 41. og 42. kap. Þó er það þar sagt, sem ekki er annarsstaðar, að Ólafur Tryggvason hafi látið svo um mælt, að engin skip skyldu ganga af Noregi til Íslands sumarið 1000. Er þar með gefið í skyn, að konungur hafi ætlað að leggja farbann á landið, ef landsmenn tækju ekki við kristinni trú. Laxdæla er skráð um 250 árum síðar, en þó er ekki loku fyrir það skotið, að sögn hafi getað geymst um þetta vestur um Breiðafjörð, hvernig sem hún er til komin og hversu nákvæm sem hún hefir verið. En ummæli söguhöfundar geta líka geymt tilgátu hans eða skýringu á því, hversu skjótt kristinni trú var játað.

Njála geymir loks í 104. og 105. kap. frásögn af kristnitökunni árið 1000. Höfundur virðist hafa haft einhver not af frásögn eldri rita, annað hvort Ara sjálfs eða annarra rita, sem aftur hafa notað Ara. Þetta sést á ágripi Njálu af ræðu Þorgeirs og orðatiltækjum. En notin hafa verið mjög lausleg, ef til vill einungis eftir minni. Annars segir Njála í sumum atriðum öðruvísi frá en hin heimildarritin. Njála er skráð, að ætlun fræðimanna, á síðasta fjórðungi 13. aldar, og er því auðvitað mjög léleg heimild um atburði árið 1000.

B. Kristnitökusagan.

Næsta undanfara sjálfrar kristnitökunnar má kalla kristniboðsför Þangbrands prests, en ekki er þörf að rekja sagnir um hana nákvæmlega. Ari (Íslb. 7. kap.) segir Þangbrand dvalist hér "einn vetr eða tvá" og vegið hér "tvá menn eða þrjá", er höfðu nítt hann. Svo geymir munnleg sögn atburði ónákvæmt. Þó hefir frumheimildarmaður sagna um Þangbrand vafalaust vitað hvort tveggja, að minnsta kosti dvalartíma Þangbrands á Íslandi. Gunnl. (Flat. I. 424), Krs, (Bisk. I. 13-14) og Njála 102. kap. greina mennina, sem vegnir voru, og tildrög víganna. Mun sú sögn vera rétt í aðalatriðum, enda munu vísur þær, er að vígum þessum hníga, hafa hjálpað til að geyma minningu um atburðina. Ari getur lauslega kviðlings Hjalta og sektar 999, og hafa hin heimildarritin líka sagnir um hvort tveggja (Flat. I. 426, Bisk. I. 16-17, Njála 102. kap.). Kviðlingur Hjalta styður þar og minnið. Ari segir síðan frá utanför þeirra Gizurar og Hjalta og Þangbrands sumarið 999, hvernig Þangbrandur bar Íslendingum söguna, reiði konungs og ógnunum við Íslendinga, sem þá voru undir handarjaðri hans, og að Gizur og Hjalti hafi þegið þá undan reiði konungs, með því að þeir hafi heitið konungi umsjá sinni til þess að koma kristni á landið. Ari nefnir það ekki, að konungur hafi tekið nokkra Íslendinganna í gíslingu, þar til hann sæi fyrir endann á kristniboði á Íslandi. Oddur (AM 310 bls.61), Gunnl. (Flat. I. 428, Fms. II. 206), Krs, (Bisk. I. 19) og Laxdæla 41. kap. segja frá gíslingum og nafngreina gíslana (Oddur þó aðeins tvo þeirra). Er sögn þeirra trúleg, en furða er, að Ari skyldi ekki geta þess. Sögnin gat hafa geymst í ættum gíslanna. Gíslingarnar og ógnun um farbann voru rammar ráðstafanir, sem Ólafur Tryggvason var mjög líklegur til þess að hafa tekið upp til kúgunar við Íslendinga. Hins vegar er geipan þeirra Gunnl. og Krs. um ræðu Gizurar hvíta hjá konungi og virðingar þeirra Gizurar í Konungsgarði veturinn 999-1000 (Gizur sat fyrir ádrykkju konungs innar en lendir menn) auðvitað tilbúningur og því að engu hafandi. Höfundar vorir á þeim tímum eru vanir því að gera söguhetjur sínar mikla menn með konungum (Kjartan og Gunnar á Hlíðarenda eiga kost mægða við Noregs höfðingja, Hrútur hvílir hjá Gunnhildi, Niðarós kemst svo að segja á annan endann, þegar Grettir skyldi bera járn, og Rómaborg. þegar Sturla Sighvatsson tekur skrift á páfagarði, o.s.frv.). Um skipti þeirra Gizurar og konungs hefir Oddur (AM310 bls. 61) eina sögn, sem hvergi er annarstaðar og vert er að minnast. Hann segir konung hafa fengið "þeim í hendr mikit fé at vingask við höfðingja". Þessi sögn er næsta ótrúleg. Ólafur Tryggvason var um þessar mundir að búa út leiðangur sinn hinn mikla til Vindlands og hefir víst haft ærið við fé sitt annað að gera. Hann sýnist hafa verið vanari að kúga menn til kristni en kaupa. Íslenskum rithöfundum er svo gjarnt til þess að láta konunga gefa íslenskum meiri háttar gjafir, þegar þeir eru með konungum, að Oddi þykir það líkast til hæfa hér að láta svo enn vera. Líklegast er þessi sögn Odds aðeins tilgáta hans eða annarra. Að minnsta kosti virðast ekki aðrir heimildarmenn hafa þekkt hana eða ekki lagt trúnað á hana.

Þá kemur þingfarasaga þeirra Gizurar og Hjalta. Segir Ari þá hafa farið "austan" (þ.e. úr Noregi) næsta sumar (þ.e. árið 1000) og tekið land í Vestmannaeyjum, er 10 vikur voru af sumri. Segir Ari Teit hafa borið fyrir þessu mann, er sjálfur var þar þá. Gat Teitur hafa talað við mann þennan í elli hans, ef hann hefir verið ungur árið 1000, en ella hefir þetta verið komið til Teits um millilið. Ólafssögurnar og Krs. fylgja Ara um landtöku í Vestmanneyjum. Þeir hafa tekið land miðvikudaginn 10 vikur af sumri. Sama daginn sem þeir komu til Vestmanneyja var Brennu-Flosi á leið um Mýrdal til alþingis og hafði spurnir af ferð þeirra og erindi af mönnum, sem róið höfðu út til þeirra, og bar fregnirnar til alþingis, þar á meðal um gíslana, sem í haldi voru hjá konungi. Þessa sögn hafa aðeins Gunnl. (Flat. I. 441, Fms. II. 233) og Krs. (Bisk. I. 20). Fimmtudaginn í 11. viku sumars skyldu goðar allir vera komnir forfallalaust á þingvöll fyrir sólarlag þar (Grág. 1 a 43), að goðorðsmissi viðlögðum. Ef Flosi hefir verið á ferð um Mýrdal daginn fyrir, þá gat hann ekki komist á Þingvöll á réttum tíma. Hann var kominn alla leið austan úr Öræfum og hefir því verið á nokkuð ferðlúnum hestum. Auk þess er ekki sennilegt, að Flosi hafi yfirhöfuð farið þessa leið til alþingis. Fjallabaksleiðir eru miklu skemmri, og þar eru ekki stórvötn á leið fyrr en Þjórsá, sem þá hefir verið farin ofarlega, líklega á Nautavaði. Er enginn ástæða til þess að ætla Fjallabaksleiðir óþekktar um 1000. Sögnin um ferð Flosa er því mjög grunsamleg, og er líklega búin til upphaflega til þess að búa lesandann undir atburðina á alþingi á eftir. Flosi mátti ekki vera á leið til alþingis austur í Mýrdal þann sama dag sem þeir Gizur tóku land í Vestmannaeyjum, því að þá hefði hann sennilega komið nokkru síðar á Þingvöll en þeir, og hefði því ekki getað flutt fregnir af ferð þeirra og atburðum úr Noregi þangað á undan þeim, Gunnl. vissi um gíslingu Kolbeins, bróður Flosa, og hefir því ef til þótt henta að láta Flosa koma þarna við sögu. Svo ómerkilegt atriði sem þessi ferð Flosa er ekki líklegt til óbrjálaðrar varðveislu 200 ár.8

Að sögn Ara fóru þeir Gizur "þegar" til meginlands úr Vestmannaeyjum. Oddur fylgir Ara um þetta (AM310 bls.62). Er sú sögn og sennilegust, því að þeim hefir eflaust verið hugleikið að komast sem allra fyrst til alþingis. Eftir Gunnl. og Krs. dvöldust þeir 2 nætur (Flat. 5 nætur) í Eyjunum. Gunnl. og Krs. kunna nákvæmlega að segja frá því, við hvaða eyri þeir lentu, Hörgaeyri. Þeir eiga að hafa flutt með sér tiltelgdan kirkjuvið frá Ólafi konungi með þeim fyrirmælum, að þeir skyldu reisa þar kirkju, sem þeir skytu fyrst bryggjum á land, enda hafi þeir hlutað, hvorum megin vogsins kirkjan skyldi standa, þar sem áður hafi verið hörgar og blót (Krs). Síðan eiga þeir að hafa reist laup kirkjunnar og farið til meginlands að 2 nóttum liðnum (eða 5). Þessi sögn sýnist vera stæling á sögn Gunnl. um landtöku Ólafs Tryggvasonar í Mostur og kirkjugerð hans þar, er hann tók land í Noregi (Flat. I. 229). Hún er sögð bæði til dýrðar Ólafi konungi, eins og samsvarandi sögn í sögu hans, og þeim Gizuri og Hjalta. Gunnl. veit svo nákvæmlega um lendingu þeirra Gizurar í Eyjum. Krs. veit, að þeir báru föt sín á land og Gunnlaugur lætur þá brjóta hörga á eyrinni fyrir heiðnum mönnum. Allt ber því vitni, að þessar sagnir eru einber tilbúningur.
Á miðvikudagskvöld eða fimmtudagsmorgun í 11. viku sumars virðast þeir Gizur hafa farið úr Vestmannaeyjum. Ari getur þess ekki, hvort þeir hafi verið á skipi sínu eða farið á öðru skipi minna til meginlands, og ekki segir hann heldur, hvar þeir hafi lent á meginlandi. Líklegast virðist að þeir hafi skotið báti af skipi sínu í land í Vestmannaeyjum og haft fregnir af landi og ef til vill fengið sér eitthvað, er þá vanhagaði um, en síðan haldið áfram á skipi sínu. Ef veður leyfði, mundu menn nú hafa siglt því vestur með landi út á Eyrabakka, eða ef til vill þá út í Þjórsárós, því að þar hefir mátt koma skipum að landi eftir sögn Landnámu um einn landnámsmanna (Landn. bls. 22). Höfundur Njálu (104. kap.) hefir heyrt eða að minnsta kosti hugsað sér, að þeir hafi tekið land á Eyrum (þ.e. Eyrabakka), og brýtur sú sögn ekki í bág við sögn Ara, nema að því leyti sem þessi landtaka þeirra er látin gerast 10 vikur afsumri, því að hún hefði væntanlega átt að verða daginn eftir, fimmtudaginn í 11. viku sumars. Ari getur ekkert um tafir á leið þeirra. Hann gerir ráð fyrir því, að að þeir fari tafarlaust út í Laugardal. Ef þeir hefði komið skipi sínu út í Þjórsárós eða á Eyrabakka, þá var þeim vitanlega hreinn krókur að fara upp í Laugardal. Hvort sem var farið, lá leiðin upp Flóa og Grímsnes utarlega sunnan Lyngdalsheiðar. En þótt þeir hefðu lent austar, í Landeyjum, gat leið þeirra ekki legið um Laugardal, nema þeir hefðu farið hinn mikla krók upp Rangárvöllu og Land að Þjórsá að Nautavaði og þaðan út hreppa og Biskupstungur með hlíðum, síðan út Laugardal og þaðan norðan við Lyngdalsheiði á Laugarvatnsvöllu og út Gjábakkahraun í Vellankötlu. En slíkan krók færi enginn, sem þyrfti að flýta ferð sinni. Og hvers vegna staðnæmist Hjalti þá ekki á Núpi, þar sem hann hefir líklega búið?
Ef þeir hafa lent í Landeyjum, lá beinast að fara miklu neðar, yfir Þjórsá hjá Urriðafossi eða ef til vill á Sandhólaferju, og liggur leið þá upp og út Flóa og yfir Hvítá á Árhrauni eða Oddgeirshólum, upp Grímsnes að búrfelli og þaðan vestur undir Lyngdalsheiði að Gjábakka í Vellankötlu. Upp í Laugardal hefði verið hreinn krókur. Heimildarmenn Ara, Hallur í Haukadal og Teitur Ísleifsson, og Ari sjálfur, meðan hann dvaldist í Haukadal, hafa jafnan farið um Laugardal til Þingvalla, og gera því líklega athugalaust ráð fyrir för þeirra Gizurar þá leið.

Gunnl. (Flat. I. 442, Fms. II.234) og Krs. (Bisk. I. 20) láta þá Gizur lenda í Landeyjum. Þar fá þeir engan farargreiða né reiðskjóta fyrir austan Rangá, því að þar sátu þingmenn Runólfs goða í Dal, er sekt hafði Hjalta sumarið áður fyrir goðgá, í hverju húsi. Urðu þeir því að fara fótgangandi út Landeyjar og út að Háfi í Holtum. Þar bjó Skeggi Ásgautsson og Þorvaldur sonur hans, er sagður er hafi átt Koltorfu systir Hjalta. Þorvarður var riðinn til þings, en Skeggi veitti þeim allan farargreiða og reiðskjóta. Þeir eru sagðir hafa lent í Landeyjum þann dag, er menn riðu til þings. Þingheyjendur skyldu vera komnir til þings fimmtudagskvöld í 11. viku sumars, ef þeir vildu taka þingfararkaup (Grág. I a 44), enda mun venjan hafa verið sú, að þingmenn riðu til þings með goða sínum. Landeyjarmenn hafa því varla síðar farið að heiman en miðvikudagsmorguninn 10 vikur af sumri, því að tvo daga hafa þeir mátt ætla til þingreiðar austan úr Landeyjum. Nú hefðu þeir Gizur getað lent í Landeyjum miðvikudagskvöld, og þyrftu þá þetta ekki að rekast á. Í Landnámu bls. 19 er ofurstutt grein um þetta. Þar er skýrt frá landnámi Þorkels bjálfa, sem sagður er hafa búið í Háfi og ætt er rakin frá til Þorvalds í Ási Skeggjasonar, sem sagður er mágur Hjalta, en nafngreind er kona hans þó ekki. "Þaðan", frá Ási eftir því sem næst virðist að skilja það, er Hjalti sagður hafa fengið hesta til alþingis "ok þeir 12","þá er hann var út kominn með kristni, en engi treystist annarr fyrir ofríki Rúnólfs Úlfssonar, er sektan hafði Hjalta um Goðgá". Gizurar er ekki getið hér við sögu. Gunnl. og Krs. lætur Landeyinga hins vegar synja báðum alls farargreiða.
Styður þessi grein Landnámu sögn Gunnl. og Krs.? Svar við þessari spurningu fer eftir því, hvort greinin er komin í landnámabók fyrir daga Gunnlaugs eða eftir. Ef Styrmir eða Sturla hafa aukið henni í, er þeir gerðu sínar landnámabækur, þá verður sönnunargildi hennar ekki meira en Gunnl. og Krs., nema vitað væri, að heimild Styrmis eða Sturlu væri betri en Gunnl. og Krs. Greinin virðist vera auki við það, sem í "Frum-Landnámu" hefir staðið, sem líklegast hefir aðeins verið um landnám Þorkels bjálfa og ættrakningin til Þorvalds í Ási. Elsta þekkta heimild sagnarinnar um viðtökurnar, sem þeir Hjalti hlutu í Landeyjum, er því líklegast Gunnl. En getur þá Styrmir eða Sturla hafa haft Landnámu-greinina þaðan eða úr Krs.?

Ekki ber meira á milli en svo, að afbrigðin eru auðskýrð. Styrmir (eða Sturla) veit, að mægðum þeirra Þorvalds og Hjalta er þakkaður farargreiðinn. Því nefnir hann Hjalta einan. Ættin er rakin til Þorvalds í Ási. Hann gætir þess ekki, að heimild hans segir, að fararskjótarnir eru léðir í Háfi, sem nefndur er framar í setningunni. Hjalti hefir líka orðið sekur fyrir atbeina Runólfs, og því nefnir hann líka Hjalta einan. Hann veit, að Hjalti er sagður hafa orðið eftir með 12. mann í Laugardal. Og því telur hann Hjalta og menn hans hér sömu tölu. Hann gæti vel hafa sett grein þessa eftir minni samkvæmt því, er hann hefði lesið í Gunnl. eða Krs., eða heyrt sagt eftir þessum ritum, alveg eins og menn skrá munnlegar sagnir eftir minni. Ef Gunnlaugur hefir fyrstur skrásett sögn þessa, þá er heimildargildi hennar ekki meira en annars sem Gunnlaugur hefir frumskráð. En jafnvel þótt sögn þessi hefði verið skráð fyrir miðja 12. öld, í "Frum-Landnámu" t.d., má efast um heimildargildi hennar. Klerkar hafa búið til svo margar sögur til þess að sýna harðúð og óbilgirni heiðinna manna, að oft er ástæða til að efast um sannindi sagna þeirra. Ef þeir Gizur hefðu orðið fyrir töfum þessum austur í Landeyjum fimmtudaginn í 11. viku sumars, þinghelgunardaginn, þá má mjög efast um, að þeir hefðu mátt komast á Þingvöll næsta dag. Það mundi hafa tafið þá ekki lítið, ef þeir hefðu fyrst orðið að reyna fyrir sér um hestlán, fengið algera synjun og síðan orðið að fara fótgangandi vestur undir Þjórsá. Og ekki hefir greiðasynjun í Landeyjum eftir sögninni þó verið svo alger, að flutning hafa þeir fengið yfir vatnsfall á leiðinni. Sá fótur gæti líka verið fyrir sögninni, ef gert er ráð fyrir því á annað borð, að þeir hafi lent í Landeyjum, sem alls eigi er víst og jafnvel alls ekki líklegt, að þeir hefðu fengið þar, og ef til vill með naumindum, hesta léða að Háfi, skilað þar lánshestum úr Landeyjum og fengið nýja hesta. Síðan gæti hafa myndast sögn um það, að þeir hefðu fengið hesta í Háfi hjá mági Hjalta, með því að þeim hefði verið synjað alls farargreiða í Landeyjum.

En um þetta verður vitanlega ekkert fullyrt, þó að sögnin sé all tortryggileg.
Gunnl. og Krs. láta þá Gizur og Hjalta fara upp í Laugardal, og hafa það sjálfsagt eftir Ara. Það, sem áður er sagt um þann mikla krók, sem þeir hefðu þá lagt á leið sína, á fullkomlega hér við. Leið þeirra hefði þá beinast legið út yfir Þjórsá á Sandhólaferju og upp Flóa og yfir Hvítá á Oddgeirshólum og síðan upp Grímsnes, eins og áður segir.

Eins og áður getur, lætur Njála þá Gizur og Hjalta lenda á Eyrum (Eyrabakka). Voru þeir eftir sögn hennar 30 í flokki og riðu þegar til þings, en Hjalti varð eftir að Reyðarmúla, "því at þeir spurðu, at hann var sekr orðinn um goðgá". Reyðarmúli mun vera hnúkur sá, er nú er kallaður Barmur vestanvert við Laugarvatnsvöllu (sbr. Landn. bls. 26), og er mönnum, sem af Eyrabakka koma og ætla á Þingvöll, alllangur krókur þangað. Talan 30 er sjálfsagt hugsmíð Njáluhöfundar, og ekki þurftu þeir að "spyrja" það, að Hjalti væri sekur orðinn, því að það vissu þeir frá árinu áður.

Ari lætur Gizur nema staðar í Vellankötlu við "Ölfossvatn", og mun sá staður vera við Þingvallavatn utanvert við "Hallinn", sem Austanmenn nefndu svo. Þar er gamall áningarstaður lestamanna úr ofanverðu Grímsnesi, Laugardal og Biskupstungum á leið þaðan til Reykjavíkur. Fylgja hinar heimildirnar Ara um þetta. Þaðan sendi Gizur "fulltingsmönnum" sínum orð "til þings", að þeir skyldu koma til móts við hann, því að hann og menn hans höfðu spurt, að óvinir þeirra ætluðu að verja þeim vígi þingvöllinn.9 Áður þeir færu úr Vellankötlu, kom Hjalti með flokk sinn og reið síðan með þeim til þings. Ari segir þetta, og hinir heimildarritararnir fylgja honum þar. Kemur hér í ljós ofurkapp Hjalta, og mátti hann með þessu vel spilla máli kristinna manna. Vinir þeirra og frændur komu til móts við þá, eins og þeir höfðu æskt. Hafa þeir svo riðið á Þingvöll með sekan mann, Hjalta Skeggjason, í flokki sínum. Í annan stað safnast heiðnir menn saman með alvæpni, og lá við sjálft, að bardagi yrði. Ari segir ekki, hvernig bardaga varð afstýrt. Gunnl. (Flat. I. 442, Fms. II. 235) hefir skýringuna á reiðum höndum: Með guðs miskunn skaut heiðingjum skelk í bringu, og þorðu þeir ekki á að ráða. Höfundi Krs. (Bisk. I. 21) þykir þessi skýring sýnilega fjarstæð, því að hann hefir sennilega gert ráð fyrir því, að heiðni flokkurinn hafi verið fjölmennari en kristni flokkurinn og alveg eins vel búinn til bardaga. Krs. kemur því með miklu skynsamlegri skýringu, þá, að sumir hafi viljað "skirra vandræðum", þó að heiðnir væru. Hér hefir orðið sem svo oft annars, að hinir vitrari menn og gætnari úr báðum flokkum og ýmsir, sem ekki létu sig miklu skipta trúmálin / slíkir menn hafa víst nokkrir verið þá á íslandi / hafa gengið á milli. Hafa heiðnir menn leiðst til þess að fórna lagareglunni um bann við þingsókn seks manns fyrir friðinn. Hitt, að þeir vildu meina Gizuri eða öðrum kristnum mönnum þingsókn, ef þeir hefðu ekki haft sekan mann í för, kemur ekki til mála. Þeir hafa ekki varnað Síðu-Halli þingreiðar, áður en þeir Gizur komu, og var hann þó kristinn. Gizur hefði sætt sömu kostum, ef Hjalti hefði ekki verið með honum.
Samkvæmt frásögn Gunnl. hafa heiðnir menn ætlað að verja kristna flokkinum Þingvöllinn. Þessi frásögn er hugsunarrétt. Eftir Krs. virðist heiðni flokkurinn fyrst grípa til vopna eftir að þeir Gizur eru komnir til búðar, og er það hugsunarrétt. Annars vilja bæði Gunnl. og Krs. nú, er á Þingvöll er komið, segja söguna nákvæmar en Ari, því að þeir láta Ásgrím Elliða-Grímsson, systurson Gizurar, taka við honum og Hjalta með allri sveit þeirra í búð sína. Gunnl.. segir þetta berum orðum, en af orðum Krs. virðist mega ráða, að hann vilji segja það. Þessi nákvæmni í frásögn af 200 ára gömlum atburði sver sig í ætt. Gunnl. yrkir hér við sögu. Svo smávægilegt atriði sem það, hvaða búðarrúm þeir Gizur höfðu, er ólíklegt til varðveislu 200 ár. Gunnl. þekkir frændsemi þeirra Gizurar og Ásgríms og hann giskar líklega á, að þeir hafi haft sína búð hvor á alþingi, en að búð Gizurar hafi verið ótjölduð eða ónothæf annars vegna brottvistar hans, og lætur hann því Ásgrím taka við þeim félögum. Gizur og Ásgrímur hafa að líkindum verið sameigendur að goðorði Mosfellinga og sennilega haft sömu búð á alþingi. Njála segir, að kristnir menn hafi tjaldað búðir sínar, og að Gizur og Hjalti hafi verið í Mosfellingabúð. Höfundur Njálu hefir hér því líklegri tilgátu um þetta en Gnnl..10

III. Atburðir á alþingi árið 1000.

Ari segir, að "annan dag eftir" hafi þeir Gizur gengið til lögbergs. Lögsögumaður kvaddi menn lögbergsgöngu og réð því, hverir þar máttu vera. Hann sýnist hafa stýrt þeim athöfnum, sem þar fóru fram. Orð Ara "annan dag eftir" á víst að skilja svo, að þeir Gizur hafi gengið til lögbergs daginn eftir að þeir komu á Þingvöll. Fundurinn að lögbergi hefði því átt að vera laugardaginn í 11. viku sumars, ef þeir hafa komið á Þingvöll föstudaginn, sem helst virðist ætlandi. Laugardaginn í 11. viku sumars má og kalla "annan dag" þingsins, því að fimmtudagurinn var ekkert gert, nema að helga þingið. Laugardaginn fyrra í þingi var gengið til lögbergs (Grg. I a 45), og er frásögn Ara, svo skilin sem hér var gert í samræmi við það. Enginn skýring er á því gefin, hvernig Hjalti, sekur maður, mátti taka þátt í lögbergsgöngu, en Ara hefir þó verið sagt, að Hjalti hafi þar verið, því að Ari segir óbeinlínis, að Hjalti hafi haldið þar ræðu. Gunnl. og Krs. bæta hér söguna við skýrslu Ara. Þeir segja, að Þormóður prestur, sem Ari segir Ólaf konung hafa sent til Íslands með þeim, hafi sungið messu á gjábakka (árbakka Gunnl.) hjá Vestfirðinga búð, og að eftir messu (þaðan: Krs.) hafi þeir gengið til lögbergs, 7 lærðir menn skrýddir "ok báru fyrir sér tvá krossa mikla, þá hina sömu sem nú eru í Skarðinu Ytra (Eystra: Krs.). Merkir annarr hæð Hjalta Skeggjasonar, en annarr merkir hæð Ólafs Tryggvasonar". Ari getur einungis eins prests í för með Gizuri, en hjá Gunnlaugi eru þeir orðnir sjö.11 Hefðu þeir allir orðið að koma með þeim Gizuri

Gunnlaugur hugsar sér messusöng, eins og hann tíðkaðist um hans daga, fara fram á Þingvelli, og krossa ("uppihaldsstikur") borna fyrir í göngu þeirra til lögbergs eins og tíðkaðist í skrúðgöngum á kirkju vísu. Svo þegar til lögbergs er komið, þá leggja prestar reykelsi á glóð, og verður þá sú jartein, að ilminn af því leggur jafnt móti vindi sem forvindis (Flat. I. 442-443, Fms. III. 235, Bisk. I. 21-22). Það þarf varla að geta þess, að öll þessi sögn Gunnl. og Krs. um prestana, messuna, skrúðgöngu og krossa og loks reykelsi og ilm af því er helgisögn klerka. Oddur (Am 310, bls. 62) getur krossana með sama hætti sem Gunnl. og Krs., en prestanna, messunar og reykelsisins getur hann ekki. Krossgangan virðist því munu elst vera. Reyndar getur Þjóðrekur munkur messunar (12. kap.), en ekki þarf það að vera eftir íslenskri sögn, því að vel var norskum klerki trúandi til að búa hana til. Vel má vera, að í Skarði öðru hvoru (nema hér sé átt við kennileiti á Þingvelli eða í grennd) hafi verið til á tímum Gunnlaugs (Oddur nefnir ekki neitt, hvar krossarnir séu) tveir góðir krossar, sem helgisögn þessi hafi myndast um. Messugerðin, prestarnir sjö í skrúða, krossarnir og reykelsið með jartein eru allt atriði, sem klerkar hafa búið til, til þess að gefa í skyn, að heiðnir menn hafi illa staðist áhrif alls þessa.
Ari segir stutt og laggott af atburðunum að lögbergi. Gizur og Hjalti halda þar ræðu. "En þat es sagt, at þat bæri frá, hve vel þeir mæltu". Hér er frásögnin sjálfsagt dálítið ýkjukennd. Og engra ræðumanna af hendi heiðinna manna er getið. Þó er varla efamál, að einhverjir þeirra hafa líka tekið til máls og talað vel frá sínu sjónarmiði. Oddur fylgir hér Ara nokkurn veginn, en Gunnl. og Krs. auka hér nokkru við. Gunnlaugur býr til nokkurn ræðustúf allklerklegan (Flat. I. 443, Fms. II. 235-236), sem hvorki Gizur né Hjalti hafa getað haldið, en Krs. segir svo mikla ógn hafa staðið af orðum þeirra, að engir óvina þeirra hafi þorað að mæla móti þeim (Bisk. I. 22). Þessi sögn er nokkurn veginn í sama anda sem sögnin um bændur þá, er vildu andæfa kristniboði Ólafs Tryggvasonar á eynni Mostur, er hann kom í Noreg. Fyrsti ræðumaðurinn kom ekki upp orði fyrir hósta, annar stamaði og þriðji varð svo rámur, að enginn heyrði til hans /saga Odds, AM 310, bls. 47). Sömu sögu hefir Gunnl. (Flat. I. 285), og Snorri hefir tekið hana í Heimskringlu í 61. kap. sögu Ólafs Tryggvasonar. En sagan er með nokkru meiri gamankeim í Ólafssögunum en sögnin í Krs..
Lögbergsfundinum lýkur hjá öllum heimildarmönnunum á því, að hverir af öðrum nefndu sér votta, hinir kristnu menn og hinir heiðnu, og sögðust úr lögum hverir við aðra. Enginn þessara sagnamanna reynir að skýra það, hvað í slíkri yfirlýsingu felist. En Ari virðist skilja hana á þann veg, eftir því sem ráða má á ræðu þeirri, sem hann leggur Þorgeiri Ljósvetningagoða síðar í munn, að landsmenn ætli sér að skiptast í tvö þjóðfélög, annað heiðið og hitt kristið. Með þeim hætti yrðu tvö þjóðfélög (ríki) í landinu í sambýli og samneyslu landsnytja, því að landamerki milli þeirra hefðu engin orðið. Heiðnir og kristnir grannar hefðu búið hverir innan um aðra, að minnsta kosti sumstaðar. Hefði þar með eflaust skapast hið mesta vandræðaástand. Ef sögn þessa ætti að skilja svo, að heiðnir menn af sinni hálfu og kristnir af sinni hefðu flestir haft slíkt ummæli, þá bæri hún hyggindum og stillingu höfðingja landsins fremur lélegan vitnisburð. Ekki sýnist ólíklegt, að þeir Gizur hafi sagt landsmönnum eitthvað það frá tiltektum Ólafs konungs við Noregsmenn í kristniboði hans í Noregi og um harðræði hans við Íslendinga í Noregi og líklegar aðgerðir hans um verslunarskipti og samgöngur Íslendinga við Noreg, er veitt hefðu mörgum manni ærið íhugunarefni, sem beint hefði huga þeirra að öðru en hátíðlegum yfirlýsingum um það, að nú vildu þeir slíta öll þjóðfélagsbönd við trúarandstæðinga sína. Og þó að lög væru um það, að kristnin skyldi metin frændaskömm, þá hafa ættarböndin verið ríkari en svo, að nánir frændur, feður, synir og bræður o.s.frv. hröpuðu margir að því að slíta ættarböndin. En þjóðfélagsslit hefðu að nokkru að minnsta kosti valdið slíkum frændslitum, því að heiðnir menn og kristnir hefðu þá yfir höfuð ekki getað talið sér lengur fært að eiga samneyti. Sögn Ara um þetta má vafalaust ekki taka bókstaflega. Hún er ýkjublandin, eins og sögnum er hætt við að verða í meðförunum, og misskilningi blandin. Það gat verið nægilegt, að einhver ofsamaður eða angurgapi heiðinn léti orð falla um það, að ekki væri búandi við kristna menn í landinu, og einhver kristinn maður hefði samsvarandi ummæli um heiðna menn. Munnmælin gera einatt snögglega lifandi hænu úr einni fjöður. Þau eru sjaldan rökföst, gera sjaldan grein orsaka og afleiðinga þeirra atburða, sem þau hafa tekið til meðferðar, heldur taka eitt atriði eða atriðaröð og stækka og minnka eftir atvikum. Á alþingi árið 1000 hafa eflaust verið nægilegra margir vitrir menn og gætnir í báðum flokkum, sem ekki hafa viljað hrapa svo að ákvörðun um framtíð landsmanna í fyrstu atrennu sem yfirlýsing um sundurslit laganna hefði verið. Það kemur líka brátt í ljós eftir lögbergsfundinn, að vilji manna til þjóðfélagsslita hefur ekki staðið djúpt eða verið almennur. Sú hin mikla tilhliðrunarsemi, sem hvorir sýna öðrum, virðist bera því nægilega traust vitni.

Þegar hér er komið sögu, skýtur Gunnl. og Krs. inn enn einni nýrri sögn, um jarðeldinn í Ölfusi. Rétt um það leyti sem heiðnir menn og kristnir hafa hver að öðrum sagst úr lögum hverir við aðra, "kom piltur einn hlaupandi á þingit ok flutti sitt erindi með mikilli ákefð. Sagði jarðeld upp kominn ok renna óðlega ofan at bæ Þórodds goða ok ógnaði bráðum bruna allri hans eign" (Gunnl.). Þetta láta heimildarmenn þessir heiðna menn eigna reiði goðanna vegna þess glundroða, sem orðinn var um trú manna. En síðan færa þeir til snillisvar Snorra goða: "Um hvat reiddust goðin þá, er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?" (Krs. Gunnlaugur hefir tilsvar þetta nokkuð öðruvísi: Hverju voru goðin reið, þá er hér brast jörðin, en nú stöndum vér? Voru þat eigi minni býsn, ok ætlum vér goðin hvorugu valdit hafa"). Samkvæmt Hungurvöku bjó

Þóroddur goði að Hjalla í Ölfusi (Bisk. I. 60), og verður sú sögn ekki rekin. En engar líkur eru til, að sá bær hafi nokkru sinni verið í hættu af jarðeldi (sbr. Árbók Fornleifafélagsins 1895, bls 24-29). Nú leggja sumir fullan trúnað á þessa sögn, og telja þeir, að þá hljóti að vera átt við annan bæ en Hjalla á jörð, sem Þóroddur hafi átt, en ekki átt heima á. Og er þess þá getið til, að átt sé við Hraun í Ölfusi (sbr. kristnitökurit B.M.Ó., bls 91). Því er þá trúað fullum fetum, að þarna hafi runnið hraun árið 1000. Ef hraunið rann á bæ á einhverri jörð, sem Þóroddur átti, en hafði ekki heimili á, þá mundi varla vera komist svo að orði, að það rynni á bæ hans. Sögnin sýnist ekki frá kunnugum manni runnin. Þóroddur goði og þeir feðgar Skafti lögsögumaður hafa verið meðal nafnkunnugustu manna landsins á sinni tíð, og lengi síðan hefir minning þeirra geymst í Árnesþingi og víðar, og menn hafa eflaust lengi vitað, hvar Þóroddur bjó. Það ber ókunnugleika höfundar / eða að minnsta kosti skrásetjara sagnar þessarar / vitni, hvernig hann segir frá. Maður eða "piltur" (Gunnl.), kemur "hlaupandi" á þingið, rétt eins og sögumaður hugsi sér svo sem steinsnar milli Þingvallar og "bæjar" Þórodds goða, og maður (eða piltur) hafi verið sendur fótgangandi til þess að flytja tíðindin. Frá Hjalla eða Hrauni er þó nokkurra klukkustunda reið á Þingvöll, þótt hart sé farið. Það, sem helst má færa til þess, að einhver fótur kunni að vera fyrir sögu þessari, er tilsvar það, sem eftir Snorra goða er haft. Það er víst rétt, að góð tilsvör geta stundum geymst alllengi, þótt þau séu óskráð og órímuð, enda þótt oft verði missagnir um þau, bæði um efni þeirra, hver þau hafi sagt, hve nær og hvers vegna þau voru sögð. En söguhöfundar íslenskir á 12. og 13. öld hafa mjög tíðkað að búa til og leggja söguhetjum sínum í munn góð tilsvör og samtöl, svo sem skáldsagnahöfundar gera eftir föngum. Sagnamaður, sem þekkti nokkuð til skaplyndis og vitsmuna Snorra goða, mundi hafa talið hann sérstaklega vel fallinn til þess að mæla slíkum orðum sem Krs. l leggur honum í munn. Viðmót Gunnlaugs við tilsvarið er til mikils spillis, og bendir heldur til þess, að Gunnlaugur hafi ekki búið söguna til, heldur hafi hún gengið í munnmælum. Hún kemur í kristnitökusöguna eins og fjandinn úr sauðaleggnum og skiptir hana engu máli, nema ef vera ætti til þess að sýna þá fávisku heiðinna manna að eigna goðum sínum náttúruviðburði slíka sem jarðeld. Sagan virðist ekkert erindi eiga inn í kristintökusöguna, nema ef vera skyldi þetta, eða þá að klerkar 12. aldar hugsi sér guð kristinna manna hafa sent jarðeldinn til þess að skelfa hina heiðnu menn og knýja þá til viðtöku hins nýja siðar. Sjálfur er Gunnlaugur frámunalega trúgjarn og gagnrýnislaus, og er síst fyrir að synja, að sagan hafi spillst í meðförum hjá honum, enda má sjá þess nokkur merki, sem höfundur Kristnisögu hefir þó sniðið af. Gunnlaugur fléttar allskyns helgi- og kynjasögur innan um og í frásagnir af raunverulegum atburðum, auk samtala og fjölda tilsvara, sem hann auðvitað býr sjálfur til, eins og aðrir samtíðarhöfundar og 13. aldar menn gera eftir því, sem þeim þykir henta.12
Að lögbergsfundinum loknum, segir Ari / og hinir heimildarmennirnir taka það eftir honum /, að kristnir menn hafi beðið Hall af Síðu að segja upp lög þau, er kristninni fylgdu. Hefir Ari því hugsað sér, að landsmenn hafi nú ætlað að sundrast og mynda tvö þjóðfélög. En svo er Hallur látinn leysa sig undan "lögsögu" þessari með því að hann "keypti" að Þorgeiri lögsögumanni, að hann skyldi segja upp lög fyrir kristna menn, enda þótt hann væri enn heiðinn. Lögsögumaður var eini allsherjarembættismaður hins forna íslenska lýðríkis, og Ari- / og heimildarmaður hans / hugsa sér því, að hið nýja kristna þjóðfélag hljóti þegar að kjósa sér lögsögumann. En mjög virðist óskynsamlegt að taka þessa sögn Ara bókstaflega. Enginn þjóðfélagsslit hafa verið ráðin að lögbergi, þótt kastast hafi í kekki með ýmsum mönnum. Hallur af Síðu hefir verið kjörinn oddviti kristna flokksins, eða ef til vill þótt sjálfkjörinn sakir gætni, vitsmuna og góðgirni. Heiðni flokkurinn hefir líka haft sinn oddvita, og var eðlilegt, að lögsögumaður landsins, sem til landstrúarinnar játaðist, yrði þar fyrir kjöri. Þorgeir hefir sjálfsagt haft orð á sér fyrir vitsmuni og gætni. Þeir Þorgeir og Hallur eiga að leita málamiðlunar, samninga milli flokka, sjálfsagt með ýmsum bestu mönnum beggja megin.

Gunnl. kann að greina þá skilmála, sem Hallur á að hafa sett Þorgeiri, að allir menn skyldu kristnir vera á Íslandi, að óheilög skyldu öll blót, hof og skurðgoð, og að fjörbaugsgarð skyldi varða blót öll (Flat. I. 443). Það þarf ekki að taka það fram, að þessir skilmálar eru allir hugsmíð Gunnlaugs. Þorgeir hefir ekki verið sá maður, að hann gerðist til þess að svíkja trúfélaga sína með þeim hætti. En þar að auki er það allt stjórnskipuleg fjarstæða, sem Gunnl. lætur hafa gerst. Lögsögumaður hafði ekkert vald til þess að ákveða það, sem Gunnl. lætur hann skuldbinda sig til. Til þess þurfti lög, en lögsögumaður hafði ekki löggjafarvald, heldur lögrétta. Með sama hætti hefði Þorgeir ekki heldur getað sagt kristna þjóðfélaginu önnur lög en það hefði áður sett sér. En Ari virðist ekki heldur skilja þetta eða athuga. Hann virðist halda, að Hallur hafi falið Þorgeiri nokkurskonar sjálfdæmi. En það hefði verið svik við kristna flokkinn að fela heiðnum manni nokkurt slíkt sjálfdæmi. En allt verður skiljanlegt, ef Hallur og Þorgeir hafa hvor um sig verið kjörinn oddviti hvor síns flokks til samninga um málið.
Orð Ara um það, að Hallur hafi "keypt" að Þorgeiri, að hann segði upp lög kristinna manna, hafa hinar heimildarmennirnir skýrt svo, að Hallur hafi goldið Þorgeiri kaup fyrir lögsöguna. Ari virðist og hafa haldið, að Þorgeir hafi tekið þetta starf að sér og því hafi hann átt að fá kaup fyrir. En Ari nefnir það ekki, hversu mikið skyldi gjalda, enda hefir víst enginn fundið kauphæðina fyrir hans daga. Hana finna þeir eftirmenn hans í söguritun. Oddur (AM 31, bls. 62) lætur Hall gjalda "hálfa mörk silfurs".13 Ein mörk var 8 aurar, og hálf mörk því 4 aurar. Ef gert er ráð fyrir því, að 4 aurar silfurs hafi jafngilt 4 aurum vaðmála, eins og sagt er verið hafa um 1000 (Grg. I b 192, III 462), þá hefir gjaldið numið 16 aurum = 96 álnum vaðmála. Gunnlaugur og Krs. láta gjaldið nema hálfu hundraði silfurs = 10 aurum silfurs = 40 aurum vaðmála = 240 álnum. Er það sama upphæðin sem lögsögumanni var goldin (Grg. I a 209). Hafa þeir Gunnl. og höfundur Krs. verið það slyngari en Oddur, að þeir setja gjaldið sama sem lögsögumannakaupið, Njála er nokkru örvari á fé en hinir því að þar er gjaldið sett þrjár merkur silfurs = 24 aurar = 96 aurar vaðmála = 576 álnir. Oddur og höfundur Njálu setja gjaldið auðsjáanlega af handahófi, en hinir taka lögsögumannakaupið sennilega til fyrirmyndar.14 Auðvitað má líka vera, að þrjár mismunandi sagnir hafi myndast um gjald þetta, og hver höfunda skrái sína sögn. Munurinn er þá aðeins sá, að þeir eru ekki upphafsmenn sagnanna heldur aðrir engu skilríkari menn.
Eftir að þeir Þorgeir og Hallur eiga að hafa gert "kaup" sín, segir Ari það eitt um athafnir manna, að þeir hafi síðan gengið í búðir, og hafi Þorgeir þá lagst niður "ok breiddi feld sinn á sik ok hvíldi þann dag allan ok nóttina eftir ok mælti ekki orð". Oddur fylgir hér Ara og Njála, en Gunnl. og Krs. þykjast þurfa að gera þessa hvíld Þorgeirs ofurlítið sögulegri með því að láta hana haldast nákvæmlega 2 dægur. Lesandinn á víst að segja sér það sjálfur, að Þorgeir hafi allan þennan tíma verið að hugsa málið og semja ræðu þá, sem þeir láta hann flytja næsta dag.

Að lögbergi skildust heiðnir menn og kristnir ósammála. Hér var risið ef til vill mesta vandamálið, sem forráðamönnum landsins hafði nokkurn tíma mætt. Á lausn þess gat framtíð íslenska ríkisins oltið. Þorgeir lögsögumaður og aðrir, sem mest ábyrgð hvíldi á um málalok, virðast hafa annað haft þarfara að starfa en liggja kyrrir undir feldum sínum. Samningamönnum, með Þorgeir og Hallforustumenn, hefir áreiðanlega verið nauðsyn að taka sem fyrst til óspilltra mála, því að þeir gátu ekki búist við, að ofsamennirnir mundu liggja á liði sínu. Áróðursmenn hafa þá verið til, eins og nú, sem líka hafa reynt að afla sínu máli fylgis. Það er erfitt að hugsa sér það, að Þorgeir hafi ætlað að gera tillögu að lögbergi um málalok - því að annað hefði hann ekki getað gert - án eftirgrennslunar um það, hvernig hún skyldi vera, svo að menn gætu fellt sig við hana. Slíkt hefði nú á dögum verið talið stappa nærri fávitahætti. Eftir samtal Halls og Þorgeirs hafagóðir menn úr báðum flokkum tekið að reyna að finna samkomulagsleið út úr ógöngunum, sem í var komið. Sögnin um feldarhvíld og þögn Þorgeirs hefir myndast af því, að mönnum hefir fundist það eitthvað hugðnæmara að gera hann svo vitran og áhrifamikinn, að hann þyrfti ekki annað en liggja hljóður nógu lengi og hugsa málið, til þess að allir vildu hlíta því, sem hann vildi hafa.
Ari og Oddur hafa engin tíðindi að segja, meðan Þorgeir hvílir þögull undir feldi sínum. En samkvæmt frásögn Gunnl. og Krs. gerast mikil tíðindi á þessum tíma. Heiðnir menn eiga þá að hafa haft stefnu fjölmenna til ráðagerða um það, hvernig eyða skyldi trúboðinu. Láta þessir höfundar heiðna menn ákveða mannblót. Tvo menn úr hverjum fjórðungi skyldi drepa til fórnar goðunum. Gizur og Hjalti verða varir við þessa ráðagerð og þykjast nú verða að leika mótleik nokkurn til þess að fá fulltingi síns guðs. Og kemur þeim saman um, að gefa guði sínum "sigurgjöf", tvo hina bestu menn kristna úr hverjum landsfjórðungi, sem heita skyldu grandvöru og guðrækilegu líferni upp frá því. Nafngreina höfundar síðan þá, er undir þetta heit gengust, en sakir manneklu í Vestfirðingafjórðungi - þar var þá ekki um auðugan garð að gresja - urðu þeir að taka mann, sem enn var heiðinn, Orm bróður Þorvalds Koðránssonar, er til vildi gefa sig, og er hann þá auðvitað skírður.15 Lætur Gunnl. Hjalta halda allmærðarfulla klerkaræðu um þessa ráðstöfun kristinna manna (Flat. I. 443-444, Fms. II. 237-238, Bisk. I. 23-24). Það er næsta ótrúlegt, að Ari og Oddur hefðu ekki getið þessarar sagnar, ef hún hefði uppi verið, er þeir skráðu sínar frásagnir, því að sögnin er í sjálfu sér eftirtektar verð. Ef marka mætti hana, þá sýndi hún einstakt dæmi mannblóta hér á landi, sem annars mun lítið eða ekkert kunnugt um, sem henda má reiður á, því að lítt mark er takandi á orðum landnámubóka frá 13. öld um mannblót á Þórsnesi (Landn. bls. 59), enda gætu þau verið röng túlkun á orðum Eyrbyggju 4. kap. um blóð þeirra "kvikinda", "er goðunum var fórnat". Sögn Gunnl. og Krs. um mannblót þessi og heit er ósvikin klerkasögn, til ófrægðar heiðnum mönnum, en til fremdar kristnum.

Næsta morgun, sem ætti að hafa verið sunnudagurinn í 11. viku sumars, lætur Ari Þorgeir lögsögumann rísa á fætur undan feldi sínum. Og fylgja hinir söguritarar honum um það. Kveður lögsögumaður nú til lögbergsgöngu. Gunnl. er mjög kunnugur því, sem þar gerðist, því að hann segir, að þar hafi verið fyrst "þyss mikill og háreisti". Getur hann sér þessa auðvitað til og segir síðan svo sem sannleikur væri. Samningsmenn flokkanna hafa kjörið lögsögumann framsögumann málsins, að því er virðist og eðlilegt má þykja. Tekur hann nú til máls, er menn eru til lögbergs komnir. Ari / og hinir eftir honum nokkurn veginn með sama hætti / lætur Þorgeir nú flytja ræðu að lögbergi. Það er sjálfsagt rétt, að Þorgeir hefir hefir flutt þar ræðu, en sú ræða getur ekki hafa geymst næstu 100 árin eða nálægt því, nema ef til vill einhver atriðisorð hennar, svo sem þau, að slitið mundi friðnum, ef menn sliti í sundur lögin. Ari hefir samið ræðuna, líkt og sagnamenn vorir hafa samið ræðu Einars Þveræings, er beiðni Ólafs digra um Grímsey var borin upp á alþingi. Ari gæti hafa farið að dæmi rómversku söguritaranna, er flytja orðréttar ræður sumra söguhetja sinna. Hver veit, nema Ari hafi þekkt t.d. Sallustus eða Livius, sem þennan hátt hafa. Rómverska skáldið Ovidius var t.d. lesinn á Hólum í tíð Jóns biskups helga, einmitt á dögum Ara fróða (Bisk. I. 165,238). Og er ekki ólíklegt, að rit fleiri rómverskra höfunda hafi borist hingað á ofanverðri 11. og öndverðri 12. öld.
Í lok ræðu sinnar lætur Ari Þorgeir fá heitorð beggja flokka heiðinna manna og kristinna, um það, að allir skyldu hafa ein lög og halda lög þau, er hann segði upp. Og taka taka hinir heimildarmennirnir það eftir honum.16 Þorgeir er að vísu látinn tala um einhverja málamiðlun milli heiðinna manna og kristinna, en hann er ekki látinn geta þess í ræðu sinni, í hverju málamiðlunin sé fólgin. Hvorir tveggja eru látnir gefa það alveg á vald lögsögumanns hvert vera skuli efni þeirra laga, sem hann "segði upp". Þeir eru hvorir tveggja látnir "kaupa köttinn í sekknum". Oddur /AM 310, bls. 63) virðist gera sér þetta ljóst, því að hann segir, að heiðnir menn hafi vænt þess, að eftir þeirra vilja mundi gert vera, af því að Þorgeir var heiðinn, en kristnir menn hugðu "at hann mundi gera eftir kaupmála þeirra Halls". Reyndar segir hvorki Ari né Oddur neitt um slíkan "kaupmála". Njála segir, að heiðnir menn hafi þóst sviknir, og eigi furða, ef rétt væri frá skýrt. Það er svo fráleitt, að aðiljar hafi lagt það á vald eins manns, hver lög skyldu ganga í gildi um trú manna, að því verður ekki með nokkru móti trúað. Um það hefir áður verið fengið samkomulag bestu manna fyrir milligöngu Halls og Þorgeirs og annarra góðra manna. Ef frásögn af slíkum samningsgerðum er sett í stað hinnar barnalegu feldarsögu og þagnar Þorgeirs, þá verður málið skiljanlegt. Allir betri mennirnir vita þá fyrir fram, hvert vera skuli efni þeirra laga, sem þorgeir muni "segja upp".
Þorgeir hefir eflaust lýst því, hver nauðsyn var á samkomulagi um trúna. Að því loknu hefir hann lýst efni þess samkomulags, sem orðið var. Og þá hafa menn gefið máli hans góðan róm, allir þeir, sem ánægðir voru, en hinir hafa talið hallkvæmast að láta við svo búið standa. Ari greinir sjálfsagt rétt í aðalatriðum samkomulag það, sem fengið var. Aðalefni þess var, að allir óskírðir menn á Íslandi skyldi kristnir vera og skírn taka. Með þessu fær kristni flokkurinn sitt fram í orði. En foringjar kristna flokksins hafa orðið að veita mjög mikla tilslökun, sem vænta mátti. Fyrsta / og sjálfsagt mesta / tilslökunin var fólgin í því, að blóta mættu menn á laun, en fjörbaugsgarð skyldi varða, ef vottfast yrði. Í kyrrþey máttu menn því framvegis, enda þótt þeir væru skírðir, þjóna sínum gömlu goðum, og ekki mátti þá dæma til refsingar fyrir það, þótt kviður vildi bera þá seka. Verkið var því að eins refsivert, að þeir yrðu staðnir að því. Slík skipun er ákaflega einkennileg. Sami maður skal vera opinberlega kristinn, en má þó í layni þjóna heiðnum goðum. Nú, er trúfrelsi er viðurkennt nokkurn veginn, þykir þetta ef til vill ekki mikilli furðu sæta, en frá sjónarmiði heilagrar kirkju um 1000 hlaut það að þykja hneyksli. Hin atriðin, að standa skyldi hin fornu lög um barnaútburð og hrossakjötsát, fólu að vísu í sér ívilnanir til heiðinna manna, að því leyti sem hvort tveggja var andstætt lögum og siðferðisreglum kirkjunnar, en hvort tveggja hefir þó skipt fjárhag manna, bæði heiðinna og kristinna. Hrossakjöt hefir verið almenningi mikilsverð fæðutegund og útburður þrælsbarna og ef til vill barna fátæklinga hefir sennilega eitthvað verið tíðkaður af fjárhagsástæðum, þótt ekkert sé nú um það vitað. Þjóðsögur þær, sem stöku sinnum hittast í 13. aldar ritum um útburð barna, benda til þess, að menn hafi þá haldið, að betri mönnum hafi þegar á 10. öld verið ósamboðið talið að bera börn sín út (Gunnlaugs saga ormstungu 3. kap., Finnbogasaga 2.kap.). Fyrir Gunnl. (Flat. I. 446, Fms. II. 247) virðist það vaka, að hrossakjötsát og barnaútburður muni hafa verið leyfður af fjárhagsástæðum, þó að greinargerð sú, sem hann lætur Þorgeir flytja um þetta í ræðu sinni, sé ekki með öllu hugsunarrétt.
Gunnl. og höfundur Njálu geta ekki stillt sig um að bæta nokkru við frásögn Ara um efni laganna og segja að ýmsu rangt frá því. Gunnl. segir, að Þorgeir hafi svo kveðið á,"að hof öll ok skurðgoð" skyldu "vera óheilög ok niðr brotin". Njála segir, að menn skyldu trúa á einn guð (þetta hefir Krs. líka) / föðr ok son ok anda helgan /, en láta af allri skurðgoðavillu, bera eigi út börn ok eta eigi hrossakjöt. Viðbæturnar um óhelgi hofa og skurðgoðavillu eru sýnilega viðbót klerka. Samningamennirnir kristnu hafa ekki heimtað og ekki fengið heiðnum mönnum svo særandi ákvæði samþykkt í lögin. Þeir hafa alls ekki farið þess á leit, að hverjum, sem það vildi, skyldi heimilt að spilla eignum manna og særa trúarkennd manna, sem heimilt var þó að blóta í kyrrþey, með spjöllum á hlutum, sem heiðnum mönnum voru helgir. Þeir hafa ætlað tímanum að rétta þau spjöll, sem voru á kristnihaldi manna í upphafi, eftir því sem hin þáverandi heiðna kynslóð hyrfi af vettvangi. Viðbætur þessar eru auðsær klerkatilbúningur. Njála lætur Þorgeir enn segja fyrir um "drottinsdaga hald ok föstudaga, jóladaga ok páskadaga ok allra hinna stærstu hátíða". Nær það engri átt, að svo margvísleg og flókin ákvæði sem kirkjan hafði um þessi efni hafi verið í hinum fyrstu lögum um kristna trú hér á landi. Klerkurinn kemur hér aftur upp í höfundi þessarar sagnar í Njálu.
Það, sem fram fer að lögbergi og nú hefir verið lýst, er samstætt því, er segir í 5. kap. Íslb. um tölu Þórðar gellis að Lögbergi um nauðsyn nýrra laga um varnarþing o.fl. Þó að lögsögumaður hefði ekki vald til að setja lög og ekki væri lögberg vettvangur lagasetningar, þá var eðlilegt, að menn hreyfðu þar nauðsyn og röksemdum nýrra laga í heyranda hljóði og gerðu tillögur um þau að öðru leyti, og var þetta því heppilegra sem lögin vörðuðu meir hagsmuni alþjóðar. Um kristnitökulögin var mjög heppilegt og reyndar óhjákvæmilegt að skýra þingsóknarmönnum frá samkomulaginu um hin nýju lög og nauðsyn þess og að heyra síðan undirtektir. Og þetta hefir allt gerst að lögbergi. Ari, og allir hinir heimildarmennirnir eftir honum virðist halda, að setningu sjálfra laganna væri þar með lokið. Hann heldur, sem áður segir, að Þorgeir hafi verið selt löggjafarvaldið í hendur, að hann hafi fengið nokkurskonar sjálfdæmi um málið. En þessu getur ekki hafa verið svo varið. Eftir var að ganga frá hinum nýju lögum samkvæmt stjórnarskipun landsins. Það skyldi lögrétta gera. Þar skyldu menn "rétta lög sín ok gera nýmæli, ef vilja" (Grág. Ia 212). Það samkomulag, sem fengið var og þingheyjendur höfðu gert góðan róm að, hefir verið orðað skýrt og borið upp í lögréttu, hvort sem fundur til þess hefir verið haldinn sama dag eða síðar. Fara engar sögur af því.

Margir munu telja það jafnvel bíræfni að véfengja sögn Ara af atburðunum á alþingi árið 199. En þar til má þessu svara. Í fyrsta lagi verður ýmislegt í henni ekki samrýmt heilbrigðri skynsemi, eins og vikið hefir verið að. Í öðru lagi brýtur hún bág við þau lög, sem þá hafa í landi gengið. Í þriðja lagi kemur það annars staðar í ljós í frásögnum Ara, að honum hafa verið mjög óljósar reglur þær, sem um lagasetningu hafa gilt, og það einnig um slík ákvæði um sjálfs hans daga. Hann lætur Skafta "setja" fimmtardómslög og hann telur Skafta lögsögumann hafa sakir ríkis síns og landstjórnar valdið sekt margra ríkismanna, meðan hann hafði lögsögu. Og loks segir hann mjög óskilmerkilega frá lagasetningunni 1117 og 1118 (Íslb. 10. kap.), rétt eins og búast mætti við, að maður sem alls ókunnugur væri meðferð lagafrumvarpa á alþingi nú, mundi segja frá samþykkt þeirra þar. Í fjórða lagi hermir Ari allt að 1000 ára gamlar sagnir, sem skolast kunna að hafa og brenglast í meðförum, eins og óhjákvæmilegt er, jafnvel þó að heimildarmenn séu tiltölulega góðir. Jafnvel menn, sem notið hafa menntunar þeirra tíma, sem sagnir þessar hafa gengið, hafa almennt verið mjög gagnrýnilitlir. Er slíkum mönnum mjög hætt viðónákvæmri frásögn. Svo þarf venjulega eitthvað "sögulegt" að vera í munnmælum. Þetta vekur ýkjuhneigð. Þorgeir lögsögumaður þarf t.d. að vera sérstaklega gætinn maður og spakur. Gætni hans og speki verður átakanlegri með því að láta hann leggjast undir feldinn og hvíla þar alþöglan allt að sólarhring. Upphaflega sögnin þarf ekki að hafa verið öðruvísi en svo, að hann hafi tekið sér hvíld í íbúð sinni um stund eftir lögbergsfundinn fyrra. Svo getur það atvik ýkst svo í meðförum, að hvíldin hafi tekið allt að sólarhring, og að hann hafi við engan talað, og girt þar með fyrir alla truflun, svo að hann mætti ráða í einrúmi ráð þau, sem mestu máli skipti um framtíð landsins.
Ari lýkur kristnitöku sögn sinni á lögbergsfundinum síðari. Og svo geri Oddur og Njála. En Gunnl. og Krs. eykur nokkru við um skírn manna (Flat. I. Fms. II.243, Bisk. I. 255). Gunnl. segir, að "allir menn", sem á þingi voru, hafi verið primsigndir, og margir skírðir, þeir sem áður voru heiðnir. Í þessari sögn felst mikil ónákvæmni. Í fyrsta lagi hafa þeir auðvitað ekki verið primsigndir á þinginu, sem áður höfðu verið skírðir. Í öðru lagi hafa þeir ekki aðeins verið primsigndir, sem líka voru skírðir. Gunnl. hugsar sér líklega, að heiðnu mennirnir hljóti allir að hafa verið þegar primsigndir, svo að þeir mættu samneyta hinum kristni mönnum. En svo nákvæmlega hafa menn ekki getað tekið fyrirmæli kirkjunnar þegar í upphafi, enda hefir meginhluti hinna svonefndu kristnu manna orðið að samneyta mörgum óprimsigndum mönnum fyrst í stað eftir að þeir komu heim af þingi í sveit sína. Þar sem verið er að koma nýjum sið á, verður ekki hjá þessu komist. Í "partibus infidelibus" (í heiðnum löndum og löndum rangtrúarmanna) hafa þær kröfur aldrei verið gerðar til hinna kristnu manna, að þeir mættu ekki hafa samneyti við annarrar trúar menn. En því, segir Gunnl., voru ekki allir þingsóknarmenn skírðir á Þingvelli, að Norðlendingar og Austfirðingar vildu ekki fara í kalt vatn. Voru því margir þeirra skírðir í "laugum at Reykjum í Laugardal". Gunnlaugur nefnir ekki Sunnlendinga og Vestfirðinga, nema Runólf goða sem Hjalti á að hafa veitt guðsifjar og storkað um leið. Voru þeir þá allir skírðir á Þingvelli, þeir sem þar komu? Og hvernig stendur á því, að allir Norðlendingar og Austfirðingar voru svo vatnshræddir? Voru þeir kveifarlegri en menn úr hinum fjórðungunum? Og hvers vegna fara t.d. Vestur-Húnvetningar að krækja austur í Laugardal til skírnar? Lá ekki beinna við, að þeir hefðu skírst í Borgarfirði á heimleið eða í sínu héraði í Reykjalaug í Hrútafirði eða í Miðfirði? Í laugardal eru engir bæir, sem Reykir heiti. Að Laugarvatni, Útey og Austurey eru hverir, en vafasamt er, að þar hafi nokkur laug verið, sem mætti dýfa í til skírnar.
Krs. segir talsvert öðruvísi frá skírn þingsóknarmanna árið 1000. "Þat sumar var skírður allr þingheimr, er menn riðu heim". Krs. nefnir hvorki primsigningu né skírn á Þingvelli. Hún lætur Norðlendinga og Sunnlendinga alla hafa verið skírða í "Reykjalaugu" í Laugardal, "því at þeir vildu ekki fara í kalt vatn", en flesta Vestanmenn í Reykjalaugu í Syðri Reykholtsdal, og kom Snorri goði mestu á leið við þá. Hér eru Norðlendingar og Sunnlendingar hræddir við kalda vatnið, en Austfirðingar er ekki getið. Hvers vegna fóru Ölfusingar, Suðurnesjamenn og Grímsnesingar sumir til skírnar í Laugardal? Nóg höfðu þeir heita vatnið nær sér.
Um land allt hefir meiri hlutur manna verið óskírður árið 1000. Menn hafa smátt og smátt verið skírðir. Hafa áhugamenn í hverju byggðarlagi gengist fyrir því. Sakir algerar prestafæðar hefir siðum heilagrar kirkju ekki orðið fylgt að öðru en því, að mönnum hefir verið dýft í vatn og skírnarorðin hafa verið við höfð, eins og mælt er í Kristnirétti hinum forna (Grág. I a 6, II 4). Nokkrum mönnum hafa / líklega á þingvelli / verið kennd orð og atferli við skírn. Það hefir Þormóður prestur getað gert. En síðan hafa þeir menn skírt fólk hver í sínu byggðarlagi. Líklegast er, að sögnin um skírn þingheims á þingvelli sé að öllu eða mestu leyti tilbúningur klerka á 12. öld. Eflaust er skírnarsögn Gunnlaugs munks tilbúningur hans sjálfs eða annarra klerka. Hefir þeim klerkum fundist sjálfsagt, að þegar hafi verið undið að skírn allra þeirra, sem til varð náð, og svo hafa þeir búið til skírnarsagnirnar í samræmi við það, að vísu í nokkuð mismunandi útgáfum. Um skírn almennings í byggðum landsins eru annars engar sagnir, nema hjá Gunnlaugi, sem segir,að alþýða manna hafi verið skírð sama sumarið sem kristni var lögtekin svo fljótt sem því hafi orðið við komið. Er þetta vafalaust rétt til getið, enda þótt Gunnl. hafi sjálfsagt enga vitneskju um það haft.

IV. Niðurlagsorð.

Það, sem vitað er með vissu eða góðum líkindum um kristnitökuna árið 1000 og næsta aðdraganda hennar, er í stuttu máli þetta: Hjalti Skeggjason verður sekur fjörbaugsmaður á alþingi 999 fyrir goðlöstunarkviðling sinn. Hann og Gizur hvíti samsumars utan og á fund Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs. Þá kemur og Þangbrandur til Noregs úr kristniboðsför sinni til Íslands og ber Íslendingum illa söguna. Konungur reiðist við og hótar heiðnum mönnum íslenskum, sem þá voru undir handarjaðri hans, harðræðum, en Gizur og Hjalti þiggja þá undan gegn heiti um að veita atbeina sinn til kristnunar landsmanna. Vorið eftir fara þeir af Noregi til Íslands meðprest einn frá konungi, taka land í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 10 vikur af sumri, fara þegar til meginlands og ríða fimmtudag og föstudag í 11. viku sumars, þar til er þeir koma í Vellankötlu við Þingvallavatn. Þangað koma að beiðni þeirra fulltingsmenn þeirra af Þingvelli, er síðan ríða þangað með þeim. Heiðnir menn gera sig líklega til að verja þeim vígi þingvöllinn, af því að sekur maður, Hjalti Skeggjason, er í flokki þeirra. Gætnu mennirnir skakka þó svo leikinn, að þeir Gizur ná að komast á þingvöll vandræðalaust. Næsta dag, laugardaginn í 11. viku sumars, ganga menn til lögbergs, þar sem þeir Gizur og Hjalti flytja erindi sín. Þá verður senna milli ofsamanna beggja flokka, svo að þeir kveða sig segjast hverir úr lögum við aðra. Eftir lögbergsfundinn, laugardag og sunnudagsnótt, ganga gætnir menn og vitrir úr báðum flokkum milli heiðinna manna og kristinna með forustu Þorgeirs lögsögumanns og Síðu-Halls, og tekst samkomulag um efni nýmæla þeirra, sem ætla að fá lögtekin um trú landsmanna, enda slá báðir mjög af kröfum sínum, en ofsamenn beggja flokka verða í svo algerum minnihluta, að þeir verða að beygja sig. Ótti við harðræði af hendi Noregskonungs (meiðingar við íslenska menn í Noregi og ef til vill farbann) má vel hafa nokkru um valdið, að samkomulag fékkst. Daginn eftir, sunnudaginn í 11. viku sumars, er svo haldinn fundur að lögbergi. Þorgeir lögsögumaður hefir þar framsögu af hendi samningamanna, þar sem hann lýsir nauðsyn á friðsamlegri lausn málsins og lýsir samkomulagi samningsmanna. Þingheimur tekur yfir höfuð vel máli hans. Síðan, sama dag að líkindum, hefir fundur verið haldinn í lögréttu, og þar hefir veriðgengið frá hinum nýju lögum um trú landsmanna. Aðalkjarni þeirra hefir verið sá, að allir landsmenn skyldi kristnir vera og skírn taka. Í þessu ákvæði er fólgin hin mikla ívilnun til kristinna manna. En þeir verða að veita heiðnum mönnum aðra mikilsverða ívilnun: heimildina til launblóta. Af fjárhagsástæðum eru hin fornu lög um hrossakjötsát og barnaútburð látin haldast, þótt kristnum mönnum, að minnsta kosti sumum, hafi þótt mjög farið í bága við kenningar og siðferðilög kirkjunnar. Orð og atferli að skírn hafa verið nokkrum mönnum kennd, og hafa þeir svo skírt landsmenn hver í sínu byggðarlagi, þegar er því varð við komið.
Ari gerir of mikið úr yfirlýsingum heiðinna manna og kristinna um lögslit þeirra og telur þær hafa haft verkanir, sem þær virðast ekki hafa haft. Því er sögn Ara um lögsögumannskjör Síðu-Halls á misskilningi byggð og kaup hans við Þorgeir lögsögumann rangsögð. Sögnin um legu Þorgeirs undir feldinum er þjóðsaga. Ræðu hans á síðari lögbergsfundinum hefir Ari samið, og það er misskilningur Ara, að heiðnir menn og kristnir hafi fyrir fram játast undir lög þau, er Þorgeir "segði upp". Það er loks misskilningur Ara, að hin nýju lög hafi til orðið að lögbergi og fyrir "uppsögu" lögsögumanns.
Sögn Ara um Laugardalsför þeirra Hjalta og Gizurar er mjög ólíkleg. Sama er um sögn síðari höfunda um þingför Brennu-Flosa, um viðtökur þeirra Gizurar í Landeyjum og gönguför að Háfi. Sagnir þeirra um prestana sjö, messuna á þingvelli, krossana, skrúðgönguna til lögbergs, reykelsið og ilminn af því, jarðeldinn í Ölfusi, mannblót heiðingja og sigurgjafir kristinna manna og loks um prímsigning og skírn þingheims eru allar seinni tíma tilbúningur.

Tilvitnanir.

1) Nema kviðlingur Hjalta árið 999.

2) Hér eftir skammstafað: Íslb.

3) Annað mál er það, að sögn þessi virðist vera tilbúningur að mestu eða öllu. Hvernig var nefskatti þessum á komið, meðan ekkert allsherjarþing var? Hvernig var hann heimtur? Ef hann var frjálst gjald, hvernig mátti það vera, að allir gyldu jafnt? o.s.frv.

4) Frásögn hans af lögtöku tíundar er þó sýnilega af litlum skilningi ger.

5) Hér eftir verður vitnað í útg. P. Groths 1895 af AM 310.

6) Hér eftir skammstafað: Gunnl. og vísað til Flateyjarbókar (Flat.) og Fornmannasagna (Fms.).

7) Hér eftir skammstafað: Krs.

8) Gunnlaugur sýnist hafa verið ókunnugur staðháttum á Suðurlandi og varar sig því líklega ekki á missmíðum á sögu sinni af alþingisför Flosa.

9) Í Kristnitökuriti sínu (bls. 78) fullyrðir B.M. Ólsen það, að kristnir menn, sem aðallega hljóta að hafa verið fulltingsmenn þeirra Gizurar, hafi alls ekki verið komnir á Þingvöll, er þeir Gizur komu í Vellankötlu. Þessir menn hafi ekkert erindi átt þangað,annað en ef til vill að vekja þar óspektir, enda hafi hinir "nýju goðar" (þar á meðal hinir kristnu goðorðsmenn) þegar sagst úr lögum við hina heiðnu menn og haldið þing sér. Hafi kristnir menn fyrir þingið mælt sér mót í Vellankötlu, enda muni heiðnir menn hafa ætlað að verja þeim öllum vígi þingvöllinn. Ekki verður séð, að sá skilningur fái samrýmst orðum Ara né hinna heimildarritaranna. Ef kristnir menn og aðrir fulltingsmenn þeirra Gizurar voru alls ekki á þingvöll komnir og höfðu mælt sér mót á Vellankötlu fyrir þingið, þá þurfti Gizur ekki að senda þeim orð "á Þingvöll", því að þá hefðu þeir verið fyrir í Vellankötlu, þegar Gizur kom þangað. Ekki eitt orð í heimildarritunum - og þá auðvitað fyrst og fremst Íslb - veitir nokkra átyllu til ályktunar um það, að heiðnir menn hafi ætlað að verja öðrum mönnum þingvöllinn en Gizuri og Hjalta, og vafalítið einungis af því, að Hjalti, sekur maður, var í flokki hans, að þeirra hyggju.
Vér vitum nú lítið um það, hverjar rætur kristin trú hefir fest í landinu fyrir árið 1000. Víst sýnist mega telja, að lítið hafi að henni kveðið fyrir komu Þangbrands til landsins, og algera yfirhönd virðast heiðnir menn hafa haft á alþingi sumarið 999, er Hjalti Skeggjason varð sekur um goðgá. Frásögn Gunnl. (Flat. I. 426-427, Fms. II. 207) og Krs. (Bisk. I. 17) um þetta er heldur en ekki tortryggileg. Hjalti, hefir, að því er víst má telja, verið sóttur til sektar í Sunnlendingadómi (Rangæingadómi) á alþingi. Þann dóm hafa goðar í Kjalarnesþingi, Árnesþingi og Rangárþingi skipað þingmönnum sínum, þar á meðal Runólfur Úlfsson sjálfur, sem líklega hefir verið ríkastur goði í Rangárþingi, og Valgarður grái eð Mörður sonur hans. Vera má, að Hjalti hafi reynt að hleypa upp dómi, og ber það meir vott um ofurkapp en löghlýðni. En hitt,að engi dómenda hafi fengist til að reifa málið, getur ekki verið rétt. Einhver þingmanna þeirra Runólfs sjálfs eða þeirra feðga hlýtur að hafa fengist til þess. Annars var hverjum dómanda, er það hlaut (þ.e. er hlutur hans kom upp) skylt að reifa mál, að viðlagðri fjörbaugssök. Krs. segir, að málið yrði ekki reifað, fyrr en "Þorbjörn Þorkelsson úr Goðdölum" hafi sest í dóminn og gert það. Virðist þessi maður hafa verið skagfirskur, og er torvelt að skýra það, hvernig hann hefði átt að sitja í Sunnlendingadómi. Hjalti hefir verið sekur ger, en sögnin, sem um þann atburð hefir ofist og nú var nefnd, virðist vera að mestu tilbúningur seinni tíma, enda ekki skráð, svo að vitað sé, fyrr en um 200 árum eftir atburðinn.
B.M.Ó. heldur því fram í áðurnefndu riti sínu (bls. 41 o.s.frv.), að á árunum frá því, er Þorvaldur Koðránsson og Friðrik biskup hófu hér Kristniboð sitt (981) og fram undir árið 1000 hafi kristin trú verið orðin allútbreidd um landið. Telur hann, að fyrir þetta hafi þá komist allmikið los á stjórnarskipun landsins. Kristnir goðorðsmenn hafi hlotið að segja sig úr lögum við hina heiðnu menn, og ýmsir, sem út undan hafa orðið, er skipun sú á goðorðum, sem við Þórð gelli er kennd, komst á, hafi nú tekið upp nýgoðorð, enda hafi slíkir kristnir goðar og "nýir" goðar þá tekið upp þing sér. Kristnir goðorðsmenn hafi ekki getað brúkað trúar sinnar vegna innt lögskil af hendi á þingum o.s.frv. Fyrir komu Þangbrands er víst einskis kristins goðorðsmanna getið, nema Þorvarðs Spak-Böðvarssonar í Ási í Hegranesi, sem líklega hefir átt goðorð eða hlut í því. Kristniboð Stefnis Þorgilssonar virðist engan árangur hafa borið. Þangbrandur skírði, að sögn Ara, Hall af Síðu og Gizur hvíta, sem báðir hafa verið goðorðsmenn, auk Hjalta Skeggjasonar, sem kann að hafa átt í goðorði, en um það er allt óvíst. Ari segir, að "margir höfðingjar aðrir" hafi látið skírast af Þangbrandi, en hann nafngreinir enga þeirra, og segir hann fleiri hafa móti mælt, enda hefir Þangbrandi varla verið lengur landvært, og illa bar hann íslendingum söguna, er hann var til Noregs kominn eftir Íslandsför sína. Ef nokkuð hefir kveðið að kristinni trú meðal formanna landsins fyrir 1000, þá getur það ekki hafa orðið, fyrr en eftir dvöl Þangbrands á landinu, eða allra síðustu árin fyrir 1000. Þetta los hefði þá átt að gerast mjög skjótlega, árið 998-999. En allar heimildir um slíka byltingu brestur. Ari, sem er elsti þekkti heimildarmaður vor virðist ekki hafa heyrt hennar getið. Honum hefir verið sagt, að heiðnir menn og kristnir hafi sagst úr lögum hverir við aðra á alþingi árið 1000, en hann hefir enga sögu að segja um það, að það hafi fyrr gerst. Og ef kristnir menn hafa verið gerðir rækir eða sagt sig úr lögum við heiðna menn áður, þá hefði ekki þurft að endurtaka þá ákvörðun árið 1000.
En vera mætti, að slík bylting hefði orðið, þótt heimildir gætu hennar hvergi. Og þyrfti þá að leiða sterkar líkur eða sönnur að því, að svo hafi hlotið að vera. Sagnir eru nokkrar til af þinginu árið 999. Hjalti Skeggjason, sem þá hefir þegar verið skírður, sækir þetta þing og fær að tak til máls að lögbergi. Þar kveður hann kviðling sinn. Í upphafi þingsins árið eftir segir Ari, að "fulltingsmenn" þeirra Gizurar og Hjalta hafi verið til þings komnir á undan þeim, því að þeir Gizur gerðu þeim orð "til þings". Það virðist ekki of djörf fullyrðing, að Síðu-Hallur hafi verið einn þessara fulltingsmanna, sem til þings voru komnir. Það er efalaust, að Ara eða heimildarmanni hans, Teiti (eða Halli), hefir ekki verið kunnugt um nokkra slíka byltingu. Þeir gera ráð fyrir því, að alþingi sé háð af formönnum landsins þessi árin með sama hætti sem annars.
Þó að fáeinir goðorðsmenn eða stórbændur létu skírast, þá þurfti það ekki að raska meðferð þingmála og lögskilun yfir höfuð. Kristinn goðorðsmaður, sem ekki vildi vinna heiðinn eið, gat aðlögum falið einhverjum þingmanna sinna meðferð goðorðs síns, og þurfti því ekki að segjast úr lögum við aðra formenn landsins.
Ókunnugt er og um upptöku nýrra goðorða í landinu fyrir árið 1000. Rétt er það að vísu, að Njála lætur Höskuld Þráinsson taka upp nýtt goðorð, áður en kristin trú var lögtekin. Og telur B.M.Ó. (bls. 45) þessa sögn Njálu máli skipta í þessu efni. En Njála lætur fimmtardóm vera settan fyrir 1000 og Skafta vera þá orðinn lögsögumann. En að tali Ara, sem ekki mun verða rekið, tók Skafti ekki lögsögu fyrr en 1004. Frásögn Njálu, sem skráð er á síðasta fjórðungi 13. aldar, um þetta er að engu farandi, enda lokleysa og óskiljanlegt að sumu leyti. B.M.Ó. heldur, að nýju goðorðin hljóti að hafa verið til, áður en fimmtardómslögin hafa verið sett. Þetta má vel vera, en það sannar alls ekkert um úrsögn kristinna höfðingja úr lögum við heiðna menn. Vér vitum sem sé alls ekkert um það, hve nær fimmtardómslögin voru sett, annað en að það gerðist, að sögn Ara, í lögsögumannstíð Skafta, og því á árunum 1004-1030. Frásögn Njálu af brennumála-þinginu er sýnilega öll búin til eftir einhverri lagaskrá, sem höfundur hefir haft, einskonar sjónleikur eða mynd af hugmynd höfundar um málsmeðferð fyrir fimmtardómi, og sannar ekkert um aldur fimmtardómslaganna.
Frásögn Eyrbyggju 56. kap um það, að Þorsteinn Þorgilsson í Hafsfjarðarey hafi tekið Rauðmelingagoðorð úr Þórsnesþingi og háð þing (vorþing) í Straumfirði, sakir þess að hann hafði orðið vanhluta fyrir Snorra goða á Þórsnesþingi, getur ekki heldur verið sönnun um upptöku nýrra goðorða fyrir 1000, því að eftir tímatali sögunnar gerist þetta ekki fyrr en 9 árum síðar. Hitt skal hér látið liggja milli hluta, hversu sennileg þessi frásögn Eyrbyggju er.
Þá telur B.M.Ó. (bls. 48-49) það loks, að margir vorþingstaðir eru nefndir í sama vorþingsumdæmi, t.d. 5 í Austfjörðum, 2 í Þorskafjarðarþingi o.s.frv., veita sönnun eða að minnsta kosti líkur um það, að nýir goðar hafi á ýmsum stöðum haldið þing sér. Þetta er þó misskilningur. Tala vorþingsstaða skiptir ekki máli um tölu vorþinga, því að menn gátu að lögum haldið sama vorþing til skiptis á ýmsum stöðum, t.d. árið 1030 í Þorskafirði, en árið 1040 í Dýrafirði (Grág. I a 107-108). En þótt svo hefði verið, að nýir goðar hefðu háð þing á einhverjum þessara þingstaða, þá er ekkert þar með sannað um það, að slík ný goðorð eða ný þing hafi verið til orðin fyrir 1000. Annars vitum vér ekkert áreiðanlegt um nýju goðorðin eða nýju goðanna annað en það, sem í Grágás I a 77 stendur um það, að þeir skuli nefna eina tylft dómenda í fimmtardóm.

10) B.M.Ó. (Kristnitökurit bls. 67) tekur frásögn Gunnl. um búðarvist þeirra Gizurar með Ásgrími svo sem hún væri áreiðanleg heimild og leiðir af henni mikla ályktun til stuðnings skoðun sinni um alger vinslit milli heiðinna manna og kristinna fyrir 1000. Segir hann mega sjá það á sögum / og er átt við Gunnl og Krs. / að búð Mosfellinga hafi verið brotin niður, og það hyggur hann heiðna menn hafa gert vegna trúskipta Gizurar. Hafi þeir með því viljað varna honum þingvistar, enda hafi heiðnir menn og kristnir þegar fyrir 1000 verið sagðir úr lögum hverir við aðra. B.M.Ó. undirstrikar það (bls. 83-84), að allir höfðingjar í Árnesþingi hafi verið orðnir kristnir, þegar Þangbrandur fór burt af landinu. Þar á meðal nefnir hann sérstaklega Ásgrím Elliða-Grímsson, enda er alllíklegt, að þessi systursonur Gizurar hafi látið skírast um sama leyti sem Gizur sjálfur, þótt ekki vitum vér það. En ef svo hefir verið, hvers vegna brutu þá ekki heiðnir menn líka búð Ásgríms, ef hann hefir átt sérstaka búð á þingvelli, sem B.M.Ó. virðist gera ráð fyrir, úr því að hann tekur sögn Gunnl. trúanlega? B.M.Ó. heldur líka, að Þóroddur goði Eyvindarson sé sá "Thorgils de Ölfusi", sem norski munkurinn Þjóðrekur segir Þangbrand hafa kristnað, og að Þóroddur hafi því verið í kristna flokkinum. Hvers vegna var þá ekki búð hans líka brotin? Hallur af Síðu var kristinn. Búð hefir hann sjálfsagt átt á þingvelli. Hvers vegna var hún ekki brotin? Að hyggju B.M.Ó. höfðu hinir kristnu menn alls ekki verið komnir á þingvöll áður en þeir hittu Hjalta og Gizur í Vellankötlu svo að heiðnir hefðu átt að hafa brotið búðir þeirra allra, áður en þeir komu á þingið. Þeir áttu þangað ekkert erindi, nema ef til vill að vekja óspektir, að skoðun B.M.Ó. (bls. 77-78). Allar búðir þessara kristnu höfðingja hefðu þá átt að vera niður brotnar, og þá var búð Ásgríms ekki vistlegri en búð Gizurar, Mosfellingabúð. Þá hefðu kristnir höfðingjar (Gizur, Ásgrímur, Þóroddur að Hjalla, Síðu-Hallur o.s.frv.) hvergi átt höfði sínu að halla á þingvelli, nema undir beru lofti, fyrr en þeir hefðu komið því við að hressa upp búðir sínar. Ef Hjalli Skeggjason hefir átt sérstaka búð, þá hefði mátt búast við því, að hún yrði brotin niður, því að hann var sekur maður, sem ekki mátti að lögum sækja helgað þing, alveg eins og Hafliði Másson lét brjóta niður búð Þorgils Oddasonar, er Þorgils ætlaði að sækja alþingi í sekt sinni (Sturla. I. 53.). Um búðarvist þeirra Gizurar verður tvennt sagt: Frásögn Gunnl. er að engu hafandi. Og þó að henni mætti treysta, þá væri óheimilt að leiða ályktun af henni um niðurbrot búðar Gizurar. Ef ekki hefir verið hirt um að hressa hana við og tjalda hana undan komu hans til þings og meðan hann var fjarvistum af landi, gat honum vel verið óhægt að gera það þegar í stað, er hann var á þingvöll kominn. Og það var Ásgrími höfðingsskapur að taka við frænda sínum og vini. Annars skal það viðurkennt, að tilgáta um það, að búð Gizurar sjálfs hafi verið óhæf til vistar, er ekki sennileg. Áður en Gizur fór utan, hefir hann lögum samkvæmt ráðstafað meðferð goðorðs síns, meðan hann var fjarvistum af landinu. Sá maður, sem með goðorð hans hefir farið, sem líklegast hefir verið ásgrímur, átti að sjá þingmönnum Gizurar fyrir búðarrúmi (Grág. I a 44) á alþingi, og hefir auðvitað gert það. Og hvers vegna skyldi það búðarrúm ekki einmitt hafa verið í Mosfellingabúð? Frásögn Gunnl. um búðarvist Gizurar skiptir auðvitað ekki máli um sjálfa kristnitökusöguna. En hún hefir verið notuð til rökstuðnings staðhæfingu um nokkurskonar stjórnarbyltingu, sem á að hafa gerst hér á landi fyrir 1000 vegna hins nýja siðar, og þar með gerð að veigamiklu atriði varðandi stjórnarsögu landsins fyrir 1000. Og þess vegna hefir verið svo fjölyrt um hana.

11) Talan sjö er ein hinna merku helgitalna og spátalna, og mun hún því vera valin hér.

12) Íslenskir fræðimenn hafa lengstum gert ráð fyrir því, að frásagnir 12. og 13. aldar manna af atburðum 10. og 11. aldar væru traustar heimildir um þá atburði. Menn hafa haft trú á því, að arfsagnir og munnmæli gætu gengið jafnvel öldum saman óbrjálaðar frá kynslóð til kynslóðar, að hver gæti endursagt langar og flóknar sögur eftir annan óbreyttar. Þetta fer þó alveg í bága við reynslu nútímamanna. Allir skólagengnir menn þekkja það, hvernig mönnum farast endursagnir tvílesinnar hæfilegra langrar sögu. Og hvernig mundi svo sagan vera, ef fyrsta endursögnin væri lesin fyrir og síðan endursögð, og svo koll af kolli, t.d. 10 sinnum? Af upphaflegu sögunni kæmi ekkert fram í 10. útgáfunni, nema aðalatburðurinn, sem upphaflega var sagt frá. Og þannig má yfir höfuð gera ráð fyrir, að Íslendingasögur greini atburði 10. og 11. aldar. Höfuðatburðirnir hafa geymst, t.d. að Gunnar að Hlíðarenda hafi verið veginn, að Njáll hafi verið brenndur inni, að bardagi hafi orðið á alþingi, er brennumálin hafi verið þar sótt, o.s.frv. Slíkur fræðimaður sem Björn M. Ólsen virðist alls ekki rengja sagnir Gunnl. og Krs. um prestana 7, þingvallarmessuna, krossana, jarðeldinn, mannblót heiðingja og sigurgjafir kristinna manna (sbr. Kristnitökur, bls. 85 o.s.frv.). Hann heldur jafnvel, að taka beri það trúarlegt, að Þóroddur goði hafi haft á sér slægðarorð og grályndis, af því að höfundur Njálu lætur eina af söguhetjum sínum svívirða hann í orðum, af því að hann er ekki látinn vilja vefja sig í vandræði söguhetjanna (sbr. bls. 83). Nú á síðustu tímum hafa allmikil umskipti orðið á heimildamati Íslendingasagna, og hefir Björn M. Ólsen á síðustu árum sínum ritað margt af fullri gagnrýni og skarpleika um þær, og því tekið mál þessi allt öðrum tökum en hann gerði í Kristnitökuriti sínu árið 1900.

13) B.M.Ó. efar ekki frásögnina um úrsögn kristnu mannanna úr þjóðfélaginu, lögsögumannakjör Halls og samninga þeirra Þorgeirs (sbr. bls. 88 o.s.frv.), enda hafði víst enginn gert það áður. En hann telur, að samningar hafi tekist eftir þetta með flokkunum, og víkur að því leyti frá frásögn Ara, sem virðist hugsa sér, að menn játi fyrst, er þeir hafa heyrt ræðu Þorgeirs, að halda lög þau, er hann segði upp.

14) Valtýr Guðmundsson hyggur (Germanist Abhandl. bls. 550 o.s.frv.) hundrað silfurs hafa verið 120 aura silfurs. Hálft hundrað silfurs yrði þá 60 aurar. Ættu þá allar upphæðirnar að sex-faldast. En þetta skiptir ekki máli um mat á heimildum þessum.

15) Björn M. Ólsen trúir sögu þessari (sama rit bls. 108), en þykir hún "þó nokkuð grunsöm, að því er snertir heit kristinna manna". Telur hann frásögn Ólafssögu helga um dvöl Hjalta Skeggjasonar við hirð þessa konungs og Svíakonungs nálægt 20 árum síðar sýna það, að Hjalti hafi annað hvort aldrei unnið heit um að gefast guði eða þá svikið það. Síst skal það véfengt, að sögn Gunnl. og Krs. um heit þessi sé "nokkuð grunsöm", því öll sögnin er auðsjáanlega klerkauppspuni. En rök B.M.Ó. fyrir grunsemi sagnarinnar um heitin eru lítils verð, því að frásögn Ólafssögu helga um hirðvist Hjalta er ákaflega léleg heimild um skapferði hans og veraldarmennsku. Þar þarf söguritari að gera Hjalta glæsilegan veraldarmann, en hér þarf söguritari að láta hann vera einstaklega hreinhjartaðan og sannan guðsmann. Hvor lætur hann vera samkvæman hlutverki því, sem hann lætur hann inna af hendi. Annars er ekki vel ljóst, hvers konar hátt munkurinn Gunnlaugur og klerkurinn höfundur Krs. ætlast til, að þessir 8 kristnu menn skuli upp taka, en líklegt má telja, að heitið hafi átt að skuldbinda þá til íhlutunarleysis um veraldarmál og til þjónustu drottins síns, líkt og munka og nunnur. Má nærri geta, hversu fjarlægt slíkt hafi verið íslenskum höfðingjum árið 1000.

16) Njála 105. kap. segir að auki, að Þorgeir hafi tekið af þeim "festu", auðvitað til tryggingar efndum á heiti þeirra. Þetta er ótvíræður tilbúningur höfundar. "Festa" (ábyrgð, trygging) mun óþekkt í íslensku máli, fyrr en eftir konungsvald kom á Ísland og lagabreyting verður með Járnsíðu og Jónsbók. Þetta orð veitir meðal annars bendingu um aldur Njálu.

Tekið úr Skírni 1941, bls. 79 -118