Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Lesefni um ásatrú

Upprunalegustu heimildir okkar um ásatrú er að finna í Eddukvæðunum og í Snorra-Eddu, en mörg rit hafa síðan verið rituð. Við bendum m.a. á :


Eddukvæði

Þau innihalda Völuspá, Hávamál, Grímnismál, Þrymskviðu (þar sem segir frá ráni á hamri Þórs og endurheimtun hans), Lokasennu og marga aðra kvæðabálka. Hægt er að fá margar útgáfur með góðum skýringum á kvæðunum.


Snorra-Edda, eða Edda Snorra Sturlusonar.

Þar er að finna Gylfaginningu sem segir frá ferð Gylfa konungs á fund Óðins, þar sem hinn síðarnefndi fræðir hann um sköpun heimsins, goðin og hina og þessa atburði. Svo koma Skáldskaparmál sem segja frá hvernig Ásum hlotnaðist skáldskapargáfan og hvernig kenna skuli hin og þessi goð. Háttatal er svo kynning á fornum kveðskaparháttum.


Hugtök og heiti í norrænni goðafræði eftir Rudolf Simek.

Útg. Heimskringla - Háskólaforlag Máls og Menningar, 1993
Íslenska útgáfan er stytt og breytt útgáfa á Lexikon der germanischen Mythologie, útg. Alfred Kröner Verlag, Stuttgart 1984


Heiðinn siður á Íslandi eftir Ólaf Briem

Fyrsta útg.: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1945, síðar endurbætt og endurútgefin. Skrifuð af kristnum fræðimanni og litast svolítið af því, en þar má samt finna margt áhugavert.


Goðheimabækur

Og svo má ekki gleyma Goðheimabókunum, (Valhalla) teiknimyndasögum eftir Peter Madsen sem Iðunn gaf út fyrstu 5 heftin á íslensku. Bækurnar eru komnar upp í 11 hefti á dönsku, útgefandi er Interpresse og þær fást í Bóksölu Stúdenta við Hringbraut, Reykjavík.