Lífslokaskrá
Ásatrúarfélagið hefur hannað eyðublað fyrir lífslokaskrá á PDF-sniði. Með því að fylla út eyðublaðið, undirrita það, afla staðfestingar tveggja vitundarvotta og koma því til varðveislu á öruggum stað hefur sá sem það gerir gert allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að tryggja að óskir um útför og annað í tengslum við andlát verði virtar.
Varðveisla eyðublaðsins
Mælt er með því að gerð séu tvö eða þrjú samrit, jafnvel fleiri:
- Goðar Ásatrúarfélagsins eru reiðubúnir að vera vörslumenn lífslokaskrár, sé þess óskað.
- Árangursríkt getur verið að fela lögmanni vörslu eyðublaðs.
- Eða einhver annar sem þú treystir og er líklegur til að frétta það strax ef þú fellur frá.
- Nánustu aðstandendur, einkum sá/þeir sem getið er í skránni gætu verið vörslumenn hennar.
Vert er að hafa í huga að óþægilega mörg dæmi eru þess að félagar í Ásatrúarfélaginu, sem hafa vitað að þeir eigi stutt eftir, hafi greint bæði aðstandendum og goða frá eindregnum óskum sínum um að vera jarðsettir að heiðnum sið – en það verið virt að vettugi og prestur fenginn til að annast útförina undir sálmasöng og bænahaldi. Þess vegna mælum við svo eindregið með því að leitað sé til nokkurra vörslumanna.
Tæknileg atriði
Hægt er að fylla alla reiti eyðublaðsins, nema undirritunarreiti, út á skjánum áður en prentað er út en einnig má prenta það út óútfyllt og handskrifa á það. (Í sumum vöfrum er ekki hægt að fylla út í reitina nema skjalið sé opnað í sjálfstæðum PDF-lesara, svo sem Adobe Acrobat Reader.) Sé valið að slá inn í tölvu skal bent á að þetta er ekki gagnvirkt eyðublað. Það sem slegið er inn er ekki vistað á vefþjóni Ásatrúarfélagsins en hægt er að vista það á eigin tölvu í sumum vöfrum og einkum ef skjalið er opnað í Adobe Acrobat Reader.