Skip to main content

Lög félagsins

1. grein

Félagið heitir Ásatrúarfélagið. Félagið starfar samkvæmt lögum um skráð trúfélög. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er allt landið. Félagar verða sjálfkrafa allir þeir sem skrá sig í félagið hjá Þjóðskrá.

2. grein

Tilgangur félagsins er að starfa að eflingu vors siðar, sjá um trúarathafnir og trúarlega þjónustu við félagsmenn, stuðla að góðu siðferði, lífsskoðunum og allsherjarreglu sem og að efla virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni.

3. grein

Allsherjargoði er æðsti trúarlegi embættismaður Ásatrúarfélagsins og jafnframt forstöðumaður þess. Hann skal kjósa samkvæmt sérstökum reglum um kjör allsherjargoða.

4. grein

Aðrir trúarlegir embættismenn félagsins nefnast goðar. Skulu þeir tilnefndir af
allsherjargoða og lögréttu og gangast undir leiðsögn allsherjargoða eða staðgengils
hans í tvö ár til reynslu. Allsherjarþing staðfestir skipun goða er reynslutíma er lokið
og gildir hún til fimm ára. Skal hver goði hafa stuðning 30 félagsmanna.

5. grein

Allsherjarþing fer með æðsta vald í félaginu. Skal það sett á Þingvöllum á sumarsólstöðum ár hvert en lögréttu er heimilt að fresta þingstörfum til fyrsta laugardags eftir fyrsta vetrardag. Allir félagar Ásatrúarfélagsins eiga rétt til setu á allsherjarþingi og hafa þar málfrelsi og
tillögurétt. Seturéttur skal miðast við félagatal eins og það er fimm dögum fyrir
allsherjarþing. Atkvæðisréttur og kjörgengi miðast við 18 ára aldur.

Verkefni allsherjarþings skulu vera þessi:
1. Skýrsla lögréttu borin upp til umræðu og staðfestingar.
2. Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar.
3. Lagabreytingar og aðrar tillögur.
4. Kosning í lögréttu.
5. Kosning skoðunarmanna reikninga, nefnda og í aðrar trúnaðarstöður.
6. Önnur mál.

6. grein

Lögrétta er æðsta ráð og jafnframt framkvæmdastjórn Ásatrúarfélagsins. Í henni sitja fimm félagsmenn kjörnir af allsherjarþingi og skulu þeir skipta með sér embættum. Embættin eru lögsögumaður, staðgengill lögsögumanns, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Allsherjarþing skal einnig kjósa tvo menn til vara. Auk þeirra eiga sæti í lögréttu allsherjargoði og einn fulltrúi sem goðar tilnefna úr sínum röðum. Allir goðar hafa rétt til setu á fundum lögréttu með málfrelsi og tillögurétti. Hver lögréttumaður fer með eitt atkvæði.

7. grein

Reikningsár Ásatrúarfélagsins er frá 1. september til 31. ágúst ár hvert.

8. grein

Lög þessi eru grunnlög Ásatrúarfélagsins og verður þeim aðeins breytt með auknum meirihluta greiddra atkvæða á lögmætu allsherjarþingi að undangenginni kynningu. Nánari reglur félagsins er að finna í starfsreglum félagsins. Þeim verður aðeins breytt með meirihluta atkvæða á allsherjarþingi.

9. grein

Slíta má félaginu með auknum meirihluta atkvæða á tveimur reglulegum allsherjarþingum að undangenginni tillögu þess efnis. Á síðara allsherjarþinginu skal ákveðið hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins.

Starfsreglur Ásatrúarfélagsins

I. Um vorn sið

1. gr.

Ásatrú er vor siður. Þó er átrúnaður ekki bundinn við æsi eina heldur er heimilt að blóta önnur goð, landvætti og aðrar máttugar verur. Ásatrúarmenn iðka trú sína á þann hátt sem hverjum og einum hentar á meðan ekki brýtur í bága við landslög eða heiðið siðgæði.

2. gr.

Inntak vors siðar er einkum að finna í Hávamálum. Helsta inntak siðarins er ábyrgð einstaklings á sjálfum sér og gerðum sínum. Siðurinn byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir jörðinni og náttúrunni.

3. gr.

Ásatrúarmenn sameinast um heitið: „Hefjum til vegs fornan sið og forn menningarverðmæti.“

II. Um trúarathafnir

4. gr.

Fjögur höfuðblót skulu haldin árlega og fylgja þau hinu forna missera- og vikutali. Hið fyrsta skal haldið fyrsta vetrardag, annað á jólum um vetrarsólhvörf, hið þriðja á sumardaginn fyrsta og hið fjórða á sumarsólstöðum á Þingvöllum.

5. gr.

Ásatrúarmenn geta helgað goðum líkneski og önnur tákn en ekki er skylda hvers og eins að tilbiðja þau. Ekki má vanvirða goð eða annað það sem heilagt er.

6. gr.

Heimilt er og sjálfsagt að fræða aðra um Ásatrúarfélagið og heiðinn sið en trúboð er óþarft.

III. Um allsherjargoða

7. gr.

Allsherjargoði helgar blót og aðrar trúarsamkomur sem haldnar eru í nafni félagsins. Hann vinnur einnig öll opinber embættisverk og vígsluathafnir sem honum eru falin lögum samkvæmt.

Skal félagið eiga reikning sem allsherjargoði hefur aðgang að til að standa straum af þeim útgjöldum sem hann stofnar til í störfum sínum fyrir félagið.

8. gr.

Allsherjargoði skal leiðbeina um trúarefni og siðareglur sé þess óskað en hefur ekki úrskurðarvald í þeim efnum.

9. gr.

Allsherjargoði er opinber talsmaður félagsins um trúarefni. Staða hans er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við deilumál og þrætur sem ekki eru samboðnar virðingu hans jafnt innan félags sem utan.

10. gr.

Allsherjargoði á sæti í lögréttu en getur ekki gegnt starfi lögsögumanns eða annarra fulltrúa sem allsherjarþing kýs til setu í lögréttu.

11. gr.

Lögrétta skal skipa einn goða til að gegna embætti allsherjargoða í forföllum hans í samráði við allsherjargoða.

12. gr.

Gerist allsherjargoði sekur um refsiverða háttsemi, alvarleg embættisglöp eða gróf brot á lögum og reglum félagsins getur lögrétta vikið honum úr embætti tímabundið. Skal þá þegar boða til aukaallsherjarþings sem tekur endanlega ákvörðun um hvort allsherjargoða verði vikið úr embætti.

13. gr.

Starfandi goðar sem setið hafa í a.m.k. fimm ár geta boðið sig fram til allsherjargoða
að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Hafa óflekkað mannorð, vera bús síns ráðandi og lögráða.
  2. Hafa skýra hugmynd um það í hverju embætti allsherjargoða er fólgið.
  3. Hafa haldgóða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
  4. Hafa haldgóða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um trúfélög.
  5. Hafa skriflegan stuðning 50 félagsmanna.

14. gr.

Framboðum skal skila til lögsögumanns eða staðgengils hans eigi síðar en sex vikum fyrir allsherjarþing. Lögrétta úrskurðar um hvort frambjóðandi uppfylli skilyrði skv. 13. gr. og um gildi stuðningsmannalista hans. Sé lögréttumaður í framboði skal hann víkja af fundi meðan lögrétta úrskurðar um hæfi frambjóðenda.

15. gr.

Sé einungis einn frambjóðandi í kjöri telst hann sjálfkjörinn uppfylli hann öll skilyrði 13. gr. Bjóði sig enginn fram skal lögrétta skipa í embætti allsherjargoða til eins árs.

16. gr.

Allsherjarþing kýs allsherjargoða. Hljóti enginn frambjóðandi hreinan meirihluta skal þegar í stað fara fram önnur kosning milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu.

Kjöri skal þegar lýst opinberlega og skal nýr allsherjargoði sverja eið að embætti sínu við setningu allsherjarþings á Þingvöllum.

17. gr.

Kjörtímabil allsherjargoða er fimm ár. Að þeim tíma liðnum skal auglýst eftir framboðum og boðað til kosninga samkvæmt 13.–16. gr.

IV. Um goða

18. gr.

Við val á goða í embætti skal taka mið af eftirfarandi:

  1. Að hann sé eldri en 30 ára.
  2. Að hann hafi óflekkað mannorð, sé bús síns ráðandi og lögráða.
  3. Að hann hafi skýra hugmynd um það í hverju embætti goða sé fólgið.
  4. Að hann hafi góða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
  5. Að hann hafi góða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um skráð trúfélög.

19. gr.

Goðaefni sem hlotið hefur tilnefningu allsherjargoða eða lögréttu og notið hefur tilsagnar allsherjargoða eða staðgengils hans skal sækja skriflegan stuðning 30 félagsmanna, 18 ára eða eldri, og skulu þeir nefnast þingmenn hans. Lögrétta úrskurðar um hæfi goðaefnis samkvæmt 18. gr. og gildi þingmannalista hans. Sækist goði eftir því að verða endurskipaður að loknum fimm ára skipunartíma getur hann sótt um endurskipun til lögréttu félagsins. Lögrétta úrskurðar hvort starfandi goði hafi uppfyllt skyldur sínar í starfi sækist hann eftir að verða endurskipaður. Allsherjarþing staðfestir endurskipan goða og telst allsherjarþing upphaf tímabilsins.

20. gr.

Goði er trúarlegur embættismaður félagsins. Hann tekur virkan þátt í blótum og öðrum trúarsamkomum sem haldnar eru í nafni þess auk þess sem hann skal standa fyrir athöfnum í eigin goðorði. Auk þess ber honum að halda a.m.k. eitt blót á ári. Einnig annast hann opinber embættisverk og vígsluathafnir hafi hann fengið til þess heimild hjá ráðherra. Heimilt er goðum að taka gjald fyrir athafnir og vígslur samkvæmt gjaldskrá sem goðar setja sér og er staðfest af lögréttu. Skal þar taka mið af gjaldskrá annarra trúfélaga og sýslumanna fyrir sambærilegar athafnir.

21. gr.

Goði skal leiðbeina um trúarefni og siðareglur sé þess óskað en hefur ekki úrskurðarvald í þeim efnum.

22. gr.

Staða goða er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við
deilumál og þrætur sem ekki eru samboðnar virðingu hans jafnt innan félags sem
utan. Goði sem sinnt hefur embætti a.m.k. tíu ár en er hættur störfum vegna aldurs eða
veikinda heldur virðingarheitinu goði án þess að sinna skyldum við embættisverk eða
blóthald.

23. gr.

Gerist goði sekur um refsiverða háttsemi, alvarleg embættisglöp eða gróf brot á lögum og reglum félagsins getur lögrétta vikið honum úr embætti fram að næsta allsherjarþingi sem tekur ákvörðun um hvort goða skuli vikið úr embætti.

24. gr.

Goðar skulu halda reglulega fundi þar sem tekin eru fyrir mál er varða starfssvið þeirra sem og vinna sameiginlega að verkaskiptingu sín á milli varðandi athafnir og vígslur.

V. Um fundarsköp

25. gr.

Almennar reglur um fundarsköp skulu gilda á allsherjarþingi.

Til allsherjarþings skal boðað í Vorum sið og auglýsa það á vefmiðlum félagsins minnst
tveimur vikum fyrir allsherjarþing. Óska skal eftir framboðum stjórnarmanna og
varastjórnarmanna til lögréttu í auglýsingunni. Allsherjarþing skal haldin á þeim stað sem lögrétta ákveður hverju sinni. Allsherjarþing er aðeins lögmætt að til þess sé löglega boðað. Verkefna þingsins skal getið í fundarboði.

26. gr.

Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja fyrir minnst viku fyrir allsherjarþing, undirritaðir af endurskoðanda og skoðunarmönnum reikninga ásamt lögsögumanni og gjaldkera.

27. gr.

Einróma samþykki lögréttu þarf fyrir öllum meiriháttar framkvæmdum og fjárfestingum sem félagið ræðst í. Ef það næst ekki skal málinu vísað til allsherjarþings. Fyrirhuguð verkefni skulu rækilega kynnt ásamt fjárhagsáætlun á þinginu.

28. gr.

Framboðum til lögréttu skal skila skriflega til kjörnefndar í síðasta lagi viku fyrir allsherjarþing. Formaður kjörnefndar greinir allsherjarþingi frá þeim framboðum sem borist hafa. Sé ekki sjálfkjörið í stjórn skal kosning vera skrifleg. Kjörnir fulltrúar í lögréttu skulu vera kosnir til tveggja ára í senn, þrír annað árið en tveir hitt árið. Varamenn skal kjósa til eins árs í senn. Eftir sömu reglum skal kjósa til eins árs í senn óháðan endurskoðanda svo og skoðunarmenn reikninga úr röðum félagsmanna.

Þriggja manna kjörnefnd starfar í aðdraganda allsherjarþings og skal hún sjá um undirbúning og framkvæmd kosninga á allsherjarþingi. Viðkomandi einstaklingar mega ekki sjálfir vera í framboði til setu í lögréttu. Skulu tveir kjörnefndarmenn vera kosnir á allsherjarþingi en einn valinn af lögréttu. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.

29. gr.

Skylt er að boða til aukaallsherjarþings óski að minnsta kosti fimm lögréttumanna þess.

VI. Um lögréttu

30. gr.

Lögrétta skipar í nefndir og hefur umsjón með starfi þeirra. Nefndir geta leitað álits lögréttu, goða eða félagsmanna um mál sem þær hafa til meðferðar. Nefndir skila niðurstöðum sínum til lögréttu sem leggur þær fyrir allsherjarþing.

31. gr.

Lögrétta kemur saman minnst þrisvar sinnum á ári: fyrsta sunnudag eftir allsherjarþing, fyrsta laugardag í mars og fyrsta laugardag í september. Almennum félagsmönnum er heimilt að sitja fasta lögréttufundi. Ekki þarf að auglýsa lögréttufundi.

VII. Um verkaskiptingu innan félagsins

32. gr.

Félagsmenn geta beint málum til lögréttu, goða eða allsherjarþings eftir atvikum.

33. gr.

Allsherjarþing getur beint þingmálum til lögréttu.

34. gr.

Lögrétta fjallar um þau mál sem snúa að daglegum störfum félagins og sér um stjórn þess, innra starf og skipulag.

Goðar fjalla um þau mál sem snúa að athöfnum og trúarlífi félagsins. Allsherjargoði kemur fram fyrir hönd félagsins en getur falið það öðrum goða eða lögréttumanni eftir atvikum.

VIII. Um lögsögumann

35. gr.

Lögsögumaður gegnir hlutverki framkvæmdastjóra félagsins. Hann varðveitir skjöl og lagatexta. Hann kallar saman fundi, stýrir þeim eða skipar fundarstjóra. Lögsögumaður getur í umboði lögréttu kallað menn til verka í þágu félagsins. Honum er skylt að boða til fundar óski að minnsta kosti tveir lögréttumenn þess.

36. gr.

Lögsögumaður getur hvorki gegnt öðrum stjórnarstörfum né embætti allsherjargoða.

IX. Um lög og reglur

37. gr.

Tillögur að breytingum á lögum og reglum félagsins skulu hafa borist lögsögumanni eigi síðar en sex vikum fyrir þingið og þurfa að hafa verið kynntar rækilega á vefmiðlum félagsins minnst tveimur vikum fyrir allsherjarþing.

38. gr.

Reglur þessar eru nánari útfærsla og skilgreiningar á lögum félagsins. Verður þeim aðeins breytt með meirihlutasamþykkt allsherjarþings.

Lögrétta

Lögrétta er æðsta ráð og jafnframt framkvæmdastjórn Ásatrúarfélagsins. Lögsögumaður er formaður hennar og framkvæmdastjóri félagsins. Í henni sitja fimm almennir félagsmenn kjörnir af allsherjarþingi auk tveggja varamanna. Þá eiga sæti í lögréttu allsherjargoði og einn fulltrúi sem goðar tilnefna úr sínum röðum. Allir goðar hafa rétt til setu á fundum lögréttu með málfrelsi og tillögurétti. Hver lögréttumaður fer með eitt atkvæði. Lögréttumenn kjósa úr sínum röðum lögsögumann og staðgengil hans, ritara og gjaldkera.

Lögrétta kemur saman fyrsta sunnudag eftir allsherjarþing og síðan að jafnaði mánaðarlega. Fyrsta laugardag í mars og fyrsta laugardag í september eru haldnir fastir lögréttufundir sem öllum almennum félagsmönnum er heimilt að sitja.

Lögsögumaður gegnir hlutverki framkvæmdastjóra félagsins. Hann varðveitir skjöl og lagatexta. Hann kallar saman fundi, stýrir þeim eða skipar fundarstjóra. Lögsögumaður getur í umboði lögréttu kallað menn til verka í þágu félagsins. Honum er skylt að boða til fundar óski að minnsta kosti tveir lögréttumenn þess.

Starfandi lögrétta

Kosin var ný lögrétta 4. nóvember 2023 sem skiptir með sér verkum og er þannig skipuð:

Guðmundur Rúnar Svansson – lögsögumaður (kosinn 2023 til tveggja ára)

Jónas Eyjólfsson – gjaldkeri (kosinn 2022 til tveggja ára)
Sædís Hrönn Haveland – ritari (kosinn 2023 til tveggja ára)
Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík – meðstjórnandi (kosinn 2023 til tveggja ára)

Margrét Rúnarsdóttir – staðgengill lögsögumanns (kosin 2022 til tveggja ára)

– – –
Hilmar Örn Hilmarsson – Allsherjargoði (á fast sæti sem slíkur)
Haukur Bragason – Lundarmannagoði (tilnefndur af goðahópi)

Unnar Reynisson – 1. varamaður (kosinn 2022 til eins árs)
Jóhannes A.Levy – 2. varamaður (kosin 2022 til eins árs)

Fundargerðir

Hér eru birtar allar fundargerðir lögréttufunda, goðafunda og allsherjarþinga.