Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Lögrétta 10. nóvember 2008

Mættir voru: Halldór, Alda Vala, Lára Jóna, Egill, Óttar, Hilmar Örn, Rún.
Fundur settur kl. 19:08.


1. Fjármál

Við fall Landsbankans áttum við þar digran sjóð í krónubréfum, sem nú hefur rýrnað talsvert. Skerðingin nemur fastri prósentutölu, sem skilanefnd Landsbankans hefur ákveðið einhliða fyrir öll krónubréf. Halldór upplýsir, að talsmaður neytenda ráðleggi sparifjáreigendum að gera þann fyrirvara á útgreiðslu af skertum reikningum, að ekki sé um fullnaðargreiðslu að ræða. Gæta þarf þess vandlega, að skjalfest verði, að við viðurkennum ekki skerðingu fjármuna okkar. Upphæðin hefur verið færð á reikning, sem ber hæstu vexti bankans. Hilmar hefur óskað eftir fundi með viðskiptaráðherra. Ríkisskattstjóri hefur krafizt, að við greiðum skatt af söluhagnaði vegna Grandans, þ.e. af óskertri fjárhæð. Um er að kenna seinagangi borgaryfirvalda, að byggingarframkvæmdir okkar hafa dregizt verulega. Áætlun um fjármögnun hofbyggingar í Landsbankanum er að engu orðin. Efnahagskreppan getur haft þær jákvæðu afleiðingar fyrir okkur, að sumir liðir byggingarkostnaðar lækki. Bygginganefnd hefur ákveðið að fá kostnaðargreiningu á einni teikningu enn, umfram þær tvær, sem þegar hafa verið gerðar. - Rún veik af fundi kl. 19:45. - Halldór kannar, hvort leigusali okkar sé fáanlegur til að lækka leiguna á Síðumúlanum. Alda bendir á, að nú sé e.t.v. tækifæri til að finna stærra, hentugra og ódýrara húsnæði en hið núverandi.


2. Innganga í félagið

Greiða leið að upplýsingum um inngöngu í félagið vantar á heimasíðuna. Óttar reynir að finna klausu sína um efnið sem birtist í Vorum sið fyrir fáeinum árum og kemur henni á síðuna.


3. Landvættablót

Rætt um landvættablót í hverjum landsfjórðungi á næstunni, landi og þjóð til stuðnings á erfiðum tímum. Hilmar Örn stingur upp á 1. des., fullveldisdeginum. Halldór hvetur Hilmar Örn til að skrifa ávarp, sem birt yrði í fjölmiðlum sama dag.


4. Hið íslenska bókmenntafélag

Egill leggur til, að félagið gangi í HÍB, sem kostar fáein þúsund á ári. Við fáum þá tvö hefti Skírnis á ári, en hann birtir iðulega bitastætt efni um heiðni. Samþykkt.


5. Jólablót

Húsaleiga og matur hefur hækkað umtalsvert í verði. Rætt um hugsanleg tónlistaratriði til skemmtunar á blótinu.


6. Næsti fundur

Aukafundur 24.11. kl. 19:00. (Þarnæsti 08.12./19:00.)

Fundi slitið kl. 20:35.
Fundarritari: Óttar Ottósson.