Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Lögrétta 29. september 2008

Mættir voru: Hilmar Örn, Jónína, Egill, Lára Jóna, Garðar Ás, Alda Vala, Óttar, Rún.
Fundur settur kl. 18:09.


1. Allsherjarþingið

Verðum á Hótel Sögu í salnum Stanford, sem er sá sami og í hittiðfyrra. Veitingar vatn (en ekki brauð!), en kaffi til sölu. Fullnaðarendurskoðun félagslaganna liggur fyrir frá laganefnd. Ákveðið að fjalla um hofbyggingu, þótt ekki sé víst, að kostnaðargreining hinna 5 teikninga liggi fyrir í tæka tíð. Enn er leitað að bókara, svo hægt sé að setja upp reikningana til endurskoðunar. Þoraldur tekur gjarnan að sér fundarstjórn aftur. Óttar og Lára skipta með sér fundarritun, verði þau til þess valin. Fjallað um megininntak lagabreytingatillagnanna. Gera þarf ráð fyrir kjöri allsherjargoða. Á blótið mætir Hjörleifur Valsson, fiðlusnillingur, með rússneskan harmónikkuleikara. Egill talar við tvo skemmtikrafta enn, góðkunningja félagsins. Dúka þarf borðin o.fl. í Mörkinni og finna fólk til verksins.


2. Umsókn Reynis Katrínar til goða

Að afloknu hléi mætir Reynir á fundinn um kl. 18:55. Farið var yfir stuðningsmannalista Reynis. Hann segir frá stafsferli sínum: Tónlistarmaður, listmálari, nuddari, heilari, miðill o.fl. Nefnir einnig Seiðlæti, sem er dúó hans, ásamt Unni Lárusdóttur. Vill gjarnan geta staðið fyrir athöfnum fyrir fólk, sem í vaxandi mæli æskir þess. Biðlisti hefur myndazt. Enginn goði er á Suðurlandi, bendir Rún á. Vígsluréttindi til handa fleiri goðum en þeim 5, sem hafa þau þegar, gætu reynzt torsótt. Þó telur Hilmar, að ráðuneytið myndi e.t.v. veita 1-2 goðum enn réttindi, enda mikið álag á vígslugoðunum. Reynir gekk í félagið fyrir um 6 árum. Hann býr í Garðinum. Reynir víkur af fundi kl. 19:15. Lesinn upp tölvupóstur frá Baldri Pálssyni um þennan lið. Óttar lýsir sig mótfallinn umsókninni. Rún segir starf Reynis mjög merkilegt og lýsir stuðningi við hann. Hilmar minnir á andstöðu við kjör tiltekins goða fyrir nokkrum árum. Tveir félagar hafa harðlega mótmælt kjöri Reynis við Hilmar. Reynir virðist hafa heimildir sínar um gyðjur úr Snorra-Eddu. Hilmar undirstrikar mikilvægi þess, að vandað sé til vals goða. Alda tekur undir og stingur upp á reynslutíma. Við þurfum að kynnast fólki betur, áður en goðatign er veitt. Meira ætti að þurfa til. Egill tekur undir. Lára lýsir einnig andstöðu. Hann þyrfti að kynna sig betur. Goði er andlit félagsins út á við. Hilmar telur Reyni eiga að taka sér meiri tíma innan félagsins. Jónína styður Reyni eindregið og segir hann við svipað heygarðshorn og hún. Garðar lýsir stuðningi við Reyni. Rún stingur upp á, að Reyni verði boðið að starfa með goðunum í 1 ár. Hilmari lízt vel á Reyni og vill gjarnan vinna með honum, en telur útnefningu hans ekki tímabæra. Lára tekur í sama streng. Jónína segir framboð Reynis hafa verið kynnt í maí. Atkvæði greidd um tillögu Rúnar: 4 með, enginn á móti, 3 sátu hjá. Umsókn Reynis kemur því ekki til atkvæða.


3. Hofteikningar

Hilmar og Egill, sem sæti eiga í byggingarnefnd, kynntu fundarmönum 5 tillögur að hofi. Enn er unnið að teikningu, hönnun og kostnaðargreiningu. Stefnt er að því, að tillögurnar verði kynntar á allsherjarþingi.
 

4. Önnur mál

Jónína leggur fram tillögu að kynningarbæklingi. Egill leggur til, að Hilmar og Óttar fari yfir tillögurnar. Samþykkt. - Lára Jóna spyr eftir fyrirlestrum í vetrarstarfi félagsins. Hugmynd kom upp um, að Reynir segi frá heilunar- og miðilsstörfum sínum. Einnig að hann fjalli um gyðjur. Fleira kemur sterklega til greina.

Upplesið og samþykkt - fundi slitið kl. 21:22.
Fundarritari: Óttar Ottósson.