Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Lögrétta 3. mars 2007

Fundur settur kl.16:00.
Mættir voru: Garðar, Jónína, Rún, Hilmar, Sveinn, Egill, Eyvindur, Óttar, Hildur, Jóhannes, Gunnar og Valgerður.
 

1. Útgáfustarfsemi Ásatrúarfélagsins

Hávamál með skýringum í samantekt Eyvindar eru á lokastigi. Prentaðar verða 2000 bækur, 1000 bundnar inn strax en 1000 saumaðar og geymdar óinnbundnar í kössum til að byrja með. Gefnar verða út 99 bækur í viðhafnarbúningi. Þær verða tölusettar og áritaðar af Eyvindi, Hilmari og Agli. Kanna á kostnað við að binda þær inn í roð versus kálfskinn.

Halla gerði það að tillögu sinni (símleiðis) að Hávamál yrðu lesin inn á geisladisk og gefin líka út á þann hátt. Rætt var um að fá börnin í barnastarfinu til að teikna myndir fyrir kortaútgáfuna. Rætt var um útlit dagatalsins. Jóhannes Levy stakk upp á því að þetta yrðu borðdagatöl en niðurstaðan varð hins vegar sú að gefin yrðu út veggdagatöl með mynd að ofan og dagana fyrir neðan. Rún, Hilmar og Eyvindur finna heiðnu hátíðisdagana sem settir verða inn á dagatalið. Egill tekur að sér hönnun og umbrot og að búa það til prentunar, og að þessu sinni verður greitt fyrir hans vinnu.


2. Umfjöllun um lagabreytingar frá laganefnd

Tillaga laganefndar var sú að leggja niður stjórnina í núverandi mynd. Lögrétta tæki við hlutverki stjórnar, ef þessi tillaga næði fram að ganga. Lögrétta muni áfram vera skipuð fimm félagsmönnum sem kosnir yrðu á allsherjarþingi, auk allsherjargoða og einum goða til viðbótar sem goðar tilnefna úr sínum röðum, alls sjö manns. Að mati laganefndar mun þetta fyrirkomulag einfalda alla vinnu og boðskipti. Eins og þetta er í dag þarf oft að tvívinna hlutina, fyrst í stjórn og síðan í lögréttu.


3. Bautasteinn Sveinbjarnar Beinteinssonar (og villan á legsteininum)

Egill benti á að villa er á legsteini Sveinbjarnar Beinteinssonar. Á honum stendur ,,Njóti sá er man“ en rétt á það að vera ,,Njóti sá er nam“. Hér hefur síðasta orðinu verið snúið við. Samþykkt var að leiðrétta þetta á kostnað félagsins. Fyrir tveimur árum eða svo var í lögréttu hreyft við þeirri hugmynd að reisa butastein í minningu Sveinbjarnar við afleggjarann upp að Draghálsi. Sett var á fót nefnd, skipuð Hilmari, Agli og Jónínu til að vinna í málinu og finna endanlega staðsetningu. Eftir að staðurinn var fundinn og viðræður hafnar við landeiganda og sveitarfélag kom í ljós að færa ætti veginn eftir 1–2 ár. Var þá málinu frestað. Nú hefur Jónína hins vegar frétt að vegurinn verður ekki færður næstu 8 árin og mun því nefndin halda áfram að vinna í málinu.


4. Hofbyggingin

Rún kallaði eftir framkvæmdar- og kostnaðaráætlun í sambandi við hofbygginguna. Ekki er búið að vinna þær. En Magnús arkitekt er enn að vinna að málinu með borgarskipulagi og arkitektum sem sjá um deiliskipulagið.


5. Önnur mál

Gunnar Hallsson bauðst til að færa (endurskoða) reikninga félagsins endurgjaldslaust, en það er kostnaðarliður upp á um 300 þús. kr. Jónína skýrði frá því að á síðasta goðafundi var gerð sú tillaga til stjórnar, að sá kostnaður sem hlýst af fræðslu fyrir siðfestu yrði greiddur af félaginu (aksturskosnaður og fleira). Málinu var vísað til frekari umræðu. Eftir fyrirspurn Rúnar um leyfi til að kaupa veitingar fyrir barna- og ungliðastarfið samþykkti lögrétta að slíkt hið sama gilti einnig um aðrar nefndir.

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 18.

Fundarritari Hildur Guðlaugsdóttir