Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Lögrétta 8. apríl 2015

Lögréttufundur 8. apríl 2015
 
Mætt eru Sigurboði, Kári, Hilmar Örn, Alda Vala, Jónína, Jóhanna og Bergrós, og Urður og Sigurður Mar í gegnum Skype.
 
1. mál
Rædd voru möguleg kaup á plöstunarvél fyrir félagið.
Almennt var talið að það kæmi sér vel að eiga svoleiðis græju og geta með henni plastað ýmislegt sem þyrfti að geta verið til sýnis hjá félaginu, hvort sem er uppi á veggjum eða til skoðunar í möppum.
Einnig þótti líklegt að margir goðanna vildu nýta sér það að plasta texta fyrir athafnir - ef einhvern tímann kæmi að því að það myndi rigna á þær.
 
Kaup á plöstunarvél voru samþykkt einhljóða.
 
 
2. mál
Sigurblót félagsins fer fram fimmtudaginn 23. apríl, á sumardaginn fyrsta.
Sökum framkvæmda verður ekki unnt að vera á lóð félagsins í Öskjuhlíðinni, en ekki er enn ljóst hvar við fáum inni (eða öllu heldur úti).
Búist er við svari frá Reykjavíkurborg von bráðar, en þar á bæ ríkir almenn jákvæðni fyrir því að leyfa okkur að blóta einhvers staðar á góðum stað.
Gangi það ekki eftir hefur Skógræktarfélglagið tekið mjög líklega í að ljá okkur fallegan reit.
 
Fljótlega verður farið í að panta tjöld, grill og kamra.
Samið hefur verið við Sirkus Íslands um að vera með skemmtiatriði fyrir börnin, blöðrudýr og andlitsmálningu.
 
 
3. mál
Farið lauslega yfir byggingarmál.
Verkís er komið af stað í undirbúningi burðarvirkis.
Byggingarfundir eru haldnir á tveggja vikna fresti (og þess utan aukafundir eins og nauðsyn þykir krefja), og reikningar gerðir upp mánaðarlega.
 
 
4. mál
Sigurboði spurði eftir því hvort hætt hefði verið við að setja upp glerskápa með söluvarningi frá handverksfólki innan félagsins.
Því fer þó fjarri því skáparnir hafa verið samþykktir á fundi og einungis er eftir að kaupa slíka gripi og koma þeim á sinn stað.
Sigurboði bauðst þá til að sjá um þá framkvæmd, og var það þegið með þökkum.
Þegar fram líða stundir verður tekin umræða um nákvæmlega hvað verður til sölu og hvernig því verður háttað.
 
 
5. mál
Í ljósi mikillar og útbreiddrar umræðu um hofið okkar er ljóst að það þarf að fara yfir sjóðsmál.
Koma þarf í gagnið styrktarsjóðum, og skoða hvort opna þarf gjaldeyrisreikning fyrir þá erlendu aðila sem kynnu að vilja láta eitthvað af hendi rakna.
Það þarf að vera á hreinu gagnvart styrktaraðilum að ekki fylgi nein umbun eða ítök því að styrkja félagið til byggingarframkvæmdanna.
Eins á hreinlega að afþakka styrki frá þeim aðilum sem vitað er að hafa ekki hreint mjöl í pokahorninu.
Athuga þarf lagabókstaf og komast að því hvort trúfélög eru eins og stjórnmálaflokkar og mega aðeins þiggja einhverja hámarksupphæð frá styrktaraðilum, eða hvort ekkert slíkt þak er til staðar.
 
6. mál
Borið hefur á skorti á lyklum að húsnæði félagsins.
Samdóma álit allra var að þeir sem eru á póstlista yfir opin hús eigi að hafa lykil að húsnæðinu, en einhver misbrestur er þar á.
Fara þarf yfir skrá yfir lykilhafa og athuga hvar aukalyklar kunna að leynast.
Einnig verða smíðaðir 5 nýir lyklar að húsnæðinu og verður þeim komið í réttar hendur.
 
Fleira var ekki á dagskrá.