Nafngjöf
Nafngjafarathafnir Ásatrúarfélagsins eru hugsaðar barni til heilla og verndar. Allar athafnir félagsins eru lagaðar að aðstæðum og þörfum þeirra sem þiggja þær og verða því oft bæði persónulegar og fjölbreyttar. Nafngjöf er táknræn athöfn þar sem barni er gefið nafn að viðstaddri fjölskyldu og vinum.
Nafngjöf er gjarnan á þann veg að goði kveður eða les erindi úr Völuspá sem greina frá því að hvert nýfætt barn er fyrirheit um framhald hinnar eilífu hringrásar lífsins. Sem veganesti út í lífið lesa foreldrar, aðrir aðstandendur eða goði erindi úr Hávamálum og að lokum er drykkjarhorn látið ganga og öllum gestum boðið að taka til máls. Gjarnan myndast afar skemmtileg og lifandi stemming þar sem hver og einn tjáir sig á sinn hátt.
Sveinbjörn Beinteinsson fyrrum allsherjargoði orti ljóð fyrir nafngjafir sem oft er lesið:
Megi mannheill
nafni fylgja,
styrki þig guðir
og góðar vættir,
álfar og dísir
og allt sem lifir,
gróður jarðar
og geisli sólar.
Athöfnin sjálf hefur ekki lagalegt gildi frekar en aðrar sambærilegar athafnir. Nafngjöf er því persónuleg athöfn og tækifæri fyrir foreldra, ættingja og vini til að fagna nýjum einstaklingi í hópinn. Eina lagalega atriðið sem hafa þarf í huga er formleg tilkynning um nafngjöf til Þjóðskrár sem send er rafrænt. Þetta sjá foreldrar um en goði getur að sjálfsögðu aðstoðað ef þörf er á.