Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Nornir

 

Örlaganornirnar. Málverk eftir Jóhann Briem.
Þekktastar norna í heiðnum siðu eru Urður, Verðandi og Skuld.

Nafn Urðar merkir „það sem orðið er,“ þ.e.a.s. fortíðin. Verðandi er „hin líðandi stund“ og er því norn nútímans en Skuld merkir „það sem á eftir að gerast,“ því að hún er norn framtíðarinnar. Þær ákveða aldur og örlög manna.

Einnig eru til heimildir um fleiri nornir, þannig að hlutverk þeirra er ekki eins einfalt og ætla mætti ef miðað væri við Völuspá eina og sér. Í Fáfnismálum segir að sumar nornir séu áskunnugar, sumar álfkunnugar, og sumar dætur dvergsins Dvalins. Í Reginsmálum segir „aumlig norn skóp oss í árdaga“.

Í sumum heimildum er talað um nornir, án þess að segja hvað þær eru margar. Hugmynd Völuspár um að nornirnar séu þrjár er einnig þekkt í grískum, rómverskjum og öðrum evrópskum trúarbrögðum.

Nornirnar geta séð inn í framtíðina. Þær hafa spáð fyrir um ragnarök, það er hvernig og 
hvenær heimurinn farist. Þær búa við brunn þann er Urðarbrunnur heitir og stendur við eina af þremur rótum Asks Yggdrasils í Ásgarði. Örlaganornirnar vökva Askinn með hvítri leðju til að viðhalda lífskrafti hans.

Til að gera málin enn flóknari má nefna að Skuld er líka nafn á valkyrju. Hugsanlega hefur hugmyndum um valkyrjur og nornir eitthvað slegið saman eins og er kemur fram í Darraðarljóðum þar sem valkyrjur spinna örlög manna.
 

Segir svo í Völuspá

Ask veit eg standa,
heitir Yggdrasill,
hár baðmur, ausinn
hvíta auri;
þaðan koma döggvar
þær er í dala falla,
stendur æ yfir grænn
Urðarbrunni.

Þaðan koma meyjar
margs vitandi
þrjár úr þeim sæ,
er und þolli stendur;
Urð hétu eina,
aðra Verðandi,
skáru á skíði,
Skuld ina þriðju.
Þær lög lögðu,
þær líf kuru
alda börnum,
örlög seggja.