Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Norskt rúnaljóð

Íslenska og norska rúnakvæðið eiga það sameiginlegt að fjalla um hin 16 tákn yngri rúnaraðarinnar. Hið íslenska er oft nefnt Þrídeilur og er talið vera frá 15. öld.

Hið norska er mun eldra — talið frá 12. öld. Kvæðin eru ólík en þeim svipar hvoru til annars og einnig til þess engilsaxneska. Hlutverk rúnakvæðanna er óráðið. Hugsanlega er um nokkurs konar „stafrófsvísu“ að ræða; rímaða og merkingarlausa romsu til að muna röð rúnatáknanna. Hugsanlega er um djúpstæða merkingu að ræða, spádómskvæði eða galdratól.

Hér birtist norska rúnakvæðið.  Útgáfa þessi er sú sem finna má í riti Matthíasar Viðars Sæmundssonar, Göldum á Íslandi (1992).

Fé veldur frænda rógi;
fæðist úlfur í skógi.

Úr er af illu járni;
oft (h)leypur hreinn á hjarni.

Þurs veldur kvenna kvillu;
kátur verður fár af illu.

Óss er flestra ferða
för; en skalpur er sverða.

Reið kveða (h)rossum ve(r)sta;
Reginn sló sverðið besta.

Kaun er barna bölvan;
böl gerir ná fölvan.

Hagall er kaldastur korna;
Kristur skóp heiminn forna.

Nauð gerir (k)nappa kosti;
naktan kelur í frosti.

Ís köllum brú breiða:
blindan þarf að leiða.

Ár er gumna góði;
get eg að örr var Fróði.

Sól er landa ljómi;
lúti eg helgum dómi.

Týr er ein(h)endur ása;
oft verður smiður að blása.

Bjarkan er laufgrænstur lima;
Loki bar flærða tíma.

Maður er moldar auki;
mikil er greip á hauki.

Lögur er, er fellur úr fjalli,
foss; en gull eru (h)nossir.

Ýr er veturgrænstur viða;
vant er, er brennur, að svíða.