Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Opinn lögréttufundur 3. nóvember 2013

Mætt eru lögréttumennirnir: Hilmar Örn, Jóhanna, Sigurlaug, Hulda Sif, Kári, og Silke.
Auk þess sitja fundinn: Alda Vala, Jónas, Bjarki, Baldur og Íris.

1. Skipting embætta innan lögréttu
Eftirfarandi skipan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum:
  • Lögsögumaður: Sigurlaug
  • Staðgengill lögsögumanns: Hallur
  • Ritari: Kári
  • Gjaldkeri: Hulda Sif
  • Meðstjórnandi: Hrafnhildur
2. Erindi frá goðafundi
Goðafundur leggur til að greiðslur til goða fyrir athafnir breytist sem hér segir:
  • Nafngjöf: 20.000 kr. (var 15.000)
  • Siðfestuathöfn: 25.000 kr. (óbreytt)
  • Hjónavígsluathöfn: 30.000 kr. (var 20.000)
  • Útför: 25.000 (óbreytt)
Samþykkt samhljóða. Þessar upphæðir þurfa erlendir aðilar og aðrir utanfélagsmenn að greiða að fullu en félagið stendur straum af þessum greiðslum til goðanna þegar félagsmenn eiga í hlut enda eru þær þeim að kostnaðarlausu.  

3. Fundartími lögréttu
Fastir lögréttufundir verða á fimmtudögum kl. 18:30, ýmist fyrsta eða annan fimmtudag mánaðar, eftir því hvor dagsetningin hittir á lausan tíma hjá Kára sem kemst ekki frá vinnu annan hvern fimmtudag.  Næsti reglulegi fundur verður haldinn fimmtudaginn 14. nóvember.

4. Dagskrá opins húss
Eyvindur Eiríksson heldur erindi um kristnitökuna á 16. nóvember.  Rætt var um ráðstöfun annarra laugardaga á næstunni. Þó skal stefnt að því að fyrirlesarar verði ekki oftar á dagskrá en annan hvern laugardag til þess að veita svigrúm fyrir óformlegt spjall og barnvænt umhverfi hina dagana.

5. Helgihald
Rætt um framkvæmd blóta, t.d. hvort hægt væri að koma við uppfærslum á eddusögum, t.d. Skírnismálum eða Þrymskviðu, eða að iðka sagnadansa. Einnig var rætt um þörfina fyrir heiðin jólalög og stungið upp á því að taka saman efni í heiðna söngbók.  

6. Önnur mál
Allsherjarþing beindi því til lögréttu að marka stefnu í kynþáttamálum.  Ásatrúarmenn á Íslandi mega vera stoltir af því að kynþáttahyggja hefur aldrei skotið upp kollinum í starfi félagsins.  Á síðunni Spurt og svarað á vef félagsins segir m.a. 

Hvergi í starfi félagsins er fólki mismunað á grundvelli kynferðis, kynhneigðar, þjóðernis, litarháttar eða annars þess sem gerir okkur ólík.

Lögrétta mun í starfi sínu hér eftir sem hingað til sjá til þess að á þessu verði ekki breyting. 

Fundi slitið kl. 15:40
Fundarritari: Bjarki (fráfarandi ritari lögréttu)