Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Opinn lögréttufundur 6. febrúar 2008

Mættir voru: Alda Vala, Óttar, Rún, Garðar Ás, Hilmar Örn, Jónína, Lára Jóna, Baldur.
Ennfremur sex félagar.
Fundur settur kl. 16:03.
Alda Vala stjórnaði fundi í fjarveru lögsögumanns.


1. Gerð kennsluefnis um ásatrú fyrir grunnskóla

Jónína rakti innihald námsskrár Námsgagnastofnunar í trúarbragðafræði. Sáralítið fer þar fyrir vorum sið. Hilmar benti á nýlega endurprentaða bók Sölva Sveinssonar, Guðirnir okkar gömlu. Hilmar telur bókina þá beztu um efnið og ágætan kost sem námsbók. Einnig bendir hann á nýútkomna bók Ingunnar Ásdísardóttur, Örlög guðanna. - Ásatrú er eingöngu á námsskrá 9. bekkjar, en er ekki gert hátt undir höfði. Að öðru leyti er vísað til kennslu í íslenzku og Íslandssögu. - Jóhanna mun hafa samband við Námsgagnastofnun til að kynna sér, hvernig bezt sé að koma hentugu námsefni að í grunnskólum. - Vinna þarf áfram í málinu.


2. Gerð efnis í kynningarbækling og vottorð fyrir athafnir

Garðar kveðst hafa sent Lögréttu tillögu um kynningarefni. Byggt verður á þeim grunni. - Jóhanna vinnur að samsetningu vottorðs.


3. Mæting goða á opið hús

Sýnt hefur sig, að þörf er á viðveru goða á opnu húsi vegna margra og ítarlegra trúarlegra spurninga gesta. - Gestur spurði um fjölda goða, sérstaklega í Reykjavík. - Góður hljómgrunnur var fyrir því, að goðar hafi fasta viðveru ákveðna laugardaga hvers mánaðar. Málið verður rætt nánar á goðafundi og síðan í Lögréttu.


4. Önnur mál

  • Vígsluréttindi fyrir Árna Einarsson, sem þegar er samþykktur af Allsherjarþingi og vígður á Þingvöllum. Sækja þarf um réttindin hjá yfirvöldum. Vígslum fer sífjölgandi; líka utanfélagsfólks.
  • Meðmælendalisti nýs goðaefnis liggur fyrir. Rætt um manninn og viðfangsefni hans. Umsóknin verður tekin fyrir á næsta lögréttufundi, sem hið nýja efni verður boðað á.
  • Farið var yfir, hvenær endurnýja þarf umboð goðanna.
  • Baldur Freysgoði undirstrikar mikilvægi þess, að vandað sé til verka við útnefningu goða. Goði þarf að vita í þaula, hvað í embættinu felst.
  • Rún bendir á ómannaða landshluta; sérstaklega Suðurland. - Alda upplýsir, að teikningar að hofi séu tilbúnar.
Fundi slitið kl. 16:54.
Fundarritari: Óttar Ottósson.