Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Saga félagsins

Aðdragandi þess að félagið var stofnað var sá, að á hallandi vetri 1972 fóru nokkrir menn að ræða um, að aðkallandi væri að stofna félag um heiðinn sið. Sumir vildu hafa félagið fræðafélag, en Sveinbjörn Beinteinsson og fleiri voru harðir á því að stofna trúfélag og fá það viðurkennt. Það þótti mörgum ótrúlegt að hefðist í gegn.

Ellefu manns komu saman sumardaginn fyrsta 1972 og þá var ákveðið að sækjast eftir viðurkenningu. Um það bil hálfum mánuði seinna var haldinn framhaldsaðalfundur og félagið þá formlega stofnað. Skráðu menn sig þar sem félaga og var kosin stjórn. Sveinbjörn var útnefndur allsherjargoði og forsvarsmaður félagsins. Stofnendur voru meðal annarra Jörmundur Ingi, Jón frá Pálmholti, Jóhannes Ágústsson frá Keflavík og Þorsteinn Guðjónsson. Ekki gerðist mikið í félaginu þetta sumar, en fyrsta blótið var haldið á Jónsmessunótt 1972.

Önnur samkoma var um haustið, en þá var farið að herða á því, að það þyrfti að sækja um löggildingu og gengu Sveinbjörn og Þorsteinn Guðjónsson á fund Ólafs Jóhannessonar, sem þá var dómsmálaráðherra. Þeir báru þar upp erindi sitt, að þeir hefðu stofnað Ásatrúarfélag og vildu fá það viðurkennt fyrir lögum. Ráðherra tók þessu frekar dauflega og gaf í skyn, að þeir væru helst að gera að gamni sínu. En þeir voru ákaflega alvörugefnir, eins og þeim var lagið. Ólafur sagðist lítið geta sagt um þetta á þeirri stundu, en óskaði eftir því að þeir kæmu með fleiri gögn um félagið. Þar átti að koma fram félagatala, lög félagsins og skilgreining á því, í hvaða tilgangi það væri stofnað. Engin skýr svör fengust því þarna og gengu þeir út í skammdegismyrkrið í algjörri óvissu um, hvort af þessu yrði.

Þeir voru rétt komnir út um hliðið, þegar skall á mikið þrumuveður og myrkur. Þeir höfðu gaman af því að velta fyrir sér hvernig Ólafi hafi orðið við, þegar þetta gerðist rétt eftir að þeir stigu út úr dyrunum. Þessu var slegið upp í blöðum, eins og vera ber. Var þetta skilið sem teikn frá goðunum.

Sveinbjörn fær síðan tilkynningu í mars, um að búið sé að veita heimild fyrir stofnun þessa félags og greining á því, hvernig það fari fram. Sveinbjörn fór á fund sakadómara, Þórðar Björnssonar, og var þar látinn skrifa eiðstaf, það er loforð um að fylgja lögum og reglum. Það var síðan 16. maí 1973 sem þetta skjal var gefið út. Það er hið raunverulega, opinbera upphaf félagsins. Síðan var haldið mikið blót á Draghálsi í ágúst, þar sem Jörmundur Ingi hafði reist mikla styttu af Þór. Blótið stóð í þrjá daga og var þar saman kominn fjöldi manns. Mikið rigndi, eins og vera ber, þegar slíkt fer fram úti. Töluverð blaðaskrif urðu um þetta fyrsta árið, bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum.

Þetta blót á Draghálsi var upphafið að opinberum blótum ásatrúarmanna, en núna eru haldin fjögur höfuðblót á ári hverju. Embætti allsherjargoða fylgja ákveðnar skyldur, svo sem hjónavígslur, en sú fyrsta fór fram úti í garði í Reykjavík.

Önnur trúfélög sem aðhyllast norræna trú og goðafræði í heiminum líta á Ásatrúarfélagið sem leiðandi trúfélag, hvort sem félagsmönnum líkar betur eða verr. Íslendingar geta lesið þær fornbókmenntir sem geyma heimildir um heiðna menningu. Saga Íslands hefst í heiðnum sið og öll menning okkar síðar byggir á því, þrátt fyrir allan kristindóm og kristna menningu, sem síðar gekk yfir okkur. Við höfum ekki þurft að grafa upp neinar fornminjar, lesa ókunn tungumál, rýna í rúnaletur eða annað slíkt. Heiðinn siður er borðliggjandi hér á landi í bókahillunni, trúarhugmyndum, landslaginu, skáldskap og víðar.

Sumum hefur þótt vanta skýrari línur í trú Ásatrúarmanna. Sveinbjörn sagði að helst hafi verið komið fram með „skýrari línur“ í trúarbrögðum, þegar reynt hafi verið að fella þau undir eitt vald, til dæmis konungsvald eða annað slíkt. Trúarbrögð eru nokkuð sem ekki verður til við járnaga eða í skörpum línum. Ásatrúarmenn vilja ekki trúa því að goðin ákveði það fullum stöfum hvernig við eigum að trúa.

Sveinbjörn starfaði sem allsherjargoði allt til dauðadags árið 1993. Tók þá Jörmundur Ingi Hansen við embættinu til ársins 2002, en þá var Jónína K. Berg sett í embættið. Starfaði hún sem allsherjargoði í eitt ár, eða þar til Hilmar Örn Hilmarsson var vígður allsherjargoði á Þingvöllum árið 2003 og gegnir hann enn því embætti.

Félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru 98 skráðir í félagið árið 1990. Fimm árum seinna voru þeir orðnir 190. Árið 2000 voru 512 skráðir í félagið. Sjö árum síðar hafði sú tala tvöfaldast að fimm árum enn liðnum hafði sú tala enn tvöfaldst og félagsmenn komnir á þriðja þúsundið. Vöxt félagsins má nánar skoða hér.