Skip to main content

Siðfesta

Síðustu ár hafa siðfestuathafnir orðið fastur liður í starfi félagsins en ekki er langt síðan þær voru lítið þekktar og flestir sem tóku siðfestu voru fullorðnir. Ekki er vitað til að manndómsvígslur með þessu sniði hafi átt sér stað meðal heiðins fólks á Norðurlöndum til forna og vel framan af var ekki á stefnuskrá félagsins að bjóða upp á slíkar athafnir. Það var ekki fyrr en með beiðnum frá félögunum sjálfum sem að farið var að hyggja að einhverjum valkosti í stað hinnar kristnu fermingar.

Fyrsta siðfestuathöfnin var þó haldin árið 1973 þegar Sveinbjörn Beinteinsson hafði heiðna fermingarathöfn fyrir tvo bræður í félaginu, þá Brynjúlf og Sverri Bjarnasyni. Þeir voru lengi þeir einu sem höfðu tekið siðfestu og ekki voru skráðar fleiri slíkar athafnir næstu áratugi. Upp frá aldamótum hafa þær hins vegar færst í aukana og fjölgar ár frá ári.

Námskeið

Námskeið er í boði fyrir unglinga á fermingaraldri sem velja þennan valkost og er það í umsjón goða félagsins. Fram fer kynning á félaginu og félagsstarfinu, heimspekilegar vangaveltur um lífið og tilveruna og hvað það er sem skiptir máli í henni: Samskipti okkar við annað fólk og hvernig hægt er að láta sjálfum sér og öðrum líða sem best. Þeir tímar einkennast af samtölum og verkefnum þar sem reynt er að virkja flesta í að tjá sig. Málefni líðandi stundar eru rædd og heilræði eddukvæða skoðuð og þá mest í gegnum Hávamál.

Meðal þess sem fjallað er um er:

Gott og illt, svart og hvítt. Kostir og gallar mannanna og guðanna. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Veraldleg gæði og nauðsynjar. Hvers þörfnumst við í raun og veru í lífinu?

Samskipti við annað fólk. Að lifa í friði. Vinátta og víðsýni.

Viskan og við. Ýmis ráð frá Óðni í Hávamálum. Hver þeirra geta gagnast okkur?

Náttúran og umhverfið. Hvaða ábyrgð berum við sem fullorðið fólk? Hvað er það sem skiptir mestu máli fyrir framtíðina?

Fyrir þau sem ekki hafa tök á því að mæta í fræðsluna í Reykjavík er í boði að nota fjarfundarbúnað og aðrir eru í sambandi við goða í héraði sem veitir þeim fræðslu eftir hentugleika beggja.

Að fræðslu lokinni gengst siðfestumaður undir athöfn með goða að eigin vali og hefur ýmislegt að segja um hvernig athöfnin gangi fyrir sig. Athöfnin felur ekki í sér neins konar yfirlýsingu eða trúarjátningu, hún staðfestir einungis að siðfestumaður hafi kynnt sér heiðinn sið og sjónarmið með goðum Ásatrúarfélagsins og vilji taka siðfestu. Siðfestuathafnir eru eins mismunandi og þær eru margar en eiga eitt sameiginlegt: Þar ríkir einurð og gleði og öll eru saman komin til að óska ungum einstaklingi góðrar ferðar út í lífið með gott nesti í farteskinu.

Námskeiðsgjöld eru 60.000 kr. Innifalið er fræðsla einu sinni í mánuði, hópeflisdagur að vori og einkaathöfn. Dag- og staðsetning athafnar er valin af siðfestumanni og forráðamönnum.

Skráning fer fram hér.