Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Spurt og svarað

Hvernig geng ég í Ásatrúarfélagið?

Ásatrúarfélagið er löggilt trúfélag á Íslandi og hefur það að markmiði að hefja til vegs og virðingar fornan sið og forn menningarverðmæti og halda heiðinni siðvenju í hefð. Félagið er opið öllum þeim er áhugasamir eru um ýmiskonar þjóðtrú, gamlar hefðir og menningarverðmæti..

Íslenskir ríkisborgarar 16 ára og eldri, sem og útlendingar með fasta búsetu á Íslandi sem tilbúnir eru að fylgja reglum félagsins geta skráð sig í félagið. Þeir sem ekki hafa náð 16 ára aldri verða að hafa samþykki foreldra fyrir félagsaðild. Allir félagar eru virtir að jöfnu, hafa kosningarétt og geta gefið kost á sér í trúnaðarstöður innan félagsins. Samkvæmt íslenskum lögum er aðeins leyfilegt að vera skráður í eitt trúfélag.

Þjóðskrá, Borgartúni 24 150 Reykjavík sér um skráningu í trúfélög. Þar er opið virka daga kl. 8:30 - 16:00. Á slóðinni http://www.skra.is/, er hægt að sækja og prenta út trúskiptaeyðublöð. Eyðublöðin má setja í póst, eða fylla út í eigin tölvu og senda rafrænt með netskilum á Ísland.is, sbr. leiðbeiningar á vef Þjóðskrár. Nánari upplýsingar veitir Þjóðskrá í síma 569 2900.

Á sýsluskrifstofum er hægt að nálgast trúskiptaeyðublöð. Velkomið er líka að snúa sér til skrifstofu Ásatrúarfélagsins Síðumúla 15 eða hvaða goða félagsins sem er.
 

Mega allir mæta á blót?

Blót eru öllum opin og eru allir þeir velkomnir sem vilja fylgjast með eða taka virkan þátt í blótinu.
 

Eru blótin ekki bara drykkjuveislur?

Nei, fyrst og fremst eru blótin helgiathafnir ásatrúarmanna, þar sem komið er saman og oftast er matarveisla tengd blótinu. Þó að blót séu einnig gleðskapur og ávalt helgur drykkur í horni er hófs gætt því í Hávamálum eru heilræði þess efnis að gæta hófs við blóthald og drykkju. Á blótum fara oft fram umræður um ýmis efni sem tengjast ásatrúnni. Þetta getur verið um eðli guðanna eða einhverja þætti í hegðun manna. Í raun geta umræðurnar verið um hvað sem er tengt ásatrú, Ásatrúarfélaginu eða trúmálum yfirleitt.
 

Eru athafnir eins og hjónavígsla eða greftrun fullgildar og löglegar?

Já, vegna þess að Ásatrúarfélagið er löggilt trúfélag. Bæði allsherjargoði og staðgengill hans hafa leyfi til þessara athafna, auk þeirra goða sem hafa fengið vígsluréttindi.
 

Halda ásatrúarmenn jól?

Frá fornu fari hafa jólin verið hátíð heiðinna manna sem haldin er við vetrarsólhvörf. Hin heiðnu jól eru hátíð ljóssins þegar sólin fer hækkandi á lofti og dag tekur að lengja. Þetta eru tímamót nýs upphafs, nýs árs og friðar. Flest öll tákn jólanna svo sem jólatréð, jólasveinarnir, jólaljósin og jólagjafirnar eru upprunnin úr heiðnum sið og Íslenskri þjóðtrú. Auk þess mætti nefna að eitt nafna Óðins er Jólnir. Jólablót Ásatrúarfélagsins er ein aðalhátíð heiðinna manna.
 

Hvers vegna er ásatrú vinsæl núna?

Þó að ásatrú, eða heiðinn siður eins og margir kjósa oft frekar að kalla hana, hafi legið lengi í dvala, hefur heiðnin lifað góðu lífi í þjóðtrúnni og skáldskap og sem trú á álfa og aðrar huldar verur náttúrunnar.

Ásatrú var bönnuð með lögum hér á landi árið 1000 þó leyfilegt hafi verið að blóta á laun. Það var ekki fyrr en 1874 að trúfrelsi var tryggt með nýrri stjórnarskrá.
Heiðinn siður kallast skemmtilega á við lífsviðhorf nútímamanna þar sem helstu gildi ásatrúar höfða sterkt til heilbrigðrar skynsemi og sjálfstæðrar hugsunar.
 

Hvernig stunda heiðnir menn trú sína?

Dags daglega er ekki verið að ástunda trúarsiði svo sérlega mikið, þetta er meira spurning um lífssýn og lífsmáta, allt óhóf þykir t.d. vera alveg á skjön við heiðinn sið, gagnstætt víkingaímyndinni sem er svolítið öfgakennd og á í raun ekkert svo mikið skylt við heiðinn sið eða Ásatrú þó nokkuð af víkingum hafi verið heiðnir, en margir þeirra urðu kristnir þegar á leið.

Hver sem vill getur haldið sín blót auk þess sem Ásatrúarfélagið stendur fyrir blótum sem margir sækja en enginn er skyldugur til að mæta á.
Samband við goð og aðrar verur iðka margir á jafnréttisgrundvelli, þau eru svona eins og fagrir vinir en ekki ósnertanleg á stalli.

Í Hávamálum og öðrum eddukvæðum er góð lífsspeki og heilræði, þar sem hvorki eru skipanir gefnar né dæmt.

Sumir félagsmenn hafa iðkað hugleiðslur inn á goð, verur og krafta innan norrænnar goðafræði en fyrst og fremst er heiðni einstaklingsbundin trú og iðkuð eins og hverjum og einum hentar best.
 

Hvernig er staða kvenna í ásatrú eða Ásatrúarfélaginu?

Í Ásatrúarfélaginu hafa lengi verið mun fleiri karlar en konur en hlutfallið hefur stöðugt verið að jafnast. Á stofnfundi félagsins sumardaginn fyrsta 1972 voru stofnfélagarnir 6 konur og 6 karlar.

Miðað við önnur trúfélög er staða kvenna nokkuð góð ef litið er á stjórnarstörf og trúnaðarstöður. Þannig er lögrétta, stjórn félagsins, skipuð fjórum konum og þremur körlum starfsárið 2012–13 og aftur 2013–14. Konur hafa gegnt öllum lykilstöðum í félaginu og sem dæmi mætti nefna að árin 2001–2 voru settur allsherjargoði og lögsögumaður Ásatrúarfélagsins konur. Það eru tvö mestu ábyrgðar- og trúnaðarstörf félagsins.  Starfsárið 2013–2014 er kona lögsögumaður.

Hvergi í starfi félagsins er fólki mismunað á grundvelli kynferðis, kynhneigðar, þjóðernis, litarháttar eða annars þess sem gerir okkur ólík. Félagsmönnum er auk þess velkomið að fylgja eigin sannfæringu hvað varðar trúariðkun eða áherslur.

Ef litið er á norrænu goðafræðina sjálfa er ekki minna af kvenkyns goðverum, dísum, valkyrjum og öðrum máttugum kvenverum en karlverum og goðum. Þó að fornir textar um goð, gyðjur og aðrar vættir draga dám af feðraveldi fyrri alda vekur athylgi hversu máttugar og sjálfstæðar kvenverður goðafræðinnar hafa verið.