Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Stefnulýsing samráðsvettvangs trúfélaga

Samráðsvettvangur trúfélaga, lífsskoðunarfélaga um trúarleg efni og samstarfsaðila þeirra er starfræktur á Íslandi. Reykjavík, þann 24. nóvember 2006. Tilgangur Markmið samráðsvettvangsins er að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og af ólíkum trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Slíkt næst ekki með því að samsinna hverju sem er eða láta hvað sem er gagnrýnilaust heldur með því að vera reiðubúinn til að hlusta á sjónarmið annarra, setja sig í spor þeirra og virða sjálfsákvörðunarrétt sjálfráða einstaklinga og trúfélaga.

Samráðsvettvangurinn veitir leiðtogum og fulltrúum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga um trúarleg efni tækifæri til að kynnast, stuðlar að málefnalegum samskiptum milli þeirra, liðkar fyrir miðlun upplýsinga og hjálpar þeim að ræða sameiginleg hagsmunamál á borð við aðgengi að trúarlegri þjónustu á opinberum vettvangi og taka á vandamálum sem upp kunna að koma, svo sem í tengslum við einelti, óeirðir, styrjaldir, náttúruhamfarir eða slys. Þannig getur samráðsvettvangurinn stuðlað að auknu umburðarlyndi og virðingu meðal almennings, m.a. með því að hvetja til faglegrar trúarbragðafræðslu, árétta félagslegt vægi trúar, leiðrétta augljósar rangfærslur og vinna gegn fordómum og neikvæðri mismunun. Aðild Öll trúfélög sem fengið hafa skráningu hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og þannig myndað tengsl við ríkisvaldið hafa rétt á aðild að samráðsvettvanginum.

Óskráð trúfélög og lífsskoðunarfélög sem skírskota til trúar eða fullyrða um trúarleg efni án þess að kenna sig við trú geta sótt um aðild að samráðsvettvanginum en hún er komin undir samþykki fulltrúa allra sem þegar hafa öðlast aðild. Starfrækja má samráðsvettvanginn í samstarfi við óháð félagasamtök, nefndir og stofnanir. Skrifleg umsókn um aðild berist upplýsingafulltrúa samráðsvettvangsins sem mun kynna hana á fundi boðuðum innan þriggja mánaða og leita álits allra aðildarfélaganna. Úrsögn úr samráðsvettvanginum þarf einnig að vera skrifleg. Félög sem aðild eiga að samráðsvettvanginum geta sett fyrirvara á þátttöku sinni. Skipulag Hvert aðildarfélag tilnefnir einn fulltrúa með atkvæðisrétt og getur hann tekið með sér tvo aðra sem þátt geta tekið í fundum nema samið sé um annað.

Fulltrúar geta þó ekki bundið eigin trúfélög. Sé fulltrúinn ekki forstöðumaður eða úr stjórn viðkomandi félags þarf hann skriflegt umboð frá því. Samþykktir samstarfsaðilar á borð við óháð félagasamtök, nefndir, stofnanir eða ráðuneyti hafa rétt á að skipa áheyrnarfulltrúa með tillögurétt en eru án atkvæðisréttar. Halda ber a.m.k. tvo fundi á ári. Samráðsvettvangurinn útnefnir upplýsingafulltrúa og ritara fyrir eitt ár í senn á fyrsta fundi hvers árs sem skal boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara. Upplýsingafulltrúinn tekur við aðildarumsóknum, boðar til funda, tekur saman tillögu að dagskrá, hefur samband við þá sem ekki geta mætt í tengslum við ákvarðanatöku og sendir út tilkynningar.

Ritarinn skrifar fundargerð sem senda ber út innan hálfs mánaðar frá fundi. Hvorki upplýsingafulltrúinn né ritarinn þurfa að vera úr röðum fulltrúa aðildarfélaganna en þeir hafa því aðeins atkvæðisrétt að þeir séu um leið fulltrúar sinna trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga um trúarleg efni. Fyrirvarar Samráðsvettvangurinn beitir sér aðeins fyrir þeim málefnum sem eining næst um milli aðildarfélaganna. Óheimilt er að gefa út yfirlýsingar í nafni samráðsvettvangsins sem ekki hafa verið samþykktar af öllum aðildarfélögunum. Virða ber að aðildarfélögin árétti sérstöðu sína í kenningarlegum efnum, boðun og starfsháttum.

Tilgangurinn er því ekki sameining trúarbragða í önnur ný heldur sá að stuðla að málefnalegum samskiptum, umburðarlyndi og virðingu. Sömuleiðis er tilgangurinn ekki sameiginlegt helgihald allra aðildarfélaganna. Sérhverju aðildarfélagi er hins vegar frjálst að efna til sameiginlegs helgihalds með öðrum þegar tilefni gefst og aðstæður leyfa, svo sem í tengslum við hjónavígslur fólks úr ólíkum trúarhópum, minningarathafnir eða áföll á borð við náttúruhamfarir og slys. Enda þótt samráðsvettvangurinn geti liðkað fyrir samskiptum ólíkra trúarhópa og lífsskoðunarfélaga um trúarleg efni, verður allt sameiginlegt helgihald aðeins í nafni viðkomandi aðildarfélaga sem það vilja en ekki vettvangsins.

Samráðsvettvangurinn getur ekki skuldbundið aðildarfélögin á nokkurn hátt. Ekki er heldur hægt að draga aðildarfélög til ábyrgðar á samráðsvettvanginum á orðum eða gjörðum einstakra meðlima þeirra. Ekki er hægt að breyta texta þessarar stefnulýsingar nema með samþykki aukins meirihluta aðildarfélaganna. Aðildarfélög og samstarfsaðilar

Eftirtalin trúfélög og lífsskoðunarfélög um trúarleg efni eiga aðild að samráðsvettvanginum:
 • Þjóðkirkjan
 • Fríkirkjan í Reykjavík
 • Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi
 • Fríkirkjan Vegurinn
 • Baháísamfélagið
 • Félag Múslima á Íslandi
 • Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu
 • FFWU – Heimsfriðarsamband fjölskyldna
 • Kaþólska kirkjan
 • Krossinn
 • Búddistafélag Íslands
 • Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík
 • Ásatrúarfélagið
Eftirtaldir samstarfsaðilar hafa rétt á áheyrnarfulltrúa með tillögurétt:
 • Alþjóðahús