Skip to main content

Þrymskvíða

Eftir desember 20, 2021mars 30th, 2022Kvæði

Reiður var þá Vingþór
er hann vaknaði
og síns hamars
um saknaði,
skegg nam að hrista,
skör nam að dýja,
réð Jarðar bur
um að þreifast.

Og hann það orða
alls fyrst um kvað:
Heyrðu nú, Loki,
hvað eg nú mæli
er eigi veit
Jarðar hvergi
né upphimins:
ás er stolinn hamri.

Gengu þeir fagra
Freyju túna
og hann það orða
alls fyrst um kvað:
Muntu mér, Freyja,
fjaðurhams ljá
ef eg minn hamar
mættag hitta.

Freyja kvað:
Þó mynda eg gefa þér
þótt úr gulli væri
og þó selja
að væri úr silfri.

Fló þá Loki,
fjaðurhamur dundi,
uns fyr utan kom
ása garða
og fyr innan kom
jötna heima.

Þrymur sat á haugi,
þursa drottinn,
greyjum sínum
gullbönd snöri
og mörum sínum
mön jafnaði.

Þrymur kvað:
Hvað er með ásum?
Hvað er með álfum?
Hví ertu einn kominn
í Jötunheima?

Loki kvað:
Illt er með ásum,
illt er með álfum;
hefir þú Hlórriða
hamar um fólginn?

Þrymur kvað:
Eg hefi Hlórriða.
hamar um fólginn
átta röstum
fyr jörð neðan.
Hann engi maður
aftur um heimtir
nema færi mér
Freyju að kvæn.

Fló þá Loki,
fjaðurhamur dundi,
uns fyr utan kom
jötna heima
og fyr innan kom
ása garða.
Mætti hann Þór
miðra garða
og hann það orða
alls fyrst um kvað:

Hefir þú erindi
sem erfiði?
Segðu á lofti
löng tíðindi.
Oft sitjanda
sögur um fallast
og liggjandi
lygi um bellir.

Loki kvað:
Hefi eg erfiði
og erindi.
Þrymur hefir þinn hamar,
þursa drottinn.
Hann engi maður
aftur um heimtir
nema honum færi
Freyju að kvon.

Ganga þeir fagra
Freyju að hitta
og hann það orða
alls fyrst um kvað:
Bittu þig, Freyja,
brúðar líni;
við skulum aka tvö
í Jötunheima.

Reið varð þá Freyja
og fnásaði,
allur ása salur
undir bifðist,
stökk það hið mikla
men Brísinga:
Mig veistu verða
vergjarnasta
ef eg ek með þér
í Jötunheima.

Senn voru æsir
allir á þingi
og ásynjur
allar á máli
og um það réðu
ríkir tívar
hve þeir Hlórriða
hamar um sætti.

Þá kvað það Heimdallur,
hvítastur ása,
vissi hann vel fram
sem vanir aðrir:
Bindum vér Þór þá
brúðar líni,
hafi hann ið mikla
men Brísinga.

Látum und honum
hrynja lukla
og kvenvoðir
um kné falla
en á brjósti
breiða steina
og haglega
um höfuð typpum.

Þá kvað það Þór,
þrúðugur ás:
Mig munu æsir
argan kalla
ef eg bindast læt
brúðar líni.

Þá kvað það Loki
Laufeyjar sonur:
Þegi þú, Þór,
þeirra orða.
Þegar munu jötnar
Ásgarð búa
nema þú þinn hamar
þér um heimtir.

Bundu þeir Þór þá
brúðar líni
og inu mikla
meni Brísinga,
létu und honum
hrynja lukla
og kvenvoðir
um kné falla
en á brjósti
breiða steina
og haglega
um höfuð typptu.

Þá kvað Loki
Laufeyjar sonur:
Mun eg og með þér
ambátt vera,
við skulum aka tvö
í Jötunheima.

Senn voru hafrar
heim um reknir,
skyndir að sköklum,
skyldu vel renna.
Björg brotnuðu,
brann jörð loga,
ók Óðins sonur
í Jötunheima.

Þá kvað það Þrymur,
þursa drottinn:
Standið upp, jötnar,
og stráið bekki.
Nú færið mér
Freyju að kvon
Njarðar dóttur
úr Nóatúnum.

Ganga hér að garði
gullhyrndar kýr,
öxn alsvartir
jötni að gamni;
fjöld á eg meiðma,
fjöld á eg menja,
einnar mér Freyju
ávant þykir.

Var þar að kveldi
um komið snemma
og fyr jötna
öl fram borið.
Einn át uxa,
átta laxa,
krásir allar
þær er konur skyldu,
drakk Sifjar ver
sáld þrjú mjaðar.

Þá kvað það Þrymur,
þursa drottinn:
Hvar sáttu brúðir
bíta hvassara?
Sák-a eg brúðir
bíta breiðara
né inn meira mjöð
mey um drekka.

Sat in alsnotra
ambátt fyrir
er orð um fann
við jötuns máli:
Át vætur Freyja
átta nóttum,
svo var hún óðfús
í Jötunheima.

Laut und línu,
lysti að kyssa,
en hann utan stökk
endlangan sal:
Hví eru öndótt
augu Freyju?
Þykir mér úr augum
eldur um brenna.

Sat in alsnotra
ambátt fyrir
er orð um fann
við jötuns máli:
Svaf vætur Freyja
átta nóttum,
svo var hún óðfús
í Jötunheima.

Inn kom in arma
jötna systir,
hin er brúðfjár
biðja þorði:
Láttu þér af höndum
hringa rauða,
ef þú öðlast vilt
ástir mínar,
ástir mínar,
alla hylli.

Þá kvað það Þrymur,
þursa drottinn:
Berið inn hamar
brúði að vígja,
leggið Mjöllni
í meyjar kné,
vígið okkur saman
Várar hendi.

Hló Hlórriða
hugur í brjósti
er harðhugaður
hamar um þekkti;
Þrym drap hann fyrstan,
þursa drottin,
og ætt jötuns
alla lamdi.

Drap hann ina öldnu
jötna systur,
hin er brúðfjár
um beðið hafði,
hún skell um hlaut
fyr skillinga,
en högg hamars
fyr hringa fjöld.
Svo kom Óðins sonur
endur að hamri.