Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Um hof og hörga

(Birtist í Vorum Sið 4. tbl. 2005).

Ólafur Briem reit svo um hof og hörga í bók sína Norræn goðafræði (1940):

Höf og hörgar eru oft nefnd saman. Hofin voru, eins og kunnugt er, hin venjulegu
goðahús ásatrúarmanna á síðustu tímum þeirra. En um hörgana er allt í meiri óvissu.
Talið er, að þeir hafi upphaflega verið blótstaðir undir berum himni, líklega steinaltari.
Á þetta bendir uppruni orðsins hörgur, sem merkir ýmist heiðinn blótstað
eða grjóthól. Í Eddukvæðunum er líka getið um hörg, sem hlaðinn var úr steinum.
Stundum virðast hörgarnir hins vegar hafa verið hús. Sést það bezt á því, að getið
er um hörga, sem brunnu, og um „hátimbraða“ hörga. Á Íslandi hafa fundizt tóftir,
sem talið er, að séu af fornum hörgum, en aðeins ein þeirra hefur verið rannsökuð.
Leiddi sú rannsókn í ljós, að hörgurinn hefur verið hús í líkingu við hofin, nema
miklu minni. En með því er ekki sagt, að allir hörgar á Íslandi hafi verið hús.

Því hefur vreið haldið fram, að ásynjurnar hafi aðallega verið dýrkaðar í hörgunum.
Þessi skoðun byggist á því, að Snorri kallar höllina Vingólf hörg. En þá höll
áttu ásynjur, og víðar er getið um dýrkun þeirra í hörgum. En ekki voru samt allir
hörgar helgaðir gyðjum. Það sést greinilega á því, að í Svíþjóð eru til örnefnin
Þórshörgur og Óðinshögur.

Það verður ekki sagt með neinni vissu, hvers konar helgistaðir hörgarnir voru,
enda virðist fyrirkomulag þeirra hafa verið mjög breytilegt. En eftir því, sem næst
verður komizt, eru þeir eldri en hofin. Gengi hörganna sýnist minnka að sama
skapi sem vegur hofanna vex. Á Íslandi skipuðu hörgarnir miklu lægri sess en
hofin. Aðalmenjarnar um þá eru í örnefnum, en þeirra er ekki getið nema á tveim
stöðum í öllum sagnaritunum.

Um hofin eru heimildirnar miklu betri. Í fornum ritum eru hér og þar drög til
lýsinga á hofum. En auk þess hafa verið grafnar upp fornar hoftóftir, sem tala sínu
máli sjálfar. Þekking okkar á hofum er því jöfnum höndum byggð á fornleifum og
rituðum heimildum. Sú hoftóft, sem langbezt hefur verið rannsökuð, er hjá
Hofstöðum í Mývatnssveit. Hún var 44 metrar á lengd og 6–8 metrar á breidd.
Nálægt norðurenda tóftarinnar var þverveggur, sem skipti henni í tvennt. Talið er,
að stærri salurinn hafi verið gildaskáli, en afhýsið í norðurendanum goðastúka. Á
báðum herbergjunum voru útidyr, en engar dyr voru á þverveggnum milli þeirra.
Telja sumir, að hann hafi ekki verið hærri en svo, að menn hafi getað séð framan
úr gildaskálanum inn í goðastúkuna. En úr því gat rannsóknin auðvitað ekki skorið.

Gildaskálinn virðist hafa verið með svipuðu sniði og skálarnir á íslenskum stórbæjum.
Eftir skálanum endilöngum var röð af eldum, sem nefndir voru langeldar,
en meðfram veggjunum voru bekkir hlaðnir úr torfi. Meðfram þeim, er talið, að
verið hafi laus borð. Skálanum var skipt í þrennt með súlnaröðum eftir endilöngu,
og var gólfið lægst í miðjunni, þar sem langeldarnir voru. Á hliðarvegg skálans
voru dyr, og þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar, sem stundum voru útskornar
með goðamyndum. Goðastúkan var helgasti hluti hofsins. Þar stóð á miðju gólfinu
stalli, sem samsvarar altari í kristnum kirkjum. Þar stóðu líka goðamyndirnar, sem
oftast voru skornar úr tré. Ekki er hægt að segja um það með vissu, hvort það
tíðkaðist á Íslandi, að margar goðamyndir væru í sama hofinu, eða hvort þar hefur
aðeins verið mynd þess goðs, sem hofið var sérstaklega helgað, t.d. Þórs eða Freys.
Hins vegar eru til öruggar heimildir frá öðrum Norðurlöndum um margar goðamyndir
í sama hofi.


Egill Baldursson tók saman.