Skip to main content

Útför

Goðar Ásatrúarfélagsins annast útfarir að heiðnum sið. Þær athafnir hafa færst hratt í vöxt undanfarin ár enda hefur félagafjöldi vaxið hratt og samfélagið aukið skilning á því að útfarir geta farið fram eftir fleiri en einni uppskrift auk þess sem fleiri og fleiri hafa undirbúið óskir um sína eigin útför þegar þar að kemur.

Heiðnar útfarir hafa verið nokkuð mismunandi og mótast af þeim sem verið er að kveðja hvert sinn. Þær eru framkvæmdar af allsherjargoða eða öðrum goða með vígsluréttindi og fara fram í góðu samráði við aðstandendur og útfararþjónustu. Markmiðið er ævinlega að gera vel við minningu hins látna og að athöfnin fylgi óskum hans og ástvina þannig að minningin um hana sé alltaf jákvæð og líknandi.

Kveðskapur úr eddukvæðum, annar ljóðalestur og tónlist er yfirleitt til staðar í heiðnum útförum. Einnig er algengt að nákominn ættingi eða vinur flytji nokkur kveðjuorð. Þau eru undantekningarlaust full af þakklæti og góðum minningum sem ylja aðstandendum. Á kistuna eða við duftkerið eru gjarnan lagðir munir sem hinum látna voru kærir, honum óskað fararheilla og að góðar vættir styrki þá sem eftir standa. Viðstaddir ganga sólarsinnis kringum hinn látna og kveðja hver á sinn hátt.

Fossvogskirkja ásamt kapellunni eða bænhúsinu við kirkjunni er ætluð öllum trú- og lífsskoðunarfélögum og oft notuð til heiðinnar útfarar. Kirkjan er þó í eðli sínu talsvert kristileg og krossinn áberandi en ásatrúarmenn eru flestir umburðarlyndir og láta sig hafa það. Dæmi eru um að útfarir ásatrúarmanna hafi farið fram frá ýmsum samkomuhúsum og veitingasölum þar sem erfidrykkja hefur þá verið höfð í kjölfarið, heimahúsum og úti í náttúrunni. Í náinni framtíð verður góð aðstaða fyrir útfararathafnir í hofi Ásatrúarfélagsins.

Frá árinu 1999 hefur Ásatrúarfélagið átt grafreit í Gufuneskirkjugarði og þar hvíla nokkrir heiðnir menn í óvígðri mold. Þó má að sjálfsögðu jarðsetja í öðrum kirkjugörðum, sumir vilja til að mynda hvíla við hlið ættingja eða maka og ekki er óalgengt í okkar fjölmenningarsamfélagi að grafir fólks sem aðhylltust ólík trúarbrögð liggi saman í kirkjugörðum landsins. Í tilfelli þeirra sem kjósa bálför frekar en kistu er svo hægt að dreifa öskunni.