Laugardaginn 20. janúar n.k. mun Vilborg Davíðsdóttir halda erindi á opnu húsi í hofinu okkar í Öskjuhlíð. Húsið opnar kl 14:00 og er takmarkaður fjöldi sæta í boði. Það er ókeypis aðgangur og allir velkomnir, en best er að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti.
Við mælum með að leggja bílum við Nauthól og ganga þaðan að byggingarsvæðinu. Eftir um 2-3 mínútna gang sést op í girðinu á vinstri hönd sem umlykur svæðið.
Fyrirlestrinum verður streymt hér á Facebook.
————————————————————–
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur flytur erindi Í nýrri bók, Landi næturinnar. Þar segir Vilborg frá ævintýralegri ferð völvunnar Þorgerðar Þorsteinsdóttur í Austurveg en það er heitið sem norrænir menn höfðu um siglingaleiðina úr Eystrasalti um ár og fljót Austur-Evrópu á víkingaöld.
Vilborg leiðir lesendur þar ekki aðeins um Garðaríki heldur einnig í seiðferð í aðra heima. Hún ræðir í erindinu m.a. mikilvægi völvunnar í norrænni trú og átrúnað á gyðjur. Þá mun hún fjalla um tengslin á milli spuna og fjölkynngi og sýna okkur bæði ullar- og völvustaf.
Á bókarkápu segir um skáldsöguna, sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna: „Þorgerður Þorsteinsdóttir hefur lifað mikinn harm heima á Íslandi og heldur til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.“
Fyrri bók Vilborgar um völvuna Þorgerði, Undir Yggdrasil, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021.
—————————————————————————
—————————————————————————
Fyrri bækur Vilborgar: Við Urðarbrunn, 1993 Nornadómur, 1994 Eldfórnin, 1997 Galdur, 2000 Korku saga, 2001 Hrafninn, 2005 Auður, 2009 Vígroði, 2012 Ástin, drekinn og dauðinn 2015 Blóðug jörð, 2017 Undir Yggdrasil, 2020