Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Ýmsar skepnur


Teikning af Auðhumlu í handritinu SÁM 66

Auðhumla

Auðhumla er nafn frumkýrinar, en hún varð til þegar frost og hrím Niflheims og eldar Múspelsheims runnu saman og blönduðust í Ginnungargapinu þar sem sköpunin átti sér stað. Úr spenum Auðhumlu runnu fjórar mjólkurár sem Ýmir nærðist á. Auðhumla sleikti salta hrímsteina til að fá næringu og leysti úr steinunum forföður goðanna, Búra.
 

Fenrir

Fenrir eða Fenrisúlfur er afkvæmi Loka og Angurboðu. Goðin ólu upp úlfinn sem síðar varð svo stór og hættulegur að þau ákváðu að fjötra hann. Eftir að úlfurinn hafði slitið af sér fjötrana Læðing og Dróma tókst þeim að fjötra hann með Gleipni. Til þess að þetta gengi upp þurfti Týr að fórna hægri hönd sinni í gin Úlfsins. Liggur nú Fenrisúlfurinn fjötraður á eynni Lyngva með sverð spent milli gómana og grenjar ógurlega. Slefan er rennur úr kjafti hans myndar fljótið Ván. Þarna mun hann liggja allt til ragnaraka, en þá mun honum takast að slíta sig lausan og gleypa Óðinn áður en Víðar nær að drepa hann.


Gullinbursti og Hildisvíni

Gullinbursti heitir göltur Freys en dvergarnir Sindri (eða Eitri) og Brokkur bjuggu hann til. Hann mátti renna loft og nótt sem dag. Hann hleypur hraðar en hver hestur. Bursti hans er svo ljós að þar sem hann hleypur er aldrei myrkur. Hann er líka kallaður Slíðrugtanni og Freyr fer á honum
ríðandi eða í kerru. Frá Gullinbursta er sagt í Gylfaginningu og Skáldskaparmálum.

Freyja á gölt sem heitir Hildisvíni og er líka kallaður Gullinbursti. Dvergar tveir, Dáinn og Nabbi, bjuggu hann til. Frá því er sagt í Hyndluljóðum.


Huginn og Muninn

Huginn og Muninn (hugurinn og minnið) eru hrafnar Óðins. Á hverjum morgni sendir Óðinn þá til að fljúga um heim allan og taka eftir öllu sem þar gerist. Á kvöldin snúa þeir til baka og setjast á axlir Óðins og segja honum frá öllu því sem þeir hafa séð og heyrt þann daginn. Þannig verður Óðinn margra tíðinda vísari.
 

Miðgarðsormur

Miðgarðsormurinn heitir skrímsli eitt mikið er liggur í hafinu sem umkringir heiminn og bítur þar í halann á sér. Hann er sonur Loka og Angurboðu. Í ragnarökum berst Þór við Miðgarðsorminn og drepur hann, en fellur síðan sjálfur fyrir eitri sem ormurinn spýtir á hann.


Sleipnir

Þetta er líklega Sleipnir. Myndin sýnir hluta gotlenska Tjängvide-myndasteinsins.
Sleipnir (sá er rennur hratt áfram) er hinn áttfætti hestur Óðins, afkvæmi Loka að móðerni og jötnahestsins Svaðilfara. Sleipnir er sagður bestur af hestum ásanna og hafi rúnir ristar á tennur sér.
Sleipnir er sagður hafa myndað Ásbyrgi sem er í laginu eins og hóffar.

 

Sæhrímnir

Göltur sem mætir örlögum sínum á degi hverjum í Valhöll. Hann hlýtur að vera mjög stór vegna þess að allir einherjar borða kjöt hans á hverjum degi og það er alltaf nóg að borða í Valhöll. Í Grímnismálum er nefnt að flesk hans sé best og þó að hann sé soðinn til matar á hverjum degi rís hann upp aftur að morgni, alltaf tilbúinn til slátrunar.