Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Blót

Helgiathafnir ásatrúarmanna kallast blót. Upphaflega hefur orðið blót líklega haft merkinguna að efla goðmögnin. Lítið er til af rituðum heimildum um helgisiði og blóthald í heiðnum sið til forna. Eldri Edda með Hávamálum og Völuspá og Edda Snorra Sturlusonar eru bestu heimildir okkar um norræna og germanska heiðni og trúarsiði, en í Flateyjarbók seint á 14.öld greinir frá fornkonunginum Þorra, sem var blótmaður mikill og hafði hvert ár blót að miðjum vetri.


Höfuðblót

Höfuðblót Ásatrúarfélagsins fara þannig fram í meginatriðum að allsherjargoði helgar stað og stund með orðunum:
 
Lýsi ég staðarhelgi, lýsi ég mannhelgi, lýsi ég blóthelgi.
Lýsi ég véböndum, lýsi ég griðum, lýsi ég sáttum.

Matur og mjöður er helgaður sérstaklega ef vill. Lesin eða kveðin eru erindi úr Eddukvæðum, sem eiga við tilefni blótsins, árstímann eða staðsetninguna. Síðan gengur blóthornið hringinn og drekka þeir blótgestir er vilja heill þess goðs sem hver og einn kýs. Sá er heldur á horninu hvert sinn hefur orðið og getur drukkið heill síns goðs eða gyðju, vana, vætta, máttugra vera, forfeðra, framliðinna eða þeirra sem menn telja að hafi til þess unnið, rætt eða frætt um eitthvað málefni tengt tilefni blótsins.

Haldin eru fjögur höfuðblót á ári hverju sem miðast við hið forna misseris- og vikutal:
 

Jólablót

Jólablót við vetrarsólhvörf sem er hin forna hátíð ljóssins þegar sólin fer hækkandi á lofti og dag tekur að lengja. Þetta eru tímamót nýs upphafs, nýs árs, nýs lífs og er því einnig hátíð barnanna sem oft leggja sitt af mörkum við sérstka ljósaathöfn. Er þá blótað til árgæsku, til heilla Frey, til árs og friðar.
 

Sigurblót

Sigurblót haldið sumardaginn fyrsta sem var einskonar þjóðhátíðardagur langt aftur í aldir. Hann er einnig stofndagur Ásatrúarfélagsins 1972. Vorblótið er sérstaklega helgað Frey og Freyju, vönum og goðum lífs og frjósemi jarðar.
 

Þingblót


Þingblót er haldið um sumarsólstöður, Þórsdag, fimmtudag, í 10. viku sumars á Þingvöllum við Öxará, hinum helga þingstað Íslendinga. Alþingi kom þar venjulega saman til forna um það leyti allt til ársins 1798. Blót þetta er helgað lögunum, siðmenningunni, þinginu og þjóðfélaginu. Þá fögnum við líka gróðurmagni og lengstum sólargangi.


Veturnáttablót

Veturnáttablót er haldið fyrsta vetrardag, sem alltaf ber uppá laugardag í seinni hluta október. Blót þetta er helgað Óðni, uppskeru haustsins og öllum þeim lifandi verum sem hverfa til hinnar eilífu hringrásar.
 

Önnur blót

Auk þess heldur félagið þorrablót á Bóndadag fyrsta dag Þorra, sem ávallt eru vel sótt.

Því til viðbótar halda goðar Ásatrúarfélagsins blót hver í sínu héraði um allt land, inni eða útí náttúrinni, allan ársins hring.

Hver sem er getur svo að sjálfsögðu haldið sitt eigið blót. Meðal annars hafa ungliðar innan Ásatrúarfélagsins haldið svokölluð ungblót sem hluta af starfsemi sinni.

Hávamál benda okkur á að gæta nákvæmni og hófs við helgisiði og athafnir svo sem blót og fórnir:
 
Veistu hve rísta skal?
Veistu hve ráða skal?
Veistu hve fáa skal?
Veistu hve freista skal?
Veistu hve biðja skal?
Veistu hve blóta skal?
Veistu hve senda skal?
Veistu hve sóa skal?

Samneyslufórn kallast það er fólk neytir blótmatar í sameiningu í helgri máltíð. Nú til dags er algengt að færð sé dreypifórn til þess goðs eða gyðju sem heill er drukkið til.

Til forna voru fórnir eða fórnargjafir oftast annaðhvort þakkar- og eða áheitagjafir.

Fórnir eða það að gefa, offra eða sóa, eru góðar leiðir til að ná fram bættri stöðu á tilteknum sviðum lífsins.
 
Betra er óbeðið
en sé ofblótið.
Ey sér til gildis gjöf.
Betra er ósent
en sé ofsóið.