Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Hjónavígsla

Brúðhjónin Ívar Örn Hauksson og Unnur Sigurjónsdóttir voru gefin saman sumarið 2005 af Jónínu K. Berg Þórsnessgoða og Eyvindi P. Eiríkssyni Vestfirðingagoða.
Á undanförnum árum hafa fjölmörg brúðhjón verið gefin saman að heiðnum sið og oft hafa erlend brúðhjón komið til landsins í þeim tilgangi einum að láta goða Ásatrúarfélagsins vígja sig til hjúskapar.

Ástæða þess er sú að utan Íslands hafa enn sem komið er einungis ásatrúarfélögin í Danmörku og Noregi fengið viðurkenningu sem löggild trúfélög með þeim skyldum og réttindum sem slíku fylgir. Hjónavígslur þessar eru því fullkomlega gildur lögformlegur gjörningur. Oftast fer athöfnin fram undir berum himni og er skipulögð í samræmi við óskir brúðhjónanna hvað varðar staðsetningu, tónlist og aðra umgjörð.

Goðar Ásatrúarfélagsins, sem hafa vígsluréttindi, vígja hjónaefni. Lista yfir goða félagsins er að finna hér.
 

Kostnaður við athöfn

Félagsmenn Ásatrúarfélagsins greiða 15.000 kr, auk ferðakostnaðar og uppihalds goða við athöfn.

Utanfélagsmenn greiða allan kostnað við athöfn.

Akstur greiðist samkvæmt taxta BSRB eða eftir samkomulagi.
 

Undirbúningur

Þeim sem hyggja á Ásatrúarbrúðkaup er bent á að hafa samband við einhvern goðanna og semja við hann um dagsetningu, staðarval og fleira. Goði mun síðan leiðbeina brúðhjónum við lagalegan undirbúning athafnarinnar, útskýra grunnþætti hennar og hvernig megi laga hana að vild brúðhjónanna.